Mánudagur 29.05.2017 - 12:53 - Rita ummæli

Reykjavík! Það er hægt að gera svo miklu betur.

Viðskiptablaðið birti þessa grein eftir mig 24. maí sl.

Reykjavík! Það er hægt að gera svo miklu betur

Vinstri flokkarnir hafa í einni eða annarri mynd verið í meirihluta hér í borginni síðustu 23 árin með undantekningu tímabilið 2006-2010 en þá tókst þeim meira að segja að mynda meirihluta í 100 daga. Staðan í borginni er vond undir stjórn Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.

Reksturinn er neikvæður alveg frá 2010 nema á síðasta ári. Það kemur til vegna mikillar þenslu í samfélaginu og hefur ekki enn frést af sveitarfélagi á Íslandi sem er rekið með tapið árið 2016. Afgangur af borgarsjóði (A-hluta) er 2,6 milljarðar en þar af eru 1,8 milljarðar vegna eignasölu. Og skuldir aukast um 3 milljarða þrátt fyrir þetta.

Með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta yrði tekist á við reksturinn, skuldastaða stöðvuð og farið að greiða niður skuldir. Og auðvitað farið í aðgerðir til að lækka álögur á borgarbúa með því að færa niður útsvarið í áföngum og minnka skattbyrði. Útsvarið er í hámarki skv. lögum undir stjórn vinstri meirihlutans.

Risavaxið vandamál hefur orðið til undir stjórn þessa vinstra meirihluta en það eru húsnæðismálin. Nú er svo komið að það vantar 5.000 íbúðir í Reykjavík í dag og svo um 1.400 á ári til 2030. Í kosningum 2014 töluðum við Sjálfstæðismenn um neyðarástand í þessum málum en staðan hefur versnað margfalt síðan þá. Við buðum fram lausnir í kosningunum 2014 en þær hljómuðu væntanlega ekki eins einfaldar og 2.500 til 3.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu eins og Dagur B. Eggertsson lofaði. En hverjar hafa efndirnar orðið? Það er ekki flóknara en það að húsnæðisloforð Dags B. Eggertssonar fyrir síðustu kosningar eru svikin. Aldrei hefur verið lengri biðlisti eftir félagslegum leiguíbúðum eða nálægt 1000 manns en voru 400 árið 2014. Þau eru staurblind á ástandið í þessum meirihluta sem sést í því að tillögur okkar í minnihlutanum um fjölgun lóða í Úlfarsárdal og að undirbúa fleiri svæði, eins og Geldinganesið, til framtíðar sem byggingarland eru felldar. Þessi vinstri meirihluti fellir slíkar tillögur á sama tíma og það er húsnæðisskortur.

Þessi afstaða í lóðamálum hefur svo þau áhrif að Reykjavíkurborg sem er langstærsta sveitarfélag landsins býr til skort í húsnæðismálum. Það hefur sýnt sig í þróun húsnæðisverðs að undanförnu að eftirspurnin er mun meiri en framboðið. En meirihlutinn er svo blindur á þéttingaráform sín um að 90% þéttingar verði að vera fyrir vestan Elliðaár að ekki má úthluta nýjum lóðum í úthverfum sem þýðir skortur og hækkun húsnæðisverðs með skelfilegum afleiðingum fyrir ungt fólk í húsnæðisleit. Við höfum tekið þessa umræðu ítrekað í borgarstjórn og hefur borgarstjóri sagt undirritaðan boða Marxisma í umræðum um framboð og eftirspurn. Það hefur komið í ljós í þessum umræðum að borgarstjóri og meirihlutinn trúa ekki á lögmálið um framboð og eftirspurn. En það gera aðir og nýlega fengum við fréttir af því að ef borgin hefði ekki sofið á verðinum í lóðaúthlutunum væri vaxtastigið í landinu ekki eins hátt og raun ber vitni því það er húsnæðisverðið sem knýr verðbólguna áfram.

Það þyrfti sérstaka grein um umferðarmálin í Reykjavík þar sem meirihlutinn hefur sett fjármagn í að þrengja götur frekar en að laga þær. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til að Geirsgatan þar sem allt er uppgrafið núna yrði lögð í stokk en það vildi meirihlutinn ekki og felldi tillöguna umsvifalaust. Tillaga okkar um fullkomið umferðarmódel sem mæli allar tegundir umferðar var samþykkt. Nú þarf að vinna þetta módel og mæla þarfir mismunandi umferðar hvort sem það eru almenningssamgöngur, einkabílar, gangandi eða hjólandi.

Á vel heppnuðu Reykjavíkurþingi okkar Sjálfstæðisfólks í Reykjavík 19. og 20. maí sl. komu 270 manns saman úr grasrótinni í Reykjavík. Þetta öfluga fólk með búsetu í öllum hverfum borgarinnar samþykkti málefnastefnu sem mun færa Reykjavík úr kyrrstöðu til framfara eftir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2018. Það er hægt að gera svo miklu betur en til þess þarf Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur