Í Morgunblaðinu 3. janúar sl. ritar Hróbjartur Jónatansson ágæta grein um búsetu borgarfulltrúa, fjölda þeirra og fyrirhugaða fjölgun. Í greininni veltir hann því upp að búseta borgarfulltrúa geti haft áhrif á forgangsröðun við stjórn borgarinnar.
Ekki veit ég hversu mikil áhrif búseta borgarfulltrúa hefur á ákvarðanatöku og vil halda því staðfastlega fram að í tilfelli okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins horfum við á borgina alla og mikilvægi þess að standa vel að málum í öllum hverfum. Þetta má sjá í tillöguflutningi okkar, bókunum og þeirri umræðu sem við höfum staðið fyrir í borgarstjórn. En það dregur hver og einn dám af sínu umhverfi og því mikilvægt að áhrif hvers og eins hverfis séu sem mest og meiri en þau eru í dag.
Þann 12. ágúst 2016 lagði ég fram bókun í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar vegna þess ákvæðis í núgildandi sveitarstjórnarlögum:
,,Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011
- gr. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn.
Í sveitarstjórn skal fjöldi fulltrúa standa á oddatölu. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn skal ákveðinn í samþykkt skv. 9. gr. og skal vera innan þeirra marka sem hér segir:
- Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5–7 aðalmenn.
- Þar sem íbúar eru 2.000–9.999: 7–11 aðalmenn.
- Þar sem íbúar eru 10.000–49.999: 11–15 aðalmenn.
- Þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 15–23 aðalmenn.
- Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23–31 aðalmenn.“
Úr fundargerð forsætisnefndar:
,,Fram fer umræða um fyrirhugaða fjölgun borgarfulltrúa sem tekur gildi árið 2018.
Samþykkt að vísa framkomnum útfærslum forsætisnefndar til rýningar hjá fjármálaskrifstofu. Jafnframt samþykkt að samráðsfundur forsætisnefndar og borgarfulltrúa verði 16. september 2016.
Áheyrnafulltrúi Sjálfstæðisflokks, Halldór Halldórsson, leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að tillögur forsætisnefndar geti nýst sem ágætur grunnur undir umræðu á vettvangi borgarstjórnar um breytingar sem fylgja sveitarstjórnarlögum frá 2011 þar sem kveðið er á um að borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar skuli að lágmarki vera 23 frá og með vori 2018. Minnt er á tillögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um áskorun til Alþingis um að endurskoða lagaákvæðið um fjölgun borgarfulltrúa í lögunum þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Tillögur um að fækka hverfisráðum þarf að rýna sérstaklega vel og gæta samráðs við hverfisráðin í dag. Mikilvægt er að þær breytingar sem ákveðnar verði að lokum muni auka áhrif og völd hverfa Reykjavíkurborgar en ekki draga úr þeim. Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að verði af fjölgun borgarfulltrúa í 23 eigi að nota tækifærið og binda kosningu ákveðins fjölda borgarfulltrúa við hverfin í borgarstjórnarkosningum í þeim tilgangi að auka áhrif íbúanna á ákvarðanatöku og stytta enn frekar boðleiðir milli kjörinna borgarfulltrúa og íbúanna.“
Hróbjartur kemur inn á þetta í grein sinni og talar um hugsanlegan möguleika þess að kjördæmavæða Reykjavík en það er svipuð hugmynd og ég nefndi í bókun minni sem fékk umfjöllun fjölmiðla um það leyti sem hún var lögð fram og eru hér þrjú dæmi um slíkt sem má lesa við að smella á tenglana.
Útfærsla slíka mála milli landa er mismunandi. Á Norðurlöndunum eru að jafnaði mun fleiri fulltrúar í borgarstjórnum en í Reykjavík en starfið og starfshlutfallið töluvert ólíkt. Kosnir borgarfulltrúar frá ákveðnum hverfum er aðferð sem er þekkt í Bandaríkjunum en þar eykst hlutfall hverfakosinna fulltrúa í hlutfalli við stærð sveitarfélagsins. Samt eru það einungis 14% allra sveitarfélaga í Bandaríkjunum sem nýta þetta kerfi með einhverjum hætti. Eftir því sem sveitarfélagið er stærra eru fleiri hverfakosnir (e. district). Þegar þetta er brotið niður hjá þeim sem nýta sér slíkt kerfi má sjá að í sveitarfélögum með 25.000-70.000 íbúa eru 26% fulltrúa hverfakosnir en þegar íbúar eru 70.000-200.000 er hlutfallið orðið 31% og í sveitarfélögum með fleiri en 200.000 íbúa er þetta hlutfall komið úpp í 45,5%.
Þrátt fyrir tilraunir til að breyta þessu ákvæði sveitarstjórnarlaganna frá 2011 um að lágmarksfjöldi borgarfulltrúa verði 23 frá og með kosningum vorið 2018 hefur Alþingi ekki samþykkt neinar slíkar breytingar. Eins og sjá má í bókun minni í forsætisnefnd viljum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að borgin hafi sjálfdæmi í þessu máli en það sé ekki þvingað ákvæði skv. lögum.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.