VG hefur tekið mikilvægt skref til þess að bjarga Samfylkingunni frá afhroði í næstu kosningum og á sama tíma kaffæra Framsóknarflokkinn sem undanfarin misseri hefur markvisst leitað inn í ákveðinn hluta kjósendahóps VG með óbilgjarnri andstöðu Framsóknar við aðildarviðræður að Evrópusambandinu.
Krafa VG um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði endurskoðuð er klárlega sett fram til að styrkja stöðu flokksins meðal andstæðinga Evrópusambandsins sem hafa verið óánægðir með það sem þeir túlka linkind VG í Evrópumálum og hallað sér að Framsókn.
Það munu verða átök innan ríkisstjórnarinnar milli VG og Samfylkingarinnar vegna þessa. Þau átök munu styrkja verulega stöðu Samfylkingarinnar meðal þeirra kjósenda sem aðhyllast aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það gleymist að stór hópur kjósenda er ekki búinn að gera upp við sig hvort ganga skuli í Evrópusambandið en vilja sjá niðurstöðu aðildarviðræðna áður en ákvörðun er tekin.
Með hertri stefnu VG í Evrópumálum þá er það einungis Samfylking og Björt Framtíð sem er vænlegur kostur fyrir evrópusinnaða kjósendur. Þessi herta stefna getur bjargað Samfylkingunni sem stendur afar illa um þessar mundir. Ekki vegna Evrópumála helfur vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum öðrum málum.
Framsóknarflokkurinn náði þokkalegri kosningu í síðustu Alþingiskosningum annars vegar vegna þess að flokkurinn hafði fendurnýjað flokksforystu sína á glæsilegu 900 manna flokksþingi í janúar 2009 en ekki síður vegna þeirrar vönduðu, hófsömu og frjálslyndu stefnuskrár sem það tímamótaflokksþing samþykkti.
Illu heilli þá sneri stór hluti þingflokks Framsóknarflokksins fljótlega baki við hinni hófsömu 0g frjálslyndu stefnuskrá. Tóku einstaka þingmenn flokksins upp afar óbilgjarnan málflutning í flestum málum og unnu gegn nokkrum grundvallaratriðum í samþykktri stefnu flokksins. Þá er ég ekki eingöngu að ræða um hina hófsömu og skynsamlegu stefnu í Evrópumálum sem flokksþingið 2009 samþykkti.
Enda fór það svo að stefnuskránni frá því 2009 sem var grundvöllir þess að núverandi þingflokkur Framsókanrflokksins var kjörinn var hent út í ysta hafsauga á fámennu 300 manna flokksþingi Framsóknar árið 2011 að tilstuðlan nýrrar forystu.
Þrátt fyrir að hafa setið í stjórnarandstöðu gegn afar óvinsællri ríkisstjórn, þrátt fyrir óbilgjarnan málflutning í ýmsum málum og þrátt fyrir harða andstöðu gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki náð meira fylgi í skoðanakönnunum en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Flokkurinn er því kominn í alvarlegan tilvistarvanda.
Nú þegar VG herðir á afstöðu sinni í Evrópumálum þá mun stór hluti þeirra óánægðu kjósenda VG leita aftur frá Framsóknarflokknum á heimaslóð. Þeir kjósendur VG sem styðja aðildarviðræður að Evrópusambandinu munu hins vegar eðli málsins ekki leita til Framsóknar. Þeir munu frekar styðja Samfylkingu eða mögulega annað framboð sem ekki er í krossferð gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu.
Framsóknarflokkurinn getur heldur ekki sett í bakkgír og þóst taka aftur upp hófsama, frjálslynda stefnu sína frá því árið 2009. Flokkurinn mun ekki geta náð aftur til þeirra hófsömu, frjálslyndu kjósenda sem kusu flokkinn í síðustu alþingiskosningum.
Þeir kjósendur í þeim hópi sem eru með aðildarviðræðum að Evrópusambandinu munu hafa tvo valkosti. Samfylkingu annars vegar og Bjarta Framtíð hins vegar. Stór hluti þeirra mun ekki vilja kjósa Samfylkingu. Því á Björt Framtíð mikið sóknarfæri meðal þeirra ef þeim nýja flokk tekst vel upp í málefnavinnu og uppstillingu á lista.
Þeir frjálslyndu kjósendur sem hætt hafa stuðningi við Framsóknarflokkinn og eru á móti aðildarviðræðum að Evrópusambandinu munu heldur ekki koma til baka. Það er einfaldara fyrir þá að leita til Sjálfstæðisflokksins enda var stór hópur fyrrum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður og stuðningsmanna Guðlaugs Þórs sem kaus Sigmund Davíð til að sýna óánægju sína með það sem þeim fannst aðför að Guðlaugi Þór sem endaði á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík suður.
Nýtt útspil VG veldur því að Framsókn situr inni með Svarta Pétur og á fá tromp á hendi!