Fimmtudagur 07.05.2015 - 10:52 - Rita ummæli

Verð Landsvirkjunar 2006

Það er ánægjulegt að sjá að Landsvirkjun er að bæta stöðu sína jafnt og þétt. Í tengslum við ársfund talar forstjóri um að arðgreiðslur geti hugsanlega farið úr 1,5 milljörðum upp í jafnvel 20 milljarða. Þessar yfirlýsingar hafa orðið borgarstjóra tilefni til að rifja upp nærri 10 ára gamla ákvörðun um sölu borgarinnar á hlut sínum í Landsvirkjun. Hann segir að söluverð hafi verið of lágt á þeim tíma. Þessi ummæli hafa orðið til þess að ýmsir rifja upp að matsmenn allra eigenda fundu út verðið. Fyrir tæpum 10 árum var ekkert ljóst hvernig þróun Landsvirkjunar yrði og margir óvissuþættir til staðar. Á þessum tíma var líka búið að gefa framleiðslu og sölu á orku frjálsa þannig að Reykjavíkurborg gat ekki verið bæði eigandi Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar því þau félög eru í samkeppni á raforkumarkaði.

Verð og viðmið
Fyrir hluti borgarinnar og Akureyrar fengust 30,25 milljarðar árið 2006. Miðað við 44,5% hlut borgarinnar eru það 27 milljarðar sem leggjast á 45 milljarða á núvirði. Vaxtahagræðið af skuldabréfinu mv. 4% meðalvexti er 11,4 milljarðar sem þýðir að við erum að tala um 56,4 milljarða verðmæti í dag.
Svo er það spurningin um verð. Borgarstjóri er með spekúlasjónir um að það hafi verið of lágt þarna fyrir 10 árum. Það vissi auðvitað enginn árið 2006 hvernig Landsvirkjun og verðmæti hennar myndi þróast. Vinstri menn hafa nú meira og minna verið á móti öllum verkefnum Landsvirkjunar sem skapa henni arð þannig að árið 2006 höfðu borgarfulltrúar kannski áhyggjur af því að Landsvirkjun myndi dala í verði.
Borgarstjóri er væntanlega að tala um ef og þegar arðgreiðslur verða hugsanlega 20 milljarðar á ári þá komi í ljós að söluverðið árið 2006 hafi verið of lágt. En arðgreiðslur eru að jafnaði 1,5 milljarðar á ári, það er raunveruleikinn.

Vangaveltur um verð
Ef við tökum þumalputtareglu um verðmæti fyrirtækis út frá arðgreiðslu 1,5 milljarðar og erum í efri mörkum (P/Div = 25) gefur það 37,5 milljarða fyrir Landsvirkjun sem gæfi verðmæti hlutar borgarinnar í Landsvirkjun uppá 16,7 milljarða. Það er lægra verð en fékkst 2006 eða 45 milljarðar í dag.

Þannig að það má endalaust velta þessu fyrir sér. Það er a.m.k. ekki hægt að sýna fram á það ennþá að þetta hafi verið vondur díll þarna árið 2006. Það er kannski hægt ef arðgreiðslur verða 20 milljarðar. En þá þurfa slíkar arðgreiðslur að koma til á næstu árum. Hagnaður Landsvirkjunar var 10 milljarðar kr. árið 2014 þannig að ekki gefur það færi á svo háum arðgreiðslum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur