Fimmtudagur 20.1.2011 - 14:40 - 1 ummæli

Samvinnufélög lausn í húsnæðismálum

Leið sértæks félagslegs leiguhúsnæðis er óþörf.  Þörfinni er unnt að mæta innan húsnæðissamvinnufélaganna.
 
Búseti, Búmenn og fleiri húsnæðissamvinnufélög hafa fest sig í sessi á Íslandi með búseturéttarfyrirkomulagi sínu. Húsnæðissamvinnufélögin hafa verið mikilvægur hlekkur í húsnæðismálum á Íslandi og gætu orðið lykillinn að farsælli framtíðarlausn.
 
Húsnæðissamvinnufélög sem reka bæði búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði gætu orðið kjarninn í húsnæðisstefnu stjórnvalda á næstu árum. Þannig hefðu landsmenn val um þrjár raunhæfar leiðir í húsnæðismálum, hefðbundna leið eigin húsnæðis, búseturéttarleið og leiguleið.
 
Krafa ESA um takmörkun á íbúðalánum með ríkisábyrgð

Ljóst er að breytingar þarf að gera á núverandi fyrirkomulagi lánveitinga Íbúðalánasjóðs vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Eftirlitsstofnun EFTA – ESA – hefur gert athugasemdir við að Íbúðalánasjóður veiti öllum búsettum á Íslandi ríkistryggt grunnlán til íbúðakaupa óháð efnahag og stærð húsnæðis. ESA hefur kallað eftir takmörkunum. ESA leggur íslenskum stjórnvöldum ekki til regluverk – heldur kallar eftir tillögum Íslendinga.

Lán til húsnæðissamvinnufélaga gjaldgeng

Íslenskum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt EES samningi að veita húsnæðissamvinnufélögum íbúðalán með ríkisábyrgð og veita húsnæðissamvinnufélögum sértæka ívilnun. Því gætu stjórnvöld einskorðað sérstækan stuðning í húsnæðismálum við húsnæðissamvinnuformið. Þar með talin lán með ríkisábyrgð.

Stuðningur við eignarformið og við almenn leigufélög verði almennur í formi húsnæðisbóta sem taki mið af stöðu hvers og eins, efnahagslegri og eftir fjölskyldustærð.

Leiguleið innan húsnæðissamvinnufélaga

Markmiði stjórnvalda um eflingu leigumarkaðar er einfalt að ná innan vébanda húsnæðissamvinnufélaga. Ekkert er því til fyrirstöðu að húsnæðissamvinnufélög bjóði upp á leiguhúsnæði samhliða búseturéttarhúsnæði. Sértækur stuðningur ríkisins til uppbyggingar leiguhúsnæðis verði þá til húsnæðissamvinnufélaga en ekki almennra leigufélaga.

Félagslegar lausnir innan húsnæðissamvinnufélaga

Stjórnvöldum er í lófa lagið að ná fram félagslegum lausnum í húsnæðismálum innan húsnæðissamvinnufélaganna. Sveitarfélög geta lagt félagslegt húsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög og öðlast yfirráð yfir búseturétti í takt við framlag sitt. Sama máli gegnir um félagasamtök eins og Öryrkjabandalagið.

Sveitarfélög og félagasamtök geta einnig átt þátt í uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaganna og bætt við sig búseturéttum sem skjólstæðingar sveitarfélaganna geta fengið leigt á félagslegum kjörum og síðan keypt þegar þeirra félagslegu aðstæður breytast til batnaðar.

Leið sértæks félagslegs leiguhúsnæðis er óþörf.  Þörfinni er unnt að mæta innan húsnæðissamvinnufélaganna.
Félagslegar kvaðir á húsnæðissamvinnufélaga

Á grundvelli sértæks stuðnings stjórnvalda við húsnæðissamvinnufélögin geta stjórnvöld sett ákveðnar félagslegar kvaðir á húsnæðissamvinnufélögin. Til að mynda að ákveðið hlutfall húsnæðis taki mið af þörfum hreyfihamlaðs fólks. Það hefur húsnæðissamvinnufélagið Búmenn reyndar alltaf haft að leiðarljósi.

Stórheimili húsnæðissamvinnufélaga

Lausnir á borð við stórheimili Búmanna í Vogum henta vel víða um land. Stjórnvöld og sveitarfélög geta stutt við uppbyggingu slíkra stórheimila með sértækum aðgerðum. Hugmyndin byggir á því að tengja saman íbúðaálmur við þjónustukjarna. Íbúar og sveitarfélög eiga búseturétt og greiða rekstrarkostnað tengdum sínum eignum.

Húsnæðissamvinnufélög sem úrlausn í skuldamálum

Húsnæðissamvinnufélög geta hæglega orðið mikilvægur hlekkur í úrlausn í skuldamálum heimilanna. Æskilegt er að gefa þeim heimilum sem það kjósa að í kjölfar skuldaniðurfærslu í 110% að leggja húsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög og eignast búseturétt. Einnig að húsnæðissamvinnufélögin taki yfir húsnæði sem Íbúðalánasjóður eignast. Útfærsla á slíku fyrirkomulagið liggur fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.1.2011 - 20:54 - 7 ummæli

Sóley blómstrar í borgarstjórn

Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG blómstrar í borgarstjórn þrátt fyrir það afhroð sem flokkurinn hlaut í borgarstjórnarkosningunum. Sóley hefur staðið sig best borgarfulltrúa það sem af er. Ekki að ég sé alltaf sammála henni – reyndar alls ekki – en hún hefur staðið upp úr með málefnalegum og öflugum málflutningi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur því miður aðeins verið skugginn af sjálfri sér – enda erfitt fyrir hana að horfa upp á núverandi meirihluta taka upp úrelt og gamaldags klíkustjórnmál – eftir að hún sem borgarstjóri hafði breytt einmitt þessháttar klíkustjórnmálum yfir í vönduð samvinnustjórnmál.

En ég er viss um að Hanna Birna muni ná vopnum sínum – enda munu samvinnustjórnmál sem innleidd voru á starfstíma hennar sem borgarstjóri bera af sem gull af eir – eftir því sem núverandi klíkustjórnmál meirihlutans í borgarstjórn vara lengur.

Nema Jón Gnarr haldi aftur til framtíðar, hætti að vinna eftir gömlu klíkugildunum og taki upp samvinnustjórnmál Hönnu Birnu og samstarfsmanna hennar í síðustu borgarstjórn.

Dagur rís eins hátt í borgarstjórninni og dagur rís um vetrarsólstöður. Enda virðist honum líka best í rökkrinu í skugga Jóns Gnarr. Þar stjórnar hann í algjöru ógagnsæji. Án nokkurrar samvinnu við minnihlutann.

Var það þetta sem kjósendur vildu?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.1.2011 - 08:59 - 9 ummæli

Það er fullkomnað!

Límið í ríkisstjórninni virðist fyrst og fremst vera trúarlegs eðlis. Trúin á „hreina vinstristjórn á Íslandi“.  Fylgismenn ríkisstjórnarinnar telja nánast guðlast hugmyndir um að leysa upp „fyrstu hreinu vinstristjórn á Íslandi“. Þá skiptir innihald stjórnarsamstarfsins og hagsmunir þjóðarinnar ekki nokkru máli.

Og þó!

Það eru ákveðnir trúarsetningar í „hreinum vinstri stjórnum“. 

  • Háir skattar.
  • Höft.
  • Þjóðnýting.

Ríkisstjórnin hefur þegar náð miklum árangri í háum sköttum og höftum.  Hins vegar er eftir að ná trúarlegra fullkomnun með þjóðnýtingu.

En örvæntið ekki!

Trúarleiðtogarnir hafa þegar sett stefnuna á þjóðnýtingu. Með nánast trúarlegum sannfæringarhita hafa bæði fjármálaráðherra og umhverfisráðherra boðað þjóðnýtingu á orkufyrirtæki í einkaeigu sem leigt hefur tímabundið afnotarétt af orkuauðlindum í samfélagslegri eigu.

Sá dagur virðist því í nánd þegar leiðtogar „fyrstu hreinu vinstristjórnar á Íslandi“ geta sagt við áhangendur sína:

„ÞAÐ ER FULLKOMNAÐ!“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.1.2011 - 12:36 - 5 ummæli

Þegar gullinu rigndi

Það er einungis í ævintýrunum sem gulli rignir yfir almúgan. Slíkt ævintýri gekk yfir þjóðina haustið 2004 þegar gulldrengirnir í viðskiptabönkunum ákváðu á einni nóttu að bjóða fasteignaeigendum og íbúðakaupendum takmarkalaus íbúðalán á helmingi lægri vöxtum en áður hafði tíðkast. Fram að þeim tíma hafði það verið jafn líklegt að almenningur gæti kreist mjólk úr grjóti og að kreista fasteignatryggð lán úr banka á svipuðum kjörum og íbúðalán Íbúðalánasjóðs.

Það má segja að gullinu hafi rignt yfir íslenska fasteignaeigendur og íslenska fasteignakaupendur. Bankarnir sem lánuðu einungis 90 milljónir í fasteignalán í ágústmánuði 2004 lánuðu um 30 milljarða í september og lánuðu alls 115 milljarða síðustu 4 mánuði ársins.  Á sama tíma hélt Íbúðalánasjóður áfram hóflegum lánveitingum sínum – sem ekki voru nema brot af því gullregni sem flóði úr bönkunum.

Það er athyglisvert að skoða myndrænt þetta gullregn í formi fasteignatryggðra lána í íslenskum krónum:

Bankarnir dældu úr fasteignalánum og settu efnahagslífið á hvolf

Eins og glöggt má sjá þá fylltist efnahagslífið af  nýju fjármagni akkúrat á þeim tíma sem síst skyldi vegna þeirrar þenslu sem þegar var fyrir í efnahagslífinu vegna stóriðjuframkvæmda á Grundartanga og á Austurlandi.  Stjórnvöld höfðu einmitt í hyggju að fresta rýmkun lánsréttar íbúðalána Íbúðalánasjóðs fram á síðari hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007 vegna efnahagsástandsins.  En gulldrengirnir í bönkunum töldu sig ekki þurfa að taka tillit til slíks heldur dældu út fasteignatryggðum lánum,  stórhækkuðu íbúðaverð, margfölduðu neyslugetu almennings og settu efnahagslífið á hvolf.

Við súpum seyðið af því núnar. Gullið sem rigndi reyndist glópagull og gulldrengirnar sem fjölmiðlar hömpuðu gagnrýnilaust eru nú færðir lúpulegir til yfirheyrslna vegna meintra efnahagsbrota. Fallnir útrásarvíkingar og gagnrýnilaus samúð fjölmiðla fokin út í veður og vind.

Eftir situr almenningur með gullklumpana um hálsinn eins og myllusteina – og lífskjörin hrunin.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir og þess augljósa sem lesa má útúr framangreindu línuriti –  að óheft íbúðalán bankakerfisins settu efnahagslífið á hvolf – þá eru ennþá einstaka stjórnmálamaður og einstaka fjölmiðlamaður sem trúir á goðsögn gulldrengjanna um að Íbúðalánasjóður og hófleg lán hans hafi verið orsök þenslunnar og efnahagshrunsins.  Meira að segja rannsóknarnefnd Alþingis féll í þá gryfju – þótt fulltrúar í rannsóknarnefndinni viti það núna að þeir gerðu alvarleg mistök í skýrslunni og að þenslan var fyrst og fremst vegna hömlulausra útlána bankakerfisins frá því í september 2004 og fram á árið 2008.

Við fyrstu sýn mætti halda að bankarnir hefðu dregið sig út af íbúðalánamarkaði á árinu 2007 og 2008.  Svo var reyndar ekki,. En í stað þess að lána fasteignakaupendum verðtryggð lán í íslenskum krónum – þá tóku þeir að lána íbúðalán sem tóku mið af gengi erlendra gjaldmiðla.  Afleiðing þess var að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sem hafði verið stöðugt um skeið – rauk upp að nýju og hélst hátt allt þar til efnahagshrunið gekk yfir – í boði bankanna.

Þessa útlánaþróun má sjá í eftirfarandi mynd.

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Að lokum er vert að bera saman verðþróun á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og tímasetningar í gullregni bankanna – fyrst í formi verðtryggðra lána  í september  2004 – og síðar í gjaldeyristryggðum lánum árið 2007.

Óhef útlán bankanna olli hækkun íbúðaverðs haustið 2004 og vorið 2005. Aftur hækkaði verð þegar bankarnir hófu að lána gengistryggð lán til íbúðakaupa. Síðan kom hrunið einnig í boði bankanna.

Er einhver sem telur enn að innkoma bankanna með óheft íbúðalán hafi EKKI verið ástæða þenslunnar á fasteignamarkaði – sem endaði síðan í efnahagshruni?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.1.2011 - 15:25 - 5 ummæli

Neysluviðmið Pandórubox Jóhönnu!

Það var djarft af Árna Páli Árnasyni þáverandi félagsmálaráðherra að láta vinna neysluviðmið sem endurspegla ætti raunverulega framfærsluþörf Íslendinga.  Sérfræðingar úr HÍ hafa skilað af sér niðurstöðunni, en eitthvað virðist ríkisstjórnin heykjast á því að birta neysluviðmiðin.

Eðlilega. 

Afleiðingarnar verða eins og að opnað hafi verið Pandórubox.

Það var ljóst frá upphafi að neysluviðmið gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stjórnvöld. Allar líkur voru á því að viðmiðið yrði miklu mun hærra en bætur frá hinu opinbera sem ætlaðar eru til að tryggja fólki framfærslu. Bæði tryggingabætur og atvinnuleysisbætur.

Þá eru allar líkur á að framfærsluviðmið í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga séu allverulega lægri en neysluviðmiðið.

Reyndar eru einnig líkur á því að lágmarkslaun hrökkvi skammt upp í viðmiðið.

Afleiðingar þess að birta neysluviðmið fyrir Íslendingar munu verða aukinn þrýstingur á stjórnvöld um að hækka verulega bætur almannatrygginga, atvinnuleysisbætu og barnabætur.

Það verður stóraukinn þrýstingur á sveitarfélög að stórhækka viðmið fjárhagsaðstoðar.

Og það verður stóraukinn þrýstingur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að tryggja skjólstæðingum sínum verulega hækkun launa.

Vandamálið er að hvorki ríkissjóður, sveitarfélögin né atvinnulífið hefur efni á því að uppfylla þær væntingar sem „norræna velferðarstjórnin“ vekur með neysluviðmiðinu.

Það er kaldhæðnislegt að neysluviðmiðið sem lengi hefur verið baráttumál Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra mun að líkindum verða hennar Pandórubox.

Kannske heldur hún bara Pandóruboxinu lokuðu.  Kemst hún upp með það?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.1.2011 - 11:19 - 10 ummæli

Ríkisábyrgð ÍLS afnumin?

Nýjasta skýrsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um Ísland gefur til kynna að íslensk stjórnvöld séu að undirbúa afnám ríkisábyrgðar af fjármögnun Íbúðalánasjóðs.  Það skýrir ákvörðun stjórnvalda að leggja Íbúðalánasjóði að óþörfu til 33 milljarðar til viðbótar því eigin fé sem sjóðurinn býr yfir.

Í skýrslunni segir meðal annars:  „The authorities also plan to prepare a timeline to harmonize the HFF capital requirements to those of other financial institutions.“

Það er ljóst að ef eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs verður það sama og lágmarkseiginfjárhlutfall fjármálastofnanna þá er samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið forsendur ríkisábyrgðar Íbúðalánasjóðs brostnar.

Kaflinn um Íbúðalánsjóðs í skýrslunni er eftirfarand:

„28. The authorities and staff concurred on the need for further action to strengthen non-banks (LOI ¶26). Specifically, the government will inject by end-December sufficient capital into the Housing Finance Fund (HFF) to bring its capitalization to 5 per cent of its risk-weighted assets (2¼ percent of GDP). The authorities also plan to prepare a timeline to harmonize the HFF capital requirements to those of other financial institutions, and submit legislation that will put the HFF under FME regulatory and supervisory authority. Leasing companies and other specialized non-deposit taking financial entities will be recapitalized by their creditors by end-February 2011.“

Reyndar hefur Íbúðalánasjóður verið undir Fjármálaeftirliti frá því árið 2004.

En stjórnvöld skulda almenningi svör við því af hverju þau  kusu að dæla tugmilljörðum að óþörfu inn í Íbúðalánasjóð.

Það hafa engar skýringar komið frá stjórnvöldum vegna þessa. Enda veit ég ekki til að neinn blaðamaður hafi haft rænu á að spyrja fjármálaráðherra, velferðarráðherra eða forsætisráðherra um ástæður þessa – jafnvel þótt að um 33 milljarða hafi verið að ræða!!!

Ætla stjórnvöld að afnema ríkisábyrgð á fjármögnun sjóðsíns?

Ætla stjórnvöld að einkavæða Íbúðalánasjóð?

Ef ekki – hvernig ætla stjórnvöld að skýra þessar aðgerðir sínar?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.1.2011 - 11:38 - 8 ummæli

Landakaffi í boði VG

Mér var nýlega boðið landakaffi.  Hef ekki fengið slíkt síðan ég bjó á Vopnafirði og Borgarfirði eystra. Þá var engin áfengisútsala á Vopnafirði.  Þetta er þróunin.  Sætur heimilisiðnaður í anda VG og í boði VG.

„Minnkandi sala á áfengi á síðasta ári hefur haft áhrif á áætlanir ríkissjóðs um tekjur af áfengisgjaldi á þessu ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2011 var reiknað með tekjum upp á 11,2 milljarða króna en í samþykktum fjárlögum var talan komin niður í 10,8 milljarða króna. Lækkunin nemur 400 milljónum króna….“

Úr  frétt mbl.is : „Áfengisgjald skilar minni tekjum en reiknað var með“

Það er ekki í lagi með skattastefnu ríkisstjórnarinnar.  Hún eykur landabrugg, dregur úr skatttekjum og hrekur burt ferðamenn.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.1.2011 - 19:04 - 15 ummæli

Bakpokalið í stað borgandi ferðamanna?

Ferðamálastofa virðist í ímyndarherferð.  Markhópurinn er ekki erlendir ferðamenn heldur íslenska þjóðin. Ímyndarherferðin felst ekki í að fjölga ferðamönnum heldur að telja þjóðinni trú um að Ferðamálasstofa standi sig vel!

Því er slegið upp eins og stórfrétt að ferðamannafjöldinn í fyrra hafi verið sá sami og árið 2009.  Hins vegar er ekki haft hátt um þá staðreynd að breyting hefur orðið á ferðamannahópnum. Í stað vel borgandi ferðamanna sem gista á hótelum og nýta hágæða veitingastaði,  leigubíla og tekjuaflandi afþreyingu virðast í auknu mæli komið bakpokalið sem eyðir litlu, gistir í tjöldum og tekur strætó.

Eyjan dregur þetta vel fram í fréttaumfjöllun sinni og bendir á að samkvæmt tölum hagstofu Íslands fækkar gistinóttum:

„Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fækkaði gistinóttum aftur á móti um 3% á fyrstu 11 mánuðum ársins 2010 miðað við árið 2009.“

Síðan er fjallað um tölurnar sem Ferðamálastofa leggur áherslu á að birta:

„Samkvæmt tölum Ferðamálastofu er heildarfjöldi erlendra gesta á árinu 2010 um 495 þúsund. Það er um 0,2% aukning frá árinu 2009, en þá voru gestir 494 þúsund. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fækkaði gistinóttum aftur á móti um 3% á fyrstu 11 mánuðum ársins 2010 miðað við árið 2009.“

Síðan fylgir Eyjan eftir með því að ræða við fleiri aðilja:

„Hjá Höfuðborgarstofu fengust þau svör frá Sif Gunnarsdóttur að það megi sjá merki um samdrátt í tölum þeirra um gestakomu í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti…“

Ferðaþjónsutan er okkur afar mikilvæg.  Stjórnvöld reyna hins vegar að gera allt til þess að koma í veg fyrir að atvinnugreinin blósmtri og skili okkur auknum með vanhugsuðum ferðamannasköttum og sköttum á mat og drykk.

Við þurfum á ferðamönnum að halda sem eyða miklu. Ekki bakbokaliði sem eyðir litlu. Þótt VG hafi samkennd með slíkum ferðamönnum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.1.2011 - 22:04 - 11 ummæli

Sérkennileg bóndabeygja

Merkilegt hvað malbiksbændurnir við Hagatorg leggja á sig til að vinna gegn hagsmunum bænda og landbúnaðar á Íslandi.

Nú er að koma upp á yfirborðið afhverju það urðu ritstjóraskipti á hinu ríkisstyrkta Bændablaði á dögunum. Ljóst hver ráðningarkrítería nýja ritstjórans hefur verið.

Svohljóðandi frétt tók ég af vef DV:

„Þröstur Haraldsson sagði upp sem ritstjóri Bændablaðsins í haust vegna sívaxandi þrýstings frá forystumönnum Bændasamtakanna sem vildu að blaðið talaði sérstaklega mál bændaforystunnar í fréttaflutningnum í stað þess að þeir héldu sig til hlés sem eigendur og útgefendur og létu ritstjórnina sjá um að skrifa fréttir í blaðið.

Þetta sagði Þröstur í samtali við síðdegisútvarp Rásar 2 í dag. Hann segist hafa byrjað sem ritstjóri árið 2006 og blaðið gengið vel. Þegar Eiríkur Blöndal tók við sem framkvæmdastjóri Bændasamtakanna hafi margt breyst. Formaður bændasamtakanna og framkvæmdastjóri vildu fá að lesa allt efnið fyrirfram áður en það var birt.

„Það urðu ýmsar deilur um það. Málið er ég held að þetta hafi verið óöryggi nýs framkvæmdastjóri til einhvers sem hann þekkti ekki. Hann getur ekki lifað við þá óvissu að það standi eitthvað í blaðinu annað en hann það sem hann vill,“ sagði Þröstur í samtali við Síðdegisútvarp Rásar 2 í dag.

Þröstur sagði að sú stefna hefði verið sett að bændablaðið ætti að halda uppi málstað bænda gagnvart Evrópusambandinu. „Það var beinlínis gerð sú krafa til okkar að við værum komnir í stríð gegn Evrópusambandinu og finna allt neikvætt um það,“ segir Þröstur og bætti við að forystumenn samtakanna hefðu sagt að það væru nóg af öðrum fjölmiðlum til að finna það jákvæða við Evrópusambandið. Þröstur segist ekki hafa verið sáttur við þennan þrýsting.

Hann sagðist hafa hætt eftir að stjórnendur Bændasamtakanna settu þá stefnu að þeir myndu sitja ritstjórnarfundi Bændablaðsins. Sú stefna er við lýði nú á blaðinu að sögn Þrastar og var tekin upp í síðastliðið haust.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.1.2011 - 21:57 - 3 ummæli

Almannaeign og tímabundin afnot

Eign er eitt. Tímabundin afnot er annað. Auðlindirnar á Suðurnesjum eru í almannaeigu og ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram.  Orkufyrirtæki í einkaeigu hefur leigt afnotaréttinn tímabundið. Leiðinlega langtímabundið – en tímabundið þó.

Hópur Íslendinga hefur skrifað undir áskorun um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands.

Það þurfti ekki slíka áskorun til. Þjóðin virðist nánast öll vera sammála um að orkuauðlindir landsins skuli vera í þjóðareigu. Það er nánast öruggt að stjórnlagaþing muni gera tillögu um ákvæði í stjórnaskrá sem tryggi að orkuauðlindirnar skuli vera í þjóðareign.  Um slíka tillögu þarf þjóðaratkvæðagreiðslu.

Krafa um þjóðnýtingu tímabundins afnotaréttar orkuauðlindanna er hins vegar allt annað.  Við því þurfa stjórnvöld að bregðast strax. Taka ákvörðun um hvort ganga skuli til þjóðnýtingar með tugmilljarða kostnaði fyrir þjóðarbúið eða ekki. Slík þjóðnýting hefur hins vegar ekkert með eignarhald á orkuauðlindum að gera. Því eign er eitt. Tímabundinn afnotaréttur annað.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur