Fimmtudagur 15.09.2011 - 07:48 - 14 ummæli

Búseturéttur er rétta leiðin

Kröftug uppbygging búseturéttarkerfis þar sem samhliða er boðið upp leiguleið innan húsnæðissamvinnufélaga á borð við Búseta og Búmenn ætti að vera meginstefið í húsnæðisstefnu stjórnvalda.

Fjölbreyttir raunverulegir valkostir í húsnæðismálum innan almenns húsnæðiskerfis þar sem ekki er ýtt undir stéttaskiptingu með sértæku „félagslegu“ húsnæði er sú framtíðarsýn sem flestir ættu að geta komið sér saman um.

Núverandi ofuráhersla sem núverandi stjórnarflokkar leggja á uppbyggingu lítt skilgreinds leiguhúsnæðs   – að ég tali ekki um „félagslegt“ leiguhúsnæði – er röng.

Sú ofuráhersla er ekki til þess að byggja upp fjölbreytni og raunverulegt val auk þess sem hugmyndir um „félagslegt“ húsnæði ýtir undir sjáanlega stéttaskiptingu á Íslandi.

Íslenska húsnæðiskerfið á að byggja á eðlilegu jafnvægi milli búseturéttarleiðar, eignarleiðar og leiguleiðar.  Íslenskur almenningur á að hafa raunverulegt val um þessar þrjár leiðir.

Húsnæðisstefna undanfarinna áratuga hefur fyrst og fremst byggst á leið eigin húsnæðis.  Síðastliðinn áratug hefur jafnframt verið lögð áhersla á uppbyggingu skipulags leiguhúsnæðis með misjöfnum árangri.

En heilbrigð búseturéttarleið sem í raun getur uppfyllt þarfir alls almennings hefur setið á hakanum. Það er miður því búseturéttarleiðin getur hentað öllum. Hátekjufólki, fjölskyldum í lægri tekjuhópum, öldruðum, stúdentum og fólki með sértækar þarfir eins og hreyfihömluðum.

Búseturéttaformið er rekið í lýðræðislegum húsnæðissamvinnufélögum eins og Búseta og Búmönnum.  Það er ekkert því til fyrirstöðu að innan slíkra húsnæðissamvinnufélaga verði jafnframt boðið upp á leiguleið fyrir þá sem það kjósa.

Því getur kröftug uppbygging húsnæðissamvinnufélaganna tryggt eðlilegt jafnvægi í húsnæðismálum.

Það sem betra er – stuðningur ríkisins við uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga – þar sem megináhersla er lögð á búseturétt  en jafnframt tryggð örugg leiguleið fyrir þá sem það kjósa – brýtur ekki gegn ákvæðum EES samningsins. En Eftirlitsstofnun EFTA hefur hins vegar gert athugasemdir við núverandi fyrirkomulag lána Íbúðalánasjóðs.

Með kröftugri uppbyggingu samfélagslegra og lýðræðislegra húsnæðissamvinnufélaga sem rekin eru með sjálfbærni en ekki ofurhagnað að leiðarljósi næst eftirsóknarvert jafnvægi milli núverandi ríkjandi eignarhúsnæðisleiðar, búseturéttarleiðar og leiguleiðar.

Nánar um fjölbreytta möguleika búseturéttarkerfis fyrir alla í næsta pistli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Sæll Hallur.

    Það gleður mig að sjá hve þú ert orðinn sterkur talsmaður búseturéttarins sem valkosts í húsnæðismálum. Ég skrifaði sjálfur meira en hundrað blaðagreinar honum til stuðnings fyrir um aldarfjórðungi síðan. Baráttan gekk hægt, en dropinn holar steininn, því nú vilja allir kveða „Lilju búseturéttarins“, þar á meðal þú.

    Og ég get tekið undir með þér um hve villandi tal okkar Íslendinga um „félagslegt húsnæði“ er, sérstaklega þegar talað er um leiguhúsnæði. Sjálfur hef ég í ræðu og riti margoft bent á hinar „almennu“ leiðir Dana og Svía við uppbyggingu leiguhúsnæðis og búseturéttarhúsnæðis. Norðmenn og Finnar eru hins vegar nær okkur og hafa byggt upp sértækt og meira „félagslegt“ leiguhúsnæðiskerfi (Norðmenn einnig við hlið þess mjög gott almennt búseturéttarkerfi.).

    Hið „félagslega tal“ hefur verið ríkjandi hér í húsnæðismálum og lengst af voru félagslegu kerfin rekin alveg til hliðar við almenna eignarkerfið og leiguíbúðir voru aðeins reknar af sveitarfélögunum fyrir kúnna félagsmálastofnana og nánast til viðvörunar um að leiguhúsnæði væri ónothæft fyrirbæri fyrir íslenskar aðstæður.

    En þú ættir ekki að stinga því undir stól að það var Jóhanna Sigurðardóttir sem breytti þessu á sínum fyrri ráðherraárum, 1987-1994. Hún opnaði t.d. veglega og myndarlega á búseturéttarkerfið (sem við báðir dáum svo mjög), jók byggingu leiguhúsnæðis og opnaði leið félagsamtaka inn í „félagslega“ lánakerfið. Þetta gerði hún í harðri andstöðu við stóran hluta verkalýðshreyfingarinnar, sem sá ekkert nema hið löngu úrelta verkamannabústaðakerfi sitt.

    Þú ættir einnig að horfast í augu við það að var þinn gamli flokkur sem vann það mikla óhappaverk að leggja niður gamla félagslega eignaíbúðakerfið og einkavæða íbúðaforða þess í versta Thatcher-stíl. Þessum íbúðum átti auðvitað, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu, að breyta í leiguíbúðir og/eða búseturéttaríbúðir, í stað þess að lækka hlutfall félagslegra íbúða í landinu um allt að helming.

  • Hallur Magnússon

    Jón Rúnar.

    Þú veist það jafn vel og ég að gamla félagslega húsnæðiskerfið var gjaldþrota sem nemur um 35 milljörðum á núvirði – og að félagslegt húsnæði var að sliga fjölda sveitarfélaga.

    Það var ástæða þess að það form var lagt niður – ekki „thatcherismi“.

    Það er ekki rétt nálgun hjá þér að segja að „félagslegt“ húsnæði hafi lækkað um helming – þvert á mót fjölgaði verulega húsnæði til handa tekjulægri hópunum með tilkomi „félagslegra“ viðbótarlána. Fjöldi þeirra var á annan tug þúsunda.

    Hvað búseturéttarformið varðar – þá hef ég alla tíð frá því ég kynnti mér fyrirkomulagið hjá Reyni frænda mínum – verið talsmaður þess að búseturéttarformið ætti að vera raunhæfur valkostur. Það var löngu áður en ég hóf störf hjá Íbúðalánasjóði.

    Þú veist líka jafn vel og ég að nálgun Jóhönnu á búseturéttarformið sem „félagslegt“ form hefur hamlað uppbyggingu búseturéttarfélaganna sem almenns valkostar – því almenningur hefur ranglega litið það búsetuform sem „félagslegt“ oþl. ekki fyrir þá sem eru þokkalega stæðir.

    En við erum sammála um að það beri að auka hlut húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttaríbúða í íslensku húsnæðiskerfi.

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Yfirvofandi gjaldþrot Byggingarsjóðs verkamanna á árunum fyrir sl. aldamót var hannað af stjórnvöldum með því svíkja sjóðinn um ríkisframlög sem lofað hafði verið.

    Vel mátti komast hjá slæmri stöðu sjóðsins með meiri hækkun útlánsvaxtanna og að láta síðan vaxtabótakerfið bæta aukin kostnað íbúanna. Lokun kerfisins var í raun hálfgert „samsæri“ sveitarfélaganna og Páls Péturssonar til þess að ganga að „vondu kratakerfi“ dauðu.

    Það átti auðvitað að endurhanna kerfið sem leigu- og búseturéttarkerfi og reynsla t.d. frá Bretlandi sýnir að auðvelt hefði verið að afla fjár á erlendum lánamarkaði til þess að endurfjármagna allt kerfið á nýjum forsendum. Félagsbústaðir hf hjá Reykjavíkurborg sýndi hvernig taka mátti hálfdautt kerfi eins og leiguíbúðir borgarinnar voru undir stjórn íhaldsins og blása í það nýju lífi. Þetta mátti gera með „félagslega eignaríbúðakerfið“, í stað þess að slátra því, eins og þið Frammarar gerðuð.

    Jóhanna opnaði á búseturéttinn sem bæði almennan og félagslegan og hvað ég best veit hefur hann að mestu þróast í þá átt að vera „almennur“, og fólk fer inn án skilyrða um að hafa lágar tekjur. Um þetta varð reyndar mikil umræða í fyrstu undirbúningsnefnd Búseta, þar sem Stefán Benediktsson, þá þingmaður Bandalags jafnaðarmanna, talaði sterkt fyrir búseturétti sem almennu húsnæðisúrræði.

  • Hallur Magnússon

    Búseturétturinn hefur þróast í að verða almennur. En það breytir ekki því viðhorfi sem því miður hefur skapast gagnvart búseturéttarforminu.

    Hvað varðar félagslega kerfið – þá var það gjaldþrota sem nemur nær 35 milljörðum að núvirði og var reyndar á góðri leið með að gera Húsnæðisstofnun gjaldþrota. Það er staðreynd málsins – hver sem ástæðan er.
    ´
    Beinn kostnaður ríkisins við félagslega kerfið hefði þá verið þessir 35 milljarðar ef ekki hefði verið valin leið sjálfbærni með stofnun Íbúðalánasjóðs.

    Því miður er það blekking hjá þér að halda því fram að unnt hefði verið að hækka útlánsvexti til að jafna þennan mun – þá hefðu vextir þurft að vera hærri en á almennum lánum!

    Hvað varðar þá leið að bæta hallareksturinn upp með vaxtabótum – þá hefði það kostað þessa 35 milljarðar ofan á þær vaxtabætur sem eigendur „félagslegra eignaríbúða“ fengu á sínum tíma.

    Kemur á sama stað niður.

    Þetta kerfi sem þú kallar með réttu „vonda kratakerfi“ var nákvæmlega það. Vont, ósjálfbært – enda gjaldþrota, og ýtti undir sýnilega stéttaskiptingu í landinu.

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Kerfisvandinn var heimatilbúinn, byggðist á því að stjórnvöld stóðu ekki með kerfinu.

    Að einhverju leyti var þarna um að ræða refsiviðbrögð gegn Jóhönnu, sem reglulega “fékk sitt fram” með því hóta að segja af sér. Eftir að hún hætti í stjórn 1994 gáfu menn algerlega skít í kerfið og biðu þess með ánægjuglotti að það steyptist fram af hengifluginu.

    Og ekkert kallaði á það að rústa kerfinu eins og gert var. Þetta voru jú eitthvað um 7000 íbúðir, ef ég man rétt, og það hefði verið önnur staða í húsnæðismálum okkar í dag ef því hefði – am.k. að hluta – verið bjargað inn í ný og betri eignarform.

    Má ég svo benda þér og öðrum á að ég hef talsvert fjallað um þessi mál öll, t.d. í grein í 1. tölublaði Íslenska þjóðfélagsins, tímarits Félagsfræðingafélags Íslands, sjá:

    thjodfelagid.is

    (Þarna má finna pdf-skjal sem hægt er að opna.)

    Einnig má finna lengri skýrslu eftir mig á nýjum upplýsingavef mínum um húsnæðismál:

    husvef.is, haka við „Félagslegt húsnæði“.

  • Hallur Magnússon

    Jón Rúnar.

    35 milljarða tap Byggingarsjóðs verkamanna varð ekki til á 3 árum í stjórnartíð Páls á Höllustöðum 1995-1998. Páll fékk ónýtt kerfi í arf frá Jóhönnu. Hann hafði ekki mikið val. Varð að breyta því.

    Það gleymist allt of oft í umræðunni að stofnum Íbúðalánasjóðs á nýrri kenntiölu var ekki það sem lagt var upp með þegar bregðast þurfti við vonlausri stöðu „félagslega kerfisins“. Það varð niðurstaðan þar sem staðan var miklu alvarlegri en men hugðu í upphafi.

    Hvað varðar töluverð skrif þín og rannsóknarvinnu um húsnæðismál – þá hef ég fylgst með þeim.. Þau eru yfirleitt mjög góð – svo langt sem þau ná. Sakna reyndar ítarlegra fjárhagslegt samhengis í þeim – því það er hin hliðin á peningnum sem margir gleyma.

    En það sem máli skiptir er sameiginleg framtíðarsýn okkar – miklu meira vægi húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformsins í húsnæðismálum þjóðarinnar.

  • stefán benediktsson

    Takk fyrir þessa söguferð félagar. Hún er mjög fróðleg upprifjun. Tek eindregið undir með ykkur að húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarfélög eru hin eina rétta félagslega lausn.

  • Sæll Hallur. Ég fylgdist nokkuð með skrifum Jóns Rúnars Sveinssonar um húsnæðismál hér áður fyrr og hans lausnir ganga heilt yfir út á að „einhver annar borgi“. Jón Rúnar á enga aðra lausn en að senda skattborgurum reikinginn fyrir niðurgreiddan húsnæðiskostnað.
    Varðandi þessa 35 milljarða sem þú nefnir Hallur að hafi verið hallinn á „Jóhönnukerfinu“ þegar Páll Pétursson tók við yfirstjórn Húsnæðisstofnunar ( var það ekki Viðreysnarstjórnin sem kom á lánakerfi fyrir féalgslegar íbúðir ? ) þá hefur hallinn væntanlega ekki horfið við það eitt að Páll tók við ? Mig langar að vita hvernig var hallinn þurrkaður út, fékk Íbúðalánasjóður hallann í vöggugjöf og erum við sem erum með lán hjá Íbúðalánasjóði að greiða niður hallann með auknu vaxtaálagi eða greiddi ríkissjóður / skattgreiðendur hallann ?
    Svo langar mig líka að fá nánari útskýringu frá þér á því hvað það er í sambandi við búseturéttarkerfið sem gerir eftir því sem þið segið að hægt sé að reka slíkt kerfi án niðurgreiðslu frá skattborgurum? Hver er þá hagurinn af búseturéttarkerfi umfram sjálfseign ef kerfið felur ekki í sér niðurgreiðslu á vaxta- og eða byggingarkostnaði ? Er hagurinn þá sá einn að þurfa ekki að standa í að selja eða kaupa sína eigin fasteign, bara skila inn búseturéttinum eða hvað ? Þú sérð að ég er ekki trúuð á einhverjar „patentlausnir“ sem feli í sér að fólk losni við að borga raunvirði fyrir íbúðarhúsnæði.
    Í dag ( fimmtudag 15. sept 2011 ) fór fram mjög merkileg ráðsetefna um fasteignamarkaðinn á vegum íslandsbanka. Glærur fyrirlesara má sjá á http://www.vib.is . Hvað um það fyrirlesararnir, báðir með mikla þekkingu á fasteignamálum, sýndu að það er bullandi tap á því að leigja út fasteignir, bæði íbúðir og atvinnuhúsnæði. Niðurstaða annars þeirra var að fasteignaverð þurfi að lækka um allt að 50% til að ná sömu ávöxtun umfram ríkisskuldabréf og er í Skandinavíu. Hinn kosturinn við lækkun fasteingaverðs er að Seðlabankinn lækki vexti en hvernig fer þá með Íbúðalánasjóð sem mér sýnist að lifi á gríðarlega háu álagi á útlánsvexti sína borið saman við innlánsvexti?

  • Hallur Magnússon

    @Heiða.

    Fyrst um búseturéttarleiðina – og af hverju – ég boðaði í pistlinum nánari skýringar sem koma í næstu pistlum.

    En þessir 35 milljarðar á núvirði átu upp eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins. Þannig að þeir sem höfðu almenn lán Húsnæðisstofnunar – (ekki húsbréfalánin heldur gömlu lánin) – niðurgreiddu vextina af „féalgslegu“ lánunum.

    Í stofnefnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs var eigið fé einungis eigið fé húsbréfadeildar. Hefði áfram verið haldið á sömu braut þá hefði það líka étist upp og ´Húsnæðisstofnun farið á hausinn.

    Hvað varðar fyrirlestrana í Íslandsbanka varðar – þá var nálgun þeirra fasteignir á íbúðamarkaði sem fjárfesting fyrir fjárfesta – ekki almenning.

    Ekki gleyma því að kostnaður við að byggja hús hverfur ekki – jafnvel þótt það sé sett „félagslegt“ fyrir framan.

  • Hallur hittir nákvæmlega naglann á höfuðið þegar hann segir hér að ofan „Ekki gleyma því að kostnaður við að byggja hús hverfur ekki – jafnvel þótt það sé sett “félagslegt” fyrir framan.“
    þetta er hinn stóri sannleikur sem ekki verður horft framhjá. Það kostar það sama hvort byggt er til eigin nota eða til að leigja út til þeirra sem kalla eftir að einhver annar byggi. Fólk segist vilja leigja í stað þess að eyða bestu árum ævinnar í að þræla fyrir eigin húsnæði ! En um leið og þetta er sagt þá liggur fyrir að einhver annar verður að bera þungann af því að byggja til að leigja út og húsnæði sem leigt er út getur aldrei orðið ódýrari kostur en að eiga.
    Varðandi ráðstefnu Íslandsbanka í dag þá er rétt athugasemd hjá Halli að umfjöllunin miðaðist við arðsemi leigusala sem sögð var engin. Samkvæmt niðurstöðunum þarf annað hvort byggingarkostnaður að lækka, skattar á leigutekjur að lækka eða leiga að stórhækka eigi að fást ávöxtun af útleigu fasteigna.
    Að lokum, þá finnst mér að það sé til mikils vinnandi fyrir þjóðfélagið að séreignastefnan haldi áfram þ.e. að þeim tekjulægstu sé hjálpað til að „eiga“ sitt húsnæði frekar en fá niðurgreidda húsaleigu. Þó kostnaður samfélagsins af niðurgreiðslunni sé e.t.v. sá sami á yfirborðinu þá umgengst fók „eigin“ fasteign með allt öðrum og betri hætti en ef fólk er „leiguliðar“.
    PS
    Veit fólk annars hvað íbúar Reykjavíkur/ skattgreiðendur í Reykjavík eru með mikið af leiguíbúðum á sínum snærum ? Borgin rekur fyrirtæki Félagsbústaðir sem leigir út ótrúlegan fjölda íbúða, íbúðirnar skipta hundruðum ef ekki þúsundum. Ég hef fyrir satt að kröfuharka leigjenda um endurbætur og viðgerðir sé hvergi meiri en hjá þessu „félagsbústaðaapparati“. Ef fólk þarf ekki að borga úr eigin vasa vex kröfuharkan, þannig er það nú.

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Heiða, staðreyndin er sú að opinber stuðningur í húsnæðiskerfinu hefur hér á landi alltaf verið mestur til eigenda. Mitt innlegg fyrr og síðar varðandi þetta var einungis að hvetja til jafnræðis fyrir leigjendur. Þetta náðist að nokkru (ekki að fullu) með tilkomu húsaleigubótakerfisins.

    Heiðurinn af tilurð þess á Jóhanna Sigurðardóttir óskiptan (jú, hún varð að hóta afsögn til að fá málið samþykkt í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1993). Húsaleigubótakerfið hefur lagt grunninn að talsverðri uppbyggingu leigumarkaðarins sl. 15 ár, þó svo að fjárhæðir hafi engan veginn fylgt eftir stöðugt hækkandi leiguverði.

    Varðandi séreignarstefnuna held ég að ekki leiki nokkur vafi á að hún hefur gengið sér til húðar sem ráðandi stefnumið í húsnæðismálum okkar Íslendinga. Kreppa hennar upp úr 1980 var ansi alvarleg, en núverandi kreppa er þó helmingi dýpri. Sársaukinn sem heimilin verða fyrir vegna efnahagshrunsins er miklu meiri, en þurft hefði að vera, vegna þessarar kolröngu húsnæðisstefnu okkar.

    Nýir og betri valkostir eru því alger nauðsyn núna. Búseturétturinn kemur þar mjög sterklega inn og aukið leiguhúsnæði, undir auðvitað bæði félagslegum og almennum formerkjum. En vegna þess hve húsnæðiskerfi eru svifasein við allar breytingar (e. path dependent) mun séreignin auðvitað verða áfram ríkjandi um fyrirsjáanlega framtíð. Öflugri leigumarkaður er hins vegar lífsnauðsyn, og þá fyrst og fremst almennur leigumarkaður, þar er ég sammála Halli.

    Ásamt auðvitað búseturéttinum. svo það sé ítrekað.

    Hallur, ég hef reyndar nokkuð fjallað um húsnæðisfjármál, bendi á þessi rit mín:

    Meginþættir í þróun og skipulagi húsnæðisfjármögnunarkerfa á Norðurlöndum. Húsnæðisstofnun ríkisins, Reykjavík 1996.

    Isländsk bostadsfinansiering i förändring: Sekelskifte – systemskifte? Í Bostadsfinasieringen i framtiden – pågående förändringar och deras konsekvenser. Bygg og Bo, Nord, Norræna ráðherranefndin, Kaupmannahöfn, 2000.

    Þá var ég um 1990 þátttakandi í norrænum vinnuhópi sem skilaði ítarlegri skýrslu um húsnæðisniðurgreiðslukerfi Norðurlandnna, um 2000 í norrænum vinnuhópi um húsnæðiskostnað og um svipað leyti í hópi sem sendi frá sér yfirlitsrit um húsnæðismál á Norðurlöndum, þar sem a.m.k helmingur greinanna fjallaði um fjármögnun húsnæðismála. Sjá: Martti Lujanen (ritstj.). Housing and Housing Policy in the Nordic Countries. Norræna ráðherranefndin, Kaupmannahöfn, Nord 2004:7.

  • Hallur Magnússon

    Jón Rúnar.

    Þú mátt ekki misskilja mig. Ég er ekki að gera lítið úr því mikla fræðastarfi sem þú hefur unnið. Þvert á móti.

    Þú vísar í rit frá því 1996 og 2000 – sem ég hef að sjálfsögðu lesið. – og vinnu frá því um 1990.

    Einnig í ritið sem Martti ritstýrði – og ég átti þátt í að vinna tölfræði og upplýsingar í.

    Það breytir ekki því að ég sakna í umfjöllun þinni á undanförnum árum – fjárhagslegs samhengis.

    En það sem skiptir máli er að það þarf eðlilega fjölbreytni og eðlilegt jafnvægi búseturéttarforms, eignarforms og leiguforms. Það jafnvægi er ekki til staðar í dag.

  • @ Hallur færsla nr 12. Hallur nefnir „fræðastörf“ Jóns Rúnars Sveinssonar ( væntanlega á sviði húsnæðismála ) en hvernig á maður sem er er fastmótaðar pólitískar skoðanir á því hvaða eignaform henti best í húsnæðismálum að geta unnið fræðistörf ? Mér er spurn því svo nefnd “ fræðistörf“ slíkra verða ætíð lituð af pólitískum viðhorfum. Í þessum efnum geri ég ekki aðrar kröfur til sjálfrar mín því ég vil sjá sem flesta þ.m.t. fátækt fólk sem skráða eigendur þeirra íbúða sem það býr í. Ég viðurkenni að ég henta ekki til að skrifa með hætti fræðimanns um leiguliðafyrirkomulag almennings í Sovétríkjunum eða Svíþjóð eða á öðrum þeim stöðum þangað sem ónefndir „fræðimenn“ sækja fyrirmynd að draumaveröld sinni í búsetumálum. Rótgróin þrá með þjóðinni eftir að „eiga sitt “ var grundvöllur þess að hér þróaðist kraftmeira og vinnusamara þjóðfélag en á Norðurlöndum á árunum eftir stríð. Áhrifa þessa gætir enn þó krötum sé að takast ótrúlega hratt að telja fólki trú um að það þurfi enginn að leggja neitt á sig því ríkið sjái fólki fyrir grunnþörfum þess. þeir sem ekkert vilja á sig leggja þekkja heldur ekki ánægjuna af því að leysa sín mál sjálfur.

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Mín húsnæðispólitísku afskipti voru mest bundin við árin fyrir 1990, þegar baráttan var mjög hörð fyrir tilurð og framhaldslífi Búsetahreyfingarinnar, eftir þann tíma hefur fræðimennskan verið ríkjandi hjá mér, varðandi húsnæðismálin.

    En því má reyndar halda til haga, að gagnrýn afstaða til eignastefnu í húsnæðismálum er mjög sterk í fræðasamfélaginu á þessu sviði. Með nokkrum undantekningum þó, nefni t.d. Bretann Peter Saunders og bók hans frá 1990, A Nation of Homeowners. Einu eð tveimur árum eftir að Saunders mærði þarna eignastefnu Margrétar Thatcher, hrundi breski eigendamarkaðurinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur