En nú er ég afar ánægður. Því þessi seinkunn hefur gefið mér kost á gæðastund í morgunsárið með yngstu börnunum mínum þremur sem öll eru í Breiðagerðisskóla í vetur.
Við höldum áfram að vakna á sama tíma og áður – en fáum rúman og góðan tíma til að borða morgunmat, lesa blöðin – sem reyndar eru bútuð niður svo allir geti lesið – líka Gréta 6 ára sem er að læra að lesa og vill stauta sig gegnum fyrirsagnirnar – spjalla saman og klæða okkur í rólegheitunum. Skutla þeim síðan í skólann. Sjaldnast stress því tíminn nægur.
Þessi gæðastund í morgunsárið er mikilvæg. Sérstaklega núna þegar æfingar strákanna eru tvist og bast í eftirmiðdaginn – stundum ekki búnar fyrr en í miðjum matartíma – og matartíminn því tætingslegri en áður.
Já, stundum breytist ergelsið í gleði. Og það er nú gott!
Vegir Bezta eru órannsakanlegir!
Skarpur.
Þetta var reyndar á meðan ábyrg stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hélt um stjórnvölinn og hafði virka og góða samvinnu við minnihlutann í borgarstjórn um stjórn borgarinnar.
Þau vinnubrögð eru því miður fyrir bí.
Gleði og gæðastundir…
Mig langar að deila með þér smá extra Hallur. Það er nefnilega svo að ég á akkurat líka umræddar gæðastundir í morgunsárið og gott betur, finnst mér.
Extra: Þú segist skutla dætrum þínum en það geri ég ekki, heldur rölti ég með dætrum mínum 10 ára og 8 ára í skólann og það er skrafað á vel leiðinni um hitt og þetta. Síðan skokka ég einn til baka og pæli.
Kristinn.
Ef ekki væri vel rúmur kílómeter í skólann og yfir tvær umferðagötur að fara í myrki – þá gætum við tölt þetta 🙂
Strákarnir tveir tölta heim eftir skólann – en við sækjum stelpuna. Tvisvar reyndar í fótbolta niðrí Vík – þar sem fótboltaæfing fellur inn í skóladagheimilið!
Hallur ég tek undir orð Kristins. Kílómeter er ekki löng ganga. Er ástæða til að láta sér vaxa það í augum að fylgja börnum yfir gangbrautirnar á Sogaveginum og Réttarholtsveginum? Það eru umferðarljós á þeim báðum. Ég held satt að segja að börnin sé í meiri hættu á leiðinni á milli bílsins og skólalóðarinnar. Fyrir utan hvað manni líður sjálfum miklu betur að hafa viðrað sig aðeins í morgunsárið. Gönguferðir í góðum félagsskap eru mikilll gleðigjafi.
Síðan er holt að hugleiða aðeins hvers eðlis samskiptin eru á milli foreldra og barna á meðan maður er að skutla þeim. Börnin aftur í og foreldrarnir (ættu að vera) að einbeita sér að akstrinum. Það tók mig langan tíma að átta mig á því hversvegna strætóferðir með pabba voru svona miklu meira spennandi en bílferðir fyrir mín börn.