Föstudagur 4.3.2011 - 18:38 - 15 ummæli

Bezta langatöng á lofti!

Bezti flokkurinn og bakhjarl hans í borgarstjórn hafa gefið starfsfólki grunnskóla og leikskóla Reykjavíkurborgar löngutöngina.

Ég var svo barnalegur að halda að sameiningar og aðrar breytingar á skipulagi grunnskóla og leikskóla hefðu að einhverju leiti verið unnar með starfsfólki skólanna. Svona í anda samvinnustjórnmála sem iðkuð voru í tíð Hönnu Birnu sem borgarstjóra og skiluðu milljarða sparnaði í sátt við starfsfólk.

En því er ekki fyrir að fara núna. Það er langatöngin sem gildir. Starfsfólk hunsað. Boðvald og tilskipanir að ofan. Án ígrundunar. Svona eins og í Sovétinu um árið. Stalín hefði orðið stoltur af Bezta og bakhjarli hans.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.3.2011 - 08:59 - 1 ummæli

Öskupokana á loft á ný!

Öskupokarnir eru komnir á loft á ný – nú til styrktar góðu málefni.  Hjálparfélagið Sóley og félagar hvetja kaupmenn og aðra að festa kaup á öskupokum til styrktar munaðarlausum börnum í Togo og afhenda börnum á öskudaginn í stað þess að dreifa sælgæti sem er seinni tíma siður hér sunnan heiða.

Sóley og félagar sem standa að þessari söfnun styðja við starfsemi systur Victo sem hefur opnað faðm sinn fyrir heimilislausum börnum í Togo. Ágóðinn af sölunni mun því renna þangað. Um samtökin og systur Victo má lesa hér.

Þess má geta að það eru fleiri íslensk mannúðarfélög sem starfa í Togo.  Spes samtökin sem Njörður P. Njarðvík og fleira gott fólk stofnuðu reka þar heimili fyrir munaðarlaus börn. Um samtökin má lesa hér.

Ég hvet Íslendinga til að leggja sitt af mörkum til beggja samtakanna.

Ég fagna því að ætlunin sé að lyfta öskupokunum til vegs og virðingar á ný og  endurbirti af því tilefni bloggpistil minn frá því árið 2008:

Það er sorglegt að vita til þess að hinir séríslenski öskupokar séu nánast horfnir, en þessi aldagamli íslenski siður lifði góðu lífi allt frá kaþólsku á Íslandi fram undir lok 20. aldarinnar. Ég hvet því alla foreldra sem enn muna hve skemmtilegt það var að næla öskupoka aftan í náungan að setjast við sauma í kvöld og kynna börnunum sínum þennan gamla, skemmtilega sið.

Þótt nútímabörnin séu fórnarlömb útlenskrar grímubúningamenningar þá er ekki úr vegi að viðhalda gömlu öskupokunum – þótt ekki væri nema sem hluti grímubúninganna – til dæmis að fá börnin til að hafa öskupoka hangandi einhversstaðar á grímubúningnum.

Eins og áður segir á öskupokasiðurinn sér rætur aftur úr kaþólsku, en askan er í Biblíunni tákn hins forgengilega og óverðuga, en í kaþólskunni var askan talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Enda tíðkaðistað dreifa ösku yfir kirkjugesti í á öskudag, dies cinerum, í upphafi lönguföstu. Öskunni var gjarnan dreift með sérstökum vendi – sem síðar varð bolluvöndur bolludagsins þegar lúterskan hafði tekið við. Sá siður kom reyndar ekki til Íslands fyrr en á 19. öld vegna danskra og norskra áhrifa.

Upphaf öskupokanna á Íslandi má væntanlega rekja til þess að fólk hafi viljað taka með sér hina hreinsandi ösku úr kirkjunni heim í bæ – þar sem hún hlyti líka að gera sitt heilaga gagn – og blessað heimilið.

Sá siður að hengja öskupoka aftan í heimilisfólkið á öskudag er að minnsta kosti frá því á miðri 18. öld – mögulega miklu eldri.

Einhverra hluta vegna þá þróaðist öskupokasiðurinn þannig að stelpurnar hengdu öskupoka á strákana, en strákarnir hengdu poka með steinum á stelpurnar. En aðalsportið var að koma pokanum á aðra – án þess að eftir væri tekið!

Í ljósi þessarar merku sögu íslensku öskupokanna hvet ég foreldra enn og aftur að endurvekja þennan skemmtilega sið öskudagsins – þótt ekki væri nema á þann táknræna hátt að öskupokinn sé hluti öskudagsbúningsins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.3.2011 - 09:00 - 8 ummæli

Framsókn frjálslynd eður ei?

Framsóknarflokkurinn verður að fara að gera upp við sig hvort hann ætlar áfram að skipa sér í sveit með frjálslyndum flokkum í Evrópu – og reyndar heiminum öllum. Framsóknarflokkurinn var um áratugaskeið virkur í samstarfi frjálslyndra flokka. Steingrímur Hermannsson var til að mynda varaforseti Liberal International – alþjóðasamtökum frjálslyndra flokka og beitt sér þar.

Framsóknarflokkurinn hefur lengst af átt afar gott samstarf við evrópska frjálslynda systurflokka sína sem starfa saman í ELDR – European Liberal Democrats.  Þingmenn þeirra flokka á Evrópuþinginu skipa þriðja stærsta þingflokkinn þar – ALDE group – Alliance of Liberals and Democrats for Europe. 

Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar ekki gengið í ELDR – ennþá.

Diana Wallis varaforseti Evrópuþingsins kemur einmitt úr ALDE group. Diana var í heimsókn á Íslandi í gær og hélt fyrirlestur á opnum fundi Alþjóðastofnunar HÍ, Rannsóknarseturs um smáríki og Lagastofnunar HÍ.

Þá átti Diana Wallis góðan fund með okkur sem vinnum að undirbúningi að stofnun nýs Evrópuvettvangs.

En þótt Framsóknarflokkurinn hafi gegnum áratugina tekið þátt í samstarfi frjálsyndra flokka þá hefur lítið borið á því samstarfi undanfarið.  Ekkert hefur verið unnið innan Liberal International.  Fulltrúar á vegum flokksins hafa átt gott samstarf við félag sína í ELDR og ALDE – en því miður hafa ekki verið tekin afstaða til ítrekaðra tillagna flokksmanna um að Framsóknarflokkurinn skipi sér áfram í sveit frjálslyndra flokka í Evrópu og gangi í ELDR.

Framsóknarflokkurinn verður að taka afstöðu til þess hvort hann vilji vera frjálslyndur flokkur í samstarfið við aðra frjálslyndar flokka og ganga til liðs við ELDR.   Tækifærið til þess er á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.3.2011 - 19:37 - 8 ummæli

Beztu skattpíningunni hafnað

Íslenska þjóðin var rétt nýbúin að hafna skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar þegar Bezti flokkurinn og bakhjarl hans í borgarstjórn ákvað að auka enn á skattpíningu Reykvíkinga.

Finnum við samhljóm með ósamhljómi á Íslandi og Norður-Afríku?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.3.2011 - 12:44 - 6 ummæli

Styð Svandísi Svavarsdóttur

Ég styð Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra í því átaki sem hún hefur hleypt af stokkunum og felst í aðgerðum til að auka útbreiðslu birkiskóga á Íslandi.

Umhverfisráðuneytið segir að með verkefninu sé stefnt að því að friða land fyrir beit í nágrenni birkiskóga, sér í lagi þar sem skógurinn getur breiðst út án verulegra annarra aðgerða en beitarfriðunar. Einnig geti í einhverjum tilvikum verið þörf á frekari aðgerðum, svo sem fræsáningu eða gróðursetningu.

Slík skógrækt geti verið framkvæmd á landi í umsjón stofnana umhverfisráðuneytisins og mun verða unnin greining á möguleikum þess.

Einnig verði lögð áhersla á samstarf við landeigendur um friðun lands frá beit í nágrenni birkiskóga/skógarleifa þar sem skógurinn geti fengið að breiðast út. Þetta séu eðlilega langtímaaðgerðir, þar sem miðað er við að tekin séu fyrir stór samfelld svæði.  

Frábært framtak – því það jafnast fátt á við fallega og vel ilmandi íslenska birkiskóga!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.2.2011 - 12:42 - 4 ummæli

Blóðugt ofbeldi á netinu

Ég er ekki viss um að foreldrar geri sér grein fyrir því hversu blóðugt ofbeldi er að finna á netinu og hversu mikilvægt það er að heimatölvan sé útbúin öflugri ofbeldis og klámsíu. Því miður er slík vörn ekki nægileg!  

Ég var að vafra um netið og skoða mismunandi  fréttaflutning af atburðunum í Norður-Afríku. Þar varð ég var við myndbandsbrot frá fréttastofum sem almennt eru taldar ábyrgar þar sem sjást afar óhuggulegar myndir af fólki falla fyrir byssukúlum, jafnvel sýndar aftökur.

Þá varð ég var við að ofbeldissían stoppaði nokkur myndskeið. Ég sá fljótt eftir því að hafa tekið ofbeldissíuna úr sambandi því ég endaði fljótt í myndasöfnum með myndskeiðum af afar blóðugu ofbeldi, dauðaslysum og jafnvel morðum.

Er hálf miður mín.

Er búinn að setja ofbeldis og klámvörnina aftur á – en verð að setja að mér er ekki alveg rótt.  Fyrst myndefnið á netinu hefur svona áhrif á harðsvíraðan hrokagikk eins og mig – hver eru þá áhrifin á börnin okkar ef og þegar þau komast í tæri við myndskeið af svo blóðugu ofbeldi ?  

Ég segi þegar – því tölvufærni unglinga er þannig að ég efast ekki um að þeir finna sér leiðir fram hjá ofbeldis- og klámsíum sem foreldrar setja upp á tölvurnar.

En það er deginum ljósara að slíkar síur eiga að vera á öllum þeim tölvum sem börnin okkar hafa aðgang að. Það er ekkert barnaefni það blóðuga ofbeldi sem er aðeins nokkrum músarklikkum frá börnunum okkar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.2.2011 - 19:35 - 9 ummæli

Gnarrinn ekki ruslborgarstjóri

Ég varð vitni að samtali þar sem Jón Gnarr – lesist borgarstjóri –  var sakaður um að vera ruslborgarstjóri. Ástæðan sú að ruslakallarnir eru hættir að taka við ruslatunnum sem eru 15 metra frá götu.  Nema þú borgir sérstaklega fyrir ómak ruslakallanna. Margir þeirra sem neyðast að borga eru einmitt þeir sem geta ekki trillað ruslatunnunum sínum  í átt að ruslaköllunum. Þurfa þvi að greiða auka skatt af takmörkuðum elli- og öryrkjubótum ef þeir vilja ekki drukkna í rusli.

Málið er að það var ekki Jón Gnarr sem fattaði upp á þessum íþyngjandi sparnaði.

Hugmyndin kom upp í farsælum Samvinnustjórnarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á síðari hluta síðasta kjörtímabils.  En leiðin var afskrifuð og sett í ruslið – meðal annars vegna andstöðu núverandi bakhjarls Bezta flokksins í borgarstjórn í samvinnuferlinu í borgarstjórn sem þá tíðkaðist.

Ég efast um að það hafi verið Jón Gnarr sem ákvað að breyta stefnu Samvinnustjórnarinnar – og ákvað að leggja nýjar álögur á eldra fólk og öryrkja.

Mig grunar að það hafi verið bakhjarl Bezta.

Hef reyndar áður velt upp spurningunni hver sé smiðurinn á bak við það að koma þessari umdeildu sparnaðarleið í framkvæmd. 

Hver það var sem setti sparnaðarleiðirnar á Odd á ný.   

Hver það var sem sá að þarna var Björkunarleið að ræða fyrir vanda borgarsjóðs.  

Er það ekki Deginum ljósara hver ákvað að fara þessa leið – þótt Jón Gnarr – lesist borgarstjóri – beri ábyrgð út á við?

Svar óskast.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.2.2011 - 23:27 - 4 ummæli

Breiður Evrópuvettvangur myndast

Breiður vettvangur fyrir hlutlæga umræðu um aðildarferlið að Evrópusambandinu er að myndast í kjölfar vel heppnaðs undirbúningsfundar á þriðjudag.  Vinnan er komin á fullt og nú hafa verið stofnaðir þrír vinnuhópar til undirbúnings stofnfundar.

Gretar Mar Jónsson leiðir vinnuhóp sem gerir tillögu að markmiðum og stofnskrá nýrra samtaka.

Björn S. Lárusson leiðir vinnuhóp sem gerir tillögu að formi og skipulagi samtakanna.

G Valdimar Valdemarsson leiðir vinnuhóp sem gerir tillögu að verkefnaáætlun.

Hóparnir byggja á þeirri vinnu sem var unnin og skráð á fyrsta undirbúningsfundinum þegar á fjórða tug fólks tók þátt í 5 umræðuhópum sem fjölluðu um eftirfarandi:

1. Er ástæða til að setja á fót sérstakan samstarfsvettvang frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu?

2. Í hvaða formi ætti slíkur samstarfsvettvangur að vera?

3. Hver ættu að vera helstu áhersluatriði og verkefni?

Þegar hafa verið stofnaðir samskiptahópar á facebook þar sem samskipti undirbúningshópanna fara fram milli funda. Áhugasamir geta skráð sig í hópana. Slóðirnar eru hér að neðan. 

Hópstjórarnir þeir Gretar Mar Jónsson, Björn S. Lárusson og G Valdimar Valdemarsson munu boða fundi í undirbúningshópunum í næstu viku.

Smellið á fyrirsagnirnar að neðan til að skrá ykkur í undirbúningshópa:

Markmið og stofnskrá nýrra samtaka.

Form og skipulag samtakanna.

Tillögur að verkefnaáætlun.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.2.2011 - 08:27 - Rita ummæli

Landbúnaðarstofnun á Sauðárkrók

Iðnaðarráðherra var að setja á fót nefnda sem skoða á að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag á lánastarfsemi Byggðastofnunar.  Það er nauðsynlegt að nefndin taki inn í myndina að Byggðastofnun taki yfir verkefni sem eiga heima í landbúnaðarstofnun.

Eins og fram hefur komið  núverandi fyrirkomulag þar sem ríkisvaldið hefur framselt umsýslu landbúnaðarstyrkja til hagsmunasamtaka bænda stenst engan veginn grundvallaratriði í vandaðri stjórnsýslu. Það er ljóst að því fyrirkomulagi þarf að breyta.  Slík breyting kanna að verða eitt af skilyrðum ESB ef ísland gengur í Evrópusambandinu.

Fyrst gera þarf breytingar á stjórnsýslu landbúnaðarins á að sjálfsögðu að flytja þennan hluta stjórnsýslunnar af malbikinu og í blómlegt landbúnaðarhérað. Þar kemur Skagafjörðurinn strax upp í hugann.

Byggðastofnun er staðsett á Sauðárkróki. Það gæti því verið snjallt að færa hluta stjórnsýslu landbúnaðarins inn í Byggðastofnun – og þar af leiðandi á Sauðárkrók.  Slíkur flutningur skiptir miklu máli fyrir Skagafjörð – en brotthvarfið úr Reykjavík skiptir engu máli fyrir Reykjavík.

… og fyrst verið er að skoða framtíð Byggðastofnunar á annað borð – þá er rétt að taka þetta með í reikninginn.

Sjá einnig fyrri pistil: „ESB“ stofnun í Skagafjörðinn“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.2.2011 - 09:37 - 19 ummæli

Flugtak vandaðrar aðildarumræðu

Ég er í skýjunum yfir fjölmennum og frábærlega velheppnuðum undirbúningsfundi að nýjum vettvangi fyrir vandaða Evrópuumræðu sem haldin var í gærkvöldi. Á fundinn mætti breiður hópur áhugafólks um tryggja hlutlægar umræður um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.

Sérstaklega skemmtilegt var að sjá þrjá fyrrverandi þingmenn úr þremur mismunandi stjórnmálaflokkum mæta á fundinn. Einnig hvernig flokksbönd röknuðu upp í frjórri umræðu um framtíðarmöguleika Íslands.

Fundarmönnum var skipt upp í 5 umræðuhópa sem fjölluðu um 3 meginspurningar:

1. Er ástæða til að setja á fót sérstakan samstarfsvettvang frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu?

2. Í hvaða formi ætti slíkur samstarfsvettvangur að vera?

3. Hver ættu að vera helstu áhersluatriði og verkefni?

Fundarmenn voru allir sammála um að stofna beri sérstakan samstarfsvettvang um framgang aðildarviðræðna að Evrópusambandinu þar sem hagsmunum Íslands verði haldið á lofti.  Samstarfsvettvangurinn taki ekki afstöðu til þess hvort ganga skuli í Evrópusambandið – þá ákvörðun verði hver og einn að taka þegar niðurstaða aðildarviðræðna liggur fyrir.

Fundarmenn voru almennt sammála um að vettvangurinn ætti ekki að starfa undir pólitískum hugtökum eins og „frjálslyndir“ eða „miðjufólk“ heldur að vera vettvangur þess hluta almennings sem vill ljúka aðildarviðræðum og að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fundarmenn voru almennt sammála um að vettvangurinn ætti að byggja á hlutlægri umræðu um mögulega aðild að Evrópusambandinu, vandaðri upplýsingaöflun um kosti og galla aðildar, vinna að fundarhöldum þar sem sérfræðingar og erlendir aðiljar ræði einstök álitaefni og veita samninganefnd Íslands jákvætt aðhald.

Í lok fundar skráðu þeir fundarmenn sem reiðubúnir eru að sitja í undirbúningshóp fyrir samstarfsvettvang á ofangreindum forsendum nafn sitt á lista. 14 aðilar rituðu nöfn sín og munu þeir aðiljar því skipa undirbúningshóp.

Undirbúningshópurinn mun vinna úr niðurstöðum undirbúningsfundarins og boða til stofnfundar.

Ég er stoltur yfir að hafa haft forgöngu um að halda undirbúningsfund um þetta málefni. Vettvangurinn er kominn úr mínum höndum og á flug með því kröftuga fólki sem mætti á undirbúningsfund. Ég finn að það er eitthvað gott að gerast.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur