Mánudagur 7.2.2011 - 07:37 - 10 ummæli

Stórhækkum laun kennara

Við eigum að  stórhækka laun grunnskólakennara. Við eigum líka að fækka þeim. Samhliða eigum við að lengja skólaárið, lengja skilgreindan skóladag og lengja viðveruskyldu kennara í skólanum. Þá eigum við einnig að lengja nám grunnskólakennara úr 3 námsárum í 5 námsár. Þar af á 1 námsár að vera alfarið unnið í grunnskólunum – 6 mánuðir í senn.  Á námsstyrk en ekki námsláni.

Skóli er ekki hús. Skóli er samfélag. Því höfum við gleymt.

Í samfélaginu grunnskóli eigum við að blanda hefðbundinni grunnskólakennslu við aðra samfélagslega þætti grunnskólanema. Við eigum að innlima forskóla tónskólans inn í grunnskólann. Allir nemendur grunnskólans eiga að eiga val um það að sita forskóla tónlistarskólans.

Við eigum að taka æfingar í hinum fjölbreytti íþróttum íþróttafélaganna inn í grunnskólann í að minnsta kosti til 12 ára aldurs. Við eigum að bjóða frjálsum félagasamtökum að vinna með grunnskólanum innan grunnskólans á grunnskólatíma við að þroska börnin okkar í samvinnu við foreldra. Hvort sem um er að ræða skátana, ungmennafélög björgunarsveitanna, leikfélög, kirkjuna, samtök múslíma á Íslandi, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnaness, Rauðakrossinn, hestamannafélög eða barnakóra.

Einhver ósammála?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.2.2011 - 18:25 - 26 ummæli

Þjóðaratkvæði um IceSave!

Það eru sterk rök sem mæla með því að samningur um IceSave verði borinn undir þjóðaratkvæði. Þjóðin felldi fyrri IceSave samning í þjóðaratkvæðagreiðslu – þeirri fyrstu um slíkt mál. Þjóðin á því að klára málið.

Þótt fyrirliggjandi samningur yrði samþykktur á Alþingi með 63 atkvæðum – þá eru samt sterk rök fyrir því að samningurinn verði lagður fyrir þjóðaratkvæði.

Þjóðin hafnaði fyrri samningi. Þjóðin ætti því einnig að taka ákvörðun um fyrirliggjandi samning. Óháð niðurstöðu Alþingis.

Ég er sannfærður um að þjóðin muni samþykkja fyrirliggandi samning. Við höfum val um að fara dómstólaleiðina en hún gæti orðið okkur dýr. Þá er ég ekki að tala um fjármuni  – heldur samskipti og samkomulag við aðrar þjóðir í framtíðinni.

Farsælasti farvegur IceSave málsins tel ég vera að Alþingi samþykki frumvarp um samþykkt samningsins með afgerandi, þverpólitískum meirihluta – en með ákvæði um að niðurstaða Alþingis verði lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er eina leiðin til að sameina þjóðina í þessu erfiða máli.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.2.2011 - 20:48 - 5 ummæli

Mistök eru mikilvæg

Mistök eru mikilvæg. Mistök eru til að læra af þeim. En þá verða menn að læra af þeim. Það er allt of algengt meðal Íslendinga að viðurkenna ekki mistök. Ennþá algengara að Íslendingar læri ekki af þeim.

Ég áskil mér allan rétt á að gera mistök.  Á að baki mörg mistök. Reyni að læra af þeim. Viðurkenni mistök mín – stundum – en ekki alltaf!

Hvernig væri að taka smá snúning í athugasemdakerfinu um mikilvægi mistaka?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.2.2011 - 19:34 - 16 ummæli

Bjarni Ben bjargar Sjálfstæðisflokknum

Bjarni Benediktsson bjargaði að líkindum Sjálfstæðisflokknum sem alvöru afli í íslenskum stjórnmálum með því að samþykkja IceSave frumvarpið.  Mögulega bjargaði hann einnig sínu eigin skinni.

Afleiðingar ákvörðunnar Bjarna Ben er sú að í stað þess að frjálslyndi hluti Sjálfstæðisflokksins klofnaði frá flokknum í átt til frjálslyndra Framsóknarmanna, frjálslyndra Samfylkingarmanna og frjálslyndra óflokksbundinn – þá klofnar öfgafulli íhaldsarmurinn frá Sjálfstæðisflokknum.

Eftir situr minni – en tiltölulega frjálslyndur Sjálfstæðisflokkur – sem á gott sóknarfæri hjá þjóðinni. Íhaldsarmurinn verður hins vegar aldrei meira en öfgafullt flokksbrot til hægri.

Það mótsagnarkennda í stöðunni er hins vegar sú að með ákvörðun sinni hefur Bjarni Ben að líkindum komið í veg fyrir uppbyggingu nýs, stórs, frjálslynds stjórnmálaflokks á miðju íslenskra stjórnmála. Kraftar frjálslynds fólks á miðju og hægra megin við miðju verða væntanlega áfram dreifðir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.2.2011 - 08:55 - 4 ummæli

Jón bakari Gnarr hengdur fyrir smið?

Er Jón bakari Gnarr – lesist borgarstjóri – stundum hengdur fyrir smið?

Borgarstjóranefnan hefur undanfarið sætt mikilli gagnrýni vegna tveggja mála. Ruslatunnumálsins og tónlistaskólamálsins.

Tónlistarmenn baula á hann eins og beljurnar á Bítlana fyrir að skera gróflega niður fjárframlög til tónlistarskólanna.

Æfir ættingjar farlama gamalmenna sem fara sér að voða við að koma ruslatunnunum sínum að 15 metra fjarlægð frá götu – svo þau verði ekki innlyksa í eigin sorpi – æpa á Jón borgarstjóra Gnarr yfir ruslaralegri hegðan hans í garð þeirra sem búa í húsum þar sem sorpið er ekki haft nánast á almannafæri.

En fattaði Jón borgarstjóri Gnarr og súpertónlistargrúbban hans upp á þessum snilldar sparnaðarleiðum?

Onei!

Báðar leiðirnar voru settar fram og sparnaður reiknaður í tíð Samvinnustjórnarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á síðari hluta síðasta kjörtímabils.  Báðar leiðirnar voru hins vegar afskrifaðar og settar í ruslið – meðal annars vegar andstöðu Samfylkingarinnar í samvinnuferlinu í borgarstjórn sem þá tíðkaðist.

Er Jón bakari Gnarr – lesist borgarstjóri – þá stundum hengdur fyrir smið?

Já og nei.  Það er ekki hægt að skamma hann fyrir að hafa fattað upp á þessum sparnaðarleiðum. En hann ber ábyrgð á því að koma þeim í framkvæmd.

En hver ætli sé smiðurinn á bak við það að koma þessum umdeildu sparnaðarleiðum í framkvæmd?  Hver setti sparnaðarleiðirnar á Odd á ný?  Hver sá að þarna var Björkunarleið fyrir borgarsjóð?  Er það ekki Deginum ljósara?

Hvern ætti að hengja?

Ekki var Bezti flokkurinn á borgarstjórnarsviðinu þegar tillögurnar komu fram. Ætli það séu einhverjir fleiri sem mynda núverandi borgarstjórnarmeirihluta – einhverjir sem voru á sviðinu þegar samvinnustjórnmál tíðkuðust og sparnaðarleiðirnar föttuðust?

Hlífum bakaranum og samfylkjumst um að finna smiðinn!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.2.2011 - 12:27 - 8 ummæli

Af hverju spyrja blaðamenn ekki af hverju?

Af hverju í ósköpunum spyrja blaðamenn ekki lengur af hverju?  Daglega les ég „fréttir“ þar sem blasir við að blaðamenn eru ekki að grafast fyrir um ástæður hlutanna heldur skauta rétt yfir yfirborðið – og missa þar af leiðandi af alvöru fréttum. Láta oft og tíðum viðmælendur sína mata sig gagnrýnilaust.  Nema blaðamenn vilji ekki „eyðileggja“ þá hlið málsins sem þeim líkar – með því að grafa dýpra.

Gott dæmi um þetta er umfjöllun fjölmiðla um Íbúðalánasjóð. Tek það dæmi þar sem ég fylgist af gömlum vana með fréttum af sjóðnum og hef nokkra þekkingu á málefnum og umhverfi sjóðsins.

Það er með ólíkindum að ENGINN blaðamaður hefur spurt stjórnvöld um það AFHVERJU þau hafa ákveðið að setja 33 milljarða í sjóðinn til viðbótar þeim 8,7 milljörðum sem fyrir voru sem eigið fé.  Það var nánast tilviljun að fram kom á Alþingi að 18 milljarðar eru vegna áætlaðs kostnaðar við niðurfærslu lána Íbúðalánasjóðs í 110%.

Ekki hafa fengist haldbær svör við því af hverju viðbótar 15 milljarðarnir eru settir inn – þar sem ljóst er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs þarf ekki að vera 5 í CAD frekar en stjórnvöld kjósa – enda ekki verið eftir þeim svörum leitað af blaðamönnum.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er haft eftir Sigurði Snævarr efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar að það þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til enn aukið fé – til viðbótar þeim 33 milljörðum sem ekki hefur fengist full skýring á af hverju þurfti.

Er það vegna þess að niðurfærsla í 110% lán kostar meira en þeir 33 milljarðar sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja sjóðnum til?

Er það vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að koma eigin fé Íbúðalánasjóðs í 8 í CAD?

Það er forsenda þess að ríkisábyrgð af lánum sjóðsins verði afnumin – enda mun ríkisstuðningurinn þá brjóta í bága við ríkisstyrktarreglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið

Ekki veit ég það – því blaðamenn hafa ekki rænu á að spyrja.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.2.2011 - 14:46 - 12 ummæli

Súpergrúbban missir taktinn!

Tónlistarmennirnir og borgarfulltrúar Bezta flokksins þeir Einar Örn Benediktsson, Óttar Proppé og Karl Sigurðsson ásamt Jóni Gnarr stórsöngvara hafa heldur betur misst taktinn. Þessi súpergrúbba sópaði að sér atkvæðum tónlistarfólks í borgarstjórnarkosningunum.

Nú baula reykvískir tónlistarmenn á Bezta flokkinn eins og beljur á Bítlana.

Þá fær hljómborðsleikarinn Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður Menntaráðs Reykjavíkurborgar litlar undirtektir hjá tónlistarfólki.

Stjörnuhrap sem þetta hefur að líkindum aldrei orðið á vinsældarlistum tónlistarmanna fram að þessu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.2.2011 - 07:44 - 2 ummæli

Samþykkt ESB stefna Gunnars Braga

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins sat í málefnanefnd Framsóknarflokksins fyrir síðasta flokksþing og var lykilmaður í að semja tillögu að ályktun um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.  Um 900 manns sátu flokksþingið.

Tillaga Gunnars Braga og félaga hans í málefnanefndinni var samþykkt orðrétt nema fyrirsögninni „Markmið“ var breytt í  „Skilyrði“ á þinginu sjálfu – að tillögu Gunnars Braga – til að koma á móts við öfgafyllstu andstæðinga Evrópusambandsins.

Sú breyting varð til þess að tillagan var samþykkt nánast samhljóða – einungis örfáir flokksþingsmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni – sem nú er samþykkt og gild stefna Framsóknarflokksins.

Samþykkt stefna Framsóknarflokksins hljóðar svo:

“ Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið

Markmið

Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. 

Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Skilyrði

• Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.

• Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.

• Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.

• Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.

• Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.

• Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.

• Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.

• Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.

• Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

Fyrstu skref

Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið. ”

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.1.2011 - 09:47 - 7 ummæli

Samvinnustjórnmál í stað hótana

Ísland þarf á samvinnustjórnmálum að halda. Ekki hótanastjórnmálum.

Samvinnustjórnmál sem innleidd voru í Reykavík seinni tvö árin á síðasta kjörtímabili lyftu grettistaki – eftir mesta niðurlægingatímabil borgarstjórnar Reykjavíkur – fram til þessa.

Við höfum upplifað pólitíkst niðurlægingatímabil í íslenskum stjórnmálum undanfarin misseri og ár. Ísland þarf á því að halda að stjórnmálamenn stigi upp úr því tímabili – hætti hótanastjórnmálum, upphrópunum og barnaskap – og byrji að vinna saman.

Við þurfum þroskuð samvinnustjórnmál til að reisa við Ísland. Barnaleg hótanastjórnmál koma okkur um koll.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.1.2011 - 11:07 - 1 ummæli

Breiðavíkurdrengir bíða bóta

Í gær – þann 27. janúar – átti sýslumaðurinn a Siglufirði að taka fyrir allar bótakröfur Breiðavíkurdrengjanna í einu og leggja mat á hvort menn fái bætur eða ekki – og ef bætur – hversu miklar.

Ég veit ekki hvort það gekk eftir – en Breiðavíkurdrengirnir bíða í ofvæni eftir niðurstöðu sýslumanns.

Einn þeirra vildi greinilega ekki bíða úrskurðar og reyndi að svipta sig lífi síðastliðinn laugardag. Vildi fylgja í fótspor nokkurra félaga sinna

Þegar lagt var af stað í þá vegferð sem vonandi er að enda með úrskurði sýslumannsins, þá var ákveðið að þeir sem ekki sætta sig við niðurstöðu sýslumanns geti sótt mál sitt  fyrir rétti.

Vegna þess hefur ríkið ákveðið að greiða 10 tíma lögfræðikostnað.

Mér finnst það ekki ofrausn.

Þegar Breiðavíkurmálið fór af stað í upphafi mun Geir Haarde forsætisráðherra hafa lagt 60 milljónir í verkefnið. Sú fjárhæð átti – skilst mér – að dekka bæði bætur og kostnað. 40 milljónir fóru í kostnað – 20 milljónir hefðu verið eftir í bætur.

Ferlinu var hins vegar breytt.  Þökk sé Jóhönnu Sigurðardóttur. Jóhanna bað Breiðavíkurdrengina einnig afsökunar. Fyrir tilstilli hennar er sýslumaðurinn á Siglufirði að úrskurða um bótakröfur. Jóhanna á hrós skilið fyrir sinn hluta í uppgjöri Breiðavíkurmálsins.

Fyrir hennar tilstilli var heildarfjárhæð til fórnarlamba illrar meðferðar í Breiðavík hækkuð í allt að 235 milljónir króna . Hafi Jóhanna þökk fyrir.

Nú er bara beðið eftir úrskurðinum – úrskurði sem er lok ferils sem verið hefur Breiðavíkurdrengjunum erfiðir. Þeim leið mörgum sem sakamönnum þegar þeir gáfu “skýrslu” til kerfisins vegna mögulegra bóta.

Við skulum vona að niðurstaðan verði Breiðavíkurdrengjunum ásættanleg. Óásættanleg niðurstaða gæti fækkað þeim enn frekar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur