Við vorum að ljúka borgarstjórnarfundi þar sem ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2014 var til síðari umræðu og staðfestingar.
Ársreikningur ársins 2014 sýnir 2,8 milljarða króna tap A-hluta Reykjavíkurborgar sem er öll meginstarfsemi Reykjavíkurborgar.
Í skýrslu Fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við. Undir það taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með tillögu sinni um að farið verði í rekstrarhagræðingu og í framhaldi af árangri í því verði farið í lækkun útsvars í áföngum. Meirihlutinn samþykkti að vísa tillögunni til borgarráðs til úrvinnslu. Það var stutt af fulltrúum allra flokka í borgarstjórn.
Á fundinum fór ég sérstaklega yfir þróun stöðugilda hjá borginni 2010-2014 þar sem fjölgunin er skv. þeim gögnum sem ég fékk frá borginni 675 stöðugildi á þessu tímabili. Hluti af því er verkefnaflutningur málefna fatlaðs fólks frá ríkinu 404 stöðugildi og 93 stöðugildi vegna atvinnuátaksverkefna. Þá er óútskýrð fjölgun stöðugilda 178 alls sem kosta borgina rúman milljarð ef stöðugildið kostar með öllum launatengdum kostnaði 5,8 m.kr. á ári.
Í skýrslu Fjármálaskrifstofu segir um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% á árinu 2014 að lágmarkið vegna skuldastöðu A-hluta borgarinnar sé 9%. Þetta eru þung viðvörunarorð til Pírata, VG, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar sem skipa meirihlutann. (Sjá mynd)
Þegar rekstur A-hluta er skoðaður frá árinu 2002 má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á A-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á A-hluta. (Sjá mynd)
Samt er útsvar Reykjavíkurborgar í hámarki öfugt við nágrannasveitarfélögin sem flest hafa dregið úr álögum á íbúa sína.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.