Nokkur umræða er um stöðu íslenskunnar gagnvart enskunni og þá hættu sem tungumálið okkar kann að vera í. Sumir taka svo sterkt til orða að íslenskan muni hverfa sem tungumál. Við sjáum mikla tilhneigingu fyrirtækja í verslun og þjónustu til að nota ensk heiti. Flugfélag í innanlandsflugi breytir meira að segja nafni sínu úr íslensku Flugfélagi Íslands í Air Iceland connect. Þegar þetta er skrifað stendur risastór innkaupapoki á Lækjartorgi en honum er ætlað að auglýsa opnun H&M í Smáralind. Verslunarmiðstöðvar munu eiga erfiðara uppdráttur en áður vegna þess að internetið hefur opnað heiminn svo mikið að fólk verslar í gegnum netið þegar því sýnist og frá hinum ýmsu stöðum í heiminum.
Það er ekki að fara að breytast. Enskan verður áfram allsráðandi á internetinu og við sem og börnin okkar höfum aðgang að því. Við lokum ekki internetinu eins og gert var við Kanasjónvarpið á sínum tíma vegna mats þess tíma á því að áhrif enskunnar gætu verið skaðleg fyrir íslensk ungmenni og íslenskuna sjálfa.
En við getum gert betur hérna heima fyrir. Við getum verið stoltari af tungumálinu okkar. Skírt verslanir og þjónustufyrirtæki góðum íslenskum nöfnum og haft í huga að erlendir gestir okkar hafa áhuga á því sem íslenskt er. Þess vegna koma þessir gestir til Íslands.
Það er áhugavert að í núgildandi sveitarstjórnarlögum frá 2011 er kveðið á um málstefnu í 130 gr. (sjá hér neðst í greininni). Þetta ætti að nýtast sveitarfélögum og þá væntanlega ekki síst Reykjavík við að setja stefnu um merkingar og annað í borgarlandinu. Það má nefnilega gera miklu betur við að afmarka betur hvað er leyfilegt í svona merkingum og styrkja með því varnir íslenskunnar sem lifandi tungumáls sem við viljum og eigum að varðveita.
Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011
130. gr. Málstefna.
Sveitarstjórn mótar sveitarfélaginu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi sveitarfélagsins. Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.
Mál það sem er notað í starfsemi sveitarfélags eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.