Miðvikudagur 25.03.2015 - 14:11 - Rita ummæli

Málefni fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum – krossgötur

Ég skrifaði þennan leiðara í síðustu Sveitarstjórnarmál vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi flutnings málaflokks fatlaðs fólks til sveitarfélaga. Nú stendur endurskoðun yfir á verkefninu og mikilvægt að vel takist til. Tvö landssvæði, Vestfirðir og Norðurland vestra hafa gert samþykktir um að skila málaflokknum aftur til ríkisins.

Leiðarinn:

Samband íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Jöfnunarsjóð stóð fyrir umræðu- og upplýsingafund 19. febrúar undir yfirskriftinni: ,,Málefni fatlaðs fólks innan samþættrar nærþjónustu sveitarfélaga.“ Ekki fór hjá því að fjárhagsmálefni bæri á góma í erindi undirritaðs á fundinum enda óaðskiljanlegur hluti flutnings þessa stóra verkefnis sem nú er á fimmta ári hjá sveitarfélögunum. Á rúmum fjórum árum eru málefni fatlaðra farin að festa sig í sessi sem hluti af samþættri nærþjónustu sveitarfélaga. Viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurmat á yfirfærslunni standa yfir og á að vera lokið í apríl. Markmið þeirra viðræðna er að leiða til lykta hvernig fjármögnun málaflokksins verður háttað til framtíðar. Og finna út hver útsvarsprósenta verður til framtíðar sem ætlað er að standa undir aðstoð við fatlaða innan samþættrar nærþjónustu sveitarfélaga.

Flutningur flókinna verkefna milli stjórnsýslustiga tekur alltaf langan tíma og yfirleitt þarf að bíða lengur en ætlað er í upphafi eftir því að raunveruleg niðurstaða um kosti og galla verkefnisins liggi fyrir. Þessi lærdómur hefur m.a. leitt til þess að yfirfærsla á málefnum aldraðra hefur verið sett í annan farveg. Það er einfaldlega þannig að áður en kemur að mögulegri yfirfærslu verkefna verður að móta skýra stefna í viðkomandi málaflokknum, gera þjónustusamninga þar sem við á og koma málaflokknum svo breyttum í framkvæmd hjá ríkinu áður en kemur til breytinga á verkaskiptingu.

Mikil undirbúningsvinna átti sér stað áður en gengið var frá samningi um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá og með 1. janúar 2011 er ljóst að of margt er varðar stefnumótun og auknar kröfur í málaflokknum kom frá ríkinu eftir flutninginn. Sveitarfélögin munu ekki taka þátt í því aftur að fyrst komi verkefnaflutningur og síðan í kjölfarið stefnumörkun, framkvæmdaáætlanir og reglugerðarbreytingar. Sá háttur er ávísun á togstreitu og að ríkið telji sér óhætt að gera síauknar kröfur á sveitarfélögin án þess að tryggt sé að faglegar og fjárhagslegar forsendur séu fyrir hendi til þess að mæta slíkum kröfum. Við teljum okkur sjá að þessar kröfur eru oft mun meiri en ríkið hefði sjálft treyst sér til þess að standa undir. Stór hluti vandans við verkefnaflutning er að nýjar kröfur koma frá ríki eftir flutning verkefnis í framkvæmdaáætlunum, löggjöf, reglugerðum og stefnumörkun án þess að fjármagn fylgi með. Svo er sveitarfélögunum ætlað að fara með betlistaf til fjárveitingavaldsins til þess að kría út peninga fyrir svo standa megi undir þessum kröfum. Eitt ráðuneyti gerir þannig kröfur en það næsta neitar að fjármagna þær. Sveitarfélögin lenda svo þarna á milli eins og skilnaðarbörn.

Þetta nær engri átt og felur í sér neikvæðasta þátt yfirfærslunnar á málefnum fatlaðs fólks sem hefur leitt til þess að víða af sveitarstjórnarstiginu heyrast raddir um að sveitarfélögin eigi að skila málaflokknum. Undirritaður hefur fullan skilning á þeim viðbrögðum en telur á hinn bóginn að reyna beri til þrautar að ná ásættanlegu samkomulagi við ríkisvaldið um fjármögnun málefna fatlaðs fólks sem er faglega séð í góðum höndum metnaðarfullra sveitarfélaga.

Halldór Halldórsson
formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur