Miðvikudagur 18.5.2011 - 22:37 - FB ummæli ()

Að þurrka rykið af peningunum

Í gegnum tíðina hafa margir aðilar tjáð sig um ábyrgð banka á tilverunni. Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur sú umræða verið vaxandi. Nú er svo komið að mjög mikið af fréttum snúast um óeðlilegt hátterni þeirra. Skýrslur eru skrifaðar og margir tjá sig á netinu. Að auki hafa dómstólar dæmt þá seka fyrir lögbrot gegn almenningi. Það verður allt ljósara fyrir almenningi að bankarnir eiga sér vitorðsmenn hjá valdastéttinni. Jafnvel gengur það svo langt að upplifun sumra er frekar sú að það séu bankarnir sem stjórni en ekki valdstéttin.

Hverju sætir? Hvers vegna gerir fólk ekki uppreisn gegn bönkum?

Ef veröldin hefði hafist með litlu þorpi úti á landi og þú byggir þar. Kaupfélagið, sem allir þorpsbúar eru hluthafar í,  er þungamiðja staðarins og þar leggja allir inn framleiðslu sína. Síðan gátu menn tekið aðrar vörur út á inneign sína eða fengið inneignarnótu. Þar sem kaupfélagið naut svo mikillar virðingar í þorpinu þá gátu menn notað inneignarnóturnar sínar til að kaupa aðra hluti hjá öðum fyrirtækjum. Ef menn vantaði dekk á bílinn þá var hægt að setja inneignanóturnar upp í verð dekkjanna. Það var þó háð því að dekkjasalanum vanhagaði eitthvað sem kaupfélagið hafði að bjóða. Þess vegna gengu slík viðskipti ekki alltaf vel fyrir sig og erfitt gat verið að jafna út það sem út af stóð. Enn sem komið er ekki búið að finna upp peninga í litla þorpinu okkar.

Kaupfélagsstjórinn,  sem var mjög vandaður maður og umhugað um litla þorpið(sitt), vildi finna lausn á þessum þætti mannlegra samskipta, sem stundum eru kölluð viðskipti. Hann lét prenta miðakort, svipað og strætómiðakortin sem við nútímamennirnir þekkjum.  Kaupfélagsstjórinn ákvað líka verðgildi miðanna, eitt kort með 100 miðum jafngilti einum fullburða kálfi. Þegar menn lögðu inn framleiðslu sína hjá kaupfélaginu fengu þeir því ákveðinn fjölda af miðum í staðinn, allt eftir verðmæti framleiðslunnar. Eftir það gengu viðskiptin vel og allir gátu framkvæmt að vild og eftir getu sinni, alltaf var hægt að skiptast á verðmætum meðan einhver þörf var fyrir þau. Auk þess voru þeir sem voru duglegir að framleiða vörur mestir meðal jafningja.

Kaupfélagsstjórinn sem réð þó mest öllu í þorpinu sat þó í þorpsráðinu fyrir kurteisis sakir. Þar kom hann með miðana sína og þorpsráðið gat látið framkvæma ýmislegt sem þurfti að sinna í þorpinu. Það greiddi með miðunum fyrir þá verðmætasköpun sem unnin var fyrir þorpið.

Að sjálfsögðu voru miðarnir sjálfir nánast verðlausir, bara smá prentkostnaður sem kaupfélagsstjórinn tók á sig.

Tíminn leið og síðan flutti maður í þorpið(aðkomumaður). Hann keypti prentsmiðjuna af kaupfélaginu þar sem kaupfélagsstjórinn hafði látið prenta miðana sína fyrir fólkið sitt í þorpinu sínu. Aðkomumaðurinn breytti leikreglunum aðeins. Honum tókst að fá þorpsráðið til að samþykkja lög þess efnis að öll viðskipti skyldu fara fram með miðunum úr prentsmiðjunni hans. Hingað til höfðu menn notað miðana, vöruskipti, vinnuskipti eða gömlu inneignanóturnar jöfnum höndum. Eftir að aðkomumaðurinn hafði öðlast einkaleyfi á mannlegum samskiptum þorpsbúa hvað viðkemur viðskiptum með hjálp löggjafans á staðnum þá breytti hann verðskránni á miðunum. Í staðin fyrir að selja miðana á raunkostnaði auk smá heildsöluálagningar þá ákvað hann að lána mönnum miðana á því verðgildi sem þeir túlkuðu. Þannig ef atvinnurekandi sem var vanur að láta vinnumann sinn fá 100 miða á mánuði þurfti nú framvegis að fá 100 miða lánaða hjá aðkomumanninum og skrifa upp á að hann lofaði að endurgreiða honum 100 miðana á ákveðnum tíma liðnum. Eins og við munum þá túlkuðu 100 miðar einn fullburða kálf en voru ekki sjálfir virði eins kálfs. Einnig vildi aðkomumaðurinn fá 10% vexti vegna þess að hann sagði að hann gæti ávaxtað miðana sína betur annarstaðar og því bæri lántakandanum að bæta sér skaðann.

Eftir það varð gamli kaupfélagsstjórinn og vörubílstjórinn hans algjörlega valdalusir í litla þorpinu því að prentsmiðjueigandinn réði núna lögum og lofum. Allir í þorpinu fóru nú að skulda prentsmiðjunni og jókst það með hverju árinu. Kaupfélagið og síðan þorpsráðið urðu stórskuldug með tímanum því allir, almenningur, fyrirtæki og opinberir aðilar voru tilneydd til að nota miða prentsmiðjunnar í öllum sínum viðskiptum. Miðarnir fengust ekki nema sem lán hjá prentsmiðjunni og þá þurfti að endurgreiða.

Þorpsráðið réð ekkert við skuldirnar og fór því að innheimta skatta hjá þorpsbúum til að endurgreiða prentsmiðjunni miðana sem það þurfti svo nauðsynlega til að geta stundað sínar framkvæmdir. Atvinnurekendur lentu líka í skuld við prentsmiðjuna og  reyndu allt sem þeir gátu til að lækka kaup vinnumanna sinna og að reka þá áfram svo þeir framleiddu sem mest á tímaeiningu. Vinnumenn og atvinnurekendur urðu frá og með þessari stundu óvinir og urðu til verkalýðsfélög í þorpinu, atvinnurekendur fengu viðurnefnið kapitalistar. Verkamenn fóru í verkfall til að fá fleiri miða. Þegar verkamenn höfðu fengið sína kauphækkun þá þurfti að prenta fleiri miða og skuld þorpsins við prentsmiðjuna jóks sem því nam. Sú atburðarrás hefur reyndar margendurtekið sig síðan.

Þar sem aðkomumanninum hafði ekki hugnast að prenta miða fyrir vöxtunum heldur bara fyrir höfuðstólnum af miðunum sem hann lánaði fólkinu í þorpinu þá fór að bera á vandræðum við að standa í skilum. Ef allir í þorpinu voru að nota miðana sína þá voru engir miðar afgangs til að standa skil á vöxtunum. Aðkomumaðurinn gat leyst það með því að prenta fleiri miða og lána meira. Einnig leystist þetta oft þannig að þorpsbúar fóra að etja kappi hvor við annan um miðana. Endaði það oftar en ekki að einhver þorpsbúinn varð gjaldþrota og þá leystust úr læðingi miðarnir hans sem hinir gátu notað til að eiga fyrir vöxtunum.

Aðkomumaðurinn okkar var haldinn sveiflóttri kvíðaröskun(cýclisk hegðun). Stundum vantreysti hann allt og öllum og þverneitaði að lána nokkrum þorpsbúa miða. Afleiðingin varð sú að þrátt fyrir að allir þorpsbúar væru með sínar vörur þá gátu þeir ekki stundað viðskipti nema að takmörkuðu leyti og því urðu margir gjaldþrota. Aðra skorti miða til að standa í skilum við prentsmiðjuna og misstu því hús og bíl en aðkomumaðurinn hafði þá venju að taka veð í eigum þorpsbúa þegar hann lánaði þeim miðana. Fljótlega fór aðkomumaðurinn að finna fyrir því að það minnkaði í kassanum hjá honum því hann treysti engum til þess að fá lán hjá sér. Hann ákvað nú samt að treysta þorpsráðinu og vildi lána þeim. Þar sem honum hafði tekist á sínum tíma að sannfæra þorpsráðið um það að hann ætti að hafa einkaleyfi á því að prenta miðana þá varð það honum ekki erfitt að telja þeim trú um að þau yrðu að taka hjá sér stórt lán af miðum. Miðana yrði síðan þorpsráðið að setja strax aftur inn hjá prentsmiðjunni því bæði þá væru svo fáum treystandi til að lána nýja miða og hitt að margir hefðu farið á hausinn og því væru endurheimturnar lélagar á gömlu miðunum. Þorpsráðið samþykkti þetta að sjálfsögðu því mörkuð hafði verið sú stefna að að tryggja rekstrargrundvöll prentsmiðjunnar þannig að hún tæki ekki á sig meiri skuldbindingar en hún réði við vegna yfirtöku gömlu miðanna og eigna þorpsbúa. Í kjölfarið hækkaði þorpsráðið svo skattana hjá þorpsbúunum til að geta endurgreitt nýja lánið.

Nú eru liðin nokkur hundruð ár og þar sem aðkomumaðurin er með sveiflótta kvíðaröskun þá hefur það í för með sér að stundum treystir hann öllu og öllum allt of vel. Þá prentar hann mjög mikið af miðum og lánar þá á útsöluprís þannig að þá keppast allir þorpsbúar við að fá lánaða miða hjá honum, því hver vill missa af góðri útsölu. Þá ganga viðskiptin vel og fólk getur stækkað við sig og keypt sér nýjan bíl.

Spekingarnir hafa skilgreint þessar sveiflur í viðskiptunum sem kreppur og bólur og tala um cýklíska ekónómíu. Þeir telja að hópahegðun(=heimska) ráði för þorpsbúa í viðskiptunum og stjórnist af afli sem þeir nefna markað. Markaðurinn hefur þá eiginleika að vera alvitur, alráður og blessunarríkur ef þú þóknast honum. Þessi hugtök eru þorpsbúum vel kunn því presturinn hefur marg oft talað um þessa eiginleika hjá guðunum og reynslan hefur kennt þeim að illa fer ef eitthvað hallar á trúræknina.

Það er eins og með alkann, hann er æðislegur þegar hann er þurr og þess vegna fyrirgefa þorpsbúar alltaf sveiflótta hegðun aðkomumannsins.

Það er eins og meða alkann, þetta er ekki honum að kenna, nei að sjálfsögðu er þetta allt þorpsbúunum að kenna.

Núna eru allir búnir að gleyma gamla kaupfélagsstjóranum og kerfinu hans til að liðka fyrir flutningi á verðmætum frá einum þorpsbúa til annars.

Fyrir þá sem eru ósáttir við prentsmiðjur dagsins í dag væri hollt að glugga í sögu mannsins og velta fyrir sér að taka upp aðra aðferð, aðferð sem þarf ekki einu sinni að finna upp, bara að þurrka rykið af.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.5.2011 - 08:58 - FB ummæli ()

HITAMÆLIRINN hans Árna Páls

Árni Páll ráðherra líkti verðbólgunni við hitamæli. Hann sagði að það hjálpaði lítið að þrasa við hitamælinn. Þar sem verð á vörum hækkar þá sé verðbólga. Hann vill líta á verðbólguna sem náttúrufyrirbrigði sem á sinn tilverurétt. Hann er því samt sammála að reyna að minnka neikvæð áhrif verðbólgunnar á almenning.

Kenningin er sú að launahækkanir hafi þau áhrif að verðlag hækkar. Síðan þarf með einhverrjum hætti að auka kaupmáttinn aftur og er það oftast gert með kauphækkunum og síðan endurtekur sagan sig í sífellu.

Afleiðingin er meðal annars sú að íslenska krónan í dag er nánast verðlaus miðað við þegar hún var tekin í notkun. Bandaríski dollarinn hefur sömuleiðis rýrnað um 98% frá því árið 1913. Það sem þú keyptir fyrir 1 $ árið 1913 er 2 centa virði í dag.

Greinilega full þörf á því að hemja þetta náttúrufyrirbrigði.

Nú vill svo til að fyrrnefnd kenning að launahækkanir valdi verðbólgu er röng. Dæmi eru til úr veraldarsögunni þar sem verðlag hefur staðið í stað í hundruðu ára. Ef við framleiðum ákveðið magn af verðmætum og skiptumst síðan á þessum verðmætum eins og við gerum í dag þá er í raun engin ástæða til þess að hækka verð. Í raun ætti framþróun í framleiðslu verðmæta að lækka verð.

Hvað eykst sem veldur kröfunni um hækkun verðlags ef það eru ekki nauðþurftir okkar?

Ef öll framleiðsla heimsins væru tveir bílar og allir peningar í heiminum væru 1000 krónur myndi einn bíll kosta 500 krónur, ekki satt? Ef við myndum auka framleiðsluna í fjóra bíla á næsta ári en ekki auka peningamagnið í umferð myndi bílinn kosta 250 krónur, ekki satt? Ef við aftur á móti framleiðum áfram tvo bíla en aukum peningamagn í umferð í 2000 krónur þá kostar bílinn 1000 krónur stykkið. Það er ástæðan fyrir verðbólgu að peningamagn og framleiðsla fylgjast ekki að.

Ef við framleiddum ALLTAF jafn mikið af bílum og peningum myndi bílverðið aldrei breytast að eilífu.

Þar sem verðbólgan er stöðugt til staðar hlýtur framleiðslan alltaf að minnka eða peningamagn að aukast. Þar sem okkur er alltaf sagt að framleiða meira ár frá ári þá er skýringin sú að peningamagn í heiminum er alltaf að aukast. Það er reyndar staðreynd að peningamagn er stöðugt að aukast ár frá ári. Fall bandaríska dollarans er beintengt magni dollara, eftir því sem fleiri eru búnir til því minna virði verða þeir sem fyrir eru. Ef við myndum búa til 10 afrit af Jóni Gnarr sem væru algjörlega eins og hann þá væri sá upphaflegi orðinn harla verðlítill, ekki satt? Afritin ræna verðgildi af upphaflega eintakinu.

Aukið penngamagn ár frá ári veldur verðbólgunni og vextir á þeirri peningaframleiðslu veldur því að við þurfum alltaf að framleiða meira og meira.

Þar sem bankar stjórna peningamyndun og hafa einkaleyfi á framleiðslu peninga og rukka vexti fyrir það verður Árni Páll að snúa sér að bönkunum ef hann vill stöðva verðbólguna því hún hefur ekkert með laun að gera.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.5.2011 - 00:14 - FB ummæli ()

Drökmur, krónur og evrur

Undanfarið hafa menn velt því fyrir sér hvort betra sé fyrir Grikki að taka upp gömlu drökmuna sína og hætta þá við að nota evru. Svipuð umræða hefur verið um kosti og galla íslensku krónunnar gagnvart evrunni.

Vandamálið við peninga er að þeir eru misskildir og misnotaðir. Í raun skiptir engu máli hvað peningurinn heitir heldur hver býr hann til og hversu mikið er búið til af honum.

Okkur sem finnst EAGLES góð hljómsveit getum verið sammála um að án nótna væru þeir ekki neitt. Þeir miðla tónlist sinni með nótum, þeir skrá tónlist sína með nótum, þeir geyma tónlist sína með nótum. Tónlistin hefur mikið gildi eða verðmæti en nóturnar eru í sjálfu sér verðlausar. Það er ekki fyrr en að snillingarnir hafa raðað nótunum upp í ákveðna röð og hrynjanda að þær fá gildi sitt sem tónlist. Nótur í hrúgu hafa lítið gildi.

Ef ég hefði einkaleyfi á nótum og þá þyrfti EAGLES að fá lánað hjá mér nótur til að framleiða sína tónlist og síðan að endurgreiða mér nóturnar með vöxtum. Ef tilveran væri tónlist yrðu allir að vinna tvöfalt, bæði fyrir lifibrauðinu og til að endurgreiða mér nóturnar sem ég hef einkaleyfi á að framleiða. Ef ég hætti að lána nótur þá verður ekki til nein tónlist alveg sama hvað hún glymur mikið í kollinum á tónlistarmönnunum.

Þannig er því einnig farið með peninga. Í dag búa bankar til peningana og hafa einkaleyfi á því. Peningar eru eins og nótur miðill, eining og geymslustaður fyrir verðmæti. Peningurinn sjálfur er verðlaus en verðmætin sem peningurinn vísar á eru hin raunveruleg verðmæti. Þess vegna þarf þjóðfélagið jafn mikið af peningum og er til af verðmætum svo allir geti skipts á verðmætum. Svipað og EAGLES þarf jafn mikið af nótum til að getað skapað sína tónlist, ef þeir eru í stuði þá mikið af nótum annars minna.

Þess vegna skiptir ekki máli hvort við notum evrur eða krónur. Við þurfum bara að afnema einkaleyfi banka á að búa til miðilinn, eininguna, ávísunina peninga. Við þurfum að koma upp kerfi þar sem við höfum nægjanlega mikið af peningum þegar við erum í stuði og framleiðum mikið eða minna af peningum þegar við framleiðum minna. Í dag ræður framboð peninga framleiðslunni alveg sama hversu mikið hugmyndir um framleiðslu glymja í kollinum á okkur. Sökum skorts á peningum er lítið framleitt í dag þrátt fyrir að allt er til staðar nema peningar. Það er svipað og ekki væri hægt að byggja hús sökum skorts á metrum vegna þess að einhver aðili í þjóðfélaginu hefur einkaleyfi á metrum.

Allir þurfa að fá peninga hjá bönkum, allir þurfa að endurgreiða bönkum peningana með vöxtum. Allur peningur í heiminum er búinn til sem lán frá bönkum. Ef allir í heiminum myndu endurgreiða öll sín lán væri enginn peningur til í heiminum því hanna var allur fenginn að láni hjá bönkum.

Allir þurfa að vinna tvöfalt, fyrir skuldum sínum við banka og fyrir lifibrauðinu. Ríkið þarf líka lán frá bönkum og þess vegna borgum við 50% of mikið í skatta. Hættum að rífast um allt og ekkert þangað til við höfum rætt þetta.

Ef hið opinbera skapaði peninga án skuldsetningar til samræmis við þörf og getu okkar til að framleiða þá gætum við skipts á verðmætum óhindrað og framleiðslan gæti haldið áfram í takt við vilja og getu okkar en ekki peningakerfisins. Gjaldmiðill án skuldar er það sem við þurfum og síðan hvað hann heitir skiptir minna máli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.5.2011 - 22:32 - FB ummæli ()

Erum við þorskhausar

Gagnsæi í íslenskri stjórnsýslu sogast óðum ofan í firrta stofnanahyggju valdstéttarinnar. Þegar nýtt kvótafrumvarp er kynnt til sögunnar er þjóðin lang aftast á listanum yfir þá sem fá að lesa frumvarpið. Í staðin erum við mötuð eins og óvitar af fyrirfram matreiddum fréttum af hvað stendur hugsanlega í frumvarpinu. Leikritið spilast fumlaust fyrir framan alþjóð, hótanir um að rifta kjarasamningum en síðan fellur sennilega allt í ljúfa löð.

Ólesið er frumvarpið farið að valda deilum.

Það virðist vera sem allir innan valdstéttarinnar viti hvað stendur í frumvarpinu og geri sér grein fyrir afleiðingum þess. Almenningur fær ekkert að lesa nema það sem honum er skammtað.

Hér er um eitt heitasta deilumáli síðari tíma að ræða. Landsbyggðarfólk hringinn í kringum landið hefur fengið að finna fyrir óheftum markaði í sókn sinni fyrir hámarksávöxtun fyrir þá en ekki okkur. Þegar biðin lengdist eftir brauðmolunum sem áttu að hrynja af nægtarborði markaðarins gáfust íbúar sjávarbyggðanna upp á því að bíða og fluttu. Eftir situr í heimabyggð stór hluti af lífi viðkomandi og öll framtíðin sem aldrei varð. Hver er réttur þessara einstaklinga að lesa viðkomandi frumvarp?

Var ekki einhver að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu?

Kvótakerfið sem var gerði ekkert annað en að minnka afla úr sjó og einskorða veiðiheimildir til fárra útvaldra þannig að nýliðun var mjög lítil ef nokkur í stéttinni. Spurningin sem þjóðin spyr sig mun mannréttindabrotum linna með nýju kvótafrumvarpi og  mun afli aukast úr sjó.

Því miður mun þjóðin ekki geta gert sér miklar vonir um að arðurinn af auðlindinni muni falla henni í skaut. Útgerðarfélögum landsins hefur tekist að skuldsetja sig svo mikið að mest allur arður sjávarútvegsins rennur inn í bankana í formi afborgana af lánum.

Það virðist sem allt, bæði lauslegt og fast, renni inn í bankana. Það skiptir sennilega engu máli hvernig menn afgreiða blessað kvótafrumvarpið því útgerðin verður alltaf að eiga fyrir afborgunum og annað smálegt eins og mannréttindabrot munu mæta afgangi.

Þess vegna er þjóðin aftast í röðinni af álitsgjöfum því að hún er ekki gildur hagsmunaaðili á eign sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.5.2011 - 21:32 - FB ummæli ()

Vextir hubris og liljur

Flókin stærðfræðimódel hagfræðinnar hafa þann eina tilgang að telja okkur trú um að hagkerfið ráði við óendalega miklar skuldir. Á þann hátt horfum við fram hjá grundvallaratriðum hagfræðinnar sem snýr að rekstri eininga eins og heimilis sem dæmi.

Þar sem hagfræðikenningar nútímans ganga út á það að hægt sé að greiða allar skuldir er augljóst að sú kennisetning er höll undir lánadrottna. Margur stjórnmálamaðurinn gengur sömu erinda og hrópar að „að sjálfsögðu greiðir maður skuldir sínar“. Þegar tillit er tekið til þess að hagvöxtur í Evrópu hefur verið 0,2% á ári s.l. 2000 ár er ekki mikil von til þess að raunhagkerfið geti greitt allar skuldir með þeim vöxtum sem í boði eru.

Súmerar notuðu sama orð yfir vexti og kálfa. Egypska orðið fyrir vexti þýddi að fæða. Til forna var hugsunin sú að af fræi kæmi planta sem gæfi vel af sér að hausti og kálfur gæti skapað mörg afkvæmi. Vextir voru því greiddir eftir að raunhagkerfið hafði borið ávöxt, m.ö.ö. menn deildu með sér uppskerunni eða ávöxtuninni þegar hún hafði raungerst. Ekki fyrirfram eins og í dag.

Öll trúarbrögð heimsins hafa verið á móti vöxtum á peningum því peningar geta ekki af sér, þeir eru ófrjóir. Að fá vexti af engu vinnuframlagi var ekki talið boðlegt. Aftur á móti að deila sameiginlegum ábata sem er orðin til er annað mál.

Bæði í Babílon og Egyptalandi til forna voru hagfræðingar vel meðvitaðir um hættuna á of miklum skuldum fyrir raunhagkerfið. Þess vegna settur þeir reglur. Þegar vextir höfðu náð upphæð höfustólsins féll skuldin niður . Auk þess voru skuldir afskrifaðar af kóngum þegar þær urðu of íþyngjandi fyrir raunhagkerfið. Babílóníumenn afskrifuðu skuldir landbúnaðarins að minnsta kosti á 30 ára fresti því að að öðrum kosti hefðu lánadrottnar eignast allar jarðir og allt sem fylgdi með þeim. Verðlag breyttist ekki mikið vegna vaxtabyrði í Mesópótamíu vegna þess að verð var ákvarðað með lögum eða hefðum. Þess vegna stjórnuðu menn til forna hagkerfinu fyrir sig en ekki öfugt eins og í dag.

Þessi skynsemi að meta raunhagkerfið fram yfir fjármálakerfið hefur því miður tapast í aldanna rás innan hagfræðideilda háskóla. Hugsanleg skýring er að fjármálakerfið hefur verið einn aðal styrktaraðili hagfræðideilda um víða veröld.

Græðgi var fordæmd til forna og hófsemi vegsömuð, ástæðan var sú vissa að hinn gráðugi væri að taka nauðþurftir frá þeim sem minna mátti sín. Hugsunin um græðgi var því beintengd ofgnótt eins á kostnað annars. Í dag er græðgi vegsömuð og því afneitað að hún valdi skorti eins og að hinn gráðugi taki til sín úr ótæmandi hirslum.

Þegar allir ætla að draga vexti úr raunhagkerfinu sem er að minnka, þegar lánadrottnar og lífeyrissjóðir eða aðrir sjóðir ætla að ávaxta sitt pund með samsettum vöxtum án þess að fyrst sjá eitthvað „fæðast“ í raunhagkerfinu sem er hægt að deila með sér verður eitthvað að gefa eftir. Vandamálið er að sóknin í ábata í formi vaxta er orðin sem fíkn og þarf í raun að meðhöndla sem slíka.

Mörgum fræðimanninum í hagfræði er illa við að ríkisvaldið stjórni efnahagskerfinu og vilja meina að kerfið aðlagi sig sjálft að breyttum aðstæðum. Til forna stjórnaði ríkisvaldið efnahagnum með lögum og valdboði eins og afskriftir skulda bera með sér. Það var hægt vegna þess að valdið var hjá kónginum, hann hafði hermenn og lánadrottnar urðu að beygja sig undir vilja hans. Í dag er ekkert vald eftir hjá ríkisstjórnum þjóðlandanna. Á Íslandi hafa allir fjármunir farið í að endurreisa bankakerfið eftir hrun, varla króna í raunhagkerfið og það hefur verið skorið kröftuglega niður bankakerfinu til bjargar. AGS og ESB eru framlengd hönd lánadrottna heimsins og krefjast þess að allar skuldir skulu greiddar með öllum þeim fórnum sem almenningur þarf að leggja á sig. Stjórnvöld fylgja þeim að málum eins og hverjar aðrar strengjabrúður.

Ef Lilja er sett í tjörn og hún og afkomendur hennar tvöfalda sig á hverjum degi þá er tjörnin full á þrítugasta degi og þær geta ekki fjölgað sér frekar eftir það. Hvenær var tjörnin hálf full eða hálftóm? 29 daginn er svarið.

Það er innbyggð tortíming í vöxtum sem er að sliga heiminn í dag og hugsanlega er tjörnin að fyllast. Það er því full þörf á því að hagfræðingar hætti að velta fyrir sér kenningum um hvernig jafnvægi verði náð og reikni frekar út hvenær því líkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.5.2011 - 22:51 - FB ummæli ()

Bankalandið

Það eru viss tímamót í uppsiglingu á Íslandi. Nýir kjarasamningar til þriggja ára voru samþykktir um daginn ásamt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Með þessum skjölum er kominn fram nálgun hvernig verður að búa á Íslandi á næstunni. Við skulum glugga aðeins í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Þau helstu eru að fjármálakerfið hefur verið endurreist, markmið um hjöðnun verðbólgu hafa náðst, vextir hafa lækkað umtalsvert og tekist hefur að koma jafnvægi á gengi krónunnar.“ Hér telur ríkisstjórnin upp afrek sín frá hruni. Verðbólgan hefur lækkað sökum þess að engir peningar eru í umferð og allir halda í þá með öllum tiltækum ráðum og við getum verið sammála því að vöxtum er handstýrt. Þeir þurfa að lækka mun meira ef fjármagn á Íslandi á að hætta að flatmaga á bankabókum landsmanna.  Þess vegna hefur handstýrð vaxtastjórn valdhafa stuðlað að góðri ávöxtun innistæðæðna en ekki aukið á framkvæmdir og þannig unnið bug á atvinnuleysinu. Að koma jafnvægi á gengi krónunnar er svipað og að hrósa sér af því að fangi í gæsluvarðhaldi sé til friðs. Það eina sem valdhafar haf gert frá hruni er að endurreisa bankakerfið með ærnum tilkostnaði fyrir okkur skattgreiðendur.

„Undanfarin tvö ár hafa stjórnvöld fylgt efnahagsstefnu sem tekið hefur mið af þeim áföllum sem riðu yfir íslenskt efnahagslíf haustið 2008……Brýnt er að tryggja að svo verði áfram og að framfylgt verði heildstæðri og árangursríkri áætlun í efnahagsmálum.“ Þar sem stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur fengið að finna það á eigin skinni hvernig hagstjórnin hefur verið þá vonum við svo innilega að sú stefna sem rekin er stöðvist og að ný stefna verði tekin upp. Þar er ég að vísa til atvinnuleysis, landflótta, gjaldþrot heimila og fyrirtækja, vaxandi fjölda fátækra og sveltandi einstaklinga. Samtímis horfum við upp á að bankakerfinu er bjargað og þeir auka hagnað sinn og einnig eykst rekstrarkostnaður bankanna á meðan öll önnur fyrirtæki í landinu skera sinn rekstrarkostnað niður með öllum tiltækum ráðum.

„Losun gjaldeyrishafta“ Lilja Mósesdóttir kom strax fram með tillögur um hvernig ætti að vinna á krónubréfunum en ekki var hlustað á hana en núna gerir Seðlabankinn tillögur hennar að sínum. Svolítið langur þráðurinn í sumum. Slík framkvæmd er einkennandi fyrir stjórnsýsluna okkar að hugmyndir verða að koma frá réttum innmúruðum aðilum til að teljast gildar. Þetta hefur stórskaðað almenning lengi og ekki minnst eftir hrun. En við megum ekki gleyma því að það sem skiptir stjórnmálamenn máli er að ná endurkjöri aftur og aftur og aftur…

„þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“ Mér er spurn, var það einhvern tíman möguleiki að þessir hópar fengju ekki kauphækkun eins og hinir?

„Breytingar á persónuafslætti“ Persónuafslátturinn hefur ekki breyst mikið lengi og er það fagnaðarefni að það sé komið á blað. EN.. „Ekki eru forsendur fyrir því að breyta persónuafslætti að öðru leyti þannig að það dragi úr heildartekjum ríkissjóðs vegna tekjuskatta einstaklinga á næstunni,“ Það má sem sagt ekki breyta afslættinum þannig að tekjur ríkissins minnki??

„tryggingagjaldið hækkað um 0,45% og gjald í Ábyrgðasjóð launa um 0,05% um næstu áramót með tímabundnu álagi til þriggja ára.“ Ég hélt að álögur á atvinnurekstur væri ekki til þess að auka vinnu en sennilega skil ég ekki fræðin rétt.

„Markmið sóknar í atvinnumálum er að atvinnuleysi verði ekki hærra en 4-5% af vinnuafli í lok samningstímans. Til að það markmið náist þarf að auka hagvöxt umfram horfur að óbreyttu.“ Það voru nokkrir þingmenn Vg sem andmæltu fjárlögum í desember s.l. á þeirri forsendu að hagvaxtaspár væru ekki líklegar að ganga eftir. Þessi orð virðast að nokkru leiti staðfesta ótta þeirra. Ríkisstjórnin ætlar sér að breyta hagvexti, þ.e. að auka hann. Það má skilgreina þörfina fyrir hagvöxt að mestu sem kostnað þjóðfélagsins af vöxtum. Í raun ættum við að getað lifað á jafn miklum tekjum í ár eins og í fyrra sérstaklega þar sem okkur fækkar á milli ára. Það sem liggur beinast við á Íslandi í dag er að draga sparifé úr bönkum og inn í atvinnulífið. Hitt sem er borðleggjandi er að við eigum að veiða mun meiri fisk. Vandamálið eru skuldir sjávarútvegsins hjá bönkunum þannig að arðurinn endar í hvelfingum bankanna en ekki hjá þjóðinni.

„Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar.“ Bein erlend fjárfesting eða „Foreign Direct Investments „ hefur ekki alltaf verið happadrjúg fyrir lönd sem þiggja slíkar heimsóknir. Nefnt hefur verið að stórfyrirtæki nýti sér neyð landa til að gera hagstæða samninga. Meðan íslenska krónan veikist stöðugt fá þeir stöðugt meira fyrir sína fjárfestingu og þess vegna liggur þeim ekki mikið á. Ef þeir fjármunir sem eru til í landinu nú þegar, t.d. lífeyrissjóðirnir eða krónubréf, eru notuð verður ekki um neytt nýtt fjármagn að ræða. Reynslan frá Kárhnjúkum er dæmigerð fyrir FDI að vinnuafl er oft flutt inn til að halda kostnaði niðri. Það sem einkennir þó FDI er að slík fjárfesting er ekki orsök uppsveiflu heldur kemur fjárfestingin þegar allt er komið á góðan snúning í viðkomandi landi. Að ætla sér að fjárfesta í landi sem á ekki einu sinni fyrir vöxtunum af skuldunum sínum er ekki harla líklegt.

„Bókun um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum“ Fyrst á að leggja fram frumvarp sem fer í fyrstu umræðu á Alþingi. Að því loknu munu fjórir einstaklingar meta áhrif frumvarpsins á sjávarútveginn. Spurningin er hvort þessi fjögurra manna hópur hafi meiri völd en Alþingi, til hvers að eyða tíma Alþingis í fyrstu umræðu? Grunsemdir eru um að hér verði farið eins að og þegar örlög skuldugra lántakenda voru ákveðin haustið 2010. Þá settu lánastofnanir leikreglurnar. Skuldir sjávarútvegsins hjá bönkunum mun vera stærsti einstaki þátturinn í afgreiðslu kvótamálsins í höndum núverandi valdhafa.

Hvergi er minnst á að samkvæmt áætlun AGS á að skera niður um 50 milljarða á næsta ári í ríkisfjármálum.

Að lokum þá finnst mér að höfundar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefðu átta að telja saman alla þá starfshópa sem á að stofna samkvæmt þessu skjali. Sá mannskapur sem þarf í alla þær nefndir mun sennilega minnka atvinnuleysi um prósentustig eða svo.

Því miður verðu að segjast eins og er að þessi tímamótaatburður mun ekki auka vilja Íslendinga til að búa á Íslandi. Áfram mun atvinnuleysi halda áfram að minnka á Íslandi sökum brottfluttra Íslendinga. Það kom einnig fram á fundi sem ég átti með AGS á sínum tíma að það væri bara gott og blessað og greinilegt að ríkisstjórnin hefur tileinkað sér flest allt hjá AGS.

Hversu mörgum þarf að sturta niður þangað til að þjóðin skilur að okkar örlög eru að óbreyttu klóakið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.5.2011 - 23:18 - FB ummæli ()

Eru fasistabeljur til?

Það eru nokkrir einstaklingar í þjóðfélaginu sem hafa verulegar áhyggjur af framtíð landsins. Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur ritar langa og ítarlega grein í Morgunblaðið um daginn sem má finna á heimasíðu Hagsmunasamtaka Heimilanna. Þar fer hann yfir skuldastöðu Íslands og möguleika landsins til að greiða niður skuldirnar. Í stuttu máli þá eigum við ekki fyrir skuldunum og því mun engin lána okkur frekari peninga, þ.e.a.s. erlend fjárfesting er draumsýn og áróður sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Andri Geir landsþekktur bloggari á Eyjunni kemst að svipaðri niðurstöðu og er hann vel menntaður í heimi fjármálanna. Hann telur að mikill skortur verði á gjaldeyri til framtíðar. Við Andri Geir erum reyndar ekki sammála um hvernig best er að slökkva bálið en það er nú önnur saga. Ólafur Arnarsson Pressupenni dregur einnig upp svipaða mynd í góðri færslu þar sem hann lýsir vel hversu ósjálfbært hagkerfið er í raun á Íslandi.

Nú mætti svo sem fullyrða að við séum bara þunglyndir miðaldra karlar sem kunnum ekki gotta að meta hjá ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. AGS hefur metið efnahagshorfur 183 ríkja í heiminum og erum við Íslendingar í einum af botnsætunum, þ.e.a.s. á dauðalistanum. Þess vegna má fullyrða að við miðaldra karlarnir séum sammála AGS í mati sjóðsins á horfum íslands til framtíðar.

Hvers vegna fjalla ekki allir fjölmiðlar og blaðamenn um þessa ógnvænlegu stöðu landsins? Hvers vegna sökkva menn sér ekki í mannkynssöguna, sögu ríkja sem hafa lent í kreppu, sögu AGS eða reyna að sjá hvaða möguleika við höfum sem fullvalda ríki til sjá meðborgrum okkar farborða með þeim auðlindum sem við höfum til ráðstöfunar. Auðlindir og ríkidæmi sem margir öfunda okkur af. Hvers vegna fjalla fjölmiðlar meira um beljutegund sem er ekki einu sinni til, þ.e. „fasistabeljur“?

Ég held að okkur sé ekki viðbjargandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.5.2011 - 21:40 - FB ummæli ()

Hvers vegna þarf ríkið lán?

Það að sárara en tárum taki að hlusta á þá bakkabræður Gylfa og Vilhjálm ræða saman í Kastljósi kvöldsins. Samkvæmt grein Haraldar L. Haraldssonar í Morgunblaðinu s.l. laugardag þá eru vaxtagreiðslur Íslands um 200 milljarðar á ári. Afgangur Íslands í erlendum gjaldeyri er um 160 milljarðar. Dæmið gengur ekki upp. Ísland fær engin lán. Gjaldeyrisvaraforðinn sem við fáum frá AGS fer ekki í vegaframkvæmdir til að skapa Íslendingum atvinnu. Hann er ætlaður eigendum krónubréfanna þegar gjaldeyrishöftunum verður sleppt.

Það mun enginn lána okkur nema þá á okurvöxtum. Það verða engar atvinnuskapandi framkvæmdir nema þá að skorið verði niður annars staðar. Næsta flétta verður sennilega sú að við setjum auðlind upp í skuldir.

Hvers vegna þarf ríkið lán? Hvers vegna býr ríkið ekki til peninga og greiðir fyrir vegaframkvæmdir á Íslandi. Íslenskur verktaki býr til vegarspotta fyrir 100 milljónir og fær greitt frá ríkinu 100 milljónir með peningum sem ríkið býr til án þess að taka þá að láni. Ríkið býr til peningana úr engu. Verktakinn býr til verðmæti upp á 100 milljónir. Í dag þarf ríkið að taka peningana að láni hjá banka og greiða síðan verktakanum. Síðan þarf ríkið að borga bankanum 100 milljónirnar til baka með vöxtum. Þá kostar vegurinn a.m.k. 200 milljónir. Síðan þarf ríkið að skattleggja alla þegna ríkissins tvöfalt vegna þess að bankinn fékk að búa til peninga úr engu en ekki ríkið.

Common, er ekki hægt að breyta þessu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.5.2011 - 00:30 - FB ummæli ()

Fyrsti maí

Það eru erfiðir tímar,
það er atvinnuþref,
ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef,
nema von mína og líf mitt
hvort ég vaki eða sef,
þetta eitt sem þú gafst mér
það er alt sem ég hef.

Fyrsti maí er dagur verkalýðsins og þá safnast launamenn saman úr mörgum stéttum og setja fram kröfur sínar. Krafan hefur verið um langan aldur að deila auðæfum með meiri sanngirni á milli okkar og að hinn almenni launamaður sé gerandi í skipulagi þjóðfélagsins.

Í dag er allt Ísland svo skuldsett að ekkert hreyfist né vex á landinu okkar. Landið getur ekki fengið frekari lán vegna skulda og er í raun gjaldþrota. Þess vegna er ekkert til skiptanna hvað sem fyrsta maí líður því allt sem er aflögu fer í greiðslu skulda. Lánadrottnum hefur tekist vel upp en afgangurinn af hagkerfinu hefur siglt í strand. Lánadrottnarnir eða bankarnir hafa allt í hendi sér, okkur og valdhafa.

Á Íslandi er allt til alls nema peningar. Verkamenn, kunnátta, kraftur, auðlindir, verkefni, hráefni, tól og tæki, húsnæði og fleira, allt sem þarf til að skapa verðmæti, nema peninga.
ó hve leingi ég beið þín,
það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín,
en ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín,
og nú loks ertu komin,
þú ert komin til mín.

Það er galin hugmynd að bankar hafi einkaleyfi á því að búa til peninga. Þar að auki búa þeir peningana þannig til að við tökum þá að láni, það er að við erum skuldsett til að fá pening. Þess vegna eru allir í skuld því eina leiðin til að fá pening er að taka hann að láni hjá banka. Þar sem allir skulda bönkunum erum við ofurseld þeim.

Þeir sem stjórna peningamyndun og magni peninga í umferð hafa völdin.

Bankar stjórna magni peninga í umferð og árið 2008 var dregið verulega úr magni peninga með því að hætta að lána og að innkalla skuldir. Þess vegna stöndum við eins og asnar og getum ekki framleitt vegna þess að við höfum enga peninga þó að við höfum allt annað til þess.

Peningar eru einingar fyrir verðmæti og þeir flytja verðmæti frá einum stað til annars. Peningar eru ávísun á verðmæti, peningar eru ekki verðmæti, peningar eru verðlausir nema í núverandi kerfi bankanna.

Það er eðlilegasti hlutur í heimi að opinberir aðilar útdeili peningum til almennings svo að hann geti stundað sín viðskipti og framleitt það sem þarf. Peningar eru verkfæri ekki galdur.

Að rífast og skammast í skuldsettum atvinnurekendum, gjaldþrota ríkissjóði og yfirskuldsettum sjávarútvegi sem á bara gamla dalla upp í skuldir er út í hött á fyrsta maí. Við þurfum að sameinast öll um að ná valdinu til að framleiða peninga frá bönkunum. Bankarnir skuldsetja alla, líka ríkissjóð, alla sem við viljum að deili með okkur auðæfunum af sanngirni. Auðæfin og völdin eru ekki hjá þeim skuldsettu heldur hinum sem lánuðu, lánadrottnunum, þ.e. bönkunum.

Án skuldapeninga bankakerfisins, með okkar eigin peningum getum við endurreist Ísland. Samstaða var, er og verður alltaf málið.

Sameinumst um að valdið til að búa til peninga sé okkar og það verði skilgreint sem fjórða valdið í skipun Lýðveldisins Íslands.

En í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands,
fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.4.2011 - 01:05 - FB ummæli ()

Vinnuhjú

Það virðist sem ríkisstjórnin hafi komist að einhverri niðurstöðu í kvótamálinu. Hún vill ekki segja okkur eigendum kvótans hvað til stendur. Samtök atvinnulífsins vilja semja núna við launþega og er það sennilega vegna þess að kvótamálið er komið höfn að þeirra mati. ASÍ notar tækifærið og rífur kjaft vegna þess að þeir vita að LÍÚ hefur fengið sitt og samningar verða gerðir á næstunni.

Sjávarútvegurinn er stórskuldugur, hann skuldar bönkunum. Til að sjávarútvegurinn geti staðið í skilum þá ætlar fyrsta hreina vinstri ríkisstjórnin á Íslandi að afhenda kvótaauðvaldinu kvótann, fiskinn okkar. Það er gert til þess að sjávarútvegfyrirtækin geti greitt skuldir sínar við bankana. Þegar sjávarútvegurinn hefur fengið kvótann okkar munu bankarnir stilla af skuldabyrði sjávarútvegsfyrirtækjanna þannig að þau vinni og vinni en allur arður auðlindarinnar okkar rennur óskiptur inn í bankana.

Bankarnir setttu Ísland í þrot haustið 2008. Það er að renna upp fyrir okkur núna hvers vegna. Bankarnir ryksuga upp fasteignir okkar og lágmarka allan kostnað í þjóðfélaginu svo við getum greitt þeim sem mest. Þeir soga til sín arðinn af auðlindum okkar. Við erum orðin vinnuhjú hjá bönkunum og eigum ekki neitt.

Ef einhver er að velta því fyrir sér hvers vegna þeim finnst sem stjórnarflokkarnir hafi svikið kosningaloforðin þá ætti það að vera ljóst núna að þau stjórna engu, það eru bankarnir sem stjórna öllu. Bankarnir neituðu okkur um afskriftir af húsnæðisskuldunum í fyrra og núna á að innhemta kvótaskuldir með kvótanum okkar.

Ef einhver ESB sinni telur að bankar hagi sér á annan hátt í Evrópusambandinu þá ætti að duga að nefna Lettland, Ungverjaland, Grikkland, Írland, Portúgal. Þar innhemta bankar inn með ekki minni hörku en hér. Það eru bankarnir sem stjórna ESB eins og Íslandi.

Væri einhver til í tylla sér og pæla í hvers vegna þetta er svo.

Síðan ef einhver vill breytingu þá er eins gott að koma sér í brækurnar og byrja að mótmæla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur