Sunnudagur 17.3.2013 - 09:38 - 10 ummæli

Stjórnarskrárumbótum stútað

Farsælar breytingar á stjórnarskrá Íslands er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Þjóðin virtist lengst af vera meðvituð um mikilvægi þess. En nú virðist sem lunginn úr þjóðinni hafi gefist upp á stjórnarskrármálinu og telji róttækar breytinga á stjórnarskrá mega bíða enn um sinn. Það er afar slæmt því þörfin á breytingum er svo sannarlega til staðar.

Meginástæða þessa er ekki strögl hagsmunaaðilja sem vilja ekki breytingar á auðlindaákvæðum stjórnarskrárinnar eða breytingar sem auka raunveruleg völd almennings.

Ástæðan er óbilgirni og öfgafullar upphrópanir  lítils en háværs hóps stjórnlagaráðsliða og stuðningsmanna þeirra sem ráðist hafa gegn þeim sem ekki hafa viljað kokgleypa afar góðar tillögur stjórnlagaþings að stjórnarskrárbreytingum gagnrýnilaust.

Því þjóðin er ekki það skyni skroppinn að hún staldri ekki við þegar fámennur hópur ræðst með svikabrigslum að hófsömu sem fólki leggur fram í einlægni raunhæfar tillögur um málsmeðferð sem kynni að leysa málin í sem breiðastri sátt.

Almenningur staldraði ekki bara við heldur tók málið af dagskrá þegar þessir sömu aðiljar tóku ítrekað að gefa í skyn að þeir sjálfir væru óskoraðir talsmenn þjóðarinnar.

Þá var mælirinn fullur hjá venjulegum Íslendingum sem láta ekki aðra ákveða fyrir sig hvað Íslendingnum finnst.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.3.2013 - 07:33 - 3 ummæli

Björt framtíð Bjartrar framtíðar

Á meðan við horfum á öfgafull viðbrögð viðsterkri stöðu Framsóknarflokksins í viðhorfskönnunum – þar sem stuðningsmenn Framsóknar sem um langt árabil hafa þurft að sæta nánast einelti fyrir stjórnmálaskoðanir sínar geta varla hamið sig af ánægðu og hatrammir andstæðingar Framsóknarflokksins gersamlega missa sig í venjubundnu lítt rökstuddu skítkasti sínu gagnvart Framsóknarflokkum – þá yfirsést flestum merkileg staðreynd sem skoðanakannanirnar staðfesta.

Það er sú staðreynd að Betri framtíð er komin til að vera.

Betri framtíð hefur á undanförnum mánuðum verið með um og yfir – stundum langt yfir – 10% fylgi í viðhorfskönnunum. Í könnun Fréttablaðsins þar sem Framsóknarflokkurinn toppar með rúmlega 30% fylgi og þannig tekið ákveðna forystu sem mögulegt leiðtogaafl borgaraflanna líkt og  systurflokkurinn Venstre í Danmörku gerði um síðustu aldamót – þá mælist Betri framtíð með um 10% fylgi.

Þá er Björt framtíð með um 13% fylgi í nýjasta spurningavagni Gallup.

Þessa dagana mældist Björt framtíð með um 15% fylgi í viðhorfskönnun MMR.

Hingað til hefur 10% – 15% tiltöluleg stöðugt fylgi verið talið nokkuð gott fyrir nýtt stjórnmálaafl. Þetta er fylgi sem er svipað og Framsóknarflokkurinn hefur verið að mælast í skoðanakönnunum til fjölda ára.

En eðlilega fellur þessi árangur í skuggan af sterkri stöðu Framsóknarmanna sem geta borið sig vel með 25,5% til 32% fylgi í nýjustu viðhorfskönnununum!

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.3.2013 - 19:23 - 6 ummæli

Framsókn ER „Venstre“ :)

Það voru margir sem hnýttu í mig fyrir nokkrum dögum þegar ég spurði hvort Framsókn væri „Venstre“. Þá var ég að vísa til þess þegar „Venstre“ í Danmörku tók yfir sem forystuafl borgaralegu aflanna af gamla danska íhaldsflokkunum sem hafði um áratugaskeið verið óumdeilt forystafl!

Nú virðist sú staða sem ég spáði vera að rætast. Allavega í skoðanakönnunum þar sem Framsóknarflokkurinn er orðinn stærri en íslenski íhaldsflokkurinn sem gengið hefur undir heitinu „Sjálfstæðisflokkur“.

Birti því aftur pistli minn frá síðustu viku:

Er Framsókn “Venstre”?

Langtímamarkmið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nánustu samstarfsmanna hans í Framsóknarflokknum er að ganga upp. Sigmundur Davíð hefur frá upphafi stjórnmálaferils síns litið til systurflokks Framsóknarflokksins í Danmörku – “Venstre”. En staða “Venstre” hefur verið afar sterk allt frá miklum kosningasigri flokksins árið 2001 þegar “Venstre” tók við af  “De Konservative” – systurflokki Sjálfstæðisflokksins – sem leiðandi afl meðal borgarflokkanna dönsku.

“Venstre” leiddi ríkisstjórnir borgaraflokkanna frá árinu 2001 fram til ársins 2011 þegar borgaraflokkarnir misstu meirihluta sinn þrátt fyrir að “Venstre” yki við sig fylgi.  Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins “De Konservative” galt hins vegar afhroð í kosningunum 2011 á svipaðan hátt og fylgi flokksins hrundi í kosningunum 2001 þegar flokkurinn missti áratuga forystuhlutverk sitt meðal dönsku borgaraflokkanna til “Venstre”.

Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs er nú í stórsókn ef marka má skoðanakannanir að undanförnu þar sem flokkurinn hefur þrefaldað skoðanakannanafylgi sitt frá því sem flokkurinn mældist lægstur á kjörtímabilinu og mælist nú með um 10% meira fylgi en Framsókn fékk í varnarsigri sínum í síðustu Alþingiskosningum.

Á sama tíma er Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar í frjálsu falli líkt og “De Konservative” upplifðu árið 2001 þegar þeir misstu leiðandi hlutverk sitt yfir til “Venstre”.

Þessi staða er ekki bara tilviljun. Sigmundur Davíð og samstarfsmenn hans hafa nefnilega alla tíð litið til árangurs og stefnumála “Venstre” í sinni pólitík þótt aðeins hafi á stundum vantað upp á frjálslyndið sem er einn þáttur í stefnu “Venstre” þótt aðrir þættir í pólitíkur “Venstre” stangist stundum á við frjálslyndið. Líkt og hjá Framsókn.

“Venstre” hefur lagt áherslu á harða innflytjendastefnu og á stundum nánast daðrað við þjóðernishyggju. Hörð innflytjendastefna var einn lykilþátturinn í kosningasigri flokksins árið 2001. Önnur vinsæl stefnumál voru loforð um að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu, nútímavæðing stjórnkerfisins, aukið valfrelsi einstaklinga og lækkun skatta á almenning.

Það er kaldhæðnislegt að þrátt fyrir að hafa horft til “Venstre” sem skilgreinir sig sem frjálslyndan miðjuflokk, þá hefur stefna Sigmundar Davíðs og þess hóps sem stendur að baki Vigdísi Hauksdóttur, Gunnars Braga Sveinssonar og fleiri orðið til þess að margir úr frjálslynda armi Framsóknarflokksins yfirgáfu flokkinn. Þeir töldu skorta á frjálslyndið.

Hluti þeirra tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar sem stefnir einnig í kosningasigur þótt aðeins hafi dregið úr fylgi BF í síðustu skoðanakönnunum.  Björt framtíð virðist ætla að ná 8 – 12 % fylgi og tryggja sér þannig stöðu á Alþingi sem nýtt stjórnmálafl.

Það má reyndar sjá ýmis líkindi með Bjartri framtíð og hinum hefðbundna systurflokki Framsóknar – “Radikale venstre”. “Radikale venstre” er frjálslyndur miðjuflokkur sem lengi hefur talið sig til borgaraflokkana en sneri við blaðinu í síðustu kosningum og ákvað að vinna með vinstri flokkununum.

“Radikale venstre” vann góðan kosningasigur með sína félagslegu frjálslyndisstefnu sem varð til þess að ríkisstjórn “Venstre” og borgaraflokkanna féll og við tók núverandi ríkisstjórn “Radikale venstre”, “Socialdemokratiet” systurflokki Samfylkingarinnar og “Socialistisk Folkepartiet” systurflokki VG.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.3.2013 - 09:00 - 4 ummæli

Ömurleiki DV

Ömurleiki DV tekur á sig margar myndir.  Þekkt er hvernig DV beitir oft að hæpnum fyrirsögnum sínum í sambland við myndir til þess að telja fólki trú um að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Gjarnan til þess að koma höggi á fólk sem blaðamönnum á blaðsneplinum líkar illa við.

Þessi illfýsi DV beinist í dag að Katrínu Jakobsdóttur formanni VG sem er einn af huggulegri stjórnmálamönnum landsins. Katrín er greinilega komin í skotlínu blaðamanna DV.

DV á fjöldan allan af góðum myndum af Katrínu. En blaðamenn DV hafa greinilega lagt mikið á sig til þess að finna eins ömurlega mynda af formanni VG eins og unnt er. Þeir hafa rennt í gegnum sjónvarpsupptökur hjá RÚV og ekki hætt fyrr en þeir fundu myndaramma þar sem Katrín var ekki eins hugguleg og hún er dags daglega og tekið af því skjáskot.

Þetta skjáskot DV tekið af frétt RÚV má sjá hér.   (ATH. DV búið að skipta um mynd.)

Gott dæmi um krónískan ömurleika DV!

PS.  DV hefur nú skipt um mynd af Katrínu í kjölfar þessa pistils 🙂 Vita upp á sig skömmina!

http://www.dv.is/frettir/2013/3/13/stora-haettan-er-ad-vid-erum-enn-full-af-krafti/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.3.2013 - 19:48 - 2 ummæli

Fullkomin kaos smáframboða

Í uppsiglingu er fullkomin kaos smáframboða. Sú kaos er að mörgu leiti eðlileg í kjölfar efnahags og kerfishruns.  Þá hefur hefðbundið flokkakerfi 20. aldarinnar hefur verið að riðlast á undanförnum misserum og árum. En út úr kaos kemur oft regla.

Ég vænti þess að regla verði komin á kaosina í lok næsta kjörtímabils og nýjar línur í stjórnmálum 21. aldarinnar liggi nokkurn veginn fyrir í þarnæstu kosningum.  Það verður athyglisvert að sjá hvernig þær línur munu liggja.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.3.2013 - 18:15 - 17 ummæli

Lygarinn Guðmundur rafvirki Ingólfsson

Rafvirkinn Guðmundur Ingólfsson hefur að undanförnu farið mikinn í órökstuddum rógi um mann og annan. Í dag óskaði ég ítrekað eftir rökum þessa angans manns sem virðist bera hatur í hjarta ákveðins hóps fólks á Íslandi. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir mínar um rökstuðning fyrir meiðandi staðhæfingum Guðmundar Ingólfssonar – sem hann eðlilega gat ekki lagt fram – þá greip þessi algerlega rökþrota maður til þess úrræðis að kasta mér út af facebook síðunni sinn.

Sérkennlegt hvert umræða á Íslandi er að þróast. Menn telja sig geta logið hægri vinstri um menn og málefni – og þegar óskað er eftir rökstuðningi – þá er skellt í  lás.

Ég finn til með aumingja manninum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.3.2013 - 09:08 - 5 ummæli

Sr. Þórir og ofstæki íhaldsins

„Ég hefði aldrei trúað því, að óreyndu, að þetta ætti eftir að breytast, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki lengur málsvari frjálsrar hugsunar, að þar ættu eftir að komast til valda fulltrúar einangrunar og forræðishyggju, þar sem flokkurinn ætti að ráða því hvað menn hugsuðu og gerðu, að ekki yrðu leyfðar samræður forystunnar og grasrótarinnar, ef upp kæmi meiningamunur.“

Þetta segir hinn fyrrum gallharði Sjálfstæðismaður, dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey sr. Þórir Stephensen í merkilegri grein í dag .

„Þetta er þó staðreyndin í dag. Umræðan um Evrópusambandið er, að mínu áliti, rekin á svo barnalegum og heimskulegum grunni og af slíku ofstæki, að enginn sæmilega viti borinn maður getur lagt slíku lið.“

Mikið rétt hjá sr. Þóri.

Sr. Þóri sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum árið 2010 eftir 63 ára veru þar. Ég sagði mig úr Framsóknarflokknum 1. desember það sama ár eftir 25 ára þrotlaust starf.

Grein sr. Þóris:  http://visir.is/andlegt-ofbeldi-i-sjalfstaedisflokknum/article/2013703099985

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 23:47 - 7 ummæli

Lítil skyrdós á 460 kall!

Ég var að kaupa litla 180 gramma skyrdós á 460 íslenskar krónur. Reyndar bragðbættum með perum og smá múslí. Skyrið er Q skyr.  Framleitt úr norskri mjólk með sérstöku leyfi frá MS á Íslandi held ég. Skyrdósin var 30% dýrari en svipaðar sýrðar mjólkurvörur í hillunum. En rennur þó út eins og rjómabland í íslenskri sveit!

Svona skyr er að slá í gegn allstaðar í heiminum. Skyr sem ekki er búið til úr íslenskri mjólk. Væntanlega styttist í það að það verði búið til meira skyr í útlöndum en á Íslandi. Já, og dýrara skyr sem neytendur eru reiðubúnir að greiða fyrir. Og það úr útlenskri mjólk!

Væri ekki nær að selja útlendingum sem nú eru reiðubúnir að kaupa skyr á uppsprengdu verði íslenskt skyr úr íslenskri mjólk?

Alveg er ég með það á hreinu að íslenskir mjólkurbændur og mjólkurkýr myndu blómstra sem aldrei fyrr ef á hundruð milljóna manna markaði yrði tryggt að „skyr“ gæti einungis kallast „skyr“ væri það framleitt úr íslenskri mjólk. Án innflutningshafta.

Þessháttar markaðsstaða er möguleg. Vandamálið er bara að bændurnir á Búnaðarþingi vilja ekki svoleiðis Búbót!

… svo íslenskir bændur verða bara að halda áfram hokrinu … og í besta falli berjast fyrir „leiðréttingu á verðtryggðum lánum“. Lánum sem myndu heyra sögunni til ef við héldum með reisn inn á hundruðmilljónamarkaðinn!

Mér bara datt þetta svona í hug meðan ég skóflaði í mig 460 króna peruskyrinu frá Q!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 20:39 - 2 ummæli

Fullkomin firring barnaverndarráðherra?

Það fauk verulega í mig að sjá fyrrverandi barnaverndarráðherra til margra ára koma eins og af fjöllum af áhrifamiklum fundi með börnum sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi láta eins og þetta sé nánast í fyrsta skipti sem ráðherrann stendur frammi fyrir börnum sem á hetjulegan hátt lýsa hræðilegri lífsreynslu sinni.

Fyrirgefið – ég ætla að láta ráðherran njóta vafans og viðurkenna strax að ég geti haft rangt fyrir mér – en fyrir mér lítur þetta sem „fjölmiðlastönt“ korter fyrir kosningar.

Það er 110% klárt að börnin sem voru að lýsa hræðilegri lífsreynslu sinni eru algerar hetjur að koma svona fram og segja sannleikann.

En hafi þessi sári sannleikur komið ráðherranum svona á óvart – þá er hún firrtari en ég hélt!

Ráðherrann var ráðherra barnaverndarmála líklega þrisvar sinnum lengur en ég var félagsmálastjóri. Líklega jafn lengi og ég vann með börnum og ungmennum gegnum félagsmiðstöðvar og þjálfun í íþróttafélögum. Þótt ég bæti við þeim tíma sem ég sat í Velferðarráði!

Þrátt fyrir tilheyrandi þagnarskyldu sem ég mun aldrei brjóta – þá get ég fullyrt að ráðherrann var ekki í fyrsta skipti að hlusta á hræðilegar frásagnir misnotaðra barna!

… og til ykkar þarna úti – þá er verk fyrir höndum að aðstoða þau allt of mörgu börn sem hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi!

http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Eahrifamesti-fundur-sem-eg-hef-setid%E2%80%9C

PS.  Aðstoðarmaður Velferðarráðherra hefur eytt athugasemdum mínum vegna þessa máls af athugasemdakerfi sínu á Facebook og hótar nú að henda mér út af vinalistanum. Allt vegna þess að mér finnst óeðlilegt að velferðarráðherrann fyrrverandi láti nú eins og að skelfilegur raunveruleiki barna sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi sé nýr veruleiki fyrir henni. Sérstakt að upplifa ritskoðun sem þessa … fyrir að minna á þau fjölmörgu börn sem EKKI fengu athygli ráðamanna í kjölfar ofbeldis gegn þeim!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 06:53 - 4 ummæli

Hjólað í Gísla Martein

Það hefur verið vinsælt að hjóla í Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa vegna baráttu hans fyrir bættum hag hjólreiðamanna í borginni. Fyrst voru það furðulostnir samflokksmenn hans sem áttu erfitt með að skilja að Sjálfstæðismaður og frjálshyggumaður skyldi tala fyrir því að Reykjavíkurborg   Í þeirra huga voru fullorðnir hjólreiðamenn skrítnar skrúfur eða anarkistar eða rauðvínskommar. Alls ekki „góðir og gegnir Sjálfstæðismenn“.

Vinstri menn tortryggðu baráttu Gísla Marteins af sömu ástæðu. „Vinstrið“ átti að eiga hjólreiðarnar. Þetta hlaut að vera einhverskonar djúphugsað pólitískt plott sem Gísli Marteinn og Hannes Hólmsteinn hefðu kokkað í stjórnmálafræðitíma í Háskólanum.

… og ennþá er verið að hjóla í Gísla Martein vegna þessa baráttumáls han ef marka má skemmtilega óveðursbloggfærslu hans.

En frændi minn Gísli Marteinn lét ekki deigan síga. Hann hélt áfram baráttu sinni fyrir bættum hag hjólreiðamanna í borginni. Baráttu sem skilað hefur Reykvíkingum stórbættum reiðahjólasamgöngum og Gísla Marteini ófáa háðsglósuna.

Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur einstaka sinnum reynt að slá sér á brjóst og láta líta út að hann sé „hjólreiðameirihlutinn“.  Auðvitað ber að þakka þeim fyrir það sem gott hefur verið gert og mun verða gert hjólreiðamálum. En það má ekki gleyma því að Gísli Marteinn á – að öðrum ólöstuðum – einn stærsta þátt í mikilli uppbyggingu á hljólreiðaleiðum í höfuðborginni.

Það skal hann eiga.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur