Laugardagur 01.07.2017 - 09:40 - Lokað fyrir ummæli

Fluglest fyrir hvern?

Hverjir borga 5,000 kr fyrir að ferðast 47 km frá Leifsstöð til BSÍ? Erlendir ferðamenn? Varla. Þeir komast frá Leifsstöð beint inn á hótel fyrir 3,000 kr. Og hér liggur stærsti vandinn við að fá þetta lestardæmi til að ganga upp.

Í skýrslu um fluglest frá júlí 2014 er gert ráð fyrir að einstakur lestarmiði kosti 3,800 kr eða 25 evrur á gengi þess tíma. Í dag 3 árum seinna er stakur miði kominn í 5,000 kr eða 42 evrur – 68% hækkun fyrir erlenda ferðamenn! Það verður ódýrara fyrir hjón að taka leigubíl beint frá Leifsstöð en að ferðast með lest að BSÍ og bíða þar eftir leigubíl. Ódýrast verður því að ferðast með rútum. Enda segir í sömu skýrslu um fluglest að reynslan af Flytoget í Osló sýni að lestin eigi erfiðast að keppa við rútur sem keyra erlenda ferðamenn beint á hótelin. En erlendir ferðamenn eiga að standa undir fluglestinni – án þeirra gengur dæmið ekki upp.

Vonandi verða einhverjar krónur af þessum 1.5 milljarði sem á að fara í þróunarvinnu settar í alvöru markaðsrannsóknir og samkeppnisgreiningar. Það má ekki gleymast að ekkert Evrópuland hefur minni reynslu og þekkingu af byggingu, fjármögnun og rekstri járnbrautalesta en Íslendingar. Fastur kostnaður í rekstri járnbrauta er mikill og hvernig 47 km spor á að bera hann er nokkuð sem menn þurfa að svara. Fluglestin má ekki verða annað Fáfnisklúðrið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur