Fimmtudagur 16.11.2017 - 18:15 - Rita ummæli

Tuttugu ár frá yfirfærslu grunnskólans – hver er staðan?

Þessi leiðari birtist í nýjustu Sveitarstjórnarmálum í nóvember 2017:

Sveitarfélögin tóku við öllum rekstri grunnskólans af ríkinu árið 1996. Tuttugu ár eru ekki langur tími í skólasögu okkar og lætur e.t.v. nærri að þetta sé nálægt þeim árafjölda sem hvert okkar ver að jafnaði til skólagöngu á lífsleiðinni, frá upphafi leikskóla. Á þessum rúmu tveimur áratugum hafa hlutir þróast ótrúlega hratt en mjög skiptar skoðanir eru um árangurinn. Hörðustu gagnrýnendurnir álíta að skólakerfið sé hálf stjórnlaust og að sveitarstjórnir hafi alltof lítil áhrif á þróunina, auk þess sem námsárangri fari hrakandi og því réttast að ríkið taki yfir grunnskólastigið á ný. Þeir eru þó örugglega fleiri sem telja að sveitarfélögin hafi staðið vel undir þeirri ábyrgð sem sett var á herðar þeirra, þótt alltaf sé hægt að gera betur.

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að nálgast umræðu um skólamál á jákvæðan hátt. Við þurfum að bera virðingu fyrir því góða starfi sem fram fer í leikskólum og grunnskólum en við þurfum líka að hafa augun opin fyrir möguleikum til umbóta. Á skólaþingi sveitarfélaga, sem haldið er nú í nóvember, verður rætt um reynsluna af menntastefnunni um skóla án aðgreiningar. Á skólaþinginu verður einnig fjallað um skort á menntuðum kennurum, sem er vaxandi vandamál hér á landi.

Fyrir liggur ítarleg úttekt Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar á framkvæmd stefnunnar ásamt tillögum að úrbótum sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd, í góðu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, sambandsins, Kennarasambands Íslands og annarra haghafa. Úttektin leiðir skýrt í ljós hve gríðarmiklu fjármagni er varið til skólastarfs og sérfræðiþjónustu á Íslandi. Þá sé einnig mikið fjármagn eyrnamerkt til starfsþróunar kennara og stjórnenda. Þetta fjármagn er hins vegar ekki nýtt á eins skilvirkan hátt og mögulegt væri. Úttektin er mikilvægt innlegg í umræðu um skólamál sveitarfélaga. Hún segir okkur m.a. að það verður að forgangsraða verkefnum í þágu nemenda og skapandi skólastarfs og viðurkenna fjölbreytileika og færni kennara, ekki síður en nemenda.

Framundan eru, enn einu sinni, kjaraviðræður við kennarafélögin. Af hálfu sambandsins er reynt að nálgast þær viðræður út frá þeirri forsendu að kjarasamningar þurfa að vera opnir, skiljanlegir öllum og síðast en ekki síst sveigjanlegir og ýta undir skapandi hugsun og útfærslu. Það léttir ekki vinnuálagi af kennurum að hækka bara launin eða fjölga yfirvinnutímum. Í síðasta kjarasamningi við Félag grunnskólakennara var samþykkt bókun um að skoða innleiðingu vinnumats í grunnskólum. Vinnumatið var innleitt með kjarasamningi árið 2014 og hefur það að markmiði að tryggja að kennsla og undirbúningur hafi forgang í störfum kennara og ná þannig betri sátt um starfsumhverfi kennara.

Sambandið vill þakka sveitarstjórnum og starfsmönnum sveitarfélaga í skólamálum fyrir það góða starf sem þau hafa sett í vinnu á grundvelli bókunarinnar. Sú vinna hefur skilað hverri sveitarstjórn mikilvægum upplýsingum, er byggja á samtölum við kennara og skólastjórnendur, um þau verkefni sem líkleg eru til þess að bæta starfsumhverfi og starfsanda og þar með skólastarfið allt. Sambandið hvetur sveitarstjórnir til þess að vinna skipulega með þessi gögn og grípa hvert tækifæri sem gefst til þess að halda á lofti því öfluga starfi sem fram fer í skólum landsins.

Halldór Halldórsson,
formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur