Um áratuga skeið hefur Jóhanna Sigurðardóttir og fylgismenn hennar lagt áherslu á sértækt „félagslegt“ húsnæði og gefið í skyn að fyrirmynd slíks ´“félagslegs“ húsnæðis sé úr „norræna velferðarkerfinu“. Þetta er rangt. Það sem verra er þá er Jóhanna og fylgismenn hennar ennþá föst í ranghugmyndinni um „sértækt“ félagslegt húsnæði.
Það sem ennþá verra er er að Jóhanna og fylgismenn hennar eru nú á rangri vegferð í viðleitni sinni til þess að tryggja láglaunafólki „sértækt félagslegt húsnæði“ – vegna misskilnings. Slíkt kerfi byggir á hugmyndinni um stéttaskipt samfélag en ekki frjálslynt samfélag samvinnu og jafnaðarmennsku.
En það jákvæða er að Jóhanna og fylgismenn hennar hafa ráðrúm til að leiðrétta kúrsinn og byggja upp heilbrigt húsnæðiskerfi þar sem markmiðum um að tryggja láglaunafjölskyldum tryggt og öruggt húsnæði á bestu mögulegu kjörum innan almenna húsnæðiskerfisins.
Það sem betra er er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur lagt mikilvægan grunn að því að unnt sé að byggja upp slíkt heilbrigt almennt húsnæðiskerfi með stefnumótun um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taki við af núverandi vaxtabótakerfi.
Ólíkt því sem Jóhanna og fylgismenn hennar halda – þá er fyrirmynd sértæks „félagslegs húsnæði“ sótt í stéttskipt samfélög Bretlands og Bandaríkjanna en ekki norræn velferðarsamfélög.
Þannig hefur Jóhanna ýtt undir sýnilega stéttaskiptingu á Íslandi með því að skilgeina tekjulágar fjölskyldur sem „félagslegar“ og þannig ýtt undir hugmyndina um að tekjulágar fjölskyldur séu „félagslegt vandamál“ – þótt það hafi ekki verið ætlun Jóhönnu sem ég ætla að hafi rekið þessa stefnu í góðri trú.
Norræna velferðarleiðin í húsnæðismálum hefur – þvert á móti leið Jóhönnu – verið að byggja upp öflugt ALMENNT húsnæðiskerfi þar sem þörfum tekjulágra fjölskyldna hefur verið fullnægt við hlið þeirra fjölskyldna sem betur hafa staðið fjárhagslega.
Ef við lítum til Svíþjóðar – þá er hið stóra og öfluga leiguíbúðakerfi þar kallað „almannanyttiga bostader“ – enda er það almennt leiguíbúðakerfi sem rúmar tekjulágar fjölskyldur. Í Danmörku er talað um „almene boliger“. Ástæðan er einföld. Það eru engin tekjuviðmið sem stýra búsetu í þessum öflugu húsnæðiskerfum. Tekjujöfnunin fer gegnum húsnæðisbótakerfið.
Leið Páls á Höllustöðum með viðbótarlán til tekjulágra fjölskyldna í stað þess að byggja upp sértækt „félagslegt húsnæði“ var viðleitni til þess fara þessa norrænu velferðarleið – enda fyrirmyndin sótt til Noregs.
Hugmyndin var að lánið væri „félagslegt“ og að tekjulágar fjölskyldur byggju í bland við betur stæðar fjölskyldur. Leið Páls byggði hins var á því að leysa vanda tekjulágra fjölkyldna innan eignarhúsnæðiskerfisins – enda var það stefna þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í að viðhalda hefðbundnu kerfi eigin húsnæðis.
Í dag eru flestir sammála um að of mikil áhersla hafi verið lögð á eigið húsnæði og farsælast sé að auka fjölbreytni húsnæðiskerfisins.
En því miður virðist Jóhanna og fylgismenn hennar vera á leið stéttskiptingar „félagslegs“ húsnæðis. Öll umræða miðar að stórkostlegri uppbyggingu á ódýru leiguhúsnæði – lesist „félagslegu“ leiguhúsnæði. Alþingismenn og borgarfulltrúar tala eins og kostnaður við byggingu húsnæðis minnki – einungis með því að kalla húsnæðið „félagslegt“.
Hugmyndir eru á lofti um óskilgreinda tegund opinbers eða hálfopinbers leiguíbúðakerfis – og varað er við rekstri leigufélaga í hlutafélagsformi. Nú á allt að vera „leigu“ og „félagslegt“ og „ódýrt“. Síðan er skeytt við „að norrænni fyrirmynd“ – þótt sú norræna fyrirmynd sé ekki skýrð nánar.
Þessi ofuráhersla á uppbyggingu leiguíbúðakerfis er röng. Ofuráhersla á uppbyggingu leiguhúsnæðis er jafn hættuleg og ofuráherslan á uppbyggingu eiginhúsnæðisstefnuna.
Við eigum að byggja upp blandað kerfi eigin húsnæðis, búseturéttarhúsnæðis og leiguhúsnæðis.
Við eigum EKKI að byggja „félagslegt“ húsnæði. Við eigum að byggja „samfélagslegt“ húsnæði með fjölbreyttum valkostum fyrir fjölskyldurnar í landinu. Valkostum sem byggja á mismunandi formi sem rúma alla – ekki stéttskipt húsnæðisform „félagslegs“ húsnæðis.
Félagslegur stuðningur til að takast á við húsnæðiskostnað á að koma gegnum almennt húsnæðisbótakerfi sem gerir ekki greinarmun á búsetuformi. Þar er Jóhanna og fylgismenn hennar á réttri leið með stefnumörkun um upptöku slíks húsnæðisbótakerfis sem á að taka við af vaxtabótakerfinu sem er skilgetin afurð eignarstefnunnar.
Framtíðarhúsnæðiskerfið á að byggja á eigin húsnæði, búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði fyrir alla. Það á ekki að aðskilja búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði – heldur á að reka búseturéttarleiðina og leiguleiðina innan þekkts norræns húsnæðisforms – húsnæðissamvinnufélaga. Meira um það á næstu dögum.
Ég tek undir þetta með þér Hallur, blandað kerfi er farsælast.
Ég er sammála þessu viðhorfi þínu tel að þetta stórhættulega leið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sig virðist ætla að feta hérna. Það vantar að byggja upp virkan leigumarkað hér á landi.
Ég held að þú ættir að kynna þér málflutninginn soldið betur Hallur. Í þeirri umræðu sem nú fer fram innan stjórnarflokkanna er orðið félagslegt fyrst og fremst notað um markmiðið ekki lausnina.
@ Stefán Benediktsson.
Því miður Stefán – þá hefur er þetta ekki allskostar rétt hjá þér. Hef fylgst afar vel með umræðunni – og hef af henni ákveðnar áhyggjur.
Þótt það sé ekki algilt þá hefur einmitt oft á tíðum skotið upp þessum gamla „félagslega“ draug. Til að mynda nýlega hjá áhrifamiklum alþingismanni Samfylkingarinnar á Útvarpi sögu – og afar oft meðal VG.
Þann kúrs þarf að leiðrétta. Þess vegna skrifa ég þennan pistli.
Leiðin er til staðar. Ekki „félagsleg“ heldur almenn – sem jafnframt nær þeim „félagslegu“ markmiðum sem Jóhanna vildi ná á sínum tíma – og vill væntanlega einnig ná í dag.
Treysti því að þú, Samfylkingin og VG beri gæfu til að feta þá leið – því ég veit að það er mikill hljómgrunnur fyrir henni innan þeirra flokka – reyndar einnig innan Framsóknarflokksins – og meðal þeirra frjálslyndu miðjumanna sem standa utan flokka um þessar mundir.
Ég fer nánar út í leiðina í næsta pistli.
Sammála þessum sjónarmiðum þínum Hallur, þú hittir ngalann á höfuðið með þessari grein. Þar fyrir utan vil ég sjá sem flesta í eigin húsnæði, séreign heldur fólki frá því að ánetjast sósíalisma.
Hjartanlega sammála þessum pistli. Það er alltaf slæmt að draga fólk í dilka af margvíslegum ástæðum. Enda engin þörf á, þarsem við eigum öll að geta lært hvort af öðru og lifað með, sama hverjar tekjur manna eru.
Það var einu sinni gerð tilraun í Svíþjóð sem gekk út á það að útvega öllum sem voru að koma úr meðferð húsnæði í sameiginlegri blokk með fundarherbergi á neðstu hæðinni. Það endaði með því að innan skamms voru flestir komnir á djammið saman og tilraunin var lögð niður.
Eins og máltækið segir: af misjöfnu þrífast börnin best. Það á líka við um okkur sem eldri erum.
Hallur það er til lítils að skrifast á við Stefán Benediktsson arkitekt og fyrrum þjóðgarðsvörð. Hann er með vægt til orða tekið mjög hatursfullar skoðanir á öllu sem ekki kemur frá Samfylkingunni. Munum að Stefán benediktsson skrifaði eitt sinn grein í blað þar sem hann líkti tiltekinni fjöldahreyfingu fólksins við „krabbamein“ á þjóðinni. Ekki gott, ekki smekklegt og ekki til eftirbreittni. Hvílum manninn.
Krabbameinið var læknað.
Rétt hjá þér Hallur. Það á ekki að draga fólk í dilka nema til að koma því til síns heima. En þá verða allar sortir að geta verið saman.
Hárrétt… Það sem Jóhann er eiginlega að leggja til er nokkurs konar „gettólausn“. Hverfi eiga að vera blönduð, ekki einsleit.
Hún er náttúrulega stjórnmálamaður af gömlu kynslóðinni. Hjá þeim flestum virðist svarið við vandamálum vera meiri steinsteypa. Eins og virðist vera með þessu fáránlegu spítalabyggingu…