Sunnudagur 25.5.2014 - 22:06 - FB ummæli ()

Að bera harm sinn í hljóði…

Sem sannur karlmaður og víkingur á maður að bera harm sinn í hljóði en núna get ég ekki orða bundist. Við búum í samfélagi sem á að stjórnast af lýðræðislegum og jafnréttis gildum en því fer fjarri. Hér ræður hnefarétturinn.
Það eru all nokkrar líkur á því að þú hafir ekki heyrt um okkur í Dögun vegna þöggunar í samfélaginu. Við erum stjórnmálaflokkur sem er að bjóða sig fram í sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík ,Akureyri og Kópavogi. Endurtekið hefir verið gengið fram hjá okkur þannig að þú hefur sjálfsagt ekkert frétt af okkur.
Fréttablaðið hefur haft heilsíðu umfjöllun um mismunandi málaflokka í borgarmálum. Aldrei er minnst á Dögun en hinir flokkarnir komast að með mynd og merki. Lesendur Fréttablaðsins vita ekki einu sinni að við erum til. Smartland Mörtu á Morgunblaðinu bauð oddvitunum í Reykjavík í róðrakeppni á líkamsræktunarstöð en ekki oddvita Dögunar. Nokkra fundi og pallborð hefur okkur ekki verið boðið á.
Sjálfsagt þúsund afsakanir hjá viðkomandi aðilum en hvar er lýðræðisástin í miðri lýðræðisveislunni. Hvar eru öll stóru orðin hjá hinum oddvitunum um lýðræðisást sína þegar þeir uppgötva að Dögun hefur ekki verið boðið. Er þeim sama, er okkur öllum sama eða er það bara svo næs að fylgja” FREKA KALLINUM” hugsunarlaust. Hvernig á maður að stunda pólitík á Íslandi ef fjölmiðlaveldin dissa mann?
Er ekki kominn tími á lagasetningu sem skyldar alla til fulls jafnréttis gagnvart öllum framboðum og að banna skoðanakannanir nokkrum vikum fyrir kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.5.2014 - 23:03 - FB ummæli ()

Borgarbankinn

Þegar frambjóðendur okkar í Dögun hafa verið á ferðinni og rætt við fólk hefur það komið í ljós að fólki finnst hugmynd okkar um Borgarbanka mjög góð. Það er mikill samhljómur meðal þeirra sem rætt hefur verið við að hagnaðurinn eigi frekar að fara til almennings en fárra útvaldra.
Hugmyndin er ekki flókin en hún gengur út á það að Reykjavíkurborg stofni sinn eigin banka. Hagnaður bankans gangi síðan til eigenda sinna, þ.e. borgarbúa. Þannig eykst geta borgarinnar til að sinna borgarbúum. Þar setjum við í Dögun megin áhersluna á að hjálpa þeim sem minnst hafa.
Það sem gerir þennan banka sérstakan er að hann yrði mun gagnsærri og borgarbúar gætu haft mun meira um starfshætti hans að segja en aðra banka. Eins og við vitum eru venjulegir bankar ósnertanlegir fílabeinsturnar. Auk þess væri lánastefna borgarbankans þröng, þ.e. hún væri mjög samfélagsmiðuð og ekki væri leyfilegt að taka þátt í því sem stundum er kallað ”spilavítishegðun”. Bankinn mætti lána til verkefna sem búa til raunveruleg verðmæti og ekki fjárfesta í froðuhagnaði.
Það má leiða sterkar líkur að því að ef allir bankar á Íslandi hefðu verið reknir eftir þessari hugmyndafræði þá hefðum við sloppið við bankakreppuna 2008. Samfélagslega rekinn banki hefði ekki mátt taka veð í óveiddum fiski. Auk þess er það dæmi um spilavítishegðun að þiggja óveiddan fisk sem veð sem er eign þjóðarinnar en ekki lántakandans.
Dögun vill að Borgarbankinn styrki borgarsjóð og gefi gott fordæmi um hvernig góð bankastarfsemi geti verið. Mjög mikilvægt er að umræðan um Borgarbanka komist á dagskrá því það er augljóst að við erum enn að kljást við afleiðingar af fjárfestingastefnu einkabankanna.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.5.2014 - 00:07 - FB ummæli ()

Réttlæti

Rauði kross Íslands kynnti núna rannsókn á þeim í samfélagi okkar sem eru félagslega berskjaldaðir eða það sem oft er kallað fátækt. Fátækt hefur aldrei verið vinsælt umræðuefni á Íslandi en hefur þó komist meira í umræðuna í seinni tíð, aðalega vegna aukinna rannsókna. Menn geta ekki neitað tilvist fátæktar í dag.
Að fátækt sé fylgifiskur samfélags okkar er merki þess að við erum ekki að gera hlutina rétt. Það vill örugglega enginn verða fátækur og þess vegna getur það ekki verið rétt að við sættum okkur við það að aðrir séu það. Framkoma okkar gagnvart fátækum í samfélagi okkar er ekki merki um réttlæti. Við erum því að breyta rangt og fremja óréttlæti.
Við verðum því öll að taka okkur á og ekki að linna látum fyrr en við höfum útrýmt fátækt því erfitt er að afsaka aðgerðaleysi í landi þar sem margir eru þó enn aflögufærir. Bankar og útgerðafyrirtæki græða vel að minnsta kosti. Fyrst og fremst þurfum við að viðurkenna fyrir okkur að þennan vanda verði að leysa strax og forgangsraða í þágu þeirra sem búa við fátækt.
Dögun í Reykjavík viðurkennir vandann og krefst þess að Reykjavíkurborg standi við lagalegar skyldur sínar við að framfleyta þeim sem geta ekki gert það sjálfir. Okkur finnst þetta vera mannréttindarmál og Ísland hefur ritað undir Barnasáttmála SÞ. Við teljum okkur ekki stætt á því að veita afslátt á mannréttindum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.5.2014 - 18:30 - FB ummæli ()

Valdið til fólksins

Baráttan um brauðið hefur lítið breyst í áranna rás. Atvinnulausir verkamenn reyndu að framfleyta sér með stopulli hafnarvinnu í kreppunni miklu. Litlar sem engar bætur fyrir atvinnumissi, sjúkdóma eða slys. Fátækir og heimilislausir í Reykjavík voru til staðar í den. Þá var horft framhjá þeim og skýringin var að um sjálfskaparvíti væri ræða. Þessi hópur hafði litla sem enga möguleika til að hafa áhrif á ríkjandi valdhafa, lýðræðislegur máttur þeirra var nánast enginn. Kjör þeirra bötnuðu vegna verkalýðsbaráttu áratuganna á eftir og stríðsgróða.
Í dag eru vandamálin svipuð en betur falin. ASÍ hefur hægt um sig og því er ábyrgð sveitafélaga meiri, þau þurfa því að berjast fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín. Enn í dag er tekist á um það hvort um sé að ræða sjálfskaparvíti eða hvort það sé samfélagslegur gróði að leysa vandamálin með sameiginlegu átaki.
Dögun er nýtt stjórnmálaafl sem býður núna fram í borgarstjórnarkosningunum. Dögun hefur skýr markmið og drjúgur hluti stefnuskrár Dögunar í Reykjavík snýst um að lyfta fram og gera þá sem minna mega sín sýnilega. Við teljum að þeir eigi að njóta forgangs fram yfir þá sem geta bjargað sér. Auk þess viljum við nota hugsanleg völd okkar til að færa valdið til borgarbúa þannig að þeir stjórni meira beint í sínu nærumhverfi.
Bankar eru einráðir um magn peninga í umferð og skammta þannig pólitíkinni fjármagni til að láta drauma sína rætast. Þess vegna viljum við í Dögun í Reykjavík stofna Borgarbanka. Þannig munum við flytja peningavaldið undir lýðræðislega stjórn þar sem það á heima. Afrekaskrá einkaaðila af stjórn banka er svo hörmuleg að ekki er hægt að toppa það. Gróði Borgarbankans mun styrkja fjárhag borgarinnar og veita auk þess aukna möguleika á lánum með lágum vöxtum til arðbærra framkvæmda.
Kjósum framboð sem vill völdin til almennings og frá fjármálavaldinu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.4.2014 - 19:50 - FB ummæli ()

1 maí, hvar liggja völdin

Verkalýðsbaráttan hefur fært okkur töluverð réttindi. Ef þau eiga ekki að glutrast niður þarf töluverða vakningu hjá almenningi og mikla baráttu. Á Íslandi og víðar í Evrópu höfum við lært að það skiptir ekki máli hvort við höfum hægri eða vinstri ríkisstjórn. Það er alltaf sama uppskriftin notuð. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjargaði fjármálafyrirtækjunum á Íslandi og fórnaði hag almennings. Lang flestir besservisserar töldu það einu færu leiðina(”there is no alternative, TINA”) og vinstri stjórnin kokgleypti það án þess að hiksta. Sömu sögu er að segja frá mörgum öðrum löndum Evrópu og þar hefur Seðlabanki Evrópu, AGS og framkvæmdavald ESB varið stöðu fjármalavaldsins miskunnarlaust. ASÍ hefur stutt þá stefnu á Íslandi en verkalýðsfélög erlendis sem hafa mótmælt hafa fengið lögregluna í fangið(Gúttóslagurinn).

Þar sem fjármálavaldið fær allt sitt á silfurfati frá stjórnmálamönnum þá liggur valdið augljóslega hjá fjármálavaldinu en ekki hjá pólitíkinni. Mikilsverðir stjórnmálamenn hafa vitnað um áhrifaleysi sitt gagnvart fjármálavaldinu. Fjármálavaldið á heima fyrst og fremst í bönkunum. Þess vegna er það nokkuð ljóst að þeir stjórna.

Vald bankanna liggur í því að þeir búa til peningana sem við notum. Ríkisstjórnir, sveitafélög, fyrirtæki og einstaklingar þurfa peninga og þeir fást eingöngu hjá einkabönkum og viðlika fyrirtækjum. Þessi einkafyrirtæki búa til peninga úr engu og hafa einkaleyfi á því. Þeir sem hafa haldið þessu fram hingað til hafa verið litnir hornauga og alls ekki mainstream. Núna hefur Martin Wolf dálkahöfundur á Financial Times bæst í hóp þeirra sem gagnrýna núverandi kerfi. Allt í einu er þessi umræða orðin mainstream umræða og hans niðurstaða er sú að valdið til að búa til peninga skuli tekið af einkafyrirtækjum og flutt til hins opinbera þar sem það á heima.

Eitt er ljóst að ef valdið til að búa til peninga verður flutt til hins opinbera frá bönkunum þá munu bankarnir hafa svipuð völd í þjóðfélaginu eins og hvert annað einkafyrirtæki. Þar með er valdið til að stjórna aftur komið heim og þá mun pólitíkin hafa eitthvað að segja til um framvinduna í þjóðélagi okkar. Þá fyrst fer pólitíkin að skipta máli því þá mun fólk kjósa stjórnmálamenn sem hafa einhver völd til að breyta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.4.2014 - 16:35 - FB ummæli ()

Borgarbanki 2

Það er allt til í henni stóru Ameríku. Í Norður Dakóta á fylkið bankann. Þar með hagnast almenningur samtímis og bankinn þeirra græðir. Bankinn má eingöngu fjárfesta í raunverulegum verðmætum og framleiðslu. Þar sem bankinn fjárfesti ekki í vitleysu þá hafði bankahrunið 2007 lítil áhrif á hann. Þar sem vaxtakostnaður er nánast enginn fyrir Norður Dakóta er mun meira til skiptanna. Flest ríki/sveitafélög setja inn skattgreiðslur þegnanna inná bankareikninga og fá litla vexti fyrir. Aftur á móti geta vaxtagreislur verið þungur baggi af lánum sem ríkin þurfa að taka. Auk þess er vaxtakostnaðurinn breytilegur og eins og í dæmi Grikkja þá voru þeir slegnir niður með háu vaxtastigi og fullveldi þeirra fór í hendur erlendra aðila.

Íslenka ríkið greiðir mikið í vaxtarkostnað og það á við fleiri ríki. Vaxtgreiðslur þýska ríkisins er næststærsti liðurinn á fjárlögum þeirra. Vaxtakostnaður er stór hluti af kostnaðinum við að reka heimili. Vaxtakostnaður eru stór hluti af öllu sem við greiðum fyrir hvort sem það eru vörur eða þjónusta. Sá kostnaður er um 40% af rekstarkostnaði venjulegs heimilis. Ef við slyppum við þann kostnað gætum við minkað vinnuna verulega og verið heima hjá fölskyldunni okkar.

Bankinn í Norður Dakóta var stofnaður 1919 og er enn að dæla fjármunum inn í fylkiskassann. Oftar en ekki þegar bankinn græðir vel getur fylkið lækkað skatta, þ.e. fólkið nýtur arðsins. Fylkið þarf ekki að eiga varasjóði fyrir mögru árin því þau eru sjaldséð og eru þau þá helst í formi náttúruhamfara, þá fær fylkið lánað til byggja upp á nýtt(vaxtalaust). Auk þess styður bankinn við alla einkabanka í fylkinu þannnig að þeir blómstra í stað þess að vera á heljarþröm eins og víðast hvar annars staðar. Þar sem öll lán til fylkisins eru í raun vaxtalaus þá minnkar fjármagnskostnaður við allar framkvæmdir um 40% og það er ekki lítið.

Er þetta ekki skárra en það sem við höfum núna?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.4.2014 - 20:55 - FB ummæli ()

Borgarbanki 1

Mörgum er ljóst að eiga banka getur gefið vel í aðra hönd. Langflestir bankar eru í einkaeigu og því rennur hagnaðurinn til fárra fyrir utan einhverjar skatttekjur sem greiddar eru af starfseminni. Bankakreppur eru ekki óalgengar og þá lenda bankarnir í miklu tapi sem almennir skattgreiðendur taka á sig. Það er prófessor við Háskóla Íslands sem hefur réttlætt þetta með kenningunni um að græða á daginn og grilla á kvöldin.

Það eru margir ósáttir við núverandi bankastarfsemi. Vaxandi áhugi er á því að nýta bankastarfsemi til hagsbótar fyrir fjöldann þannig að margir græði á daginn en ekki bara elítan. Hvers vegna ekki að opinberir aðilar reki banka og ágóði starfseminnar sé nýttur til að greiða fyrir útgjöld hins opinbera, jafnvel væri hægt að lækka skatta á almenning. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt að halda því fram að einkaaðilar séu réttkjörnir að gróðanum. Skattgreiðendur borga tapið hvort eð er þannig að áhætta elítunnar er ekki til staðar.

Innlánsreikningar bera lægri vexti en útlán. Mismunurinn á víst að vera lifibrauð bankanna og á Íslandi hefur niðurstaðan verið tugmilljarða gróði. Ef opinber aðili ætti bankann þá myndu vaxtagreiðslur skipta litlu máli því þær væru undirstaðan fyrir arð bankans sem síðan rynni inn í sjóði almennings, eigenda bankans. Alveg rakið til að bæta kjör almennings eða hvað?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 29.3.2014 - 00:36 - FB ummæli ()

Hreppaflutningar

Útgerðarfyrirtækið Vísir leggur niður fiskvinnslu á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi. Starfsfólki var tilkynnt það í dag. Tugir einstaklinga munu missa vinnuna og þurfa að endurskipuleggja líf sitt frá grunni. Flytja ”suður” og skilja eftir óseljanlegar eignir og lífið sem það hafði kosið sér ”úti á landi”.

Hagræðingunum er nokk sama, sveigjanleiki og samkeppnishæfni eru orð dagsins, þ.e. hámarks gróði fyrir aðalinn.

Við kusum þetta yfir okkur, ekki bara síðast heldur höfum við kosið þessa vitleysu yfir okkur margendurtekið. Fjórflokkurinn hefur fyrir löngu, allir meðtaldir-líka Steingrímur og Jóhanna-selt sálu sína til útgerðarauðvaldsins sem er öflugasta auðvald Íslands. Öll pólitísk öfl sem reynt hafa að spyrna við fæti hafa hlotið verra af og það veit fjórflokkurinn. Þess vegna hafa þeir verið hlýðnir auðvaldinu og samþykkt kröfur þeirra. Ein megin forsenda fyrir tilvist fjórflokksins fjárhagslega er að trufla ekki hagræðingu innan sjávarútvegsins og þar með samþykkt gróða til handa fáum útvöldum geymdum í skattaskjólum.

Íslensk pólitík virðist snúast um að selja sig réttum aðilum og samtímis selja kjósendum einfaldar hugmyndir til lausna án þess að hagga forréttindum kaupenda flokkanna.

Grunnhugmyndafræði kvótagreifanna er útvarpað gegnum Hafrannsóknarstofnun sem segir að fiskarnir séu allt of fáir í sjónum til að leyfa nokkrum öðrum að veiða þá nema kvótagreifunum.

Forsenda þess að elítan komist upp með heilaþvott af þessu tagi er að almenningur stundar ekki gagnrýna hugsun né véfengi eða mótmæli vitleysunni. Sjálfsagt er ástæðan fyrir því hversu auðvelt er að sannfæra landann í dag um kenningar Hafró sú að flestir Íslendingar hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að borða þegar þeir borða hrogn eða kavíar.

Að enginn lyftir litla putta til að stöðva hreppaflutning fólks í þágu kvótagreifanna er merki þess að við höfum öll selt okkur hugmyndafræði kvótaauðvaldsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.3.2014 - 23:13 - FB ummæli ()

Bara eitt skot í byssunni

Það var eins og tónninn breyttist í umfjöllun um gjaldeyrishöftin þegar ný ríkisstjórn tók við. Áður var þetta fjarlægt en núna er afnám haftanna frekar á næsta leyti. Síðan þegar Össur er farinn að hotta á klárinn og vill að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig þá fer maður að velta ýmsu fyrir sér. Er rúmur þinglegur meirihluti fyrir afnámi haftanna og hvernig hafa menn hugsað sér útfærsluna? Það er reyndar leyndarmál en hitt er augljóst að sú aðgerð má ekki mistakast, eins og Seðlabankastjóri sagði þá er bara eitt skot í byssunni.

Ef menn ætla að opna á hefðbundin viðskipti með krónur meðan landið er verulega skuldsett og þjóðfélagið rekið á kredít má búast við snörpu falli á verðgildi krónunnar. Það er reyndar óskastaða erlendra fjárfesta og útflutningsgeirans í íslensku samfélagi. Væntingar þessara aðila og staða þjóðarbúsins mun væntanlega ekki breytast á næstunni og þess vegna er spurningin mjög áleitin; hvenær hafa stjórnvöld hugsað sér að afnema höftin? Þar að auki óska lífeyrissjóðirnir eftir meira ”lebensraum” fyrir fjármuni sína(þ.e. okkar).

Hugmyndir um nýkrónu og mismunandi skiptigengi sem sumir hafa rætt um virðist ekki vera upp á borðum hinna háu herra í dag. Lilja Mósesdóttir og fleiri málsmetandi aðilar hafa bent á þessa leið án mikils árangurs hjá elítunni sem mun á endanum ákveða hvaða leið verður farin. Samkvæmt hefðinni munu fjármagnseigendur og sérhagsmunahópar ná sínu fram og almenningur mun blæða.

Ef skotið geigar þá eru afleiðingarnar vel kunnar, krónan fellur, verðbólgan eykst og þar með skuldir allra og kaupmáttur snarlækkar, þ.e. nýtt hrun á pari við það fyrra. Í fljótu bragði minnist ég þess ekki að einhleypur af þessari tegund hafi komið að gagni við fyrrnefndar aðstæður. Er ekki kominn tími til að ræða þessi mál af fullri alvöru í stað þess að beita alltaf frestunaráráttunni ”den tiden den sorgen”. Við verðum að ”feisa” þetta sjálf, ekkert ESB eða Evra reddar okkur, við verðum að taka slaginn við fjármagnseigendur til að verja hagsmuni almennings á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.3.2014 - 20:29 - FB ummæli ()

Að skrifa og lesa

Núna eru framhaldskólakennarar komnir í verkfall. Háskólakennarar eru að undirbúa verkfall. Grunnskólakennarar eru með lausa samninga. Málið er mér skylt því ég er kvæntur kennara og móðir mín var kennari. Hef upplifað kennaraverkföll áður og sterkustu minningarnar eru lagasetning á kennara og þeir þvingaðir úr verkfalli og í vinnuna aftur. Annað sem kemur upp í hugann er umræðan um hversu litla vinnu kennarar þyrftu að leggja fram fyrir kaupinu sínu því þeir væru meira og minna í fríum og ynnu bara hálfan daginn. Þannig séð væru þeir með mjög hátt tímakaup. Verkfall kennara var einnig talið valda miklum skaða eins og erfiðleikum við barnapössun fyrir vinnandi fólk. Auk þess þegar litið er til heildaráhrifa kröfugerðar kennara þá muni hún ógna efnahagsstöðuleika þjóðarbússins.

Kennarar hafa verið vanmetnir í áratugi þegar kemur að launum. Stundum hefur maður fengið á tilfinninguna að þjóðfélagið hafi sammælst um að halda kostnaði við kennslu í lágmarki til að spara og þá verði kannski meira til í önnur verkefni. Það mun verða mjög spennandi að fylgjast með kjaradeilu kennara núna og sjá hvort við metum þá að verðleikum.

Að minnsta kosti er það á ábyrgð kennarastéttarinnar að bæði get ég bloggað og að þú getur lesið bloggið mitt…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur