Föstudagur 24.11.2017 - 15:21 - Rita ummæli

Áreitni og ofbeldi gagnvart konum

Mánaðarlega eru haldnir stjórnarfundir í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í dag var slíkur fundur sem boðaður var skv. venju með dagskrá. Í upphafi fundar lagði ég til að einn viðbótarliður yrði tekinn inn á dagskrá vegna þeirrar umræðu sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa komið af stað um kynferðislega og kynbundna áreitni af ýmsum toga. Margar af sögunum tengjast því miður sveitarstjórnarstiginu. Án efa eru mörg tilvik sem þar eru nefnd áfall fyrir marga og því mikilvægt að umræðan fari út í hvern krók og kima samfélagsins. Viðbrögðin verða að vera þau að við lærum af þessari umræðu og skiljum að upplifun hverrar og einnar konu er hennar eigin persónulega reynsla sem svíður undan og því eru röng viðbrögð að gera lítið úr slíkri upplifun eins og því miður hefur orðið vart við nú þegar.

Stjórn sambandsins bókaði um málið en þar kemur fram ánægja með frumkvæði kvenna í stjórnmálum, sveitarstjórnir hvattar til að taka þátt í umræðunni og tryggja að alls staðar sé stefna og viðbragðsáætlun vegna þessara mála enda sé þetta ólíðandi með öllu. Þá er bent á að stefna sambandsins getur gagnast sveitarfélögum sem fyrirmynd við að setja sér stefnu og samþykkt var að í nýju námsefni fyrir sveitarstjórnarmenn verði gert ráð fyrir fræðslu um kynferðislegt og kynbundið áreiti.

Bókunin:

,,Stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir ánægju með það frumkvæði sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa tekið undir merkjum „Í skugga valdsins“ og hvetur sveitarstjórnir landsins til að taka þátt í umræðu um kynferðisofbeldi og áreiti og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi á vettvangi stjórnmála og á vinnustöðum sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að öll sveitarfélög setji sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni enda er slík hegðun ólíðandi með öllu. Þau sveitarfélög sem ekki hafa gert slíkt eru hvött til að nýta sér sem fyrirmynd stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessu efni sem aðgengileg er á heimasíðu þess.
Stjórnin samþykkir einnig að málefnið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári og verði einnig hluti af því námsefni sem kennt verður á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur