Fimmtudagur 17.08.2017 - 13:31 - Rita ummæli

Ekki framboð í vor

Þessa fréttatilkynningu sendi ég frá mér í gær eftir viðtal á Stöð 2:

Fréttatilkynning

Halldór Halldórsson

oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Ég, undirritaður sem var kjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum í Reykjavík haustið 2013 og tók til starfa sem borgarfulltrúi eftir kosningar vorið 2014 hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum.

Ákvörðunin var tekin nú í ágúst þegar horft var úr ákveðinni fjarlægð úr sumarfríinu á fortíð og framtíð. Framundan er mikilvæg ákvarðanataka grasrótar Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum og sanngjarnt að mínu mati að afstaða mín sem núverandi oddvita til framboðs eða ekki framboðs liggi fyrir áður en þessi tilhögun framboðsmála er ákveðin.

Borgarmálin eru skemmtilegur vettvangur en það er svo ótal margt annað áhugavert sem undirritaðan langar að fást við. Tíminn líður mjög hratt og eftir 24 ár á sveitarstjórnarvettvangi, sem kjörinn fulltrúi lengst af, er ágætt að láta staðar numið á þeim vettvangi og snúa sér að öðru. Reynsla mín úr atvinnulífi og af sveitarstjórnum sem og í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum mun nýtast við ný og spennandi störf.

Mér er efst í huga þakkir til stuðningsmanna minna sem hafa verið mér mikilvægir í gegnum tíðina. Ég er þakklátur fyrir þær yfirlýsingar sem mér hafa borist að undanförnu um stuðning og þakkir. Ég hugsa mikið til minna stuðningsmanna þegar þessi ákvörðun er tekin.

Ég geri ráð fyrir að verða að störfum sem borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn þar til nýkjörin borgarstjórn tekur við í júní 2018. Kjósendur kusu mig til 4 ára og hyggst ég sinna því verkefni sem mér var falið.

Reykjavík 16. ágúst 2017

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur