Fimmtudagur 11.8.2016 - 10:02 - FB ummæli ()

Ein þjóð – ein tunga

Lengi hefur verið vitnað í orð Snorra Hjartarsonar: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein”, orða Jónasar um „Ástkæra ylhýra málið” og orða Einars Benediktssonar: „Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu.” Þá er haft eftir Sigurði Nordal: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku“. Þessi ummæli lýsa viðhorfi margra.

Úlfar Bragason skrifar í Fréttabréfi Stofnunar Sigurðar Nordals 2, 2000:

Íslendingum er tamt að líta svo á að þjóðerni þeirra sé falið í tungumálinu og þeim bókmenntum sem á því hafa verið ritaðar. Íslensk málrækt hefur því oft snúist upp í málvernd, íhaldsemi og þröngsýni. Þegar verst gegnir þola menn ekki annað tungutak en sitt eigið og skiptir þá litlu hvort það er betra en annarra. Þetta viðhorf hefur síðan meðvitað eða ómeðvitað bitnað á útlendingum sem hafa viljað læra málið. Gengið er út frá því að þeim muni varla eða aldrei takast að ná valdi á því enda sé íslenskan svo erfitt mál. Að vísu verða menn að viðurkenna að dæmin sýna annað en einatt er litið á þau sem undantekningar.

Viðhorf Íslendinga til eigin tungu hefur valdið því að mikla einbeitni hefur þurft hjá erlendu fólki sem hefur viljað læra málið. Erfitt hefur reynst að finna kennsluefni við hæfi og framboð á kennslu hefur verið lítið. Þessi viðhorf landsmanna gera líka erlendu fólki erfitt fyrir að setjast að á Íslandi því það hættir seint að vera utangarðs í málsamfélaginu enda allt of lítið hjálpað til að nema málið.

Undanfarnar vikur hefur Veðurstofa Íslands látið tvo útlendinga – sennilega nýbúa – lesa veðurfréttir annan veifið. Framtak Veðurstofunnar er sannarlega umhugsunarvert: að leyfa starfsmönnum, sem hafa lagt á sig það erfiði að ná tökum á þessu flókna máli, að lesa veðurfréttir. Ef til vill má líta á þetta frumlega framtak sem tilraun til að sýna nýbúum virðingu og vekja athygli á mikilvægi málsins í samfélaginu – þessu samfélagi á Íslandi sem er ekki lengur einsleitt og einangrað heldur hefur færst nær hringiðu umheimsins með flóknu tungumálakerfi sínu, átökum og tortryggni.

Á hinum Norðurlöndum hefur það ekki gerst – að því best er vitað – að nýbúar hafi fengið að koma fram í útvarpi eða sjónvarpi með þessum hætti. Í Noregi eru tvö ríkismál og fjölmargar mállýskur og í norska ríkisútvarpinu NRK, bæði útvarpi og sjónvarpi, eru þessar mallýskur virtar. Í BBC má heyra margs konar ensku, eins og lesendur vita. En erlendir málhafar fá ekki inni við fréttalestur í NRK eða BBC né annars staðar sem vitað er til.

Framtak Veðurstofunnar er sannrelega umhugsunarvert og til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það ber að rækta íslenska tungu sem þjóðtungu landsmanna hvaðan sem þeir eru upprunnir, enda er það samdóma álit nýbúa á Íslandi – eins og víðast hvar annars staðar – að til þess að geta tekið þátt í lífi og starfi samfélagsins verði þeir að læra þjóðtunguna.

Flokkar: Menning og listir

Mánudagur 1.8.2016 - 18:29 - FB ummæli ()

„Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?

 

Fróðlegt er að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gær. Fyrirsögnin er: „Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?” Fyrirsögnin endurómar upphafsorð þýðingar Steingríms Thorsteinssonar á ljóði Heinrichs Heine, Loreley:

Eg veit ekki af hvers konar völdum

svo viknandi dapur eg er.

Ef til vill hefði höfundur Reykjavíkurbréfs átt að nota orð skáldbróður síns ómenguð, því að þau virðast lýsa mun betur hug hans og efni bréfsins.

Fyrsti kafli bréfsins heitir „Þreytt fyrir tímann”. Þar segir:

Væntanlega er mest að marka það sem gerist í opnum, upplýstum og lýðræðislegum þjóðfélögum. Varla er nýjabrum lýðræðisins fokið út í veður og vind. Þetta er glænýtt fyrirkomulag. En þó virðist óneytanlega á því þreytueinkenni. Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.

Rétt er að benda á orðin: „Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.” Síðar segir höfundur:

Stór hluti jarðarbúa hefur ekki enn fengið að kynnast lýðræðinu, nema af afspurn. … Mannréttindasáttmálar eru til og manréttindadómstólar, en því fer fjarri að heimurinn allur lúti þeim. Sumir gera það meira á orði en borði, en aðrir alls ekki og komast upp með það. En hvernig stendur á því, að einmitt þar sem lýðræðislegar leikreglur eru í heiðri hafðar, sé álitið á leiðtogunum sem almenningur hefur sjálfur valið svona lítið.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins svarar spurningunni þannig, að almenningi sé „löngu orðið ljóst að ekkert sé að marka” orð leiðtoganna.

Lýðræðislegir valdamenn hafa nokkur völd, þótt misjafnt sé eftir löndum. Í létt – lýðræðisríkjum, sem óþarft er að nefna, geta völd manna verið býsna mikil. Helsta ástæða þess er sú að jafnvægi vantar. Það skortir öfl sem veita valdhöfunum aðhald. Þar má nefna öfluga stjórnarandstöðu, frjálsa fjölmiðla, gagnsæja stjórnsýslu og á lokastogi dómstólana.

Þetta eru eftirtektarverð orð Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, en það blað hefur ekki talist til frjálsra fjölmiðla. Jafnvægi í stjórnmálum á Íslandi má lýsa með því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn nær 55 ár af 72 árum lýðveldistímans – eða nær 8 ár af hverjum 10 árum. Hefur enginn flokkur á Vesturlöndum átt viðlíka fylgi – og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar 2009 þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs .

Einu fulltrúar fólksins í kerfinu

Áður en höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins víkur að lokum að hinu „ólýðræðislega sambandi í álfunni” – Evrópusambandinu – segir hann: „Enn sem fyrr eru þó stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu.” Þessi orð lýsa takmörkuðum skilningi á nútíma lýðræði og gamaldags og úreltri afstöðu. Að vísu er ekki ljóst við hvað höfundur á með orðinu „stjórnmálamenn”, en það virðist merkja fulltrúar á Alþingi, alþingismenn og ráðherrar. Í nútíma lýðræðisríki á almenningur fjölmarga fulltrúa. Í dag ber að nefna forseta Íslands, sem telur mikilsverðasta hlutverk sitt að hlusta á og þjóna almenningi, umboðsmann Alþingis, umboðsmenn barna, sveitarstjórnarmenn og kennara, svo nokkur dæmi séu tekin, auk þess sem stjórnarskrá lýðveldisins og lög veita almenningi tryggingu.

Lokaorð Reykjavíkurbréfs gærdagsins skjóta síðan skökku við, að enn sem fyrr séu stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu. Lokaorðin hljóða þannig í Drottins nafni: „Fyrst að stjórnmálamenn hafa sjálfviljugir svipt sig völdum að mestu, gerir þá nokkuð til þótt við kjósum t.d. Pírata, sem enginn veit fyrir hvað standa.” Þessi orð bera svip þess sem höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fordæmdi í upphafi: að afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.7.2016 - 12:34 - FB ummæli ()

Ný nafnalög

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Með nýjum lögum er ætlunin að lög um mannanöfn nr. 45/1996 falli úr gildi. Í greinargerð ráðuneytisins með frumvarpinu segir að rétt sé talið að felldar séu úr gildi takmarkanir á nafngjöf og lögð áhersla á, að með því sé fullorðnum einstaklingum og foreldrum barna gefið frelsi til að velja nöfn sín og barna sinna. Mannanafnanefnd yrði lögð niður – enda óþörf, eins og segir í greinargerðinni.

Nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska stafrófsins. Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Sé eiginnafn af íslenskum uppruna skal það falla að íslensku beygingarkerfi, en það er ekki skilyrði ef um viðurkennt erlent nafn er að ræða. Uppfylli nöfn ekki þessi skilyrði þessarar ber Þjóðskrá Íslands að hafna skráningu.

Endurskoðun laga eðlileg

Ekki er óeðlilegt að lög um mannanöfn séu endurskoðuð vegna breyttra viðhorfa og breyttra aðstæðna í samfélaginu. Í greinargerð Innanríkisráðuneytisins segir að á undanförnum árum hafi umræða um mannanafnalöggjöfina verið áberandi í samfélaginu, meðal annars í tengslum við ákvarðanir Mannanafnanefndar. Hefur því sjónarmiði því „vaxið ásmegin”, eins og stendur í greinargerðinni, að réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum og barna sinna sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að takmarka þennan rétt. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2013 hafi verið byggt á því að réttur manns til nafns félli undir vernd 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Því til stuðnings vísaði héraðsdómur til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu sem fellt hefur réttinn til nafns undir ákvæði í Mannréttindasáttmála Evrópu, en hún sé efnislega samhljóða 71. gr. stjórnarskrárinnar. „Af því leiðir að réttur til nafns verði aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu,” eins og segir orðrétt í greinargerð Innanríkisráðuneytisins.

Íslensk nafngiftarhefð

Endurskoðun laga er eðlileg við breyttar aðstæður og réttur einstaklinga er afar mikilsverður. En til eru fyrirbæri sem heita hefð, venjur, menning og málrækt. Því ber í „nýjum lögum um þjóðskrá og almannaskráningu” að takmarka rétt til nafns með sérstöku ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að þúsund ára gamlar nafngiftarvenjur Íslendinga njóti réttarverndar sem eru mikilsverður hluti af menningunni. Fela má Þjóðskrá Íslands að gæta gamallar nafngiftarhefðar, enda er unnt að leita álits Árnastofnunar eða Íslensku og menningarsviðs Háskóla Íslands um vafamál eða ágreiningsmál.

Að lokum má benda Innanríkisráðuneytinu á norsku nafnalögin frá 2006, Lov om personnavn, navneloven. Lögin eru vel skrifuð, sett fram á einfaldan hátt og skynsamlega haldið á málum. Réttindi einstaklinga – ekki síst barna – eru virt, en um leið er tekið tillit til hefðar og venju í samfélaginu.

Flokkar: Menning og listir

Sunnudagur 17.7.2016 - 15:43 - FB ummæli ()

Verður er verkamaðurinn launanna

Átök eru sífellt aukast í heiminum og verða ef til vill ekki umflúin við þá misskiptingu sem viðgengst þegar 5% eiga 95% auðsins og þeir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Birtingarmynd þessarar efnahagslegu misskiptingar og örbirgðar, sem fylgir í kjölfarið, blasa við hverjum sem vilja sjá alla daga sem guð gefur yfir. Þess vegna ber öllu hugsandi, ábyrgu og viti bornu fólki að vinna gegn aukinni misskiptingu, gegn auknu ranglæti og stuðla að samfélagi sem reist er á réttlæti, virðingu og jafnrétti.

Í okkar litla landi eru mörgum mislagðar hendur um þetta. Síðasta dæmið er úrskurður Kjararáð sem vakið hefur undrun og reiði þar sem notuð er „gamla góða” prósentureglan sem virðist vera réttlætið sem Kjararáð grípur til. Fyrir mörgum árum var reikningskennari fyrir norðan sem lagði þá spurningu fyrir nemendur sína í efsta bekk grunnskóla, hversu margir nemendur væru 30% af bekknum. Þegar í stað svaraði einn hvatvís og kunnáttulítill nemandi: “Kennari. Við erum bara 28 í bekknum.” Ætla mætti að þessi nemandi að norðan væri nú formaður Kjararáðs.

Fullskipað Kjararáð virðist ekki skilja það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi þar sem sífellt er að aukast launamunur þeirra sem lægst hafa launi og t.a.m. hásettra embættismanna – að ekki sé talað um framkvæmdastjóra og formenn í einkafyrirtækjum. Ráðuneytisstjórar vinna gott verk og gegna mikilsverðu starfi, en með aukinni menntun og aukinni verkaskiptingu innan ráðuneytisins er álagi og ábyrgð af þeim létt. Sömu sögu er að segja um t.a.m. skólameistara. Fyrir 50 árum höfðu skólameistarar engan aðstoðarmann. Nú eru aðstoðarmenn skólameistara – og rektora við menntaskóla og framhaldsskóla margir og verkskipting mikil.

Í lögum nr. 47 14. júní 2006 er að finna starfsreglur sem Alþingi setti Kjararáði. Þar stendur, að „við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar … og ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði”. Þetta er ekki gert í úrskurði Kjararáðs

Með því að nota reglu þá, sem Kjararáð notar – um sömu prósenttölu launahækkana allra – endar þetta með ósköpum eins og allir hugsandi menn sjá. Sem dæmi má taka að 25% launahækkun á 250 þúsund króna laun eru 62.500 krónur en sama prósentuhækkun á einnar milljón króna laun eru 250.000 krónur. Sé þessari reglu beitt fimm ár í röð, verða lægri launin orðið 610.352 krónur, en hærri launin – milljón króna launin – orðin 2.442.188 krónur og mismunurinn orðinn 1.831.836 krónur í stað 750.000 króna áður. Þetta gengur ekki. Vonandi setur nýtt Alþingi, sem margir binda vonir við, nýjar starfsreglur fyrir Kjararáð til að tryggja eðlilega launaþróun á vinnumarkaði.

Flokkar: Stjónmál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.6.2016 - 00:30 - FB ummæli ()

Stórkarlalegt valdaembætti – kaflaskil á öld jafnréttis og öld kvenna

 

Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við stjórnmáladeild Háskóla Íslands, sagði á ráðstefnu í Háskóla Íslands í dag, að í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar hefði embætti forseta Íslands orðið „stjórnkarlalegt valdaembætti”. Þetta eru eftirtektarverð og lærdómsrík orð.

Ekki er síður eftirtektarvert og lærdómsríkt, að undanfarin ár tala konur í opinberum embættum og á opinberum embættum með allt öðrum en „stórkarlar í valdaembættum” um ágreiningsmál í stjórnmálum og viðskiptum. Sem er Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sem talar þannig, að almenningur – við sauðsvartur almúginn – skiljum um hvað er verið að tala og við hvað er átt – ólíkt fyrrverandi utanríkisráðherra. Annað dæmi er Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi sem talar þannig, að ekki verður um villst, skýr í tali sínu og skýr í skoðunum

Kaflaskil eru því að verða í stjórnmálum á Íslandi. Ungt og betur menntað fólk gerir kröfu um annars konar umræðu en í tíð stjórnkarlalegra atvinnustjórnmálamanna eins og stórkarlanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Davíðs Oddssonar Það eru því að verða kaflaskil í stjórnmálum á Íslandi á öld skýlausrar kröfu um jafnrétti á öllum sviðum og fyrir alla – á öld kvenna sem hafa alið upp og kennt kynslóðunum í þúsundir ára. Konur í foruystu.

Flokkar: Stjónmál

Fimmtudagur 23.6.2016 - 23:58 - FB ummæli ()

Stórkarlalegt embætti – kaflaskil á öld jafnréttis , öld kvenna

Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við stjórnmáladeild Háskóla Íslands, sagði á ráðstefnu í Háskóla Íslands í dag, að í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar hefði embætti forseta Íslands orðið „stjórnkarlalegt valdaembætti”. Þetta eru eftirtektarverð og lærdómsrík orð.

Ekki er síður eftirtektarvert og lærdómsríkt, að undanfarin ár tala konur í opinberum embættum og á opinberum embættum með allt öðrum en „stórkarlar í valdaembættum” um ágreiningsmál í stjórnmálum og viðskiptum. Sem er Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sem talar þannig, að almenningur – við sauðsvartur almúginn – skiljum um hvað er verið að tala og við hvað er átt – ólíkt fyrrverandi utanríkisráðherra. Annað dæmi er Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi sem talar þannig, að ekki verður um villst, skýr í tali sínu og skýr í skoðunum.

Kaflaskil eru því að verða í stjórnmálum á Íslandi. Ungt og betur menntað fólk gerir kröfu um annars konar umræðu en í tíð stjórnkarlalegra atvinnustjórnmálamanna eins og stórkarlanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Davíðs Oddssonar Það eru því að verða kaflaskil í stjórnmálum á Íslandi á öld skýlausrar kröfu um jafnrétti á öllum sviðum og fyrir alla – á öld kvenna sem hafa alið upp og kennt kynslóðunum í þúsundir ára. Konur í foruystu.

Flokkar: Stjónmál

Fimmtudagur 2.6.2016 - 13:37 - FB ummæli ()

Hlutverk forseta – ný stjórnarskrá

 

Sumir virðast telja að forseti Íslands geti mótað embættið að eigin vild. Það er ekki rétt. Hins vegar setur forseti að sjálfsögðu svip sinn á embættið eftir hæfileikum og getu. Núverandi forseti fór fyrstur forseta lýðveldisins inn á nýjar brautir til þess að auka pólitískt áhrifavald sitt – án þess nokkur fengi rönd við reist. Þetta var unnt vegna mótsagnarkenndra ákvæða í gildandi stjórnarskrá, enda var núverandi forseti fyrsti forseti lýðveldisins sem hlotið hafði uppeldi sitt í pólitískri refskák og átökum samtímans, eins og einn afnúverandi frambjóðendum.

Ný stjórnarskrá

Brýn þörf er því á nýrri stjórnarskrá, ekki bótasaumi sem stundaður hefur verið undanfarna áratugi. Að mörgu er að hyggja, en ekki síst þarf að setja skýr ákvæði um hversu lengi forseti getur setið og ákvæði um, að enginn geti orðið forseti sem ekki hefur meirihluta greiddra atkvæði að baki sér. Ný stjórnarskrá þarf einnig að auka beint lýðræði í kjölfar betri menntunar þjóðarinnar á tímum aukins jafnræðis, t.a.m. með ákvæði um þjóðaratkvæði í mikilsverðum málum. Þá ættu viðræður um stjórnarmyndun að fara fram fyrir opnum tjöldum – e.t.v. án aðkomu forseta með samkomulagi fulltrúa stjórnmálaflokkanna, auk þess sem ráðherrar – fulltrúar framkvæmdavaldsins – ættu að sjálfsögðu ekki að sitja á löggjafarþinginu.

Grundvallaratriði í lýðveldi með þingbundna stjórn er að löggjafarþing, sem kosið er með jöfnu atkvæðavægi allra kjósenda, ráði för og forseti sé sameiningartákn – ekki sérstakur stjórnmálaflokkur, eins og við höfum orðið að horfa upp á. Á Íslandi er ekki forsetaræði, sem raunar ætti hvergi að þekkjast í lýðræðislandi.

Mótsagnir í stjórnarskránni

Undarlegt má telja hversu margar mótsagnir er enn að finna í stjórnarskránni frá 1944. Skýringar eru ef til vill einkum þær, að stjórnarskráin frá 1944 er leifar dönsku stjórnarskrárinnar – eða stjórnarskrárinnar frá 1874. Í gildandi stjórnarskrá segir t.a.m. að forseti lýðveldisins sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Engu að síður á forseti að skipa ráðherra og veita þeim lausn, ákveða tölu þeirra og skipta störfum með þeim. Þetta er mótsögn.

Í núverandi stjórnarskrá segir einnig, að forseti lýðveldisins veiti þau embætti, er lög mæla fyrir um, og geti vikið þeim úr embætti, þeim sem hann hefur veitt embætti, og flutt embættismenn úr einu embætti í annað. Forseti skal gera samninga við önnur ríki, fresta fundum Alþingis, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári, eins og þar stendur, hann rýfur þing og getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga – sem aldrei hefur þó gerst. Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka – en hann er ábyrgðarlaus í stjórnarathöfnum. Þetta er mótsögn – hrein rökleysa.

Sameiningartákn

Í upphafi var litið svo á, að forseti væri sameiningartákn þjóðarinnar. Með því er átt við að í embættisverkum sínum kæmi hann fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar, innanlands sem utan, sýni hlutlægni og hógværð í störfum og gengi ekki erinda einstakra hagsmunahópa. Þar að auki er forseta ætlað að tala til þjóðarinnar á örlagastundum. Með þessu er forseta ætlað að stuðla að einingu þjóðarinnar og efla virðingu Íslendinga fyrir landinu, sögu þjóðarinnar og tungu, þáttum sem gera Íslendinga að sérstakri þjóð. Í ferðum erlendis gæti hann glætt áhuga á Íslandi og aukið hróður lands og þjóðar.

Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta 1980 vakti heimsathygli, enda var hún fyrsta konan í heiminum sem kjörin var í embætti þjóðhöfðingja. Útflutningsfyrirtæki og aðilar í ferðaþjónustu nutu góðs af þeirri hylli sem Vigdís naut erlendis vegna yfirvegunar sinnar, látleysis og hógværðar. Núverandi forseti gerðist hins vegar málsvari íslenskra fyrirtækja sem vildu hasla sér völl erlendis og ferðaðist á þeirra vegum um heiminn. Í embættistíð hans fjölgaði óopinberum ferðum forseta þar sem hann kynnti íslensk fyrirtæki og lofaði dugnað þeirra, kjark og þor – víkingseðlið! Varð forsetinn eins konar utanríkisráðherra verslunar og viðskipta, enda þótt óvíst sé nú, hver árangur varð af – en tjónið vegna útrásarvíkinganna skildi eftir sig djúp spor, sárindi og langa skugga. Braut þetta gegn hlutlægni forseta í störfum.

Nýr forseti

Við forsetakosningarnar í júní þarf þjóðin forseta sem getur orðið sameiningartákn, sýnir hlutlægni í störfum og getur komið fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar og markar í starfi sínu stefnu sem sameinar alla þegna ríkisins á tímum alþjóðahyggju og eflir sjálfsvirðingu þjóðar við gerbreyttar aðstæður og getur aukið hróður lands og þjóðar og stuðlað að því að skapa samfélag sem byggir á heiðarleika, réttlæti, virðingu og jafnrétti.

Flokkar: Stjónmál

Sunnudagur 29.5.2016 - 19:41 - FB ummæli ()

Forsetar eru sameiningartákn

Í grein í laugardagsblaði Fréttablaðsins kemst Logi Bergmann að því, að forsetar séu ekki sameiningartákn. Ekki virðist greinarhöfundur vilja kafa djúp í þetta mál og felur sig undir blæju gamanseminnar.

Ekki ætla ég að gera hlutverki og stöðu allra forseta heimsins skil í þessum línum. Það bíður betri tíma. Embættisskyldur og staða forseta eru hins vegar afar mismunandi. Einkum er staða forseta mismunandi eftir því hvort í landi þeirra er forsetaræði eða þingræði. Allir eru forsetar heimsins þó kallaðir þjóðhöfðingjar í landi sínu, sem á heimsmálinu ensku er kallað að vera head of state, og allir eiga þeir að þjóna því hlutverki að vera höfuðfulltrúar ríkis síns (to act as the chief head of state).

Áður en núverandi stjórnarskrá Frakklands var samþykkt í október 1958, lýsti Charles de Gaulle, fyrsti forseti fimmta lýðveldisins, hugmyndum sínum um hlutverk forseta með því að segja, að þjóðhöfðinginn, forsetinn, ætti að vera tákn þeirrar sérstöku ímyndar sem Frakkland bæri í sér – une certaine idée de la France. Í flestum lýðræðislöndum heims er gert ráð fyrir þessu hinu sama: að forsetinn sé sameiningartákn ríkisins.

Flokkar: Stjónmál

Mánudagur 18.4.2016 - 11:24 - FB ummæli ()

Nám í lýðræði og lýðræðislegri hugsun

Hlutverk grunnskóla

Samkvæmt lögum er hlutverk grunnskóla – í samvinnu við heimilin – að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi og haga störfum sínum í samræmi við þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Þá skal grunnskólinn stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning á íslensku samfélagi, sögu og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra, eins og segir í gildandi lögum um grunnskóla.

Hlutverk framhaldsskóla

Hlutverk framhaldsskóla er lögum samkvæmt að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, bjóða nám við hæfi og búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til þekkingarleitar. Markið er því sett hátt í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.

Framkvæmd laganna ábótavant

Lítið er hins vegar gert í grunnskólum og framhaldsskólum landsins til þess að sinna þessum lagalegu skyldum og Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekkert gert til þess að stuðla að þessu mikilsverða hlutverki skólanna. Kennarar fá enga menntun eða þjálfun í því að stuðla að þátttöku nemenda í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun og hvorki er þessi lagaskylda skipulega fléttuð inn í nám nemenda í hinum ýmsu greinum né heldur er fyrir hendi kennaranám eða kennsla í lýðræðislegri hugsun og þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi í stöðugri þróun.

Námsskrá í lýðræði og lýðræðislegri hugsun

Brýna nauðsyn ber til að Mennta- og menningarmálaráðuneytið láti þegar í stað semja námsskrá í lýðræði og lýðræðislegri hugsun og sinni þannig ótvíræðri lagaskyldu sinni og skólanna. Til þess að gera kennurum kleift kenna lýðræðislega hugsun og lýðræðisleg viðhorf í skólum og gera nemendum fært að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun, þarf að gefa kennurum kost á að mennta sig sérstaklega á þessu sviði. Vel menntað fólk í háskólum landsins er fullfært um að taka að sér þessa kennslu fyrir kennara þar sem rakin væri rakin saga, inntak og markmið lýðræðis á Vesturlöndum og bent á réttindi – og skyldur almennings og stjórnvalda í lýðræðisríki. Í kennslunni mætti m.a. hafa til hliðsjónar niðurstöður Þjófundarins 2009 og rannsóknarskýrslu Alþingis í níu bindum sem skilað var 2010 auk þess sem mikið hefur verið um lýðræði skrifað undanfarna áratugi hér á landi og erlendis. Málið þolir enga bið.

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 7.4.2016 - 22:29 - FB ummæli ()

Námsskrá í lýðræði

Íslensk umræðuhefð

Margir telja hluta vandans sem við Íslendingar eigum við að stríða, megi rekja til umræðuhefðar sem þróast hefur á Íslandi, umræðuhefð sem einkennist af kappræðu í stað samræðu. Í þessari umræðuhefð er lögð áhersla á að sanna að viðmælandinn – «andstæðingurinn» hafi rangt fyrir sér og algengt að gera lítið úr honum, gera honum upp skoðanir og nota háð, útúrsnúninga og sleggjudóma.

Fréttaskýringar

Einstaka fréttamenn og þáttastjórnendur í útvarpi og sjónvarpi nota svipaðar aðferðir, sýna takmarkaða tillitssemi en vilja láta ljós sitt skína, grípa fram í fyrir viðmælendum og reyna sauma að þeim í stað þess gefa þeim kost á að skýra mál sitt í friði, eins og gert er í umræðuþáttum í sjónvarpi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Sumir þessara fréttamanna leitast við að fá viðmælandann til þess að viðurkenna að hann hafi rangt fyrir sér – sé „sekur”. Stundum eru þessar viðræður fremur áróður en upplýsingaöflun eða fréttaskýring og gjarna nefnd aukaatriði málsins en aðalatriðum gleymt. Oft er sama fólkið fengið að segja álit, þótt þá sé hugsanlega vegna mannfæðar sem gerir okkur Íslendingum erfitt að vera alvöru þjóð – þjóð sem getur staðið undir sjálfstæðu þjóðríki.

Námsskrá í lýðræði

Það eru gömul sannindi – og ný, að við sjáum aðeins það sem við viljum sjá, og skiljum aðeins það sem við viljum skilja – eða eins og sagt var fyrir tvö þúsund árum: „Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.”

Hlutverk skólanna – allt frá leikskólum til háskóla – er að auka þekkingu, skilning, viðsýni og umburðarlyndi og búa nemendur undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi – því að það er lýðræði sem við stefnum sem felur í sér jafnræði á öllum sviðum og meðal allra. Skólarnir hafa reynt þetta, en betur má ef duga skal. Næst á eftir því að gera ungu fólki kleift að eignast íbúð með eðlilegum kjörum, reisa nýjan landspítala strax og koma heilsugæslu á landinu í sæmilegt horf, þarf þegar í stað að semja námsskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla í lýðræði og málefnalegri umræðu, m.a. á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis og niðurstöðu Þjófundarins 20009. Einkunnarorð námsskrárinnar ættu að vera latnesku orðin Audiatur et altera pars: Hlustaðu einnig á aðra.

Flokkar: Stjónmál

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar