Föstudagur 18.5.2018 - 15:26 - Rita ummæli

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Það er óásættanlegt að fólk þurfi jafnvel að aka fleiri hundruð kílómetra til að nýta rétt sinn til að kjósa til sveitarstjórnar utan kjörfundar. Það er líka óásættanlegt að einungis sé einn kjörstaður á öllu höfuðborgarsvæðinu til að kjósa utan kjörfundar.
Sveitarfélögin sjá um framkvæmd allra kosninga. Þau sjá um framkvæmd kosninga til Alþingis, forsetakosningar og kosningar til sveitarstjórna á kjördag. En þeim er ekki treyst til þess að sinna þeirri sjálfsögðu þjónustu við kjósendur að þeim sé kleift að kjósa utan kjörfundar í sinni heimabyggð. Það er verkefni sýslumanna en þeim hefur fækkað svo mikið á undanförnum árum og stöður hreppstjóra (umboðsmanna sýslumanna) hafa í flestum tilvikum verið lagðar niður. Þess vegna þarf þetta verkefni að færast til sveitarfélaganna.
Stöndum saman að því að auka kosningaþátttöku en mikilvæg leið til þess er að bæta aðgengi kjósenda að kosningum utan kjörfundar.

Þessi bókun var samþykkt í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag:

,,Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir þá kröfu til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsembætta að þau tryggi að skipulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu henti íbúum í hverjum landshluta án þess að þeir þurfi að ferðast um langan veg. Jafnframt þarf að tryggja að sjómenn eigi kost á því að greiða atkvæði utan kjörfundar.  Óásættanlegt er að skortur á þjónustu af hálfu sýslumanna verði til þess að draga úr kjörsókn.

Stjórn sambandsins telur mikilvægt að hafnar verði sem fyrst viðræður á milli sambandsins, dómsmálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands um nauðsynlegar úrbætur á kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga. Í þeim viðræðum verði sérstaklega horft til þess á hvern hátt sé hægt að auka kosningaþátttöku.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.3.2018 - 14:20 - Rita ummæli

Kosningar, kosningaaldur og þátttaka – leiðari í Sveitarstjórnarmál

Ég skrifaði þennan leiðara 20. febrúar sl. Það sem gerst hefur síðan þá er að ef marka má fjölmiðla kann að vera að Alþingi samþykki að lækka kosningaaldur í 16 ára aldur en ekki heimild fyrir þann aldurshóp til að bjóða sig fram.

Þann 26. maí nk. ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa í 73 sveitarfélögum til næstu fjögurra ára. Íslendingar eru í nokkuð góðri þjálfun við að kjósa því tíðni alþingiskosninga er hærri en í meðalárum og stutt frá forsetakosningum. Það er því boðið upp á lýðræðisveislu nokkuð reglulega í því lýðræðisþjóðfélagi sem Ísland er.

En til að geta boðið upp á veisluna þarf a.m.k. tvennt til: Annars vegar kjósendur og hins vegar frambjóðendur.

Þegar litið er yfir það svið er áhyggjuefni að þátttaka kjósenda minnkaði verulega í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru árið 2014 því þá mættu 66,5% kjósenda á kjörstað en árið 1974 var þátttakan 87,8%. Er von að við spyrjum okkur hvort borgaravitund Íslendinga hafi farið aftur eða hvort alltof mörgum þyki ekki skipta máli hver eða hverjir séu kosnir til að fara með málefni síns sveitarfélags. Okkur vantar því augljóslega fleiri kjósendur til að geta sagst halda lýðræðisveislu. Mikilvægt er að umræða verði um þetta mál og að frambjóðendur veki áhuga kjósenda á að mæta á kjörstað því það hlýtur að skipta máli hverjir stjórna.

Alþingismenn úr nokkrum flokkum lögðu fram frumvarp á þessu þingi í því skyni að gera 16 ára kleift að kjósa og bjóða sig fram. Eflaust er ekkert að því að lækka aldur þeirra sem mega kjósa en við skulum þó hafa í huga að Alþingi ákvað fyrir allmörgum árum að fullorðinsaldri væri ekki náð við 16 ára aldurinn heldur 18 ára. Galli á þessu frumvarpi er hins vegar helst sá að gert var ráð fyrir að 16 ára gætu líka boðið sig fram, samt eru þau hvorki fjárráða né sjálfráða. Og annar galli er að frumvarpið kemur fram þegar sum framboð eru að verða búin að skipa sína framboðslista. Þetta verður því tæplega að lögum á þessu þingi og það væri hreinlega rangt að koma með ný lög svona seint.

En við þurfum að efla lýðræðisvitund þessa aldurshóps rétt eins og annarra og eru ungmennaráðin sem sveitarfélög hafa komið á fót mjög víða gott og mikilvægt skref í þá veru. Það eflir hið margumtalaða íbúalýðræði og eru sveitarfélög hvött til að sinna þessu verkefni af alúð.

Hin hliðin á því að geta boðið upp á lýðræðisveislu eru frambjóðendur. Þeir eru líka af skornum skammti. Ekki alls staðar en alltof víða gefur fólk sig hreinlega ekki til þessara starfa. Og við höfum séð það í undanförnum sveitarstjórnarkosningum að endurnýjun er alltof hröð meðal sveitarstjórnarfólks. Í kosningunum 2014 var 54% endurnýjun. Það er ekki eðlilegt að svo mikil endurnýjun sé og hljótum við að velta fyrir okkur hvers vegna fólk endist svona illa í þessu mikilvæga hlutverki.

Ástæðurnar eru eflaust margar en mikið álag utan venjulegrar vinnu, lítil laun, vanþakklæti og hreinlega illt umtal hvetur fólk ekki beinlínis til að halda áfram að sinna þeirri samfélagslegu ábyrgð sem felst í starfi sveitarstjórnarmanns. Oft verður fólk fyrir vinnu- og launatapi vegna þessara aukastarfa því alls staðar nema í Reykjavík eru þetta aukastörf með annarri vinnu.

Og konur virðast hætta fyrr en karlar í sveitarstjórnum. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum var 21,8% árið 1990 en var komið í 44,5% árið 2014. Við verðum að vona að þetta hlutfall fari ekki niður í kosningum í vor eins og gerðist í síðustu alþingiskosningum. Til að það gerist ekki þurfa enn fleiri konur að gefa kost á sér í sveitarstjórnir landsins. Miðað við upptalningu á ókostum þess að vera í sveitarstjórn er þessi pistill kannski ekki heppilegur til að hvetja fólk til starfa en engu að síður er hann líka hugsaður til þess.

Sveitarstjórnarmenn með nýtt og endurnýjað umboð þurfa að fara yfir þessi mál ekki síður en önnur á næsta kjörtímabili og laga starfsumhverfið og launin. Svo einfalt er það. Við viljum búa í lýðræðisþjóðfélagi og sveitarstjórnir eru lykillinn að því að okkur sé það kleift.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.3.2018 - 11:09 - Rita ummæli

Svifryk er heilsuspillandi

Nú er sá árstími sem svifryk veldur mestum vandræðum. Við þekkjum tímabilið frá seinnihluta febrúar og fram í apríl, jafnvel fram í maí þar sem veðurfarið er þannig að mest situr á götunum og mest þyrlast upp vegna umferðarinnar. Þegar kornastærð svifryks er skilgreind er talað um PM 10 sem er vont og óþægilegt og verulega vont fyrir viðkvæma. PM 2,5 er heilsuspillandi og það kemur fyrst og fremst úr sóti díselvéla.

Í Þýskalandi er talið að 6.000 ótímabær dauðsföll séu þar árlega vegna NO2 (köfnunarefnisdíoxíðs). Þessi mengun er vaxandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu en á síðasta ári fór NO2 alls 17 sinnum yfir leyfileg mörk sem eru 7 sinnum á ári skv. reglugerð.

Mest af NO2 kemur frá díselvélum. en díselbílum hefur fjölgað verulega frá aldamótum. Þá voru 15% bifreiða með díselvél en núna eru það 27%. Að miklu leyti kemur aukningin til vegna þess sem reyndist vera röng ákvörðun stjórnvalda um að hvetja til notkunar díselbíla umfram bensínbíla á tímabili. Við þurfum nokkur ár til að aðlaga okkur að breyttum forsendum hvað þetta varðar. Vandamálið er vaxandi hér á höfuðborgarsvæðinu enda jókst umferðin um 8% á síðasta ári og hefur aukist verulega undanfarin ár. Og 80% svifryks kemur frá umferð, þar af er um 90% vegna stofnvegakerfisins.

Það er ekki hægt að horfa framhjá þessu vandamáli. Hluti þess mun væntanlega leysast með nýrri tækni, fleiri rafmagnsbílum og slíku. Þeir munu engu að síður slíta gatnakerfinu og þyrla upp ryki en mengun frá vélum þeirra verður ekki vandamál.

Það er hægt að sópa eitthvað betur og rykbinda eins og gert er í borgum á borð við Osló og Stokkhólm en það er frekar plástur á sárin að rykbinda en einhver endanleg lausn.

Það þarf að draga úr nagladekkjanotkun. Díselvélum mun trúlega fækka. Það er verið að vinna í frumvarpi að nýjum umferðarlögum þar sem verða heimildir til að lækka umferðarhraða tímabundið, jafnvel banna umferð við sérstök skilyrði og leggja gjald á nagladekk. Allt eru þetta nauðsynlegar aðgerðir en það þarf líka að bæta verulega almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu til að þær séu raunhæfur kostur í stað þess að allir séu á einkabíl. Meðaltalið í hverjum bíl er 1,1 og það segir sig sjálft að það gengur ekki upp á vaxandi borgarsvæði þar sem sífellt fleiri íbúar þurfa að komast á milli staða. Stærsta raunhæfa aðgerðin er góðar almenningssamgöngur og færri einkabílar á götunum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.2.2018 - 11:20 - Rita ummæli

Sjálfkeyrandi bílar, greining tækifæra.

Umræðan um fjórðu iðnbyltinguna er töluverð og vaxandi enda er margt spennandi að gerast í þeim málum. Sjálfvirkni er að aukast. Gervigreind gerir vélum kleift að vinna sífellt flóknari störf. Þetta sést í flestum ef ekki öllum atvinnugreinum. Nýjasti togari Granda er sem dæmi með mikla sjálfvirkni, t.d. við löndun.

Sjálfkeyrandi bílar eru notaðir víða um heim og sjálfkeyrandi lestir og vagnar í sérrýmum eru mikið notuð á fjölda flugvalla og höfum við eflaust flest nýtt okkur slíkar samgöngur.

Með þetta í huga lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi tillögu fram í borgarstjórn í
desember 2017. Hún fór til umhverfis- og skipulagsráðs sem óskaði eftir umsögn samgöngustjóra.

„Borgarstjórn samþykkir að hefja greiningu á tækifærum sem felast í notkun sjálfkeyrandi bíla
með það að markmiði að gefa kost á Reykjavík sem samstarfsborg við framleiðendur
sjálfkeyrandi bíla. Farið verði í viðræður við samgönguráðuneytið, Samgöngustofu og
lögregluna til að greina möguleika og tækifæri slíks samstarfs.“

Umsögn samgöngustjóra borgarinnar, dags. 12. febrúar 2018, er þessi:
,,Segja má að Reykjavíkurborg hafi nú í janúar tekið fyrstu formlegu skrefin í að gefa kost á
Reykjavík sem samstarfsborg við framleiðendur sjálfkeyrandi bíla. Reykjavíkurborg sendi þá,
ásamt 16 samstarfsaðilum hérlendis og erlendis, umsókn um styrk úr Horizon 2020
rannsóknaráætlun ESB. Meðal samstarfsaðila í verkefninu, ef af verður, eru Vegagerðin,
Strætó bs. Háskóli Íslands, Tækniháskólinn í Munchen, Siemens, Orkuveita Reykjavíkur,
bílaumboðið Hekla og Toyota á Íslandi.

Ef styrkur fæst mun Reykjavíkurborg ásamt samstarfsaðilum skilgreina ákveðnar götur og
götukafla í borginni sem rannsóknarsvæði fyrir prófanir á sjálfkeyrandi tækni í fólks- og
vöruflutningum. Markmiðið er prófa hvort og þá hvaða vandamál koma upp við innleiðingu
sjálfkeyrandi tækni í borg eins og Reykjavík til að borgir af svipaðri stærð og samstarfsaðilar
úr tæknigeiranum geti gert viðeigandi úrbætur.

Í lok apríl verður ljóst hvort umsóknin kemst á næsta stig í umsóknarferlinu. Ef ekki verður
framhald á verkefninu þá telur undirritaður rétt að Reykjavíkurborg leiti annarra leiða til að
gefa kost á Reykjavík sem samstarfsborg við framleiðendur sjálfkeyrandi bíla.“

Við hljótum öll að vona að styrkur fáist í þetta áhugaverða verkefni en ef ekki þá verðum við að stíga okkar eigin sjálfstæðu skref í samstarfi við framleiðendur sjálfkeyrandi bíla til að finna út hvernig þetta hentar okkar umhverfi. Mjög líklegt er að merkingar séu ekki nægilegar fyrir þessa bíla til að lesa úr götunum (línur, punktalínur o.fl.).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.1.2018 - 19:50 - Rita ummæli

Fjármálastefna hins opinbera

Eftirfarandi er leiðari sem ég skrifaði i Sveitarstjórnarmál í desember 2017:

Frumvarp til fjárlaga 2018 var lagt fram í annað sinn vegna stjórnarskipta þann 14. desember sl. Þótt gert sé ráð fyrir ívið hægari hagvexti á næsta ári en undanfarin tvö ár, blasir við að veruleg spenna er í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi þrýstingi á verðlag og viðskiptajöfnuð. Við þessar aðstæður er aðhald í opinberum fjármálum mikilvægt.

Lög um opinber fjármál kveða á um að ný ríkisstjórn skuli svo fljótt sem auðið er leggja fram fjármálastefnu til næstu fimm ára. Samhliða fjárlagafrumvarpi 2018 leggur því ríkisstjórnin fram tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022.

Gildandi fjármálastefna, sem lögð var fram af fyrri ríkisstjórn, var samþykkt sem þingsályktunartillaga þann 6. apríl sl. Fjármálastefna tekur til opinberra aðila í heild, þar með talið sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra. Í nýrri fjármálastefnu er gert ráð fyrir að heildarafkoma A-hluta hins opinbera verði jákvæð um 1,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2018, en til samanburðar gerði gildandi stefna ráð fyrir að afkoman svaraði til 1,6% af VLF. Breytingin felst í því að í nýrri fjármálastefnu er áformað að heildarafkoma A-hluta ríkissjóðs verði 1,2% af VLF, eða lakari en gildandi stefna sem nemur 0,3% af VLF. Á hinn bóginn gerir ný fjármálastefna ráð fyrir að heildarafkoma sveitarfélaga batni og nemi 0,2% af VLF í stað 0,1% skv. gildandi stefnu. Byggir það á betri afkomu sveitarfélaga undanfarið en gert var ráð fyrir.

Samráð hefur verið haft við fulltrúa sambandsins og sveitarfélaga á vettvangi Samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál um þessar breytingar, og við Jónsmessunefnd, sem er samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Tímaskortur hefur vitaskuld komið í veg fyrir grundvallarrýni á forsendum og almenna umfjöllun um þær. Óvissa er um marga þætti í rekstri sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, sem mikilvægt er að fara í saumana á. Samráðsnefndin um opinber fjármál vekur athygli á að brýnt er að ljúka sem fyrst frekari rýningu á einstökum efnisþáttum sameiginlegs mats, s.s. launakostnaði, fasteignasköttum, fjárfestingu, kaupum og sölu á vöru og þjónustu og skuldum sveitarfélaga. Við framlagningu fjármálastefnu þarf því að hafa í huga óvissu matsins, einkum varðandi framvindu kjarasamninga næstu misserin sem gæti kallað á breytingar á forsendum við gerð fjármálaáætlunar ríkissjóðs fyrir tímabilið 2018-2022.

Sambandið getur ekki skuldbundið sveitarfélög til að haga fjármálum sínum með tilteknum hætti. Á hinn bóginn mælist sambandið til að sveitarfélög reyni eins og kostur er að haga fjármálum sínum þannig að þau styðji við fjármálastefnuna og ábyrga fjármálastjórn hins opinbera.

Ég óska öllum sveitarstjórnarmönnum farsældar á nýju ári og þakka fyrir þau ánægjulegu samskipti sem ég hef átt við sveitarstjórnarmenn á liðnum árum.

Halldór Halldórsson
formaður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.11.2017 - 15:21 - Rita ummæli

Áreitni og ofbeldi gagnvart konum

Mánaðarlega eru haldnir stjórnarfundir í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í dag var slíkur fundur sem boðaður var skv. venju með dagskrá. Í upphafi fundar lagði ég til að einn viðbótarliður yrði tekinn inn á dagskrá vegna þeirrar umræðu sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa komið af stað um kynferðislega og kynbundna áreitni af ýmsum toga. Margar af sögunum tengjast því miður sveitarstjórnarstiginu. Án efa eru mörg tilvik sem þar eru nefnd áfall fyrir marga og því mikilvægt að umræðan fari út í hvern krók og kima samfélagsins. Viðbrögðin verða að vera þau að við lærum af þessari umræðu og skiljum að upplifun hverrar og einnar konu er hennar eigin persónulega reynsla sem svíður undan og því eru röng viðbrögð að gera lítið úr slíkri upplifun eins og því miður hefur orðið vart við nú þegar.

Stjórn sambandsins bókaði um málið en þar kemur fram ánægja með frumkvæði kvenna í stjórnmálum, sveitarstjórnir hvattar til að taka þátt í umræðunni og tryggja að alls staðar sé stefna og viðbragðsáætlun vegna þessara mála enda sé þetta ólíðandi með öllu. Þá er bent á að stefna sambandsins getur gagnast sveitarfélögum sem fyrirmynd við að setja sér stefnu og samþykkt var að í nýju námsefni fyrir sveitarstjórnarmenn verði gert ráð fyrir fræðslu um kynferðislegt og kynbundið áreiti.

Bókunin:

,,Stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir ánægju með það frumkvæði sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa tekið undir merkjum „Í skugga valdsins“ og hvetur sveitarstjórnir landsins til að taka þátt í umræðu um kynferðisofbeldi og áreiti og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi á vettvangi stjórnmála og á vinnustöðum sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að öll sveitarfélög setji sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni enda er slík hegðun ólíðandi með öllu. Þau sveitarfélög sem ekki hafa gert slíkt eru hvött til að nýta sér sem fyrirmynd stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessu efni sem aðgengileg er á heimasíðu þess.
Stjórnin samþykkir einnig að málefnið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári og verði einnig hluti af því námsefni sem kennt verður á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.11.2017 - 18:15 - Rita ummæli

Tuttugu ár frá yfirfærslu grunnskólans – hver er staðan?

Þessi leiðari birtist í nýjustu Sveitarstjórnarmálum í nóvember 2017:

Sveitarfélögin tóku við öllum rekstri grunnskólans af ríkinu árið 1996. Tuttugu ár eru ekki langur tími í skólasögu okkar og lætur e.t.v. nærri að þetta sé nálægt þeim árafjölda sem hvert okkar ver að jafnaði til skólagöngu á lífsleiðinni, frá upphafi leikskóla. Á þessum rúmu tveimur áratugum hafa hlutir þróast ótrúlega hratt en mjög skiptar skoðanir eru um árangurinn. Hörðustu gagnrýnendurnir álíta að skólakerfið sé hálf stjórnlaust og að sveitarstjórnir hafi alltof lítil áhrif á þróunina, auk þess sem námsárangri fari hrakandi og því réttast að ríkið taki yfir grunnskólastigið á ný. Þeir eru þó örugglega fleiri sem telja að sveitarfélögin hafi staðið vel undir þeirri ábyrgð sem sett var á herðar þeirra, þótt alltaf sé hægt að gera betur.

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að nálgast umræðu um skólamál á jákvæðan hátt. Við þurfum að bera virðingu fyrir því góða starfi sem fram fer í leikskólum og grunnskólum en við þurfum líka að hafa augun opin fyrir möguleikum til umbóta. Á skólaþingi sveitarfélaga, sem haldið er nú í nóvember, verður rætt um reynsluna af menntastefnunni um skóla án aðgreiningar. Á skólaþinginu verður einnig fjallað um skort á menntuðum kennurum, sem er vaxandi vandamál hér á landi.

Fyrir liggur ítarleg úttekt Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar á framkvæmd stefnunnar ásamt tillögum að úrbótum sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd, í góðu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, sambandsins, Kennarasambands Íslands og annarra haghafa. Úttektin leiðir skýrt í ljós hve gríðarmiklu fjármagni er varið til skólastarfs og sérfræðiþjónustu á Íslandi. Þá sé einnig mikið fjármagn eyrnamerkt til starfsþróunar kennara og stjórnenda. Þetta fjármagn er hins vegar ekki nýtt á eins skilvirkan hátt og mögulegt væri. Úttektin er mikilvægt innlegg í umræðu um skólamál sveitarfélaga. Hún segir okkur m.a. að það verður að forgangsraða verkefnum í þágu nemenda og skapandi skólastarfs og viðurkenna fjölbreytileika og færni kennara, ekki síður en nemenda.

Framundan eru, enn einu sinni, kjaraviðræður við kennarafélögin. Af hálfu sambandsins er reynt að nálgast þær viðræður út frá þeirri forsendu að kjarasamningar þurfa að vera opnir, skiljanlegir öllum og síðast en ekki síst sveigjanlegir og ýta undir skapandi hugsun og útfærslu. Það léttir ekki vinnuálagi af kennurum að hækka bara launin eða fjölga yfirvinnutímum. Í síðasta kjarasamningi við Félag grunnskólakennara var samþykkt bókun um að skoða innleiðingu vinnumats í grunnskólum. Vinnumatið var innleitt með kjarasamningi árið 2014 og hefur það að markmiði að tryggja að kennsla og undirbúningur hafi forgang í störfum kennara og ná þannig betri sátt um starfsumhverfi kennara.

Sambandið vill þakka sveitarstjórnum og starfsmönnum sveitarfélaga í skólamálum fyrir það góða starf sem þau hafa sett í vinnu á grundvelli bókunarinnar. Sú vinna hefur skilað hverri sveitarstjórn mikilvægum upplýsingum, er byggja á samtölum við kennara og skólastjórnendur, um þau verkefni sem líkleg eru til þess að bæta starfsumhverfi og starfsanda og þar með skólastarfið allt. Sambandið hvetur sveitarstjórnir til þess að vinna skipulega með þessi gögn og grípa hvert tækifæri sem gefst til þess að halda á lofti því öfluga starfi sem fram fer í skólum landsins.

Halldór Halldórsson,
formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.10.2017 - 12:27 - Rita ummæli

Ekki láta blekkjast. Grein úr Morgunblaðinu

Ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu 21. október. Hún fjallar um húsnæðismálin og hvernig fólk þarf að varast blekkingar vinstri flokkanna um að þeir muni gera eitthvað í húsnæðismálum.

Veljum lausnir í húsnæðismálum og Sjálfstæðisflokkinn sem vinnur lausnarmiðað

Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á og setti í framkvæmd í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks nýtingu séreignasparnaðar til að greiða niður lán eða spara upp í útborgun húsnæðis. Það er skynsamleg leið þar sem fólk getur notað eigin sparnað og mótframlag launagreiðanda til að fjárfesta í húsnæði.

Nú erum við að ganga til kosninga enn eina ferðina, það er losarabragur á pólitíkinni og fólk er áttavillt. Öll hljótum við þó að vera sammála um að við viljum festu í landsstjórninni og ríkisstjórn sem endist kjörtímabilið. Því miður hafa samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í síðustu þremur ríkisstjórnum gefist upp með einhverjum hætti.

Það er afar athyglisvert að vinstri flokkarnir eru með tillögur í húsnæðismálum sem ganga út á að setja fjármagn inn í húsnæðiskerfið til viðbótar við það sem þegar er til staðar. Stærsti vandinn er í höfuðborginni. Þar eru vinstri flokkarnir í meirihluta og hafa verið lengi. Þessi flokkar hafa aukið á vandann með því að neita að úthluta lóðum utan þéttingarsvæði sem langflest eru miðsvæðis. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað lagt til meiri blöndun leiða. Þ.e. að úthluta lóðum austan Elliðaáa og á þéttingarsvæðum en það er fellt af hálfu meirihlutans. Og staðan er sú að nú vantar a.m.k. 5.000 íbúðir í Reykjavík og 9.000 íbúðir á landsvísu næstu þrjú árin.

Við sjáum flottar glærur hjá borgarstjóra og þykkan bækling með flottum ljósmyndum um uppbyggingu í Reykjavík. En hverjar eru staðreyndirnar? Skv. Hagstofunni eru 1.644 íbúðir tilbúnar frá árinu 2010. Og það eru alvarleg vandamál til staðar í Reykjavík þar sem fjölda fólks vantar húsnæði. Því miður er ekki hægt að búa í glærum en ef það væri hægt væri auðvitað enginn húsnæðisvandi.

Nú segjast vinstri flokkarnir sem eru í framboði til Alþingis geta leyst húsnæðismálin. En sagan segir okkur að þessir sömu flokkar hafa aukið á vandann í húsnæðismálum.

Þess vegna er skynsamlegt að kjósa flokk sem vinnur lausnarmiðað og hefur sögu sem staðfestir það. Þess vegna skulum við kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.10.2017 - 14:39 - Rita ummæli

Fólk vill eiga sína fasteign

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku (5. og 6. október sl.) var fjöldi áhugaverðra fyrirlestra. Einn þeirra var af hálfu Unu Jónsdóttur hagfræðings hjá Íbúðalánasjóði.

Það kom fram að hlutfall íbúa á leigumarkaði hefur farið hækkandi eða um 5% frá árinu 2006. Hins vegar var mjög áhugavert að skv. viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs hefur afstaða fólks gjörbreyst gagnvart leigumarkaði frá árinu 2011. Sjá má þetta á myndunum hér að neðan sem eru úr glærum Unu Jónsdóttur. Þarna má sjá að árið 2011 töldu 31% öruggt/líklegt að þau myndu leigja sér húsnæði. En árið 2017 er þetta hlutfall komið niður í 18,5%.

Annað áhugavert má lesa af seinni myndinni. Þar er spurt af hverju fólk hyggist vera á leigumarkaði. Árið 2017 eru bara tvær ástæður nefndar. Sú fyrri er fólk hafi ekki efni á því að kaup og síð síðari að það komist ekki í gegnum greiðslumat.

Þetta var allt öðruvísi árin 2011 og 2013. Þá nefndi fólk óvissu á húsnæðismarkaði/ í þjóðfélaginu (það var vinstri stjórn) og það nefndi að óhagkvæmt væri að kaupa, ódýrara að leigja, minni skuldbinding að leigja og fé hefði tapast í núverandi/fyrra húsnæði.

Smellið á myndina og ör til baka til að fara í textann aftur.

Smellið á myndina og ör til baka til að fara í textann aftur.

Þetta staðfestir mikilvægi þess að enn frekari áhersla verði lögð á séreignastefnuna. Fólk vill eiga sitt húsnæði sjálft. Síðustu breytingar á húsnæðislöggjöfinni bæta aðstöðu þeirra sem vilja vera á leigumarkaði. En það er markaðsbrestur út um allt land og á höfuðborgarsvæðinu vantar lóðir og betri aðferðir fyrir fyrstu kaupendur sérstaklega til að geta keypt sitt eigið húsnæði.

Það er næsta verkefni stjórnvalda. Þar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að vera í stjórn svo eitthvað verði gert af viti í þessum málum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.10.2017 - 18:24 - Rita ummæli

Munu kosningarnar snúast um málefni?

Vonandi verður góð kosningaþátttaka 28. október nk. Ég óttast samt að það sé ákveðin kosningaþreyta í fólki og ætti það ekki að koma neinum á óvart. Auðvitað áttu fæstir von á því að kosið yrði núna, ekki ári eftir að loksins tókst að mynda ríkisstjórn í þessu landi. Og það endaði sem ríkisstjórn þriggja flokka eftir endalausar þreifingar þar sem margir þessara smærri flokka þorðu varla að mynda ríkisstjórn. Svo kom í ljós að Björt framtíð þorði ekki að vera í ríkisstjórn og Viðreisn fylgdi í kjölfarið.

Vonandi munu þessar kosningar snúast um málefni. Mér sýnist samt að hjá ansi mörgum snúist þetta um að reyna að klína einhverjum leiðindum á Sjálfstæðisflokkinn. Og þótt 25-30% segist ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í könnunum er umræða um að nú verði að halda flokknum utan ríkisstjórnar. Það er ólýðræðislegt og líka skaðlegt því það þarf flokk sem getur og þorir að vera í ríkisstjórn og fást við erfið mál.

Vonandi fær Sjálfstæðisflokkurinn góða kosningu í öllum kjördæmum. Þá er ólíklegra að við fáum stjórnarkreppu hér í marga mánuði.

Vonandi komast sveitarstjórnarkosningar sem fyrst á dagskrá. Þar er kosið á fjögurra ára fresti og ef meirihlutasamstarf rofnar er ekki kosið aftur heldur verða flokkarnir að mynda nýjan meirihluta. Kannski við ættum að taka slíkt fyrirkomulag upp varðandi Alþingi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur