Laugardagur 27.4.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Að leiðarlokum vinstri stjórnar

Það er auðvelt að vera vitur eftir á – ekki síst fyrir annarra hönd. Nú hefur vinstri stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs runnið skeið sitt á enda. Eftirmælin verða misjöfn, einkum eftir því hvar í flokki menn standa.

Eins og lesendur þekkja, varð sterk vinstri sveifla í kosningunum 2009. VG varð sigurvegari, hlaut 14 þingmenn og bætti við sig fimm þingmönnum. Samfylkingin fékk 20 þingmenn og bætti við sig tveimur og varð stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð, fékk 16 þingmenn, tapaði níu. Ástæður þess voru augljósar. Kjósendur töldu Sjálfstæðisflokkinn eiga mesta sök á Hruninu þar sem spilling, græðgi og einkavinavæðing lá að baki og brýna nauðsyn bæri til að fá ný öfl, nýtt fólk og viðhorf að stjórn landsmála.

Í framhaldinu mynduðu Samfylkingin og VG meirihlutastjórn og birtu sjö þúsund orða samstarfsyfirlýsingu. Galli yfirlýsingarinnar – auk þess að vera allt of löng – er að í henni er allt nefnt – allt frá stöðugleika og þjóðarsamstöðu til þess að setja heildstæð lög um fjölmiðla þar sem ritstjórnarlegt sjálfstæði og réttur blaðamanna væru tryggð. Í stað þessarar langloku átti stjórnin að lýsa yfir í örfáum orðum að meginverkefni stjórnarinnar væri að bjarga þjóðarskútunni af strandstað frjálshyggjunnar og slökkva elda sem peningahyggja, græðgi, svik og glæpir auðvaldsins höfðu kveikt.

Flestum stefnuskrármálum ríkisstjórnar Samfylkingar og VG hefur verið komið í kring og stjórnin unnið kraftaverk í efnahags- og atvinnumálum, enda eru framtíðarhorfur þjóðarinnar góðar. Ný viðhorf eru komin fram um grundvallaratriði lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda. Ungt og vel menntað fólk flytur með sér nýjan andblæ og setur svip á stjórnmála- og þjóðmálaumræðuna og nýtt Ísland er í augsýn. Engu að síður virðast stjórnarflokkarnir ætla að gjalda afhroð í kosningunum í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, sem átti mestan þátt í endurreisnar- og björgunarstarfi undanfarinna ára, hefur ekki hlotið miklar þakkir fyrir dugnað sinn og ósérplægni. Hann hefur verið settur af sem formaður umbótaflokksins, sem hann stofnaði fyrir áratug, og flokkurinn virðist auk þess gjalda afhroð. Í stað 22% fylgis 2009 sýna skoðanakannanir nú um 10% fylgi VG. Í stað 14 þingmanna 2009 virðist flokkurinn aðeins fá sjö þingmenn. Hvað veldur ?

Vafalaust er margt sem veldur, s.s. áróðursmáttur Sjálfstæðisflokksins, mistök VG að semja við Samfylkinguna um, að aðildarviðræður yrðu settar á oddinn, svo og – og ekki síst sundurlyndi og einstaklingshyggja – svo ekki sé sagt þverlyndi sem virðist fylgja vinstra fólki. Þá er alkunna að kjósendur eru fljótir að gleyma – vika er langur tími í stjórnmálum – auk þess sem þjóðarleiðtogar á stríðstímum hafa mátt þola afneitun og undanfarið kjörtímabil voru stríðstímar. Þá er einnig ljóst að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, eins og Davíð frá Fagraskógi segir.

En auðvitað átti VG ekki að semja um það við Samfylkinguna að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið á þessum stríðstímum Hrunsins.

Flokkar: Stjónmál

Fimmtudagur 11.4.2013 - 16:30 - FB ummæli ()

There is no such thing as public mone

Þetta eru einhver frægustu orð Járnfrúnarinnar, Margaret Thatcher, sem hún viðhafði á landsfund breska íhaldsflokksins í Blackpool árið 1983. Orðin hafa skoðanabræður hennar og skoðanasystur endurtekið í þrjátíu ár sem grundvallarsannleika mannlegs samfélags. Ummælin eru sannarlega hnyttileg um leið og þau eru röng, eins og mörg hnyttileg orð atvinnustjórnmálamanna hér á landi sem annars staðar.

Mannlegt samfélag – ekki síst nútíma lýðræðisleg þjóðfélög – byggja á samstöðu þegnanna, samhjálp allra og tillitssemi þar sem leitast er við að allir séu jafnir fyrir lögunum og sama réttlæti gildi fyrir alla. Til þess þarf sameiginlegan vilja og sameiginlegan sjóð, opinbera sjóði sem allir greiða í eftir efnum og aðstæðum. Þeir sem eiga miklar eignir og afla mikils fjár greiða meira heldur en þeir sem eiga ekkert og geta ekki séð fyrir sér. Ástæður þess að fólk getur ekki séð sér farborða eru margar, oft æska eða elli, fötlun á líkama eða sál ellegar félagslegar aðstæður – jafnvel búseta. Við teljum ekki eftir okkur að sjá fyrir börnum okkar eða öldruðum foreldrum okkar, fötluðu barni eða gamalli frænku sem býr fyrir austan og getir ekki séð sér farborða.

Eitt grundvallaratriði í mannlegu samfélagi – nútíma lýðræðislegu menningarsamfélagi – er traust menntakerfi og öflugt heilbrigðiskerfi. Þetta er talið til mannréttinda, og þótt orðið mannréttindi sé sannarlega ofnotað, eru þetta grundvallarmannréttindi ásamt því að njóta friðar og félagslegs öryggis.

Til þess að geta komið öllu þessu í kring þarf opinbera sjóði – public money – sem myndaðir eru af sköttum af ýmsu tagi, innflutningsgjöldum og jafnvel af frjásum framlögum fólks, sem flest reiðir þetta fram með glöðu geði vegna þess að það skilur samhengi hlutanna.

Einn af mætustu mönnum, sem ég hef kynnst um dagana, er Thorolf Smith, fréttamaður og rithöfundur, flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum öll sín fullorðinsár. Meðan við unnum saman á gömlu Fréttastofu Ríkisútvarpsins nefndi hann oft hversu ánægður hann væri að geta borgað skattana sína, bæði vegna þess að hann gæti það – af því að hann hefði vinnu, sem ekki væri sjálfsagt, og einnig vegna hins, að með því legði hann í sameiginlega sjóði sem hann, börnin hans og barnabörnin og allir aðrir nytu góðs af. Þá viðhafði hann gjarna orð þau, sem höfð eru eftir franska  rithöfundinum Voltaire: „Ég er ósammála því sem þú segir, en ég un verja allt til dauða rétt þinn til þess að segja það.”

Þetta er að mínum dómi góð heimspeki, góð stjórnmálaleg afstaða. Thorolf Smith lifði það ekki að heyra orð Margaret Thatcher: „There is no such thing as public money,” en held ég hann hefði verið þeim óssamála eins og undirritaður. En blessuð sé minning Járnfrúarinnar. Hún skildi eftir sig spor sem ekki samræmast skilningi á mannlegu samfélagi réttlætis og jöfnunar.

 

 

Flokkar: Stjónmál

Þriðjudagur 9.4.2013 - 12:16 - FB ummæli ()

Nýir tímar

Miklar breytingar verða á þingliði eftir kosningar. Ljóst er, að fleiri nýir fulltrúar taka sæti á Alþingi en nokkru sinni í 167 ára sögu hins endurreista Alþingis. Vonandi þekkja nýir alþingismenn og -konur sinn vitjunartíma og átta sig á því, til hvers ætlast er til af þeim: að þjóna almenningi, hætta skömmum og málrófi og taka upp samræður en láta af hæðni, spotti og heimskutali, sýna virðingu og nýta þingtímann til góðra verka, bæði í nefndum og á þingfundum.

Það eru nýir tímar. Kjósendur þekkja orðið rétt sinn – þekkja sinn vitjunartíma. Þeir vita að valdið er hjá fólkinu. Í nýrri stjórnarskrá verða – hvernig sem annað veltist – ákvæði um að kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög, sem Alþingi hefur samþykkt, og geti lagt fram þingmál á Alþingi.

Beint lýðræði tekur við af flokksræði og frjálsir blaðamenn munu í auknum mæli grafast fyrir rætur hvers máls. Aukin menntun og víðsýni fólks mun valda því að gagnsæi verður haft og blind flokkshollusta hverfur fyrir skynsamlegu mati á hverju máli sem upp kemur. Þetta verða alþingismenn og -konur að gera sér ljóst. Ef þau bregðast á næsta þingi, verða þau send heim.

Þjóðþing Íslendinga árið 2010 – sem einstaka misvitrir stjórnmálamenn hæddust að – bað um réttlætivelferð og jöfnuð, bætt siðgæði, frið, aukið alþjóðlegt samstarf, skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og virðingu fyrir alla: konur og menn, unga og gamla, fólk allra þjóða og alls staðar í heiminum, hver sem trúarbrögð kunna að vera.

Það eru nýir tímar. Krafan er jöfnuður, velferð og réttlæti. Það er nóg handa öllum – ef skipt er rétt og þjóðin fær sjálf arð af eignum sínum: orkunni, vatninu og fiskinum í sjónum. Purkunarlaus auðsöfnum fárra mun senn heyra fortíðinni til. Þá er unnt að bæta menntun, sinna sjúkum frá vöggu til grafar, greiða mannsæmandi laun og gera almenningi kleift að búa við öryggi í eign húsnæði – eða í leiguhúsnæði. Þetta er markmið nýrra tíma á Íslandi.

Flokkar: Stjónmál

Fimmtudagur 21.2.2013 - 10:22 - FB ummæli ()

Ný heilbrigðisáætlun

Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um velferðarstefnu: heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að jöfnuði í heilsu og lífsgæðum og tryggja aðgengi allra að viðeigandi velferðarþjónustu, óháð efnahag. Þessu markmiði þarf að fylgja eftir án undanbragða.

Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning velferðarstefnunnar og heilbrigðisáætlunarinnar, enda eru þetta mikilsverðir þættir í menningu og þroska þjóðar. Þá er heilbrigði „mikilvægt fyrir menntun, samfélags- og atvinnuþátttöku, efnahagslega þróun og samfélagið í heild,” eins og segir í greinargerð.

Af þeim sökum hefði verið eðlilegt að öll svið heilbriðisþjónustu, forvarnar- og líknarstarfs, ungra og aldinna – frá vöggu til grafar – hefðu verið tekin með í velferðarstefnu og heilbrigðisáætlun þá sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, en það er ekki gert.

Hollvinasamtök líknarþjónustu hafa að meginmarkmiði að efla líknar- og heilbrigðisþjónustu við sjúka, aldraða og deyjandi um allt land, þjónustu sem tekur mið af þörfum notenda í samráði við þá sjálfa og aðstandendur þeirra og stuðla að kynningu á líknarhjúkrun.

Í þingsályktunartillögunni er ekki minnst á líknarþjónustu. Hins vegar segir í athugasemdum: „Farið verður yfir stöðu líknarþjónustu á landinu.” Velferðarráðuneytið á að bera ábyrgð á þessu starfi en samstarfsaðilar eru heilbrigðisstofnanir, háskólar og notenda- og félagasamtök. Framkvæmd er í höndum landlæknis og skal verkinu lokið fyrir árslok 2014. Stjórn Hollvinasamtaka líknarþjónustu telur þetta bæði of lítið og of seint, auk þess sem samstarfið þarf að vera víðtækara, m.a. ná til sérhæfðrar líknarhjúkrunar utan stofnana.

Það er því eindregin ósk stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu að þessum þáttum verði gerð betri skil og tekið mið af því mikla og góða starfi sem unnið hefur verið á sviði líknarmeðferðar um allt land, bæði innan og utan heilbrigðisstofnana, en sérhæfð heilbrigðisþjónusta hefur unnið sér sess, m.a. með heimahlynningu. Þar sem ekki er grundvöllur fyrir slíka sérhæfða þjónustu í dreifðum byggðum, skal starfsfólk heilbrigðisþjónustu á hverjum stað fá markvissa fræðslu, ráðgjöf og stuðning til að tryggja að fólk geti varið síðustu ævidögunum í heimabyggð sinni, og að það geti orðið raunhæft val að deyja heima með stuðningi heilsugæslu og ráðgjöf sérhæfðs starfsfólks heimaþjónustu.

Það vekur nokkra furðu að heilbrigðisáætlun til ársins 2020, sem á að leysa af hólmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010, er svo seint fram komin. Áætlunin tekur naumast gildi fyrr en 2014, vegna afgreiðslu fjárlaga og annars undirbúnings, og kemur því aðeins til með að gilda sjö ár. Af þeim sökum þarf þegar í stað að hefja undirbúning nýrrar heilbrigðisáætlunar.

Í nýrri heilbrigðisáætlun þarf að hafa í huga, að mikill hluti kostnaðar við heilbrigðiskerfið fer sjálfkrafa í sérhæfingu, þá sem veikastir eru og í dýrustu aðgerðirnar, þ.e. sjúkrahúsin. Hins vegar þarf að stórauka forvarnarstarf og daglega þjónustu heilsugæslu við almenning og breyta áherslum, t.d. með auknu aðgengi að ráðgjöf sérfræðinga á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. Með því er unnt að minnka kostnað sjúkrahúsa. Heilsugæsla í landinu þarf einnig að taka ábyrgð á eftirfylgni og stuðningi við þá sem greinast með lífsstílssjúkdóma eða eru í áhættuhópi og þurfa að breyta lifnaðarháttum sínum.

Þá telur stjórn Hollvinasamtaka líknardeilda að endurskoða þurfi frá grunni áætlun um byggingu svo kallaðs hátæknisjúkrahúss í miðborg Reykjavíkur og efla sjúkrahús og heilsugæslustöðvar um allt land. Síðast en ekki síst þarf að tryggja menntun og kjör starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar á öllum stigum.

Í greinargerð við þingsályktunina segir: „Við gerð nýrrar áætlunar er leitast við að móta framtíðarsýn í heilbrigðismálum til ársins 2020 og lögð fram aðgerðaáætlun til að nálgast þau markmið sem fram eru sett.” Þetta hefur ekki tekist. M.a. er hvergi getið um aðkomu og áhrif sjúklinga eða aðstandenda þeirra sem er eitt höfuðmarkmið nýrrar stefnu Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðisálastofnunarinnar, WHO, sbr. t.d. nýja heilbrigðisáætlun sem norska stórþingið samþykkti 2011, samhandlingsreformen, og tók gildi 1. janúar 2012.

Með auknu trausti og aukinni samvinnu ríkis, sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, starfsfólks heilbrigðisþjónustu, sjúklinga og aðstandenda þeirra er unnt að bæta þjónustu á öllum sviðum og nýta betur bæði starfskrafta, þekkingu og fjármuni.

Flokkar: Stjónmál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 5.1.2013 - 17:52 - FB ummæli ()

Hlutverk forseta Ísland

Enn einu sinni er ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands í fortið, nútíð og framtíð, því að enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar blandað sér á óviðeigandi hátt í stjórnmáladeilur samtímans.

Eins og oft áður hefur höfundur þessara orða hlustað á áramótaræður Margrétar Danadrottningar og Haralds Noregskonungs, en frá Noregi og Danmörku var Íslandi stjórnað í 656 ár – hálfa sjöundu öld og engum þjóðum erum við Íslendingar skyldari.

Megináhersla í orðum þessara tveggja þjóðhöfðingja um nýliðin áramót var lögð á það sem sameinaði þjóðirnar. Bæði Margrét Danadrottning og Haraldur Noregskonungur lögðu áherslu, hversu mikilsvert það væri að hefja sig yfir deilumál samtímans – og Haraldur Noregskonungur sagði:

Það – að þroska bestu eiginleika sína – er sérstaklega mikilsvert fyrir þá sem gegna forystuhlutverki í samfélaginu þannig að valdið sé notað til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Bæði innan stjórnmálanna og í atvinnulífi, rannsóknum, umhverfismálum og fjölmiðlum stöndum við andspænis miklum áskorunum. Við þurfum á vitrum leiðtogum að halda sem hafa getu til þess að hugsa langt fram í tímann og geta ráðið við áskoranir.

Það er erfitt að taka ákvarðanir sem bera árangur inni í framtíðinni og ekki er auðvelt að mæla. En það eru hyggindi sem við þurfum á að halda, leiðtogar sem starfa í þeirri trú að góðar ákvarðanir borgi sig þegar til lengdar lætur.

Ólafi Ragnari var ólíkt farið. Hann lagði áherslu á deilurnar í þjóðfélaginu:

Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum.

Daginn áður hafði Ólafur Ragnar lagt fram bókun á fundi ríkisráðs. Kom þar til deilna og orðaskipta í kjölfar bókunarinnar. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta í ríkisráði í nær 70 ára sögu lýðveldisins.

Í áramótaávarpinu gerði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskrá að sérstöku umræðuefni, einkum tillögur um að ríkisráð verði lagt niður. Taldi hann ríkisráð væri vettvangur fyrir „samráð þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar”.

Guðni Th. Jóhannesson segir, að ríkisráð hafi aldrei verið samráðsvettvangur, eins og Ólafur Ragnar vill vera láta. Einnig má benda á, að ríkisráð er arfleifð frá konungsríkjunum Noregi og Danmörku og ef til vill óþarft með öllu. Þá hafa fræðimenn bent á, að Ólafur Ranar sé vanhæfur að ræða um nýja stjórnarskrá sem felur í sér leikreglur fyrir forseta og alþingismenn.

En hvernig sem allt veltist, er eitt víst: Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn og koma fram fyrir hönd íslensku þjóðarinnar allrar án undirmála. Það gerðu fyrri forsetar. Þeir voru hafnir yfir flokkadrætti sem vitrir, víðsýnir og umburðarlyndur þjóðhöfðingjar en lögðu sig ekki fram um að stuðla að sundrungu og átökum.

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 30.11.2012 - 10:58 - FB ummæli ()

Íslenskir stjórnmálamenn alltaf að rífast

Fróðlegt var að hlusta á Göran Persson, fyrrum, forsætisráðherra Svía, ræða íslensk stjórnmál á dögunum. Það sem hann lagði mesta áherslu á til þess að komast út úr fjárhags- og hugmyndakreppu íslenskrar örþjóðar, var að íslenskir stjórnmálamenn sýndu samstöðu og ynnu saman þar til varanlegur árangur næðist. Síðan gætu þeir farið að takast á – rífast.

Það eru gömul sannindi að „sameinaðir  sigrum vér, sundraðir föllum vér” – eða eins og rómverski sagnaritarinn Sallustius orðaði það fyrir 2000 árum: „Concordia parvae res, discordia maximae dilabuntur.” Samstaða virðist hins vegar ekki vera ein af gáfum þessarar undarlegu þjóðar. Sumir þingmenn eru heldur ekki þingtækir – eru ekki færir um að talast við á mannamótum, heldur nota þeir sjóðabúðatal og vinnukonukjaft, sem hugsanlega getur verið gott og gilt norður í Ólafsfirði eða austur í Flóa – en ekki á Alþingi.

Eftirtektarvert er einnig að sumir fréttamenn veita þessum strigakjöftum meira rúm í umfjöllun sinni en þeim fjölmörgu alþingisþingmönnum sem reyna að leggja gott til málanna. Það þykir sennilega ekki „kúl” í fréttum þar sem alltaf er verið að leita að fréttinni um manninn sem beit hundinn.

Þá er það einnig umhugsunarvert að formenn stjórnmálaflokkanna láta sitt ekki eftir liggja í svigurmælum, hvort heldur um er að ræða Bjarna Benediktsson, Steingrím Jóhann eða Sigmund Davíð – það er helst Jóhanna Sigurðardóttir sem talar af setningi, en Össur Skarphéðinsson bætir það þá upp.

Einnig er eftirtektarvert að gamlir stjórnmálamenn, sem ættu að geta litið af yfirvegun um farinn veg og gefið góð ráð, þenja sig með stóryrðum. Fer ritstjóri Morgunblaðsins þar fremstur í flokki, enda orðvís maður, en sama er að segja um Halldór Blöndal og Þorstein Pálsson, sem þó ættu að geta miðlað af þekkingu sinni. Ég tala ekki um Sighvat Björgvinsson sem enn verður sér til skammar í stjórnmálaumræðu eins og hann byrjaði með ungur á Alþingi 1976 þegar hann sakaði Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra um að hefta rannsókn í morðmáli.

Þess hefur verið getið til, að við Íslendingar værum svona orðhvatir vegna þess að við erum komnir af Agli Skallagrímssyni og öðrum ribböldum sem flýðu nýtt þjóðfélagsskipulag og reglu sem Haraldur hárfagri Hálfdanarson svarta vildi koma á í Noregi. Einnig benda fróðir menn á að yfirgangur hafi fylgt okkur frá því Sturlungaöld þegar bræður bárust á banaspjót.

Ekkert af þessu er ekki næg skýring, þótt vera kunni hluti af skýringunni. Miklu fremur mætti segja að við gerum okkur ekki grein fyrir, hvað hæfir í samskiptum siðmenntaðs fólks, enda hafa útlendingar, sem hingað koma, undrast framkomu okkar. Hér er helst um að kenna þekkingarleysi á góðum siðum, fávísi og menntunarleysi. Því bind ég vonir við að nýtt fólk og betur menntað og betur siðað sem er að hasla sér völl í stjórnmálum á Íslandi, taki upp aðra siði og sameinist um að sýna samstöðu en ali ekki á sundrungu. Þar bind ég vonir við stjórnmálaleiðtoga eins og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún flutti með sér nýtt viðhorf í borgarstjórn og gerir það án efa í landsstjórninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.11.2012 - 17:36 - FB ummæli ()

Ný kynslóð í stjórnmálum á Íslandi Ný hugsun – Nýtt Ísland

Margt bendir til þess að ný kynslóð sé að kveðja sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, bæði í gamla fjórflokkunum og nýjum flokkum eða framboðum, sem hafa hætt sér út á vígvöllinn, þar sem flestir verða sárir, allir ákaflega móðir og margur góður maður, karl eða kona, fer þaðan kalinn á hjarta, eins og Grímur Thomsen segir í kvæði sínu Á Glæsivöllum þar sem hann lýsir stjórnmálalífi á 19du öld. Kvæðið kallar hann Á Glæsivöllum.  Þar er ekki allt sem sýnist, þrátt fyrir glæsileikann:

Hjá Goðmundi á Glæsivöllum

gleði er í höll,

glymja hlátrasköll,

og trúðar og leikarar leika þar um völl,

en lítt er af setningi slegið.

Á Glæsivöllum aldrei

með ýtum er fátt,

allt er kátt og dátt,

en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,

í góðsemi vegur þar hver annan.

Náköld er Hemra,

því Niflheimi frá

nöpur sprettur á.

En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,

kalinn á hjarta þaðan slapp ég.

Lýsing Gríms, bónda á Bessastöðum, getur vel átt við stjórnmálalíf á Íslandi undanfarna áratugi, eins og skrif Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar, Styrmis Gunnarssonar, Svavars Gestssonar – að ekki sé talað reiðilestra  Sighvats Björgvinssonari – bera með sér.  Allir virðast þeir að vísu hafa sloppið lifandi úr þessu ríki handan Hemru, fljótinu sem skilur á milli ríkis hinna lifandi og hinna dauðu, Niflheimi, en allir koma þeir aftur til mannheima með kalið hjarta.

Vonandi er að unga fólkið, sem nú kveður sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, getið sloppið við hjartakuldann. Mikilsverðast í því sambandi er að nýir stjórnmálamenn geti talað saman, bróðernið verði ekki flátt og gamanið ekki grátt, heldur tali fólk saman, hlusti á andstæðinginn eins og segir í Hávamálum: tala þarft eða þegja, eða eins og Rómverjar hinir fornu höfðu að orði á blómaskeiði sínu: Audiatur et altera parshlustið einnig á hinn aðilann. Ef stjórnmálamenn á Íslandi hlusta á hinn aðilann – og reyna að læra hver af öðrum-  er von til þess að hilli undir nýtt Ísland.

 

 

Flokkar: Stjónmál

Þriðjudagur 13.11.2012 - 23:33 - FB ummæli ()

Sjálfhverfur er Sighvatur

Eins og áður er kynlegt að lesa skrif Sighvats Björgvinssonar. Í grein í Fréttablaðinu daginn fyrir friðardaginn ræðst hann með skömmum að fólki á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára og kallar það sjálfhverfustu kynslóð á Íslandi, sem tali ekki um annað en sjálft sig og sagðist fyrir hrunið bera lagt af jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum, taldi sig geta kennt öðrum þjóðum og ól af sér  útrásarvíkingana, keypti þekktustu vörumerki Norður Evrópu og vínræktarhéruð í Suður Evrópu, turna í Macao og notaði gullduft sem útálát  á steikurnar í Róm enda komið á vanskilaskrá fyrir hrun af því að lifa um langt efni fram, tók lán í öðrum gjaldmiðlum en hún hafði tekjur í – og segir fall íslensku krónunnar forsendubrest. „Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.”

Ekki veit ég hvað fyrir fyrrum formanni jafnaðarmannaflokks Íslands, gömlum alþingismanni og ráðherra gengur til að hella úr skálum reiði sinnar yfir fólk á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára, uppnefna það, alhæfa og fella sleggjudóma. Gamli jafnaðarmaðurinn kórónar síðan skömm sína með grein í Fréttablaðinu í dag, 13da nóvember árið 2012, og dregur þá ályktun, að af því til eru fleiri ofstækismenn en hann – jafnvel sex þúsund – hafi hann sagt satt og stefið í drápu hans er: „Ekki lýg ég”.

En nú er komið í ljós að Sighvatur sagði ekki satt – hann laug, ef til vill ekki vísvitandi heldur af þekkingarleysi og ofstæki sem hæfir ekki manni á áttræðisaldri. Í nýjustu neyslu- og lífsstílskönnun Capacent kemur nefnilega fram að hópurinn 35-45 ára er ekki sjálfhverfasti hópurinn, eins og hann heldur fram. Fyrirtækið Auglýsingamiðlun hefur unnið úr könnun Capasent þar sem kemur í ljós að hópurinn 18-29 er mun sjálfhverfari, þ.e.a.s. eyðir meiru. Í könnuninni kemur einnig í ljós að sjálfhverfa – en hér er átt eyðslusemi – fer almennt minnkandi eftir því sem fólk eldist, þótt undantekningar séu á og til séu gamlir menn sem gleyma engu og læri ekkert, eins og sagt er um heimska fíla. Og þá er að ráðast á hópinn 18-29 ára – það er sjálfshverfa kynslóðin.

Hins vegar vil ég sem gamall barnakennari að norðan benda á, að orðið sjálfhverfur er nýyrði sem Sigurður Guðmundsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, bjó til um það sem á dönsku er nefnt egocentrisk og á ensku egocentric og merkir sjálfselskur, eigingjarn – en einnig  „maður sem beinir athyglinni um of að eigin tilfinningum eða gerir sig að mælikvarða allra hluta”. (Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi 1999:311)

 

 

 

Flokkar: Stjónmál

Mánudagur 22.10.2012 - 18:58 - FB ummæli ()

Lærdómshroki Sigurðar Líndals

Lærdómshroki Sigurðar Líndals ríður ekki við einteyming. Allt sem aðrir segja, er merkingarlaust og ekki unnt að semja stjórnarskrá nema „að bestu manna yfirsýn“ – það er að segja að ráði hans og skoðanabræðra hans í lögfræðingastétt.

Enda þótt unnið hafi verið að undirbúningi nýrrar stjórnarskrár af fjölmennum hópi manna, víðs vegar að af landinu um langan tíma, er um að ræða „ófullburða plagg sem fullyrða má að landsmenn höfðu afar óljósa hugmynd um, hvað fæli í sér.“

Lögfræðingurinn og skáldið Hannes Hafstein sagði: 

 

Að drepa sjálfan sig

er synd gegn lífsins herra.

Að lifa sjálfan sig

er sjöfalt verra.

 

Sigurður Líndal lagaprófessor hefur dæmt sig úr leik í umræðu um nýja stjórnarskrá, auk þess sem hann hefur lifað sjálfan sig – sem „er sjöfalt verra“. Orð hans í Fréttablaðinu í dag eru til vitnis um þetta:

„Hér er unnið  í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er.“ 

Minna mátti ekki gagn gera. Orð lagaprófessorsins bera hins vegar ekki vitni um sterka röksemdafærslu, skilning á orðum annarra eða umburðarlyndi. Nú er kominn tími fyrir hann og aðra friðelskandi menn til að fara að orðum lögfræðingsins og skáldsins Hannesar Hafsteins: „Strikum yfir stóru orðin / standa við þau minni reynum.“

Rétt væri líka fyrir lagaprófessorinn að átta sig á því, að menntun fólks er nú meiri en á æskudögum hans og krafan um aukið lýðræði – jafnvel beint lýðræði – er krafa framtíðarinnar.

Flokkar: Stjónmál

Laugardagur 20.10.2012 - 14:59 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá – nýtt Ísland

Frá stofnun lýðveldis hefur átt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944, sem að meginstofni er þýðing á DANMARKS RIGES GRUNDLOV af 5. Juni 1915 med ændringer af 10. September 1920. Ekki er þá aðeins verið að tala um að lappa upp á stjórnarskrána, eins og Alþingi hefur gert sjö sinnum – heldur skrifa nýja stjórnarskrá.

Við hrunið 2008, sem á sér enga hliðstæðu í 65 ára sögu lýðveldisins, töldu margir að nú væri tími kominn til að endurskoða stjórnarskrána, ekki vegna þess að “danska” stjórnskráin væri orsök hrunsins, heldur til að marka nýja stefnu – móta nýtt Ísland. Eftir hrunið hefur komið í ljós glæpsamleg spilling í efnahagslífi og stjórnmálum landsins, spilling sem á sér enga hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum sem við erum skyldust.

Sundurlyndi stjórnmálaflokka, sem eru sjálfum sér sundurþykkir, og fyrirlitning stjórnmálamanna – svo ekki sé sagt hatur þeirra hver á öðrum – hefur kynt ófriðarbál sem enn brennur með þjóðinni og tafið endurbætur á stjórnkerfi landsins.

Enn ríkir sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði og vonbrigði. Frumstæð umræða á opinberum vettvangi um álitamál – og þá ekki síst frumstæð, ómálefnaleg umræða á Alþingi – gerir þinginu ókleift að ráða fram úr aðkallandi verkefnum.

Með nýrri stjórnarskrá, sem verður sáttmáli hins skapandi meirihluta þjóðarinnar, má vænta þess að unnt verði að auka ábyrgð stjórnvalda, tryggja raunverulega þrískiptingu valds og endurreisa traust almennings á Alþingi, ríkisstjórn og dómstólum – hvað sem íhaldsöflin í öllum flokkum kunna að segja.

Flokkar: Stjónmál

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar