Það voru margir sem hnýttu í mig fyrir nokkrum dögum þegar ég spurði hvort Framsókn væri „Venstre“. Þá var ég að vísa til þess þegar „Venstre“ í Danmörku tók yfir sem forystuafl borgaralegu aflanna af gamla danska íhaldsflokkunum sem hafði um áratugaskeið verið óumdeilt forystafl!
Nú virðist sú staða sem ég spáði vera að rætast. Allavega í skoðanakönnunum þar sem Framsóknarflokkurinn er orðinn stærri en íslenski íhaldsflokkurinn sem gengið hefur undir heitinu „Sjálfstæðisflokkur“.
Birti því aftur pistli minn frá síðustu viku:
Langtímamarkmið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nánustu samstarfsmanna hans í Framsóknarflokknum er að ganga upp. Sigmundur Davíð hefur frá upphafi stjórnmálaferils síns litið til systurflokks Framsóknarflokksins í Danmörku – “Venstre”. En staða “Venstre” hefur verið afar sterk allt frá miklum kosningasigri flokksins árið 2001 þegar “Venstre” tók við af “De Konservative” – systurflokki Sjálfstæðisflokksins – sem leiðandi afl meðal borgarflokkanna dönsku.
“Venstre” leiddi ríkisstjórnir borgaraflokkanna frá árinu 2001 fram til ársins 2011 þegar borgaraflokkarnir misstu meirihluta sinn þrátt fyrir að “Venstre” yki við sig fylgi. Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins “De Konservative” galt hins vegar afhroð í kosningunum 2011 á svipaðan hátt og fylgi flokksins hrundi í kosningunum 2001 þegar flokkurinn missti áratuga forystuhlutverk sitt meðal dönsku borgaraflokkanna til “Venstre”.
Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs er nú í stórsókn ef marka má skoðanakannanir að undanförnu þar sem flokkurinn hefur þrefaldað skoðanakannanafylgi sitt frá því sem flokkurinn mældist lægstur á kjörtímabilinu og mælist nú með um 10% meira fylgi en Framsókn fékk í varnarsigri sínum í síðustu Alþingiskosningum.
Á sama tíma er Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar í frjálsu falli líkt og “De Konservative” upplifðu árið 2001 þegar þeir misstu leiðandi hlutverk sitt yfir til “Venstre”.
Þessi staða er ekki bara tilviljun. Sigmundur Davíð og samstarfsmenn hans hafa nefnilega alla tíð litið til árangurs og stefnumála “Venstre” í sinni pólitík þótt aðeins hafi á stundum vantað upp á frjálslyndið sem er einn þáttur í stefnu “Venstre” þótt aðrir þættir í pólitíkur “Venstre” stangist stundum á við frjálslyndið. Líkt og hjá Framsókn.
“Venstre” hefur lagt áherslu á harða innflytjendastefnu og á stundum nánast daðrað við þjóðernishyggju. Hörð innflytjendastefna var einn lykilþátturinn í kosningasigri flokksins árið 2001. Önnur vinsæl stefnumál voru loforð um að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu, nútímavæðing stjórnkerfisins, aukið valfrelsi einstaklinga og lækkun skatta á almenning.
Það er kaldhæðnislegt að þrátt fyrir að hafa horft til “Venstre” sem skilgreinir sig sem frjálslyndan miðjuflokk, þá hefur stefna Sigmundar Davíðs og þess hóps sem stendur að baki Vigdísi Hauksdóttur, Gunnars Braga Sveinssonar og fleiri orðið til þess að margir úr frjálslynda armi Framsóknarflokksins yfirgáfu flokkinn. Þeir töldu skorta á frjálslyndið.
Hluti þeirra tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar sem stefnir einnig í kosningasigur þótt aðeins hafi dregið úr fylgi BF í síðustu skoðanakönnunum. Björt framtíð virðist ætla að ná 8 – 12 % fylgi og tryggja sér þannig stöðu á Alþingi sem nýtt stjórnmálafl.
Það má reyndar sjá ýmis líkindi með Bjartri framtíð og hinum hefðbundna systurflokki Framsóknar – “Radikale venstre”. “Radikale venstre” er frjálslyndur miðjuflokkur sem lengi hefur talið sig til borgaraflokkana en sneri við blaðinu í síðustu kosningum og ákvað að vinna með vinstri flokkununum.
“Radikale venstre” vann góðan kosningasigur með sína félagslegu frjálslyndisstefnu sem varð til þess að ríkisstjórn “Venstre” og borgaraflokkanna féll og við tók núverandi ríkisstjórn “Radikale venstre”, “Socialdemokratiet” systurflokki Samfylkingarinnar og “Socialistisk Folkepartiet” systurflokki VG.