Mánudagur 13.8.2012 - 09:09 - 9 ummæli

Framsókn sökkt Samfó bjargað!

VG hefur tekið mikilvægt skref til þess að bjarga Samfylkingunni frá afhroði í næstu kosningum og á sama tíma kaffæra Framsóknarflokkinn sem undanfarin misseri hefur markvisst leitað inn í ákveðinn hluta kjósendahóps VG með óbilgjarnri andstöðu Framsóknar við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. 

Krafa VG um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði endurskoðuð er klárlega sett fram til að styrkja stöðu flokksins meðal andstæðinga Evrópusambandsins sem hafa verið óánægðir með það sem þeir túlka linkind VG í Evrópumálum og hallað sér að Framsókn.

Það munu verða átök innan ríkisstjórnarinnar milli VG og Samfylkingarinnar vegna þessa. Þau átök munu styrkja verulega stöðu Samfylkingarinnar meðal þeirra kjósenda sem aðhyllast aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það gleymist að stór hópur kjósenda er ekki búinn að gera upp við sig hvort ganga skuli í Evrópusambandið en vilja sjá niðurstöðu aðildarviðræðna áður en ákvörðun er tekin.

Með hertri stefnu VG í Evrópumálum þá er það einungis Samfylking og Björt Framtíð sem er vænlegur kostur fyrir evrópusinnaða kjósendur. Þessi herta stefna getur bjargað Samfylkingunni sem stendur afar illa um þessar mundir. Ekki vegna Evrópumála helfur vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum öðrum málum.

Framsóknarflokkurinn náði þokkalegri kosningu í síðustu Alþingiskosningum annars vegar vegna þess að flokkurinn hafði fendurnýjað flokksforystu sína á glæsilegu 900 manna flokksþingi í janúar 2009 en ekki síður vegna þeirrar vönduðu, hófsömu og frjálslyndu stefnuskrár sem það tímamótaflokksþing samþykkti.

Illu heilli þá sneri stór hluti þingflokks Framsóknarflokksins fljótlega baki við hinni hófsömu 0g frjálslyndu stefnuskrá. Tóku einstaka þingmenn flokksins upp afar óbilgjarnan málflutning í flestum málum og unnu gegn nokkrum grundvallaratriðum í samþykktri stefnu flokksins. Þá er ég ekki eingöngu að ræða um hina hófsömu og skynsamlegu stefnu í Evrópumálum sem flokksþingið 2009 samþykkti.

Enda fór það svo að stefnuskránni frá því 2009 sem var grundvöllir þess að núverandi þingflokkur Framsókanrflokksins var kjörinn var hent út í ysta hafsauga á fámennu 300 manna flokksþingi Framsóknar árið 2011 að tilstuðlan nýrrar forystu.

Þrátt fyrir að hafa setið í stjórnarandstöðu gegn afar óvinsællri ríkisstjórn, þrátt fyrir óbilgjarnan málflutning í ýmsum málum og þrátt fyrir harða andstöðu gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki náð meira fylgi í skoðanakönnunum en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.

Flokkurinn er því kominn í alvarlegan tilvistarvanda.

Nú þegar VG herðir á afstöðu sinni í Evrópumálum þá mun stór hluti þeirra óánægðu kjósenda VG leita aftur frá Framsóknarflokknum á heimaslóð. Þeir kjósendur VG sem styðja aðildarviðræður að Evrópusambandinu munu hins vegar eðli málsins ekki leita til Framsóknar. Þeir munu frekar styðja Samfylkingu eða mögulega annað framboð sem ekki er í krossferð gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu.

Framsóknarflokkurinn getur heldur ekki sett í bakkgír og þóst taka aftur upp hófsama, frjálslynda stefnu sína frá því árið 2009. Flokkurinn mun ekki geta náð aftur til þeirra hófsömu, frjálslyndu kjósenda sem kusu flokkinn í síðustu alþingiskosningum.

Þeir kjósendur í þeim hópi sem eru með aðildarviðræðum að Evrópusambandinu munu hafa tvo valkosti. Samfylkingu annars vegar og  Bjarta Framtíð hins vegar. Stór hluti þeirra mun ekki vilja kjósa Samfylkingu. Því á Björt Framtíð mikið sóknarfæri meðal þeirra ef þeim nýja flokk tekst vel upp í málefnavinnu og uppstillingu á lista.

Þeir frjálslyndu kjósendur sem hætt hafa stuðningi við Framsóknarflokkinn og eru á móti aðildarviðræðum að Evrópusambandinu munu heldur ekki koma til baka. Það er einfaldara fyrir þá að leita til Sjálfstæðisflokksins enda var stór hópur fyrrum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður og stuðningsmanna Guðlaugs Þórs sem kaus Sigmund Davíð til að sýna óánægju sína með það sem þeim fannst aðför að Guðlaugi Þór sem endaði á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík suður.

Nýtt útspil VG veldur því að Framsókn situr inni með Svarta Pétur og á fá tromp á hendi!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.8.2012 - 10:20 - 4 ummæli

Tryggt trúfrelsi og þjóðkirkja

Tvö meginstef trúmála í stjórnarskrá eiga að vera tryggt trúfrelsi og sjálfstæð þjóðkirkja sem reglulega sækir umboð sitt sem sérstök þjóðkirkja til þjóðarinnar. Það eru skiptar skoðanir meðal þjóðarinnar hvort þjóðkirkja Íslands eigi að hafa sérstakan sess umfram önnur trúfélög í stjórnarskránni. Það er eðlilegt.

Ég hef lengi verið talsmaður algers aðskilnaðar ríkis og kirkju. Ég hef talið að með slíkum aðskilnaði gæti staða kirkjunnar styrkst meðal þjóðarinnar. Það má reyndar ekki gleyma því að kring um aldamótin síðustu var að mörgu leiti skilið á milli þjóðkirkjunnar og ríkisins. Kirkjan er ekki lengur hrein ríkiskirkja heldur sjálfstæð þjóðkirkja með sérstaka stöðu og styrk frá ríkinu.

En það er ekki mitt að ákveða. Það er þjóðarinnar.

Nú líður að kosningu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Í tillögum ráðsins er gert ráð fyrir að hugtakið „þjóðkirkja“ verði afnumið úr stjórnarskrá. Með því telja margir stjórnlagaráðsmenn að lagaleg forréttindi þjóðkirkjunnar séu í raun afnumin.

Stjórnlagaráð tekur hins vegar ekki beina afstöðu til þess hvort afnema eigi núverandi stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu heldur felur Alþingi að taka afstöðu til þess. Stjórnlagaráð tryggir hins vegar í tillögum sínum að slík breyting á skipan þjóðkirkjunnar – sem reyndar er ekki lengur skilgreind sem þjóðkirkja í stjórnarskrá – skuli lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er réttmætt og reyndar í takt við ákvæði núverandi stjórnarskrár.

Tillaga stjórnlagaráðs um kirkjuskipan er eftirfarandi:

„Í lögum má kveða á um kirkjusipan ríkisins. Nú samþykkir Alþingi breytingar á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar“.

Ég held að þessi lending stjórnlagaráðs sé farsæl og eðlileg. Alþingi getur lagt til breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar en þjóðin verður að samþykkja þá breytingu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þótt staða kirkjunnar sé sett í hendur Alþingis á þennan hátt þá kemur það ekki í veg fyrir það að breytingar verði gerðar á kirkjuskipan án frumkvæðis Alþingis. Þjóðin getur farið fram á breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar. Þá leið tryggir stjórnlagaráð í tillögu að afar mikilvægu, lýðræðislegu stjórnarskrárákvæði sem stóreykur rétt almennings til að hafa áhrif á lagasetningu.

Ákvæðið hljóðar svo:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi. Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.“

Þetta ákvæði tryggir að 10% þjóðarinnar getur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu þjóðkirkjunnar. Ég er viss um að það verði gert.

Stjórnlagaráð tryggir jafnframt áframhaldandi virkt trúfrelsi á Íslandi:

„Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“

Ég er því afar sáttur við þá lausn sem stjórnlagaráð náði um trúfrelsi og stöðu þjóðkirkjunnar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.8.2012 - 19:24 - 3 ummæli

Súrsætur bati í byggingariðnaði

Það eru veik ein skýr batamerki í byggingariðnaði á Íslandi. Hagstofan hefur staðfest þessi veiku batamerki en í Mogganum í dag má sjá eftirfarandi:

„Sala á sementi hefur aukist um 27,2% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra að því er fram kemur í gögnum frá Hagstofu Íslands. Segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, að „tilfinningin í vor hafi verið að íbúðamarkaðurinn væri að fara í gang“ og að tölurnar staðfesti það.“ ( Sjá greinina “ Menn eru farnir af stað“)

En þessi bati er súrsætur. Sérstaklega fyrir þau vel reknu fyrirtæki sem ekki urðu tæknilega gjaldþrota í kjölfar hrunsins heldur byggðu rekstur sinn á forsjálni og öryggi. Ég þekki til hóflega rekins fyrirtækis í byggingariðnaði sem neitaði að taka þátt í stóru veislunni og vildi frekar færri og öruggari verkefni – minni og hóflegri skuldsetningu.

Fyrirtækjum eins og þessu vel rekna fyrirtæki er nú refsað fyrir forsjálnina. Þetta fyrirtækið – eins og nokkur önnur fyrirtæki í byggingariðnaði sem voru vel og skynsamlega rekin –  stendur í skilum með skuldbindingar sínar og reynir að halda áfram á skynsömum nótum og bíður í verk á eðlilegum grunni þar sem markmiðið er hagvæmni en ekki taprekstur.

En þetta fyrirtæki og fyrirtæki á svipuðu reki á oft á tíðum ekki séns. Það horfir upp á rótgróna aðilja í byggingariðnaði sem gegnum vinavæðingu viðskiptabankanna hafa fengið milljarða afskrifaða og samt haldið eignum sínum – undirbjóða verk á markaði. Og það á sama tíma og afskriftakóngarnir eru að setja í gang hálfklárið – áður yfirveðsett byggingarverkefni – og það með framkvæmdafjármögnun frá sömu bönkum og hafa þegar afskrifað af þeim milljarða.

Þetta er ekki bara súrsætt. Það er afar beiskt gallbragð af þessum væga bata í byggingariðnaði. Vægum bata byggðum á einkavinavæðingu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.8.2012 - 13:30 - 3 ummæli

Að kyrkja kýr

Sú árátta stjórnvalda að kyrkja allar mjólkurkýr Íslands nálgast blæti. Nú á að þrengja að ferðaþjónustunni með grófri hækkun á virðisaukaskatti á gistingu. Hækkunin – ef af verður – mun annars vegar lækka heildartekjur Íslands af ferðaþjónustu og hins vegar hækka vertryggð langtímalán fjölskyldnanna í landinu.

Hvernig væri að ríkisstjórnin einbeiti sér að auka tekjur íslenska ríkisins með því að stuðla að heildartekjuaukningu atvinnugreina sem skilar sér til ríkisins, atvinnulífs og almennings – í stað endalausrar skattpíningar – sem mögulega en ekki örugglega eykur tekjur ríkisins en dregur úr tekjum fyrirtækja og almennings?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.8.2012 - 09:50 - Rita ummæli

Stjórnmálaflokkarnir áhyggjuefni

Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins hefur áhyggjur af Framsóknarflokknum. Það er ástæða til þess. Vandamálið er hins vegar að það þarf ekki að hafa áhyggjur af Framsóknarflokknum einum heldur þarf að hafa áhyggjur af flokkakerfinu í heild sinni. 

Þróun stjórnmálaflokkanna allra hefur ekki verið góð undanfarin ár. Óbilgirni og átök hafa alls staðar aukist í stað þess að byggja stjórnmálastarfið á samvinnu og jákvæðri uppbyggingu.

Stjórnmálaumræðan hefur einkennst annars vegar af neikvæðu niðurrifi og hins vegar gagnrýnilausu barnalegu sjálfshóli. Þessu þarf að breyta.  Ekki bara hjá Framsóknarflokknum sem Jón Sigurðsson hefur áhyggjur af – heldur einnig hjá Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki og VG.

Það skiptir máli fyrir framtíð Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.8.2012 - 10:24 - 3 ummæli

Framsóknarsmokkarnir

Baráttan fyrir bættu aðgengi að ódýrum smokkum var eitt af merkum baráttumálum okkar í Félagi ungra Framsóknarmanna í Reykjavík frá því haustið 1985. Þá voru smokkakaup feimnismál og aðgengið einungis í apótekum og á Núllinu í Bankastræti. En þrátt fyrir að baráttumálið hafi farið fyrir brjóstið á sumum miðaldra og þaðan af eldra Framsóknarfólki þá náði málið inn í kosningaskrá Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1986.

Aðrir stjórnmálaflokkar leiddu smokkamálið hjá sér.

Baráttumál okkar náðist hins vegar á flug nokkrum mánuðum síðar þegar heilbrigðisyfirvöld hófu að takast á við eyðnivánna sem þá hafði magnast og formaður Framsóknarflokksins Steingrímur Hermannsson sat fyrir á áróðursplaggati með smokk í hönd!

Ástæða þess að ég rifja þetta upp er að þrátt fyrir að bylting hafi orðið í aðgengi að smokknum þá er einungis hálfur sigur unninn í þessu gamla baráttumáli ungs Framsóknarfólks í Reykjavík.  Smokkar eru ennþá allt of dýrir og kostnaður við þá veldur því að unglingar sem farnir eru að stunda kynlíf sleppa því að kaupa smokka.

Smokkar eiga að vera staðalútbúnaður í útilegum ungs fólks. Maður veit aldrei …

Sem betur fer standa ýmis samtök fyrir því að dreifa ókeypis smokkum kring um útihátíðir. (Sama fyrirkomulag og á ólympíuleikunum 🙂 ) Þá getur ungt fólk nálgast ókeypis smokka í Hinu húsinu.

En hátt verð á smokkum er vandamál.

Það er lágmark að stjórnvöld taki þátt í baráttunni við kynsjúkdóma og ótímabærar þunganir með því að afnema virðisaukaskatt af smokkum!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.8.2012 - 08:32 - 4 ummæli

Endurheimtum gamla Kvennó!

Endurreisum bakhlið Gamla Kvennaskólans! Rífum skúradraslið sem hent var upp og eyðilagði fallega bakhliðina á sínum tíma. Gerum snyrtilegan bakgarð sem gestir og gangandi geta notið í góðu skjóli!
 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.7.2012 - 20:17 - 4 ummæli

Vaxtabótaklúður ríkisstjórnarinnar

Breytingar á vaxtabótakerfinu sem ríkisstjórnin stóð fyrir árið 2010 eru klúður. Þær koma þeim sem verst standa afar illa og munu væntanlega ríða einhverjum að fullu. Þó ber að hrósa fjármálaráðherra og skattstjóra fyrir eðlilega túlkun á lögunum þar sem ráðherrann og skattstjóri teygja sig í túlkun eins og unnt er innan ramma klúðurslaganna skuldendum húsnæðislána í hag.

Íbúðalánasjóðir fær hins vegar falleinkunn.  Forsvarsmenn sjóðsins túlka lögin skuldendum í óhag.  Sérkennileg afstaða og ekki sjóðnum fjárhagslega til framdráttar til lengri tíma litið.

Það var afar vanhugsað hjá ríkisstjórninni að breyta lögum um vaxtabætur á þann hátt sem gert var.  Hún hugsaði málið ekki alla leið. Ríkisstjórnin taldi ekki rétt að þeir sem ekki hefðu greitt af lánum sínum og þar af leiðandi ekki greitt vexti fengju vaxtabætur. Við fyrstu sýn virðist það eðlilegt.  Og það var ástæða til að breyta fyrirkomulaginu. En ekki með því að svipta fólk í greiðsluvanda dýrmætum vaxtabótum.

Vandinn sem ríkissjóður stóð frammi fyrir var að vaxtabæturnar fóru ekki endilega í að greiða vanskil húsnæðislána – þar með talin vaxtagjöld. Ástæðan var einföld. Fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafði skapað vandamálið með því að afnema það snjalla fyrirkomulag sem áður hafði gilt þegar vaxtabætur runnu ekki beint til skuldenda gegnum skattkerfið, heldur var skuldajafnað beint á ógreiddar, gjaldfallnar afborganir húsnæðislána.

Með því fyrirkomulagi var klárt að vaxtabæturnar gegndu því hlutverki sem þeim er ætlað að létta landlæga, óhóflega vaxtabyrði af húsnæðislánum. Með því fyrirkomulagi var tryggt að staða skuldenda húsnæðislána batnaði og möguleikar þeirra á að koma slíkum lánum í skil jukust verulega. Og með því lækkuðu vanskil við Íbúðalánasjóð.

Í stað þess að svifta þá sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum með húsnæðislánum þessum mikilvæga stuðningi sem vaxtabætur eru þá var einfaldari og réttlátari leið að endurvekja fyrra fyrirkomulag skuldajöfnunar – þó með þeim breytingum að skuldajöfnun rynni ekki einungis til Íbúðalánasjóðs heldur hlutfallslega jafnt til þeirra lánastofnanna sem veitt höfðu skilgreind húsnæðislán sem sköpuðu vaxtabótagrunn – óháð veðröð.

En þótt þessar breytingar ríkisstjórnarinnar á vaxtabótakerfinu hafi verið klúður þá verður að halda því til haga að ríkisstjórnin gerði mjög jákvæða og mikilvæga hluti með sérstökum vaxtabótum sem væntanlega hafa bjargað mörgum.  Einnig er sú fyrirætlan að endurskipuleggja húsnæðisbótakerfið og taka upp eina tegund húsnæðisbóta til fyrirmyndar og mikilla bóta.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.4.2012 - 22:32 - 8 ummæli

Vorið komið og ég farinn!

Þótt það sé pólitískur fimbulvetur þá er að koma vor. Hjá okkur hinum. Mig langar að njóta vorsins. Er ekki í skapi að fylgjast með niðurdrepandi og vonlausum stjórnmálamönnum Íslands. Nenni ekki í augnablikinu að benda á vanhugsuð frumvörp sem þingmenn illa að sér munu hvort eð er hleypa í gegnum þingið hvað sem ég segi. Sé nokkur slík á leiðinni.

Langar heldur ekki að fjalla um fjölmiðlastétt sem er að bregðast sem aldrei fyrr. Finnst það sorglegt. Með blaðamannaskírteini nr. 126.

Veit að það þýðir ekki að rökræða á málefnalegan hátt um kosti og galla mikilvægustu alþjóðasamninga sem Ísland hefur tekið þátt í – aðildarviðræður að Evrópusambandinu.  Treysti þjóðinni í að taka afstöðu til niðurstöðu slíks samnings en veit að varðhundar séríslenskra þröngra sérhagsmuna sem sumir komust á þing fyrir mitt tilstilli á fölskum forsendum munu gjamma lengur en vanstilltustu rakkar landsins.

Finnst hundar ekkert sérstaklega skemmtileg dýr en ber meiri virðingu fyrir þeim en sérhagsmunarökkunum á Alþingi.

Mér finnst gaman og fróðlegt að umgangast og ræða við eldra fólk. Það hefur yfir svo mikilli visku að ráða. Visku sem við miðaldara fólkið eigum að sjúga í okkur. Finnst þess vegna sorglegt hversu gamla fólkið í ríkisstjórninni er að koma slæmu orði á visku hinna öldruðu. Líklega vegna þess að gamla fólkið í forystu ríkisstjórnarinnar er ekki svo gamalt. Okkur finnst það bara því við erum búin að heyra sama nöldursönginn þeirra í svo marga áratugi.

„Minn tími mun koma!“ ….

Ég pakka því í bili. Læt aðra um að nöldra fram á sumar.  Ætla að njóta vorsins og upplifa það með börnunum mínum og konunni minni. Enda búinn að missa ánægjuna af því að blogga. Í bili.

… birtist aftur á blogginu í sumar. Ef mig langar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.4.2012 - 17:29 - 1 ummæli

Skemmdarverk Steingríms J.

Fjármálaráðuneytið hefur alla tíð verið valdagírugt og talið sig yfir önnur ráðuneyti hafið. Fjármálaráðherrar hafa iðulega fallið inn í þennan sérkennilega fjármálaráðuneytiskúltúr. Nú síðast Steingrímur J. sem fékk það í gegn að sölsa efnahagsmálunum undir fjármálaráðuneytið. Sem er galin hugmynd. En svolítið „pútínsk“.

Steingrímur J. varð reyndar að fórna fjármálaráðyuneytisstólnum til að koma eina ráðherranum frá sem eitthvað hafði að segja um efnahagsmál. En skaðinn var skeður og birtist nú í vondu frumvarpi um breytingar á stjórnarráðinu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur