Miðvikudagur 16.11.2016 - 11:55 - Rita ummæli

Um rugl og bull

Þessi grein birtist á dögunum í Fréttablaðinu og á visir.is. Ég skrifaði hana vegna umræðu um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Fyrr hafði ég skrifað grein hér á Eyjuna vegna ummæla borgarstjóra á facebook síðu sinni um að ég væri að bulla um félagslegt leiguhúsnæði. Svo bætti Magnús Már Guðmundsson borgarfulltrúi Samfylkingar um betur og sagði mig í ruglinu. Svo sagði hann mig vera stóryrtan. Gaman að því.

Aðeins til útskýringar á því að greinin hér að neðan endar á því að 425 íbúðir hljóti að hafa komið til á kjörtímabilinu 2006-2010. Skýringin á því er sú að Magnús Már tekur fyrir ákveðinn fjölda íbúða í grein sinni. Þar er hann að tala um félagslegar leiguíbúðir, íbúðir fyrir aldraða og fyrir fatlað fólk. Við að telja hvaða íbúðir hafa bæst við frá 2010 þegar Jón Gnarr og Dagur mynduðu meirihluta standa eftir 425 íbúðir sem hljóta þá að hafa bæst við á árunum 2006-2010.

Greinin mín sem birtist í Fréttablaðinu og á visir.is:

Í umræðu um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík hafa fyrirsagnir á borð við rugl og bull verið notaðar. Í grein Magnúsar Más Guðmundssonar borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem birtist í Fréttablaðinu og á visir.is 9. nóvember sl. talar hann um að ég hafi verið gífuryrtur. Grein Magnúsar heitir: ,,Halldór í ruglinu.“ Grein mín á Eyjunni heitir: ,,Bull í boði borgarstjóra“ og fékk ég það orðalag að láni frá borgarstjóra. Þannig að gífuryrðin eiga í báðum tilfellum lögheimili hjá þessum tveimur.

Aðalmálið í þessu er að staðan varðandi félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavíkurborg er alvarleg. Fulltrúar meirihlutans í Reykjavíkurborg fara yfirleitt að tala um sambærileg vandamál í öðrum sveitarfélögum þegar bent er á vandann í borginni. Það gerir ekkert fyrir þá 844 einstaklinga sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í borginni. Þeim einstaklingum fjölgaði um 15% á milli árann 2015 og 2016 og eiga lögheimili í Reykjavík. Það hjálpar þeim ekkert að borgarfulltrúar í meirihlutanum tali um að önnur sveitarfélög þurfi að gera betur.

Magnús Már Guðmundsson segir í grein sinni að 2.351 félagsleg íbúð sé í Reykjavík 2016 þar af 1.916 almennar félagslegar leiguíbúðir. Hann segir einnig að þeim hafi fjölgað um 612 á síðustu 10 árum og ekkert hafi fjölgað 2010. Þá segir hann í grein sinni að undirritaður hafi sagt að félagslegum leiguíbúðum hafi fækkað í Reykjavík. Skoðum þetta aðeins.

Formleg svör lögð fram í borgarráði segja okkur þetta:

  • Fjölgað hefur um 72 félagslegar leiguíbúðir frá 2010, stefnan er 100 á ári sem augljóslega gengur ekki eftir.
  • Fækkað hefur um 3 íbúðir fyrir aldraða á vegum Reykjavíkurborgar frá 2010.
  • Þann 1. janúar 2011 færðust 114 íbúðir fyrir fatlaða frá ríki til Reykjavíkurborgar. Þeim hefur fjölgað um 4 síðan þá.
  • Þær 425 íbúðir sem fjölgað hefur um á síðustu 10 árum sé miðað við grein Magnúsar Más eru þá fjölgun frá kjörtímabilinu 2006-2010 sem er eina kjörtímabilið síðustu 22 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur