Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 11. maí 2017
Hér er textinn ef þetta er óskýrt á skjánum:
Staurblindur meirihluti á ástand húsnæðismála
Í borgarráði 27. apríl sl. var loksins tekin fyrir tillaga okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarstjórn 7. febrúar sl. um að fjölga lóðum í Úlfarsárdal verulega umfram þær lóðir sem nú verða lagðar til við endurskoðun deiliskipulags. Upphaflegar tillögur um Grafarholt og Úlfarsárdal gerðu ráð fyrir allt að 28.000 íbúa byggð en miðað við stefnu meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar verður byggðin ekki nema fyrir 9.000 íbúa.
Meirihlutinn felldi tillögu um fjölgun lóða
Á fundinum í borgarstjórn 7. febrúar samþykkti meirihlutinn að vísa tillögunni til borgarráðs. Á þeim tímapunkti kviknaði von um að meirihlutinn væri búinn að átta sig á því að núverandi ástand í húsnæðismálum gengi ekki lengur og því væri skynsamlegt að samþykkja tillögu um verulega fjölgun lóða. En því var ekki að heilsa. Því þessi sami meirihluti sem hafði látið tillöguna velkjast í borgarkerfinu í tæpa þrjá mánuði felldi tillöguna með þeirri röksemdarfærslu að tillagan myndi ekki gera neitt til leysa húsnæðisvandann á höfuðborgarsvæðinu. Það yrði best gert með því að vinna rösklega að þeim áætlunum sem fyrir liggja. Það er kaldhæðnislegt að þeim eru einmitt þessar endalausu áætlanir sem meirihlutinn vísar til og borgarstjóri veifar statt og stöðugt sem fólk í húsnæðisþörf hefur ekki getað flutt inn í . Áætlanir á glærum borgarstjóra eru skjóllitlar og hriplekar.
Það vantar 5.000 íbúðir núna.
Það er auðséð að meirihluti borgarstjórnar með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í fararbroddi skilur ekki vandamálið. Það vantar 5.000 íbúðir í dag og svo 1.400 íbúðir árlega næsta áratuginn. Lóðaskortsstefna meirihlutans hefur þau áhrif á húsnæðismarkað að hér hefur verið sett Evrópumet í hækkun húsnæðisverðs síðan 2010 og sífellt fleiri fréttir berast af því að fólk sé að flýja blinda þéttingarstefnu meirihlutans til nágrannabyggðarlaga.
Þrátt fyrir þessa stöðu heldur meirihlutinn sig við óbreytta stefnu um að úthluta ekki nýjum lóðum heldur styðjast nánast eingöngu við lóðir á þéttingarsvæðum þar sem ljóst er að íbúðir eru miklum mun dýrari en ef borgin úthlutaði sjálf fleiri lóðum. Skortur í húsnæðismálum og óeðlilega mikil þensla á húsnæðismarkaði markast af skorti sem er heimtilbúinn og í boði meirihluta Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í Borgarstjórn Reykjavíkur.
Eina ljósið í myrkrinu er að það eru borgarstjórnarkosningar á næsta ári. Þá geta borgarbúar rofið nánast sleitulausa valdasetu vinstri flokkanna í borgarstjórn síðan árið 1994.
Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.