Föstudagur 06.05.2011 - 18:40 - 28 ummæli

Gjaldeyriskrísa

Nýir kjarasamningar auka líkurnar á gjaldeyriskrísu í framtíðinni.  Aukinn kaupmáttur mun auka eftirspurn eftir innfluttri vöru og þar með gjaldeyri.  Þá gera samningar ráð fyrir að gengið hækki sem enn frekar eykur eftirspurn eftir gjaldeyri.  Til að mæta aukinni eftirspurn og á sama tíma lækka verð á gjaldeyri, segir hagfræðin okkur að framboð á gjaldeyri verður að stóraukast.  En hvar á þetta aukna framboð á gjaldeyri að koma?  Hagvaxtahorfur standa ekki undir þessum væntingum og ekki standa útlendingar í röðum til að lána okkur gjaldeyri.  Svo ef gjaldeyrisframboði eykst ekki í takt við eftirspurn verður að handstýra  hlutunum.    Enn harðari gjaldeyrishöft,  innflutningshöft og/eða gengisfelling verður þá nauðsynleg.  Eina leiðin til að koma í veg fyrir gjaldeyriskrísu er að laða að erlent fjármagn til landsins í arðbæra fjárfestingu.  Aðeins stóraukinn hagvöxtur sem byggir á innflæði gjaldeyris getur látið þessa kjarasamninga ganga upp fyrir launamenn.

En því miður hefur Íslendingum ekki tekist að koma sér saman um trúverðuga og öfluga hagvaxtastefnu sem laðar að erlent fjármagn.  Ópraktísk hugmyndafræði, íhaldssemi, þrjóska  og „hræðsla“ við útlendinga er þar Þrándur í götu.  Það eru ekki miklar líkur á að okkur takist að móta og hrinda í framkvæmd nýjum og róttækum hugmyndum sem eru nauðsynlegar til að brjótast út úr þeim stöðnunarfjötrum sem þessi kynslóð hefur komið sér í.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

 • Gunnar Skúli Ármannsson

  Sæll Andri Geir,

  þó við séum ekki sammála um lausn fyrir Ísland er ég sammála stöðumáti þínu í þessari færslu. Það er engin innistæða fyrir þessum kjarsamningum og sennilega eru valdhafar að kaupa sér tíma. Við framleiðum ekki nægan gjaldeyri í dag þannig að framundan er mikil minnkun á öllum innflutningi. Land sem framleiðir varla upp í vaxtagreiðslur af lánum sínum fær ekki frekari lán.

 • Tek undir að þetta skapar klára hættu á auknum vanda sbr. niðurstöðu Seðlabanka að nettó gjaldeyrisafgangur sl. árs hafi einungis verið 1,7% af þjóðarframleiðslu vs. spá um 2,4% af þjóðarframleiðslu nettó afgang þetta ár. Nú sennilega stenst ekki sú spá enda launahækkun um 4% vel yfir líklegum hagvexti, svo í besta falli verða gjaldeyrismál í járnum við árslok.

  Þá er spurning um næsta ár, þegar ríkið þarf að eiga milli 50-60ma.kr. í fyrstu afborgun af AGS lánapakka. En ekki er augljóst með nokkrum hætti, að gjaldeyristekjur næsta árs verði hærri en í ár. Skv. kjarasamningum hækka laun um 3% aftur á næsta ári.

  Mér sýnist stefna í innflutningshöft – en ég sé ekki þessa ríkisstjórn fella gengið.

  Kv.

 • Jóhannes

  Þetta er ágætt dæmi þar sem „blessuð krónan okkar“ mun leiðrétta óábyrgar ákvarðanir gegnum verðbólgu. SA og ASÍ eru kominn í gamla farið, þekkt ferli víxlhækkana launa og verðlags fer af stað í sumar eða haust 🙂

 • Hafa útflutningfyrirtæki ekki efni á þessum launahækkunum?

 • Sigurður – eru þessar launahækkanir eingöngu bundnar við útflutningsfyrirtæki? Ég hélt ekki.

  Þá skiptir máli, heildartekjur hagkerfisins vs. heildarkostnað.

  Við þá skoðun sést hvort við höfum efni á þessu.

  Það virðist klárlega ekki vera.

  Kv.

