Þriðjudagur 22.2.2011 - 11:51 - 2 ummæli

Evrópuvettvangur frjálslynds miðjufólks

Undirbúningsfundur vegna stofnunar Evrópuvettvangs frjálslynds miðjufólks verður haldinn í kvöld.  Með fundinum er verið að svara kalli fjölmargra á miðju íslenskra stjórnmála sem vilja vinna að framgangi aðildarumsóknar að Evrópusambandinu en eru ekki reiðubúnir til að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu fyrr en niðurstöður samningaviðræðna liggja fyrir.

Það eru allir velkomnir á fundinn sem haldinn verður að Digranesvegi 12 í Kópavogi og hefst klukkan 20:00.

Dagskrá fundarins má sjá í eftirfarandi fundarboði:

Undirbúningsfundur fyrir Evrópuvettvang frjálslynds miðjufólks  

Undirbúningsfundur fyrir hugsanlega stofnun samstarfsvettvangs frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu verður haldinn þriðjudaginn 22. febrúar kl. 20.00 í sal Framsóknarsalnum að Digranesvegi 12 Kópavogi.   Á fundinum verður fjallað um eftirfarandi:

  1. Er ástæða til að setja á fót sérstakan samstarfsvettvang frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu?
  2. Í hvaða formi ætti slíkur samstarfsvettvangur að vera?
  3. Hver ættu að vera helstu áhersluatriði og verkefni?
  4. Skipan undirbúningshóps

Allir velkomnir á undirbúningsfundinn.   Fundarboðandi er Hallur Magnússon“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.2.2011 - 19:55 - 2 ummæli

Opið bréf til Steingríms J.

Hæstvirtur fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon.  Ég vil bera undir yður spurningar og ætlast til þess að þér svarið þeim.

Í  Kastljósi í kvöld notið þér sem rök gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um fjárhagsleg mál ríkisins ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að setja 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð sem dæmi um ákvörðun sem ekki eigi að leggja fyrir þjóðina.

Áður en ég ber upp spurninguna þá vil ég minna yður á að það hafa engin rök komið fram frá stjórnvöldum um af hverju þessi ákvörðun var tekin. Einnig að það er EKKI lagaskylda að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs skuli vera 5 í CAD og einnig að ekkert bendir til greiðslufalls Íbúðalánasjóðs vegna afborgana af fjármögnunarbréfum sínum næstu misserin. 

Af hverju ákváðu þér að beita yður fyrir því að leggja 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð?

Hver eru rökin fyrir þeirri ákvörðun?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.2.2011 - 14:43 - 7 ummæli

Yfir 3000 kall í strætó!

Það er vetrarfrí hjá börnunum. Eiginkonan ákvað að fara með þau í Listasafn Reykjavíkur. Í stætó.  Hún var að hringja. Vil að ég sæki þau á bílnum niðrí bæ.  Ástæðan?  Það er miklu ódýrara en strætó!

Börnin mín þau þrjú yngstu eru 6 ára, 10 ára og 12 ára. Konan mín rétt rúmlega fertug. Strætóferðin þeirra niðrí bæ kostaði 1400 krónur.  Ef ég hefði farið með þá hefði hún kostað 1650 krónur. Fram og til baka 3300 krónur!

Ég ætla að skjótast eftir þeim. Það borgar sig. Þótt bensínið sé dýrt.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.2.2011 - 18:21 - 5 ummæli

Já er ekki ríkisstjórnarstuðningur

Það er lykilatriði í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu að atkvæðagreiðslan er ekki um ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Já er ekki ríkisstjórnarstuðningur.

Ef ríkisstjórnin vill að þjóðin samþykki samninginn um IceSave – þá verður hún strax að gefa út að hún líti ekki á atkvæðagreiðsluna vera atkvæðagreiðslu um stjórnmálaflokka og ríkisstjórn.

Ef ríkisstjórnin hótar afsögn ef samningurinn um IceSave verður felldur – þá er nokkuð ljóst að samningurinn verður felldur. 

Svo fremi sem ríkisstjórnin geri ekki einvherja vitleysu í aðdraganda kosninganna – þá tel ég að samningurinn verði samþykktur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.2.2011 - 18:29 - 2 ummæli

Samvinnu um vinnu!

Íslenskir stjórnmálaflokkar – í stjórn og stjórnarandstöðu – eiga að hundskast til að setjast niður með samtökum atvinnurekenda, verkalýðs og opinberra starfsmanna og hefja samvinnu um vinnu!

Íslendingar þrífast ekki í atvinnuleysi og atvinna er það sem þarf til að koma efnahagslífinu og fjárhag hins opinbera í lag!

Samvinnu um vinnu – takk!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.2.2011 - 21:10 - 15 ummæli

Grundvöllur Framsóknar

Ég var spurður að því í dag af hverju ég hefði starfaði í Framsóknarflokknum í 25 ár. Ég svaraði eins og satt er að ég hefði alltaf verið frjálslyndur miðjumaður og að grunnstefna Framsóknarflokksins hefði höfðað mest til mín þegar ég ákvað að hefja þátttöku í stjórnmálum. Sú ákvörðun að velja Framsóknarflokkinn var tekin eftir að hafa sótt fundi allra stjórnmálaflokka og ég kynnt mér stefnumál þeirra allra.

Ég starfaði af heilindum innan flokksins á aldarfjórðung og lagði mitt af mörkum til að bæta samfélagið með leiðarljósið „Frelsi með félagslegri ábyrgð“.  Kom því slagorði reyndar á flot innan flokksins – hafði fengið það lánað frá norrænum systurflokki.

Ég mun halda áfram að leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið á grunni hugmyndarinnar um frelsi með félagslegri ábyrgð  þótt ég hafi kosið að starfa utan flokka frá og með fullveldisdeginum 1. desember síðastliðinn.

Mér þykir vænt um Framsóknarflokkinn og mér finnst grunngildi hans frábær.

Framsóknarflokkurinn á sér nefnilega grundvallarstefnuskrá sem er einskonar stjórnarskrá flokksins. Því miður hafa margir Framsóknarmenn gleymt þessari ágætu grundvallarstefnuskrá.

Mig langar að koma þessari ágætu grundvallarsefnuskrá á framfæri:

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.
 
I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.
 
II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
 
III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.
 
IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.
 
V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.
 
VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.
 
VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.
 
VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.
 
IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.
 
X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.2.2011 - 22:02 - 8 ummæli

Undirbúningsfundur fyrir Evrópuvettvang frjálslynds miðjufólks

Undirbúningsfundur fyrir Evrópuvettvang frjálslynds miðjufólks
 
Undirbúningsfundur fyrir hugsanlega stofnun samstarfsvettvangs frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu verður haldinn þriðjudaginn 22. febrúar kl. 20.00 í sal Framsóknarsalnum að Digranesvegi 12 Kópavogi.
 
Á fundinum verður fjallað um eftirfarandi:
  1. Er ástæða til að setja á fót sérstakan samstarfsvettvang frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu?
  2. Í hvaða formi ætti slíkur samstarfsvettvangur að vera?
  3. Hver ættu að vera helstu áhersluatriði og verkefni?
  4. Skipan undirbúningshóps
Allir velkomnir á undirbúningsfundinn.
 
Fundarboðandi er Hallur Magnússon“
 
Því miður náði þessi tilkynning ekki inn í rafrænt fréttabréf Framsóknarflokksins í dag!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.2.2011 - 21:12 - 3 ummæli

Frjálslyndir evrópskir Framsóknarmenn

Frjálslyndir Framsóknarmenn í Evrópu hafa með sér afar sterk og áhrifarík samtök. Samtökin nefnast ELDR sem er skammstöfun fyrir European Liberal Democrats.  Í samtökunum eru fjölmargir frjálslyndir flokkar sem um langt árabil hafa átt í samstarfi við Framsóknarflokkinn og líta á hann sem systurflokk sinn á Íslandi.

Þingmenn á Evrópuþinginu sem tilheyra aðildarflokkum ELDR mynda með sér þingflokk innan Evrópuþingsins undir heitinu Alliance of Liberals and Democrats for Europe – eða ALDE. Oftast kalla ALDE group.

ALDE er þriðji stærsti þingflokkur á Evrópuþinginu og hefur mikil áhrif.

Þótt ég hafi sagt mig úr Framsóknarflokknum þá hef ég ekki sagt skilið við frjálslynda miðjustefnu. Ég samsama mig enn við gömlu góðu frjálslyndu miðjustefnuna og samvinnustefnuna sem hefur gegnum tíðina verið hugmyndafræðilegur grundvöllur Framsóknarflokksins.  Sú stefna hefur haft skírskotun langt úr fyrir hóp harðra stuðningsmanna Framsóknarflokksins.

Ég samsama mig mjög við þá frjálslyndu lýðræðisstefnu sem er aðalsmerki ALDE group og flokkanna sem mynda ELDR. Í anda þeirrar stefnu hef ég ákveðið að boða til undirbúningsfundar að stofnun áhugasamtaka um framgang aðildarumsóknar að Evrópusambandinu á grundvelli samvinnu og frjálslyndrar miðjustefnu.  Undirbúningsfundurinn verður haldinn þriðjudagskvöldið 22. febrúar kl. 20:00 – væntanlega í fundarsal á efstu hæð Hverfisgötu 33.

Þeir sem vilja kynna sér hvernig sú stefna er útfærð í Evrópu og á Evrópuþingunu geta kynnt sér vefsíður ELDR og ALDE.

ELDR – smellið hér

ALDE – smellið hér

Þeir sem vilja taka þátt í undirbúningi að stofnun áhugasamtaka um framgang aðildarumsóknar að Evrópusambandinu á grundvelli samvinnu og frjálslyndrar miðjustefnu – geta sent mér póst á netfangið hallurmagg@gmail.com .

Minni á fyrri pistli minn „Framsókn faglegust í ESB“ þar sem ég rek framgang Evrópuumræðunnar innan Framsóknarflokksins árin 2001 til ársins 2009 – þegar flokkurinn samþykkti metnaðarfulla stefnu sem fól í sér að gagna skyldi til aðildarviðræðna að Evrópusambandinu á grundvelli ákveðinna skynsamlegra skilyrða.

Sjá greinina með því að smella hér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.2.2011 - 22:24 - 13 ummæli

Framsókn faglegust í ESB?

Framsóknarflokkurinn var um langt árabil faglegasti stjórnmálaflokkurinn þegar unnið var í stefnumótun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að ESB.  Framsóknarflokkurinn vann undirbúning Evrópustefnu sinnar á árabilinu 2001 til 2009 afar faglega.

Í kjölfar afar vandaðrar greiningarvinnu Framsóknarflokksins í aðdraganda flokksþings árið 2005 var ljóst að klár meirihluti Framsóknarmanna vildu skoða aðildarumsókn að Evrópusambandinu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

En vegna hatrammrar baráttu stækra andstæðinga Evrópusambandsins gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði skoðuð gáfu stuðningsmenn mögulegrar aðildarumsóknar eftir. Flestir þeirra mátu mikilvægara að halda flokknum saman og fresta ákvörðun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að sinni.

Enda börðust meðal annars áhrifamiklir ráðherrar og fyrrverandi ráðherrar með kjafti og klóm gegn meirihlutaskoðun flokksþingsfulltrúa í Evrópumálum. Þar gerði tilfinningaríkt innlegg hins ástsæla leiðtoga Framsóknarmanna, Steingríms Hermannssonar heitins, gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu gæfumuninn.

Fylgjendur aðildarumsóknar að Evrópusambandinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum drógu sig í hlé í anda samvinnu og frjálslyndis til að koma í veg fyrir alvarlega sundrung flokksins. Andstæðingar aðildarumsóknar unnu fullan sigur þótt færri væru.

Afleiðingar þessa varð sú að fjölmargir góðir samvinnumenn og frjálslyndir miðjumenn hættu þátttöku í starfi Framsóknarflokksins og sumir sögðu sig alfarið úr flokknum.

Þrátt fyrir þetta hélt fagleg umræða um kosti og galla aðildar að Framsóknarflokknum áfram innan flokksins. Sú umræða náði hámarki í aðdraganda flokksþings í janúar 2009 – flokksþings sem svaraði kalli þjóðarinnar um endurnýju og endurnýjaði algerlega forystusveit Framsóknarflokksins.

Hluti hins nýja Framsóknarflokks var breið samstaða um að sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum. Rúmlega 90% þingfulltrúa á rúmlega 900 fulltrúa flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 samþykkti að hefja ætti aðildarumsókn.

Þrátt fyrir það var lítill en afar öflugur hópur innan Framsóknarflokksins sem staðfastlega vildi vinna gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Sumir þeirra ákváðu að bera kápuna á báðum öxlum og tjá sig sem minnst um samþykkta stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum.

Fleiri en einn og fleiri en tveir þeirra náðu að komast í efstu sæti Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2009 og fleiri en einn og fleiri en tveir náðu kjöri.

Þrátt fyrir skýra stefnu Framsóknarflokksins sem byggist á margra ára faglegrar upplýsingaöflunar og umræðu um kosti og kalla aðildar að Evrópusambandinu, þá telja flestir kjósendur að Framsóknarflokkurinn sé gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Eðlilega þar sem áberandi þingmenn tala og kjósa gegn stefnu sem grasrót Framsóknarflokksins vann og samþykkti á flokksþingi í janúar 2009.

Stefnu sem byggir á margra ára umræðu og upplýsingaöflun.

Það er sárgrætilegt að horfa upp á þessa stöðu þar sem sumir þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins vanvirða áralanga faglega vinnu almennra Framsóknarmanna og vinna gegn samþykktri stefnu flokksins um aðildarviðræður á grunni ákveðinna skilyrða.

Eftirfarandi var eitt helsta áherslutriði í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar árið 2009:

“… að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar líkt og kveðið er á um í skilyrðum síðasta flokksþings framsóknarmanna. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings.”

Þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki lengur að vinna heilsteyptur að framgangi aðildarumsóknar að Evrópusambandinu er ljóst að núverandi og fyrrverandi Framsóknarmenn og aðrir miðjumenn sem vilja láta reyna á aðildarumsókn að Evrópusambandinu verða að finna sér öflugan vettvang utan Framsóknarflokkinn þar sem leiðarljósið er samvinna og frjálslynd miðjustefna.

Fagleg vinna Framsóknarflokksins í Evrópumálum:

Evrópunefnd Framsóknarflokksins 2001 – niðurstöður smella hér 

Skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2007 – smella hér

Skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins 2008: „Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrismálum“

Samþykkt stefna Framsóknarflokksins á flokksþingi 2009 – smella hér

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.2.2011 - 12:08 - 3 ummæli

Skólabörn 1 – Bezti 0

Skólabörn í Reykjavík unnur mikilvægan sigur þegar Bezti flokkurinn og bakhjarl hans í borgarstjórn ákváðu að gefa eftir og hætta við boðaðan niðurskurð í kennslu í grunnskólunum.

Fram kom hjá formanni menntaráðs að þegar Bezti og bakhjarl hans í borgarstjórn fóru að skoða málið þá hafði þeim brugðið yfir því að á undanförnum misserum hafi þegar verið skorið niður í kennslunni.

Því miður er þetta einkennandi fyrir Bezta og bakhjarl hans í borgarstjórn.  Fyrst er skotið – svo er skoðað!

Hvernig væri að menn tækju upp samvinnustjórnmálin sem stunduð voru í borgarstjórn síðari hluta síðasta kjörtímabils.  Og kynni sér einnig málin og stöðuna áður en vaðið er út í vitleysuna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur