Fimmtudagur 04.05.2017 - 12:46 - Lokað fyrir ummæli

Húsnæðisverð ekki vandamálið

Verð á húsnæði hefur hækkað mikið á undanförnum misserum og hefur mönnum verið tíðrætt um ástæður þess. Í þessum vangaveltum er athyglisvert að setja íbúðaverð hér á landi í alþjóðlegan samanburð. Vefsíðan numbeo.com heldur úti yfirgripsmiklum samanburði á húsnæðisverði í hinum ýmsum borgum heims. Þar er miðað við alþjóðlega verðvísitölu sem byggir á hlutfalli meðalverðs fyrir 90 fm íbúð og miðgildi brúttó heimilistekna.

Þegar nýjasti útreikningur á vísitölunni fyrir Evrópu er skoðaður, sem tekur yfir 92 borgir lendir Reykjavík í 87 sæti. Þrátt fyrir miklar hækkanir, er verð í Reykjavík enn frekar hagstætt. T.d er verðið í Þrándheimi 30% hærra á þennan mælikvarða en í Reykjavík og verðið í Stokkhólmi er yfir 100% hærra.

Það er ekki verðið sem er vandamálið á Íslandi heldur fjármögnunin. Það er sjálfsagt að byggja hagkvæmar íbúðir en það er aðeins hluti af lausninni. Stærsti hlutinn snýr að fjármögnuninni og þá náttúrulega að gjaldmiðli landsins. Þar liggur vandi sem sífellt erfiðara verður að horfa fram hjá.

Verðið verður fyrst vandamál þegar fjármögnunin verður alþjóðlega samkeppnishæf.   Á meðan býður íslenski fasteignamarkaðurinn upp á spennandi tækifæri fyrir spekúlanta, enda blómstra leigufélög, sem hafa fjölbreyttari og betri aðgang að fjármagni en almenningur, sem aldrei fyrr.

 

Ps. Það er vert að taka fram að í húsnæðisvísitölu numbeo.com er miðað við 50% atvinnuþátttöku kvenna þegar heimilistekjur eru reiknaðar. Verðvísitalan er því greinilega ofmetin fyrir Reykjavík og aðrar borgir á Norðurlöndunum.

Pss.  Þessar tölur sýna líka að hressileg vaxtalækkun núna færi beint út í verðlagið og myndi hækka fasteignaverð enn meira.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur