Ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu 21. október. Hún fjallar um húsnæðismálin og hvernig fólk þarf að varast blekkingar vinstri flokkanna um að þeir muni gera eitthvað í húsnæðismálum.
Veljum lausnir í húsnæðismálum og Sjálfstæðisflokkinn sem vinnur lausnarmiðað
Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á og setti í framkvæmd í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks nýtingu séreignasparnaðar til að greiða niður lán eða spara upp í útborgun húsnæðis. Það er skynsamleg leið þar sem fólk getur notað eigin sparnað og mótframlag launagreiðanda til að fjárfesta í húsnæði.
Nú erum við að ganga til kosninga enn eina ferðina, það er losarabragur á pólitíkinni og fólk er áttavillt. Öll hljótum við þó að vera sammála um að við viljum festu í landsstjórninni og ríkisstjórn sem endist kjörtímabilið. Því miður hafa samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í síðustu þremur ríkisstjórnum gefist upp með einhverjum hætti.
Það er afar athyglisvert að vinstri flokkarnir eru með tillögur í húsnæðismálum sem ganga út á að setja fjármagn inn í húsnæðiskerfið til viðbótar við það sem þegar er til staðar. Stærsti vandinn er í höfuðborginni. Þar eru vinstri flokkarnir í meirihluta og hafa verið lengi. Þessi flokkar hafa aukið á vandann með því að neita að úthluta lóðum utan þéttingarsvæði sem langflest eru miðsvæðis. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað lagt til meiri blöndun leiða. Þ.e. að úthluta lóðum austan Elliðaáa og á þéttingarsvæðum en það er fellt af hálfu meirihlutans. Og staðan er sú að nú vantar a.m.k. 5.000 íbúðir í Reykjavík og 9.000 íbúðir á landsvísu næstu þrjú árin.
Við sjáum flottar glærur hjá borgarstjóra og þykkan bækling með flottum ljósmyndum um uppbyggingu í Reykjavík. En hverjar eru staðreyndirnar? Skv. Hagstofunni eru 1.644 íbúðir tilbúnar frá árinu 2010. Og það eru alvarleg vandamál til staðar í Reykjavík þar sem fjölda fólks vantar húsnæði. Því miður er ekki hægt að búa í glærum en ef það væri hægt væri auðvitað enginn húsnæðisvandi.
Nú segjast vinstri flokkarnir sem eru í framboði til Alþingis geta leyst húsnæðismálin. En sagan segir okkur að þessir sömu flokkar hafa aukið á vandann í húsnæðismálum.
Þess vegna er skynsamlegt að kjósa flokk sem vinnur lausnarmiðað og hefur sögu sem staðfestir það. Þess vegna skulum við kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.