 • Ég veit um eina leið sem gerir fyrirtækjum kleift að standa undir þessum hækkunum án þess að veita þeim út í verðlagið. Hún er ákaflega einföld og varamaðurinn í bankaráði Lnadsbankans hf (áður NBI hf.), Andri Geir Arinbjarnarson, gæti kannski talað fyrir henni í bankaráðinu. Fjármálafyrirtæki hraði úrvinnslu beinu brautarinnar, þau leiðrétti strax og afturvirkt ólöglega teknar afborganir áður gengistryggðra lána og bjóði fyrirtækjum betri kjör í viðskiptum sínum við bankann. Með þessu myndi sparast verulega í rekstrarkostnaði fyrirtækjanna, sem gæfi þeim svigrúm til að gera betur við starfsfólk sitt. Síðan gæti varamaðurinn líka talað fyrir því í bankaráðinu, en mér skilst að hann sitji alla fundi bankaráðsins, að bankinn virði dóma Hæstaréttar, neytendaréttarákvæði laga og Evrópuréttar, stjórnarskrárvarinn rétt fólks og fyrirtækja og að ég tali nú ekki um siðareglur bankans sjálfs.

  Mér finnst þú, Andri Geir, gleyma því að vandi íslensks hagkerfis er fjármálafyrirtækjum að kenna, ekki almenningi og framleiðslufyrirtækjum, ríkisstofnunum, sveitarfélögunum eða aðilum í ferðaþjónustu. Nei, vandi þjóðarbúsins er því að kenna, að Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og fleiri illa rekin fjármálafyrirtæku settu hér upp einhverja svæsnustu svikamyllu sem um getur á heimsvísu. Meðan þessi svik hafa ekki verið leiðrétt, þá verður enginn rekstrargrundvöllur hvorki fyrir heimili né atvinnurekstur.

  Mér finnst það ósvífið af varamanni bankaráðs kennitöluflakkara að kenna eðlilegum kjarabótum um að endurreisnin verði ekki eins auðveld, þegar Landsbankinn hf. (áður NBI hf.), Arion banki hf. og Íslandsbanki hf. hafa það í hendi sér að laga ástandið. Þú gefur í skyn, Andri Geir, að fólk eigi að sætta sig við skert kjör (sem eru bein afleiðing af svikum, lögbrotum, prettum og blekkingum fjármálafyrirtækjanna) vegna þess að annars gæti það ruggað bátnum. Mér finnst að þú ættir að sýna ögn meiri auðmýkt. Fattar þú ekki að fólk býr hér við fátækt? Kaupmáttur launa hefur lækkað um hátt í 30% á frá því í ársbyrjun 2008, m.a. vegna hátterni fjármálafyrirtækjanna. Og nýju fjármálafyrirtækin, sem eru ekkert annað en kennitöluflakkarar, eiga að vera stikkfrí, vegna þess að þau eru komin með nýja kennitölu. Sveiattan!

 • Þórdís

  Síðan gæti varamaðurinn, Andri Geir, líka talað fyrir því í bankráði, að gengið verði úr skugga um að 100% dótturfyrirtæki Landsbankans, SP og Avant, skuldi ekki milljarða í virðisaukaskatt. Það vildi nefnilega svo óheppilega til að SP, Avant og Íslandsbanki fjármögnun voru öll samtaka í gífurlegum „mistökum“… að gefa ekki út sölunótur fyrir öllum þeim bifreiðum sem fyrirtækin seldu á kaupleigu sem er virðisaukaskattskyld starfsemi. Það vildi líka svo óheppilega til að fyrirtækin innsköttuðu vsk.inn af öllum nýjum bifreiðum og tækjum. Skattgreiðendum gæti munað verulega um þessar fjárhæðir sem líklega var stungið undan. Síðan gleyma fyrirtækin líka að gefa út reikninga fyrir alls kyns aukakostnaði sem viðskiptavinir eru látnir greiða fyrir eftir s.k. uppgjör. Það gæti borgað sig að ráða stjórnendur í þessi fyrirtæki sem kunna undirstöðuatriði í bókhaldi og viðskiptum.

 • Marinó G. Njálsson

  Við erum einfaldega sem þjóðfélag með þær tekjur sem við höfum – ekki evru eða dollar eða pundi meir.

  Ef á að borga hærri laun, þarf að taka það einhvers staðar frá – minnka eitthvað annað á móti.

  Heildarsumman til umráða er þekkt þ.e. = okkar gjaldeyristekjur.

  Hvernig því er síðan skipt er síðan hægt að ræða.
  ———————

  En umframkeyrsla klárt leiðir til vandræða – og það mjög hratt.

  Kv.

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Fólk er eitthvað að misskilja og mistúlka þessa færslu.

  Hún snýst um gjaldeyrisforðann okkar eins og Einar Björn bendir á. Þetta er takmörkuð auðlind líkt og fiskveiðistofnar okkar. Það er auðvita ekkert að því að auka aðgang þeirra lægst launuðu að auknum gjaldeyri en þá verður að takmarkað aðgang annarra á sama tíma, annars aukast líkurnar á að við köllum yfir okkur gjaldeyriskrísu. Þetta snýst um að forgangsraða notkun okkar á takmörkuðum gjaldeyri. Ein leið er að takmarka innflutning á lúxusvörum eins og ég hef skrifað um áður.

  Þessi færsla snýst ekki um hvort einstök fyrirtæki hafi efni á þessum samningi eða hvort þessu verður öllu velt út í verðlagið eða ekki. Það er efni í margar færslur.

  Að lokum verðum við að muna að við erum þar sem við erum sama hversu ósanngjarnt mönnum finnst það. Við verðum að reyna að gera það besta úr erfiðri stöðu og haga okkur skynsamlega. Öflug umræða á málefnalegum grunni þar sem öll sjónarmið fá að koma fram er einn þáttur í endurreisninni.

 • Andri Geir það var ekki þessi kynslóð, sem kom þessu gjaldþroti yfir þjóðina.

  Það var Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og bankamálaráðherra sem brugðust algjörlega eftirlitsskyldu sinni, og bankaráð bankanna sem störfuðu að því er virðist utan laga og réttar eftirlitslaust, og löngu er orðið ljóst að innra og ytra eftirlit með bönkunum var ekkert löngu fyrir hrun.Síðan segir Seðlabankinn að bindiskilda hafi ekki verið notuð af því hún var ekki í tísku,en í staðinn eru stýrivextir settir í hæstu hæðir sem setur allt á annan endan, og erlent fjármagn streymir inn í landið.
  En í sambandi við gjaldeyrinn þá eiga lífeyrissjóðir(fólkið í landinu) ca. 5-6 hundruð miljarða erlendis, og er ekkert eðlilegra meðan verið er að byggja landið upp aftur, en að flytja þessa fjármuni heim í ríkisskuldabréf, og setja eitthvað af þeim í Búðarhálsvirkjun.

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Siggi T.
  Rannsóknarskýrsla Alþingis er besta skýrsla sem við höfum sem tekur á aðdraganda hrunsins. En sama hver kom okkur í þessa forargryfju, núverandi og næstu kynslóðir þurfa að hreinsa til og byggja upp, þ.e.a.s. segja þeir sem kjósa að búa á Íslandi.

  Athugasemd þín um eignir lífeyrissjóðanna er mikilvæg. Þeir verða að passa vel upp á þessa peninga og verja þeim vel. Slæmt yrði ef þeir lentu í neyslu í gengnum einhverjar krókaleiðir. Ég hef áður skrifað um „þjóðnýtingu“ á erlendum eignum lífeyrissjóðanna og vísa í þá færslu. Þessa leið fór Argentína árið 2008. Þessa leið er aðeins hægt að nota einu sinni svo það er betra að vita nákvæmlega hvað maður ætlar með þessa peninga.

 • Andri Geir, ég átta mig mjög vel á þessu með gjaldeyrisforðann og gjaldeyristekjurnar. Ætli ég hafi ekki verið með fyrstu mönnum til að vekja athygli á þessu. En það er hvernig þú stillir þessu upp. Kjarasamningarnir munu setja allt á annan endann. Málið er að kröfur fjármálafyrirtækjanna eru fyrir löngu búnar að setja allt á annan endann.

  Ég hef á undanförnum dögum talað við menn í atvinnulífinu sem eru að kikkna undan oki fjármálafyrirtækjanna. Þeir skilja ekki aðgangshörku bankanna þriggja. Þeir skilja heldur ekki laga- og dómatúlkun bankanna. Þeir fatta ekki af hverju þeir eru ennþá krafðir um að greiða lánin eins og dómar Hæstaréttar 16. júní hafi ekki fallið. Þeir skilja ekki af hverju bankarnir hleypa fyrirtækjum þeirra ekki inn á beinu brautina. Þeir skilja ekki af hverju hægt er að semja við suma, þannig að fyrirtækin þeirra verða nánast skuldlaus meðan öðrum er vísað út í hafsauga. Og skuldlausu fyrirtækin þau fá samkeppnislegt forskot sem gerir endanlega út af við hin.

  Ef bankarnir létu 70% af afslættinum sem þeir fengu frá gömlu kennitölunni sinni renna til lántaka, þá gæti atvinnulífið rétt úr kútnum af sjálfu sér. Það gæti hæglega borið þær sanngjörnu launakröfur launþegahreyfinganna. Og það gæti farið í nauðsynlegar fjárfestingar. Nei, í staðinn þá vilja fjármálafyrirtækin gína yfir allt og öllu. Þetta er hrein og klár eignaupptaka og þetta er kúgun.

  Svo beina brautin virki, þá verða fjármálafyrirtækin að taka tillit til þess, að launþegar eiga eftir að fá sína leiðréttingu. Mér heyrist af mönnum í atvinnulífinu, að fyrirtækin eigi ekki að hafa neitt svigrúm til kauphækkana, samþykki þau að fara inn á „beinu brautina“. Allt sem ekki fer í reksturinn miðað við forsendur um síðustu áramót eða hver þessi viðmiðunarpunktur er, á að fara til bankanna, þrátt fyrir að það sé mun meira en nemur afborgunum á bókfærðu virði skuldanna.

  Framsetning færslu þinnar er að mínu mati óvirðing við launafólk í landinu, þar sem sanngjarnar kröfur þess um kjarabætur áttu að vera hættulegar þjóðfélaginu, þegar í reynd fjármálafyrirtækin eru stærsta ógnin við uppbyggingu samfélagsins.

 • Marínó – þessir bankar eru raun-gjaldþrota. Því sem þeir verða gerðir upp í annað sinn, því betra.

  Ástæða þess að þeir ganga þetta hart fram, er einmitt að þeir eru raungjaldþrota. En slík hegðan er þú lýsir er einmitt rökrétt hegðan banka sem slíkt er ástatt um – geta ekkert gefið eftir. Hanga á blábrún lífs og dauða, sem er akkúrat ástæða þess að þeir geta ekkert gefið eftir.

  Af hverju er þessu þannig háttað, eiginlega af sömu ástæðu og Írar lentu í vandræðum með NAMA, þ.e. þó eignir hefðu verið færðar yfir á afslætti, var afslátturinn ekki nægur. Tjónið var vanmetið, virði eigna samt ofmetið – þó reiknað hafi verið inn þ.s. menn héldu vera rífleg öryggismörk.

  Þannig að þrátt fyrir 50% afslátt, eru þeir rétt svo hangandi – reynd er ég nokkurn veginn viss að ef svokölluð „fair valuation“ færi fram á þeirra eignastöðu, myndi koma í ljós að hún sé í dag neikvæð.

  Alveg sammála því að bankarnir eru eitt megin vandamál þjóðarinnar í dag, og þannig verður það nákvæmlega þangað til, að viðurkennt verður að endurreisn þeirra fór út um þúfur – þ.s. þarf er að endurtaka leikinn og aftur afskrifa eignir cirka 50%. Fyrri afskrift hefði átt að vera 75% en ekki 50$.

  Kv.

 • Magnús Orri

  Eða með öðrum orðum það þarf að fara að taka til í banka og fjármálakerfinu með höggstokk, öxi og skóflu sem helstu verkfæri – nota bara gömlu víkingahættina og ekki væri verra að hafa einhverja erlenda banka- og fjármálamenn og konur þarna með og ekki má gleyma matsfyrirtækjunum…

 • Hjalti Atlason

  Staðan sem er að koma upp í gjaldeyrismálum var fyrirséð. Það er hreynt ótrúlegt að Seðlabanki hafi spá 15% styrkingu krónunar gagnvart evru þegar átti að troða Icesave III upp á okkur.

 • Gísli Ingvarsson

  Sennilega verða innflutningshöft sú leið sem ríkisstjórnin neyðist til að feta. Verðbólguleið með víxlhækkun verðlags og launa með síhækkandi verðbótaþætti á íþyngjandi lánin hlýtur hún að reyna að forðast.

  – Það er enn verið að benda á sökudólgana í fjármálkerfinu og að þeir verði að borga brúsann. Ef menn ætla að bíða eftir því að þeir geri upp fyrir sig verður aldrei tekið á neinum málum af framsýni. Marinó er fastur í 2008 krísunni. Hún er gengin yfir. Nú er komin pólitísk krísa. Ákvarðanafælni. Það mátti ekki einu sinni gera samninga um greiðslu Icesafe. Það mun halda áfram að koma í bakið á okkur einsog aðrir óuppgerðar deilur.

  Það er alvega sama hvað lagt er fram allt af er það talað niður af talsverðri heift. Framtíðar stefna í gjaldeyrismálum er það sem við verðum að koma okkur saman um. Andri Geir hefur margsinnis bent á þetta.

 • Það kemur þessum kjarasamningum ekkert við, að beita þurfi innflutningshöftum á næstu árum. Slíkt er búið að vera fyrirséð frá því um leið og menn fóru að reikna raunverulega skuldastöðu þjóðarbúsins í tengslum við Icesave 1 samningana. Fyrsta bloggfærslan mín um það efni er frá því 13.7.2009, en þá höfðum við Haraldur Líndal átt á nokkrum dögum bæði fund með fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd. Fjárlaganefnd hlustaði vel á orð okkar, en efnahags- og skattanefnd fannst við vera stela frá þeim tíma sem betur væri varið í annað. Í færslu 15.7.2009 þá segi ég m.a.:

  „Þessi sýn Seðlabankans getur ekki gengið nema tvennt komi til: Gert er ráð fyrir að gjaldeyrishöft og innflutningshöft verði viðvarandi allan tímann.“

  Andri Geir, þú tókst þátt í umræðunni hjá mér fyrir nærri tveimur árum og hefur sjálfur talað um þessa hluti. Þess vegna finnst mér það nánast vera högg undir beltisstað að kjarasamningar verði einhver vendipunktur til hins verra.

  Ekki má gleyma því að Gunnr, sem hefur verið mjög virkur í athugasemdakerfinu hjá mér, hefur varað við þessu frá því strax eftir hrun. Staðreyndir málsins eru að meðan við höfum ekki alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðli, þá erum við í djúpum skít og þurfum að búa bæði við gjaldeyrishöft og innflutningshöft.

 • Gísli, er ég fastur í 2008 krísunni? En hún hefur ekki verið leyst og meðan hún er ekki leyst, þá er hún ennþá til staðar. Bankarnir hrundu af tveimur ástæðum: Vegna lausafjárkreppu og vegna gjaldeyriskreppu. Þeir hefðu líklegast komist upp með allt svindlið, ef þeir hefðu ekki sogast inn í lausafjárkreppuna, sem síðan var að hluta orsakavaldur gjaldeyriskreppu sem síðan jók á lausafjárkreppuna. Gjaldeyriskreppan er ennþá til staðar.

  Á margan hátt höfum við búið við gjaldeyriskreppu hér á landi í mjög mörg ár, líklegast af og til frá stríði. Okkur tókst að veiða okkur út kreppunni með jöfnu millibili, en í hvert sinn sem tekjur af fiskveiðum hafa dregist saman, þá hefur gjaldeyriskreppa skollið á. Nú er svo komið að mikil aukning á tekjum af fiskveiðum er hætt að vera nóg. Neysla í erlendri mynt hefur einfaldlega verið of mikil og við höfum smátt og smátt safnað upp óviðráðanlegum skuldum í útlöndum. Þessar skuldir verða aldrei greiddar niður meðan krónan er gjaldmiðill. Eina von okkar til að losna við þær, meðan við erum með krónuna sem gjaldmiðil, er að þær verði felldar niður. Er einhver með símanúmerið hjá Parísarklúbbnum?

 • Þessi Krísa sem við erum í er 110% sök bankakerfisins og brjálaðra vipskiptamanna. Hún er ekki sök hins almenna Íslendings. Það er til nóg af gjaldeyri í þrotabúum gömlu bankana – það er bara að fara og sækja hann og koma honum til góðra verka. Kröfuhafar bankana hafa ekki neitt með hann að gera – þeir eru allir brjálaður bankamenn og það er skömm að vita til þess að þeir hafi svo mikið sem aðgang að dómstólum – þeir ætu að sitja á sakamannabekk allir sem einn.

  Í þeirri stöðu sem upp er komin er ekki um annað að gera en tefla djarft og gera það sem gera þarf – það kemur ekki til greina að Íslendingar taki meiri vanda eða álög á sig.

 • takk fyrir mjög góð blogg Andri.

  .. í staðinn fyrir að setja innflutningshöft væri ekki sniðugra að skylda lífeyrissjóðina og stóreignafólk að skila gjaldeyristekjum sínum til landsins? Þá væru þessir aðilar í sömu sporum og annað fólk og útflutningsfyrirtæki.

  Ein ástæðan fyrir ótta erlendra aðila við fjárfestingar hér á landi er að þeir óttast geðþóttavald stjórnmála og embættismanna. „Áætlun um afnám gjaldeyrishafta“ felur einnig í sér afslætti til erlendra fjárfesta hér á landi og ólíklegt að erlendir aðilar fari að fjárfesta og greiða fyrir það fullt verð ef það er búið að lofa þeim afslætti í náinni framtíð. „Áætlun“ Seðlabankans er þess vegna að koma í veg fyrir fjárfestingar hér á landi.

  Þessi áætlun vekur einnig upp spurningar um það hvers vegna erlendir aðilar, stóreignafólk og lífeyrissjóðir geti í náinni framtíð fjárfest hér á landi og fengið ca 20-40% afslátt af fjárfestingunni á meðan almennir fjárfestar og útflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fullt verð. – Fjárfestir einhver í svona hallærislegu fjárfestingaumhverfi?

  Það líklegasta til að bjarga okkur væri hreinlega aukin eftirspurn eftir úflutningi og aukning ferðamanna. Annað virðist vera í handbremsu.

 • Andri segir:
  „“ Eina leiðin til að koma í veg fyrir gjaldeyriskrísu er að laða að erlent fjármagn til landsins í arðbæra fjárfestingu. Aðeins stóraukinn hagvöxtur sem byggir á innflæði gjaldeyris getur látið þessa kjarasamninga ganga upp fyrir launamenn.““

  Ég kem að rekstri þriggja fyrirtækja á íslandi. Tvö í framleiðslu og eitt í fasteignaumsýslu. Ég get því upplýst þig um það Andri meða nokkuri vissu að það er búin að vera gjaldeyriskrísa á íslandi í bráðum 4 ár. Ég var að reyn að útskýra fyrir þér fyrir nokkrum miserum síðan í tengslum við AGS áætlunina að lán til að borga lán lækka ekki skuldir. Nú virðist þú vera búin að átta þig á þessu sem er vel.

  Mitt starf undanfari 3 ár hefur að miklu leiti snúist um að verja rétt og eignir minna félaga fyrir ágangi bankamanna nýju bankanna sem telja sig ekki þurfa að standa við skuldbindigar þeirra gömlu.
  Það hefur gengið ágætlega en á meðan geri ég lítið annað og það kemur beint niður á getu minna félag til afla gjaldeyris.

  Svo þetta með erlenda fjarmagnið sem þér vantar svo mikið. Þá er það þannig að á íslandi er í dag til þekking, geta og fjármagn til að gera það sem gera þarf. Það eina sem vantar er að fá þá seim sitja á fjarmagninu til að eyða því en það gera þeir vitanlega ekki á með ríkissjóður íslands býður upp á ríkistryggða raunvexti. Það sem skiptir hér máli að sjá er að OF MIKLAR ERLENDAR SKULDIR AUKAST VIÐ AÐ FÁ MEIRA AÐ LANI FRÁ ÚTLÖNDUM.

  Það rétta í stöðunni er að koma almenningi og helstu fyrtækjum út úr gengis og verðtryggingum eins og frekast er kostur og leifa síðan geinginu að fljóta með greiðsluþroti ef svo ber undir. Þannig bera þeir stærstan skaða sem tóku stöður á íslandi meðan allt var í blóma.
  Það sem þú vilt gera er að koma í veg fyri tjón fjárfesta með því að láta almenning á íslandi borga en skilur ekki að það er í raun það sem er aðalega að koma í veg fyrir uppbyggingu og hagvöxt hér heima, sem við erum svo samála um að er það eina sem raunverulega getur forða enn ferekar tjóni.

 • Marinó G. Njálsson

  Búinn að rífast v. Gunnr. um þetta einnig. En, hann virðist hafa sannfært þig um að það sé unnt að flytja inn traust með slíkum hætti. En, ég er 100% ósammála því.

  En alveg eins og Stiglitz benti svo einfaldlega á, í óstöðugu hagkerfi þá þarf eitthvað að taka sveifluna. Ef gengið gerir það ekki þá þarf eitthvað annað að gera það.

  Þ.e. eru ekki ótæmandi valkostir. En upptaka annars gjaldmiðils breitir ekki þeirri grunnstaðdreynd, að við eigum ekki fyrir lifskjörum umfram tekjur þ.e. útflutningstekjur + ferðamennska – kostnaður við skuldir við erlenda aðila.

  Ef krísa verður í tekjugrunni hagkerfisins, þarf annaðhvort gengið að falla eða launa að lækka. Þriðji möguleikinn er mög raunveruleg hrun framleiðslugreina og massívt atvinnuleysi.

  Klárlega njóta lönd sem hafa komið sér í vanda innan Evrusvæðisins ekki trausts. Við erum í að mörgu leiti í mjög sambærilegum vanda og þau, og því ekkert augljóst við það að traust aukist.

  Svo er það spurning um kostnaðarlega aðlögun, innan Evru. En ég vendi á að einungis Írlandi hefur tekist, að framkvæma samfellda launalækkun í 3. ár. Þeir eru núna búnir cirka að ná svipaðri kostnaðarlegri aðlögun og varð hér með gengisfellingu. Á Grikkalndi og Portúgal hefr slík aðlögun ekki tekist.

  Þ.e. nefnilega málið, 1 tilvik af 3 sýnir, að ekki er unnt að treysta á að kostnaðarleg aðlögun, myndi virka í gjaldmiðilssamstarfi.

  Þá er valkosturinn, stórfellt hrun framleiðslugreina + greiðsluþrot + massívt atvinnuleysi og auðvitað hrun innlenda fjármálastofnana þegar atvinnulaus heimili geta unnvörðum ekki greitt af lánum og sama á unnvörpum við atvinnulíf. Ég er að tala um eyðimörk.

  Auðvitað getum við lent í slíkri eyðimörk nú fljótlega ef verður annað hrun. En, mér sýnist slík útkoma geta orðið að periódískri atburðarás innan Evru, meðan við erum enn með samkonar uppbyggingu atvinnulífs og nú er.

  Kv.

 • Einar Björn, ég veit ekki hvað þú ert að tala um og finnst þú vera alveg úti á þekju í tilvitun þinni í boðskipti á milli mín og gunnr á tímabilinu frá október 2008 fram á síðasta ár. Veist þú til hvaða samskipta ég er að vísa? Getur þú þá sagt mér það? Annars er ekki skynsamlegt að vísa til einhvers sem maður hefur ekki hugmynd um. Ég mæli með því að þú flettir í gegn um ÖLL skoðanaskipti milli mín og gunnr og þá kemstu að því að ummæli þín eru kolröng.

 • Marínó – ég sjálfur hef rifist við Gunnr. um málið mestan part áranna 2009 og 2010. Löng skoðanaskipti. Reikna einfaldlega ekki með því, að hann hafi verið að segja allt aðra hluti en hann sagði við mig, þegar maður reifst við hann á vef Eyjunnar. Rífast er þó kannski rangnefni, en þó var um verulegann skoðanamun.

  „Á margan hátt höfum við búið við gjaldeyriskreppu hér á landi í mjög mörg ár, líklegast af og til frá stríði. Okkur tókst að veiða okkur út kreppunni með jöfnu millibili, en í hvert sinn sem tekjur af fiskveiðum hafa dregist saman, þá hefur gjaldeyriskreppa skollið á. Nú er svo komið að mikil aukning á tekjum af fiskveiðum er hætt að vera nóg. Neysla í erlendri mynt hefur einfaldlega verið of mikil og við höfum smátt og smátt safnað upp óviðráðanlegum skuldum í útlöndum. Þessar skuldir verða aldrei greiddar niður meðan krónan er gjaldmiðill. Eina von okkar til að losna við þær, meðan við erum með krónuna sem gjaldmiðil, er að þær verði felldar niður. Er einhver með símanúmerið hjá Parísarklúbbnum?“

  Þetta er mjög líkt hans boðskap. Kannski hafði ég rangt fyrir mér, og það varst þú sem sannfærðir hann eða þriðja lagi, þið voruð sammála frá fyrsta dagi.

  Þá er það minn misskilningur.

  Kv.

 • Marinó G. Njálsson

  Ef út í þ.e. farið, tel ég að við þurfum að leita samninga við kröfuhafa landsins, því það sé sennilega of erfitt fyrir okkur, að halda niðri lífskjörum cirka við núverandi næstu 10-15 árin.

  Myndi frekar ræða við Lundúnaklúbbinn, sem er á vegum einkaaðila þ.e. bankastofnana nokkurs konar samlag í eigu nokkurra risabanka. Ef gengist er inn á milligöngu, þá bjóða þeir aðilum að leita sátta. Í boði er þó endurskipulagning þ.e. lenging lánstíma og lækkun vaxta.

  Slíkt getur alveg dugað okkur, ef á móti kemur að okkur tekst samtímis að hífa upp nokkuð útflutningstekjur.
  ——————

  En, ég er á því að þvert á móti sé auðveldar fyrir okkur, að stýra okkar málum með okkar eigin gjaldmiðil, því enginn fram að þessu hefur sýnt fram á að fær sé nokkur skilvirkari leið til þess, að stýra okkar útflutningsafgangi en gengið.

  Eins og sést af því, að einungis 1 land af þrem innan ESB í vandræðum, hefur getað lækkað laun – þá er ekki unnt að treysta á að slíkt virki. En gengisfall hefur alltaf virkað, erum með mörg dæmi um það. Ef innflutningur verður of mikill, fellur gengið fyrir rest og enn stærra hagkerfisáfalli er forðað.

  Þ.e. auðvitað áfellisdómur yfir okkar hagstjórn fyrri tíma, að gengisfellingar hafi verið svo tíðar. En, rétt er að benda á, að gengisfellingar verða ekki einungis vegna óstjórnar, utanaðkomandi sveiflur og sveiflur í lífríkinu geta einnig orsakað stórar sveiflur hér, sem knýja á um skjóta aðlögun lífskjara niður á við.

  Þ.e. einmitt hið mikilvægasta hlutverk gjaldmiðilsins, að stýra jöfnuðinum, verður enn mikilvægara einmitt vegna þess að við erum svo svakalega háð innflutningi samtímis og innra hagkerfi er svo agnarlítið. Þá verður halli á jöfnuði við útlönd fljótt að alvarlegu vandamáli.

  Og, það vandamál er ekkert leyst með gjaldmiðilsskiptum, þá þess í stað verður það enn hættulegra því þá bætist við ofan á hættu á halli myndist á viðskiptajöfnuði sbr. þrot Portúgals eftir rúmann áratg af uppsöfnuðum skuldum vegna halla, hættan á fjármagnsþurrð innan hagkerfisins sem fylgir því að starfa innan sameiginlegrar mynntar.

  En, innan hennar ef hagkerfi tapar tiltrú, er ekkert sem hindrar eignir innan sama gjaldmiðils að leita hratt úr landi, þ.s. land ræður einungis yfir tilteknu peningamagni sem það getur ekki aukið sjálft, getur auk þessa ekki sett höft á það streymi löglega; þá þegar hagkerfi tapar tiltrú getur að auki orðið þurrð á peningum innan kerfisins, sem þá magnar samdráttaráhrif af samdrætti framleiðslugreina.

  Þess vegna er lánasjóður innan Evru mjög nauðsynlegur. En það fé þarf að vera mun ódýrara en þau lán sem í dag eru veitt, annars eru þau hengingaól sbr. Grikkland.

  Kv.

 • En, Einar Björn, þetta eru staðreyndir. Ég þarf ekki gunnr eða einhvern annan til þess að sannfæra mig um þetta.

  1. Frá því að Danir hættu að taka við íslenskum krónum höfum við búið við kerfi, þar sem innflutningur hefur treyst á innflæði gjaldeyris vegna útflutnings.
  2. Í hvert sinn sem afurðaverð hefur fallið á markaði eða veiðar burgðist, þá hefur orðið gjaldeyrisskortir.
  3. Algengustu viðbrögð við gjaldeyriskreppum hefur verið að fella gengið til að gera innflutning dýrari.
  4. Á eftirstríðsárunum þurfti leyfi fyrir öllum innflutningi sama hvaða nafni hann nefndist.
  5. Allt fram á 9. áratuginn þurfti leyfi til útflutnings.
  6. Skilaskylda var á gjaldeyri fram á 10. áratug síðustu aldar.
  7. Mjög oft hefur verið neikvæður halli á vöruskiptum við útlönd. Þessi halli var fjármagnaður með lánum.
  8. Bannað var að eiga gjaldeyri í útlöndum, þar sem öllum gjaldeyri átt að skila hér á landi.
  9. Fólk þurfti nánast leyfi til að ferðast til útlanda, þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Þetta ástand ríkti a.m.k. fram á 8. áratug síðustu aldar.
  10. Sovétmenn björguðu okkur í fleiri áratugi með viðskiptasamningum, þar sem þeir keyptu af okkur iðnvarning, sem þeir raunar þurftu ekki en gátu notað, svo við gætum keypt af þeim olíu og bíla. Þetta var vöruskiptaverslun og ekkert annað, þar sem hvorug þjóðin var með alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil. (Rúplan var notuð í Austur-Evrópu, en ekki í hinum „frjálsa“ fjármálaheimi.)

  Við erum í 90 ár búin að búa við það kerfi, að innflutningur er háður útflutningi. Við höfum aldrei allan þann tíma haft nægan gjaldeyri til að gera það sem okkur sýndist fyrr en á síðustu árunum fyrir hrun og sá peningur var annarra manna peningur. Staðreyndin er að meðan hér á landi er notaður gjaldmiðill, sem er ekki gjaldgengur annars staðar í heiminum, þá verður gjaldeyriskreppa hér á landi. Það verður ekki fullt frelsi til að gera hvað sem menn vilja við þann gjaldeyri sem þjóðin aflar sér.

 • Þú talaðir um það í síðasta pistli að landsframleiðslan væri hér svipuð og á hinum norðurlöndunum og spurðir hvar kaupmátturinn væri því ekki væri hann hjá launamönnum. Þessir kjarasamningar gætu hugsanlega náðst með því að ná svipaðri dreyfingu á kaupmætti milli fyrirtækja og launþega og á hinum norðurlöndum.

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Héðinn,
  Það er rétt að skoða dreifingu á kaupmætti en það þarf líka að skoða hagkvæmni í rekstri á Íslandi. Eins og ég segi í minni nýjustu færslu er kostnaður við rekstur bankanna þriggja orðinn 50% meiri en rekstur Landsspítalans. Mikið af okkar hagkerfi er allt og dýrt og óhagkvæmt. Það þarf að færa störf yfir í gjaldeyrisskapandi og arðbæran rekstur.

  Það þarf að setja miklu meiri fóskus á bættan rekstur alls staðar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur