Miðvikudagur 12.1.2011 - 10:08 - Rita ummæli

ÍLS á einungis 0,82% íbúða!

Þrátt fyrir efnahagshrun þá hefur Íbúðalánasjóður einungis eignast 0,82% íbúða á Íslandi.  Íbúðalánasjóður á nú 1.070 íbúðir sem sjóðurinn hefur leyst til sín.  Íbúðir á Íslandi eru alls 130.074.  Ótrúlega lágt hlutfall miðað við erfitt efnahagsástand.

Fjölmiðlar fara hins vegar mikinn og láta eins og að Íbúðalánasjóður sé að eignast hálft landið.  Reynt er að fá almenning til að halda að Íbúðalánasjóður sé að fara á hvolf vegna þessa. Því fer fjarri.

Umtalsverður hluti þessara íbúða eru íbúðir sem sjóðurinn hefur þurft að leysa til sín frá leigufélögum.  Stór hluti þeirra íbúða er í leigu. Þá er töluverður hluti íbúðanna fokheldar en ófrágengnar íbúðir. Eitt þúsund íbúðir í tímabundinni eigu Íbúðalánasjóðs setur þá öflugu fjármálastofnun ekki á hvolf.

Það má ekki gleyma að Íbúðalánasjóður var eina stóra fjármálastofnunin sem stóð af sér efnahagshrunið. Staða sjóðsins var trygg.  Ákvörðun ríkisstjórarinnar að leggja sjóðnum til 33 milljarða í eigið fé – reyndar án þess að þurfa þess – sjóðurinn var hvorki að fara í þrot né greiðslufall framundan – gerir það að verkum að Íbúðalánasjóður er langöflugasta og traustasta fjármálastofnun landsins.  Eigið fé sjóðsins er nú að verða nærri tvöfalt hærra en það var hæst fyrir hrun!

Eyjan fer mikinn í dag og staðhæfir – ranglega – að Íbúðalánasjóður standi illa.  Fyrirsögnin er:  Íbúðalánasjóður stendur illa: Eignast 723 íbúðir 2010.  Mér þykir vænt um Eyjuna og því finnst mér erfitt að lesa svona bjánafyrirsagnir sem afhjúpa þekkingarleysi blaðamanna Eyjunnar á Íbúðalánasjóði og húsnæðismálum.

Hvernig getur Íbúðalánasjóður staðið illa þegar eigið fé er orðið helmingi hærra en hæst varð fyrir hrun?  Sérstaklega í ljósi þess að sjóðurinn stóð af sér hrunið – þótt gengið hafi verið á eigið fé sjóðsins vegna efnahagsáfallanna?

Hvernig getur Íbúðalánasjóður staðið illa með þessa sterku eiginfjárstöðu þótt hann eignist örfáar íbúðir – 0,82% hluta af heildarfjölda íbúða á landinu?

Svar óskast frá blaðamanni Eyjunnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.1.2011 - 09:12 - 3 ummæli

Skúrkunum sleppt!

Fréttablaðið fór mikinn í garð þekkts athafnamanns í „fréttaskýringu“ sinni í gær þar sem blaðið réðst af miklu offorsi á fyrrum forstjóra byggingarfyrirtækis sem hafði verið stórtækur í viðskiptum með byggingarfélög og lóðir. Það sem vekur athygli er að í mergjaðri frásögn Fréttablaðsins er hinum eiginlegu skúrkum í málinu nánast sleppt.

Stóra spurningin er hvort ástæðan sé sú að Fréttablaðið telji sig þurf að vernda hina eiginlegu skúrka eða hvort greinilega er um að ræða léleg fréttamennsku. 

Reyndar virðist Fréttablaðið hreinlega vinna öllum árum að því að beina athyglinni frá bankastjóra og stjórnendum fjámálafyrirtækisins VBS, seljendum byggingafyrirtækja sem seldu fyrirtæki sín á ótrúlegu háu verði með fjármögnun VBS sem þáði hundraðatugi milljóna í þóknunum og eigendum lóða sem seldu lóðir á fáránlega háar fjárhæðir með fjármögnum VBS.  

Áhersla Fréttablaðsins og annarra fjölmiðla sem átu upp umfjöllun umfjöllun Fréttablaðsins var fyrst og fremst um að athafnamaðurinn sem hefði fengið  keypti byggingarfyrirtækin og lóðirnar á uppsprengdu með tilstuðla VBS hafi fyrir 15 árum verið dæmdur í sakamáli. Það var stóra málið – ekki skúrkarnir í VBS sem dældu fé í kaupin á byggingarfyrirtækjum og lóðum á ofurverði.

Það virðist nefnilega vera svo að athafnamaðurinn hafi ekki setið uppi með hagnað af viðskiptum sínum heldur fyrrum eigendur byggingafélaga sem athafnamaðurinn hafði keypt af fyrrum eigendum á yfirverði og eigendur lóða sem seldu lóðir sínar fyrir himinháar fjárhæðir.  Allt fyrir tilstuðlan VBS.

Ef Fréttablaðið hefði unnið vinnuna sína á eðlilegan hátt þá hefði blaðið nafngreint ekki einungis athafnamanninn heldur einnig stjórnendur VBS.

Ef Fréttablaðið hefði unnið vinnuna sína á eðlilegan hátt þá hefði blaðið rannsakað hvort tengsl væru á milli stjórnenda VBS og fyrrum eigenda byggingafélaga sem högnuðust um hundruð milljóna eða milljarða króna á sölu til athafnamannsins sem fjármagnaði kaupin með lánum frá VBS.  Athafnamaðurinn virðist ekki hagnast.

Ef Fréttablaðið hefði unnið vinnuna sína á eðlilegan hátt þá hefði blaðið rannsakað hvort tengsl væru á milli þeirra stjórnenda VBS og seljanda fyrrum eigenda lóða sem högnuðust um hundruð milljónir króna með sölu til athafnamannsins sem fjármagnaði kaupin með lánum frá VBS.  Athafnamaðurinn virðist ekki hagnast.

Ef Fréttablaðið hefði unnið vinnuna sína á eðlilegan hátt þá hefði blaðið rannsakað hvort tengsl væru á milli fjármálaráðherra og stjórnenda VBS því fjármálaráðherra lánaði VBS milljarða af fjármunum almennings þrátt fyrir vonlausa fjárhagagsstöðu fyrirtækisins sem hafði lánað milljarða króna í fjárfestingar sem flestir aðrir en athafnamaðurinn auðguðust á fyrir tilstuðlan VBS.

Fréttablaðið minnist ekki einu orði á málið í blaðinu í dag.

Fréttablaðið vildi greinilega einungis nafngreina einn mann og draga hann fram sem sökudólk í máli sem snertir miklu fleiri sem ekki eru nafngreindir og Fréttablaðið vill greinilega ekki beina sjónum sínum að.

Skúrkunum er sleppt hjá Fréttablaðinu.

Hverju veldur?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.1.2011 - 08:32 - 13 ummæli

Öflugasta markaðssókn Íslandssögunnar?

Íslensku viðskiptabankarnir áttu að líkindum öflugustu markaðssókn Íslandssögunnar haustið 2004 þegar þeir juku markaðshlutdeild sína í íbúðalánum gagnvart Íbúðalánasjóði úr 2% í nær 90% á einum mánuði.  Þá juku bankarnir íbúðalán sín úr 10 stykkjum að fjárhæð samtals 90 milljónum í ágústmánuði 2004 í 30 milljarða í septembermánuði 2004. 

Þessi öfluga markaðssókn sést vel þegar skoðuð er markaðshlutdeild bankanna gagnvart Íbúðalánasjóði tímabilið 1. júlí 2004 til ársins 2008. 

Bankarnir juku markaðshlutdeild sína gagnvart Íbúðalánasjóði á í íbúðalánum úr 2% í nær 90% á einum mánuði. Þessi markaðssókn bankanna setti efnahagslífið á hvolf.

Andstætt því sem haldið hefur verið fram þá höfðu viðskiptabankarnir enga markaðshlutdeild að verja vegna fyrirhugaðra 90% almennra lána Íbúðalánasjóðs sem boðuð voru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar vorið 2003. Sú söguskýring kom ekki fram fyrr en á árinu 2005 þegar forsvarsmenn bankanna þurftu að verja útlánastefnu sína sem hafði sett efnahaghagslífið á Íslandi á hvolf,  myndað mestu fasteignabólu Íslandssögunnar og skapað gífurlega þenslu.

Reyndar höfðu bankarnir verið yfirleitt með allt að 5% markaðshlutdeild en einhverra hluta vegna ákváðu þeir að lána ekki nema örfá slík lán fyrri part ársins 2004.  Hugsanlega vegna undirbúnings þessarar öflugu markaðssóknar.

Það kaldhæðnislega er að ein ástæða þess að stjórnvöld hugðust gefa almenningi kost á 90% íbúðalánum til kaupa á hóflegu húsnæði var einmitt sú staðreynd að bankarnir voru ekki að bjóða viðskiptavinum sínum lán til kaupa á íbúðarhúsnæði á eðlilegum vaxtakjörum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.1.2011 - 12:09 - 4 ummæli

Á radar Evrópuvaktarinnar

Ég rataði á radar Evrópuvaktarinnar í kjölfar þess að ég birti skýra stefnu Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við Evrópusambandið á blogginu, en sú skýra stefna hefur farið afar illa í aðstandendur Evrópuvaktarinnar. Evrópuvaktin er vefmiðill harðra andstæðinga Evrópusambandsins.

Það skemmtilega er að fyrirsögn fréttarinnar er  „ESB-framsóknarmenn gera hosur sínar grænar fyrir stjórnarflokkunum“  og með fylgir mynd af Halli Magnússyni! 

Reyndar segir Evrópuvaktin „Framsóknarbloggarinn Hallur Magnússon, sem sagði sig að vísu úr Framsóknarflokknum 1. desemer 2010, segir á vefsíðu sinni 7. janúar að aðildarviðræður að Evrópusambandinu ættu ekki að trufla Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn, þótt þær trufli vinstri græna.“ 

Allt satt og rétt.

Evrópuvaktin reynir að færa rök fyrir því að hlutar skýrar ályktunar Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við ESB – sem hefst á orðunum:  „Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. „  – gangi ekki lengur.

Annars vegar  skilyrðið „Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.“ og hins vegar  „Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“

Aðstandendur Evrópuvaktarinnar ættu að vita að eiginlega samningaviðræður við ESB hefjast núna í marsmánuði – hingað til hefur vinnan falist í greiningarvinnu – hvað liggi klárt fyrir eftir 15 ára aðlögunarferli Íslands á grunni samningsins um Evrópska efnahagssvæðið – og hvað þurfi að semja um.

Ríkisstjórnin ætti að sjálfsögðu að fara eftir ályktun Framsóknar og leita nú þegar eftir að það verði: „…gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“

Mögulega hefur slíkt þegar verið rætt – allavega byggir nýsamþykkt stefnumótun ríkisstjórnarinnar á aðgerðum sem miða að upptöku evru.

Evrópuvaktin.is er öflugur og flottur vefmiðill. Ég var að velta fyrir mér hver fjármagnar hann – og hver fjármagnar milljónakostnað við hin bráðskemmtilegu NEI flettiskilti meðfram helstu umferðaæðum höfuðborgarsvæðisins?

Þau skilti eru dæmi um örvæntingafulla barátta harðvítugra andstæðinga Evrópusambandsins gegn viðræðum um mögulega aðild að Evrópusambandinu. Sú barátta er ekki tilviljun. Andstæðingar viðræðnanna vita hvað gerist ef niðurstaða fæst í aðildarviðræðurnar.

Íslenska þjóðin mun samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu. Jafnvel þótt hann verði ekki góður. Hegðan íslenskra stjórnmálamanna undanfarnar vikur, undanfarna mánuði og undanfarin ár sér til þess.

Íslenskir stjórnmálamenn geta því valið hvort þeir vilja slæman samning sem verður samþykktur eða góðan samning sem verður samþykktur.

Ég mæli með góðum samningi – og þar eru áherslur ályktunar flokksþings Framsóknar góður grunnur að byggja á.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.1.2011 - 20:11 - 4 ummæli

Hver borgar flettiskiltin?

Örvæntingafull barátta harðvítugra andstæðinga Evrópusambandsins gegn viðræðum um mögulega aðild að Evrópusambandinu er ekki tilviljun. Þetta fólk veit hvað gerist ef niðurstaða fæst í aðildarviðræðurnar.

Íslenska þjóðin mun samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu. Jafnvel þótt hann verði ekki góður. Hegðan íslenskra stjórnmálamanna undanfarnar vikur, undanfarna mánuði og undanfarin ár sér til þess.

Íslenskir stjórnmálamenn geta því valið hvort þeir vilja slæman samning sem verður samþykktur eða góðan samning sem verður samþykktur.

Af hverju vilja menn ekki góðan samning?

Hver borgar milljónakostnað við NEI við ESB flettiskiltin?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.1.2011 - 08:05 - 9 ummæli

Framsókn og aðildarviðræður að ESB

Aðildarviðræður að Evrópusambandinu eru að trufla hluta VG í ríkisstjórnarsamstarfinu þrátt fyrir skýr ákvæði í ríkisstjórnarsáttmálanum.  

Aðildarviðræður að Evrópusambandinu ættu ekki að trufla Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn því gildandi stefna flokksins hvað það varðar er skýr.

Eftirfarandi er orðrétt ályktun 30. flokksþings Framsóknarflokksins sem haldið var 16. – 18. janúar 2009. 

Ályktunin er sérstaklega sterk þar sem hún var samþykkt á 900 manna flokksþingi með einungis 14 mótatkvæðum. Flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins:

“ Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið

Markmið

Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. 

Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Skilyrði

• Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.

• Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.

• Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.

• Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.

• Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.

• Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.

• Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.

• Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.

• Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

Fyrstu skref

Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið. ”

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 20:43 - 8 ummæli

Útvarpsstjóri á að segja af sér

„Vegna mikillar og vaxandi óánægju í þjóðfélaginu með að HM í handbolta, sem hefst í Svíþjóð í næstu viku, skuli verða í læstri útsendingur gerir RÚV hér með 365 eftirfarandi tilboð – í því skyni að tryggja að leikir íslenska landsliðsins verði opnir öllum íslendingum: …“

Þetta er hluti „tilboðs“ sem Páll Magnússon útvarpsstjóri sendi Stöð 2.

Páll hefði átt að hugsa málið betur áður en hann klúðraði sýningarrétti á líklega mikilvægustu heimsmeistarakeppni sem íslenska landsliðið í handbolta hefur tekið þátt í. Páli og RÚV stóð sýningarrétturinn til boða – en vegna handvammar og slóðaskaps RÚV gáfust rétthafar sjónvarpsútsendinga út – og Stöð 2 hnepptu hnossið.

Auðvitað er skandall að sýning á mótinu verði í læsgri dagskrá.

En sá skandall er lítilvægur miðað við handvömm Páls sem á skyldur að gegna við íslensku þjóðina – sem greiðir laun Páls með háum nefsköttum – hvort sem þeim líkar betur eða verr. Sökin á lokaðri dagskrá er Páls – ekki Stöðvar 2.

Páll Magnússon útvarpsstjóri á að segja af sér vegna þessa.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 11:57 - 6 ummæli

VG og Samfylking vígbúast

„Hugsanlega þarf að yfirfara stjórnarsáttmálann svo stjórnarflokkarnir geti endurnýjað heitin“ segir Jónína Rós Guðmundsdóttir varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar í viðtali við RÚV.  Hún hefði viljað sjá hreinni línur hjá Vinstri grænum eftir þingflokksfund þeirra í gær. Jónína Rós bendir á að stjórnarsáttmálinn sé skriflegur samningur sem Samfylkingin gengur út frá að allir standi við.

Þessi orð varaformanns þingflokks Samfylkingarinnar staðfestir það sem ég benti á í pistli mínum í gær: „Átök um nýjan stjórnarsáttmála“ .

Þar benti ég á að  að átök villikattanna innan VG við samflokksmenn sína í þingflokki Vinstri grænna væru ekki síst vegna þess að á næstunni verður að vinna nýjan stjórnarsáttmála. Því hverju sem öllu líður þá er ekki tekið á í stjórnarsáttmálanum hvernig skuli tekið á mikilvægum verkefnum sem nú eru framundan og ríkisstjórn Íslands verður að takast á við.

Það verður spennandi að sjá hvernig átökum Samfylkingar og VG um „yfirferð stjórnarsáttmálans“ muni lykta, því ef niðurstaða fæst um áherslur af hálfu VG – þá á þingflokkur Vinstri grænna eftir að takast á við Samfylkinguna – sem ekki er endilega reiðubúin að taka skilyrði og áherslur villikattanna inn í nýjan stjórnarsáttmála.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.1.2011 - 19:19 - 5 ummæli

Átök um nýjan stjórnarsáttmála

Það hafa ekki allir áttað sig á að átök villikattanna innan VG við samflokksmenn sína í þingflokki Vinstri grænna eru ekki síst vegna þess að á næstunni verður að vinna nýjan stjórnarsáttmála. Þá skiptir ekki hvort núverandi ríkisstjórn heldur velli lítt breytt – eða hvort Framsókn gengur til liðs við ríkisstjórnarflokkana og myndar með þeim nýja ríkisstjórn.

Ástæðan er sú að ekki er tekið á í stjórnarsáttmálanum hvernig skuli tekið á mikilvægum verkefnum sem nú eru framundan og ríkisstjórn Íslands verður að takast á við.  Annars vegar hverjar skuli vera pólitískar áherslur í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið en eiginlega aðildarviðræður munu hefjast núna í marsmánuði. Hins vegar mótun trúverðugar peningamálastefnu áður en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur á brott.

Þá eru fjölmörg atriði sem upp hafa komið og ekki er tekið á í stjórnarsáttmálanum.

 Nú virðist ljóst að villikettirnar leggi niður rófuna og heiti ríkisstjórninni óskoraðan stuðning. En það breytir ekki því að hörð átök eru innan þingflokks VG um áherslur í nýjum stjórnarsáttmála. Ef niðurstaða fæst um áherslur af hálfu VG – þá á þingflokkur Vinstri grænna eftir að takast á við Samfylkinguna – sem ekki er endilega reiðubúin að taka skilyrði og áherslur villikattanna inn í nýjan stjórnarsáttmála.

Það gæti því komið upp sú staða sem ég benti á í pistli mínum „Framsókn á leið í ríkisstjórn“ fyrir jól.

Þar sagði ég meðal annars: 

„Ríkisstjórnarflokkarnir og Framsókn munu væntanlega taka því rólega yfir jólin meðan forysta VG í ríkisstjórn vinnur að því að fá á hreint hvort andófsliðið ætlar að fylgja VG áfram eða kljúfa sig frá flokknum.

Hver sem niðurstaðan verður af þeim innaflokksviðræðum VG þá munu ríkisstjórnarflokkarnir og Framsókn hella sér í stjórnarmyndunarviðræður strax eftir áramót – leynt eða ljóst.“

Reyndar varð ég ekki sannspár um rólegheitin um jólin – fjölmiðlar sáu til þess að raska ró stjórnarflokkanna og Framsóknar – en staðan er sú sama.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.1.2011 - 08:31 - 9 ummæli

Dagur villikattanna

Í dag er dagur villikattanna í VG.  Í dag kemur í ljós hvort villikettirnir leggja niður rófuna og leggjast malandi í faðm Steingríms J. og Jóhönnu – eða hvort villikettirnir fara á flakk.

Ég óttast að villikettirnar leggi niður rófuna og lepji úr rjómaskál ríkisstjórnarinnar fram á vor.  Þá muni stjórnin springa. Á versta tíma.

Það þarf nefnilega sterka og breiða ríkisstjórn strax til að takast á við brýn verkefni – verkefni sem verða í uppnámi ef villikettirnir fara aftur á kreik með vorinu. 

Allar líkur eru á að forystumenn ríkisstjórnarinnar muni gefast upp á kattasmöluninni ef villikettirnir setja viðræður við ESB í uppnám og taki ekki þátt í að móta trúverðuga peningamálastefnu og efnahagsstefnu – en slíka stefnu þarf að vinna áður er en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hverfur á brott í lok sumars.

Þetta og fleira ræddi ég ásamt blaðamanninum Jóhanni Haukssyni í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær.

Slóðin á það viðtal er:  http://dagskra.ruv.is/ras2/4557737/2011/01/04/5/ 

Á meðan þessu stendur virðist Sjálfstæðisflokkurinn algerlega týndur í stjórnmálaumræðunni.

Það sem merkilegra er – það virðist enginn sakna Sjálfstæðisflokksins!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur