Þriðjudagur 16.01.2018 - 19:50 - Rita ummæli

Fjármálastefna hins opinbera

Eftirfarandi er leiðari sem ég skrifaði i Sveitarstjórnarmál í desember 2017:

Frumvarp til fjárlaga 2018 var lagt fram í annað sinn vegna stjórnarskipta þann 14. desember sl. Þótt gert sé ráð fyrir ívið hægari hagvexti á næsta ári en undanfarin tvö ár, blasir við að veruleg spenna er í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi þrýstingi á verðlag og viðskiptajöfnuð. Við þessar aðstæður er aðhald í opinberum fjármálum mikilvægt.

Lög um opinber fjármál kveða á um að ný ríkisstjórn skuli svo fljótt sem auðið er leggja fram fjármálastefnu til næstu fimm ára. Samhliða fjárlagafrumvarpi 2018 leggur því ríkisstjórnin fram tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022.

Gildandi fjármálastefna, sem lögð var fram af fyrri ríkisstjórn, var samþykkt sem þingsályktunartillaga þann 6. apríl sl. Fjármálastefna tekur til opinberra aðila í heild, þar með talið sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra. Í nýrri fjármálastefnu er gert ráð fyrir að heildarafkoma A-hluta hins opinbera verði jákvæð um 1,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2018, en til samanburðar gerði gildandi stefna ráð fyrir að afkoman svaraði til 1,6% af VLF. Breytingin felst í því að í nýrri fjármálastefnu er áformað að heildarafkoma A-hluta ríkissjóðs verði 1,2% af VLF, eða lakari en gildandi stefna sem nemur 0,3% af VLF. Á hinn bóginn gerir ný fjármálastefna ráð fyrir að heildarafkoma sveitarfélaga batni og nemi 0,2% af VLF í stað 0,1% skv. gildandi stefnu. Byggir það á betri afkomu sveitarfélaga undanfarið en gert var ráð fyrir.

Samráð hefur verið haft við fulltrúa sambandsins og sveitarfélaga á vettvangi Samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál um þessar breytingar, og við Jónsmessunefnd, sem er samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Tímaskortur hefur vitaskuld komið í veg fyrir grundvallarrýni á forsendum og almenna umfjöllun um þær. Óvissa er um marga þætti í rekstri sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, sem mikilvægt er að fara í saumana á. Samráðsnefndin um opinber fjármál vekur athygli á að brýnt er að ljúka sem fyrst frekari rýningu á einstökum efnisþáttum sameiginlegs mats, s.s. launakostnaði, fasteignasköttum, fjárfestingu, kaupum og sölu á vöru og þjónustu og skuldum sveitarfélaga. Við framlagningu fjármálastefnu þarf því að hafa í huga óvissu matsins, einkum varðandi framvindu kjarasamninga næstu misserin sem gæti kallað á breytingar á forsendum við gerð fjármálaáætlunar ríkissjóðs fyrir tímabilið 2018-2022.

Sambandið getur ekki skuldbundið sveitarfélög til að haga fjármálum sínum með tilteknum hætti. Á hinn bóginn mælist sambandið til að sveitarfélög reyni eins og kostur er að haga fjármálum sínum þannig að þau styðji við fjármálastefnuna og ábyrga fjármálastjórn hins opinbera.

Ég óska öllum sveitarstjórnarmönnum farsældar á nýju ári og þakka fyrir þau ánægjulegu samskipti sem ég hef átt við sveitarstjórnarmenn á liðnum árum.

Halldór Halldórsson
formaður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur