Þriðjudagur 03.05.2011 - 07:34 - 13 ummæli

Hvar er kaupmátturinn?

Það er mikið talað um að kaupmáttur sé lítill á Íslandi og að taxtakaup sé það lægsta á Norðurlöndunum og atvinnuleysi hér það mesta.  Tugir þúsunda berjast í bökkum og ná varla endum saman um hver mánaðarmót.  Það mætti því búast við að landsframleiðsla á mann á Íslandi sé sú langlægsta á Norðurlöndunum – en það er hún ekki.  Sú spurning vaknar þá, hvar er kaupmátturinn á Íslandi, hvert fer landsframleiðslan?

Ef litið er á nýjar tölur frá AGS fyrir 2010 yfir landsframleiðslu á mann þegar leiðrétt hefur verið fyrir mismunandi kaupmátt (PPP gildi) raðast Norðurlöndin þannig upp á heimslistanum:

  • 4.  sæti Noregur $52,013
  • 14. Svíþjóð $38,031
  • 16. Ísland $36,621
  • 17. Danmörk $36,450
  • 22. Finnland $34,585

Fyrir utan Noreg, liggja öll Norðurlöndin á svipuðu reki og Ísland er mitt á milla landanna fimm.

Eru raunveruleg lífskjör á Íslandi svo mkilu lægri en á hinum Norðurlöndunum og ef svo er, hvers vegna er staðan sú, þrátt fyrir háa landsframleiðslu?  Hvar eru þessir peningar?  Stærð og einangrun landsins gerir auðvita hagkerfið hér óhagkvæmara og dýrara en varla skýrir það allan muninn.  Eitthvað annað kemur til.

Hér spilar inn í lítil framlegð, ófullkomið fjármálakerfi, óskynsamlegar skuldir og óvirkur gjaldmiðill.  Þá er líka rétt að líta á tekjudreifinguna, það hljóta margir að hafa það ansi gott í íslensku kreppunni (og líklega vill þessi hópur litlu breyta).

Það er ekki nóg að auka bara landsframleiðsluna með nýjum fjárfestingum.  Við verðum líka að fara að finna leiðir til að auka framlegð og gera hagkerfið hér skilvirkara.  Nýr og alvöru gjaldmiðill spilar hér lykilhlutverk.  Án hans er lítil von um raunverulega kaupmáttaraukningu í framtíðinni handa þorra fólks.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Þetta er eins og með bananan og eplið sem sagði við bananan að það væri eitthvað bogið við hann.
    Kveðja að norðan.

  • Þórhallur Jósepsson

    Þarf ekki að spyrja einfaldlega í hvað fara útgjöldin? Þú nefnir óskynsamlegar skuldir. Ríkissjóður tekur árlega hátt í hundrað milljarða af sköttum okkar í vaxtagreiðslur (það er fyrir utan þau hundruð milljarða sem hann afhendir erlendum kröfuhöfum sem framlög til nýju bankanna og eru tekin að láni). Atvinnulífið skuldar gríðarlega. Þótt sjávarútvegurinn þéni vel núna þarf væntanlega að borga einhverja vexti af þessum 500 milljörðum sem hann skuldar. Almenningur skuldar miklar fjárhæðir,eitthvað fer þar í vexti. Þessir 36 þúsund dollars landsframleiðsla á mann er væntanlega einhvers konar brúttótala áður en vextir eru borgaðir, þar er trúlega kyrkingarólin.
    Þú nefnir líka tekjuskiptingu og -dreifingu. Þegar við horfum á að annars vegar er stór hópur í samfélaginu sem bersýnilega getur leyft sér hvað sem er, hins vegar margfalt stærri hópur sem lifir við hungurmörk, aðallega barnafólk og öryrkjar, blasir við að eitthvað má laga.
    En – hver hefur svosem áhuga á því? Öll athyglin og áhyggjurnar virðist núna beinast að velferð hvítabjarna.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Þórhallur,

    Auðvita eiga skuldir mikinn þátt í bágu ástandi hér. En það má ekki gleyma að mikill áhrifavaldur allra þessara óskynsamlegu skulda er krónan. Vegna krónunnar tóku menn mikil erlend lán á röngum forsendum. Þetta leiddi til rangra ákvarðanatöku við fjárfestingu sem nú þýðir að við sitjum uppi með fjárfestingar sem ekki standa undir lánum og þarf að afskrifa. Þá brennir krónan upp kaupmátt launafókls með verðtryggingu, verðbólgu og gengisfellingum.

    En krónan er ekki alslæm, hún tryggir arðsemi útflutningsfyrirtækja á kostnað launamanna. Tekjur í erlendir mynt en kostnaður í gengisfelldri krónu er auðvita óskastaða rekstrarskussans, allt í boði hins opinbera.

    Útflutningsfyrirtæki, og þau eru fá, sem hafa sýnt ábyrga fjármálastjórnun græða á tá og fingri í þessu krónuumhverfi. Það er engin tilviljun að afgangur af viðskiptum okkar við útlönd hefur snarhækkað eftir hrunið, þetta er gengisfelldri krónu að þakka. En þessir „kostir“ krónunnar eru ekki ókeypis og kostnaðurinn dreifist ekki jafnt.

    Krónan mun alltaf vera bölvaldur meirihlutans og óskatæki minnihlutans.

  • Björn Kristinsson

    „En það má ekki gleyma að mikill áhrifavaldur allra þessara óskynsamlegu skulda er krónan. Vegna krónunnar tóku menn mikil erlend lán á röngum forsendum“

    Lántaka almennings í erlend lán er ekkert séríslenskt fyrirbrigði. Þekkist vel í Austurríki og Þýskalandi og þá í frönkum. Það er jú minni gengisáhætta úr EUR í CHF en miðað við þróun síðustu 4 ára hefur heldur betur gefið á bátinn þar.

    „Þá brennir krónan upp kaupmátt launafókls með verðtryggingu, verðbólgu og gengisfellingum.“

    Gengi krónunnar er aðeins birtingarmynd á því hvernig hagkerfið er rekið. Slæm hagstjórn, lágt gengi IKR og öfugt. Af hverju heldur þú t.d. Andri að þýska markið hafi verið svo sterkt árum saman samanborið við USD. Það er mikill munur á stærð hagkerfanna. Munurinn var hagstjórnin, í hvað peningarnir fóru og fóru ekki í.

    „Útflutningsfyrirtæki, og þau eru fá, sem hafa sýnt ábyrga fjármálastjórnun græða á tá og fingri í þessu krónuumhverfi.“

    Algjörlega sammála.

    Niðurstaða: við erum ekki enn búin að ná áfanganum hagstjórn þjóða 101. Spurning hvort ekki þurfi að banka upp og fá hjálp (frá öðrum en AGS).

  • Páll Þór Jónsson

    En hvernig má það vera að sterkur vilji þjóðarinnar er að viðhalda krónunni? Er sá hluti þjóðarinnar sem líður fyrir ástandið þess ófær að sjá hvað hér er í gangi? Vill fólk eða getur ekki séð að kostnaður þess við að vernda krónuna gæti verið á bilinu 15-20% sem tekið er úr launaumslaginu mánaðarlega?

  • Björn Kristinsson

    Páll,

    Í mínum huga snýst þetta ekki um IKR eða XXX. Á meðan við höfum stjórnmálamenn og stjórnmálamenningu sem höndlar ekki að stýra 300.000 manna hagkerfi þá er nánast tómt mál að tala um að taka upp aðra mynt.

  • „Niðurstaða: við erum ekki enn búin að ná áfanganum hagstjórn þjóða 101. Spurning hvort ekki þurfi að banka upp og fá hjálp (frá öðrum en AGS).“

    Nákvæmlega, og af hverju gerum við ekki eins og hin norðurlöndin sem eru ekki að drukkna í olíu? Við þurfum ekki að finna neitt nýtt upp formúlan er til, göngum í ESB og nýtum okkur þau tækifæri og það aðhald sem sambandið hefur gefið frændum okkar.

  • Páll Þór Jónsson

    Björn Kristinsson:
    Fara sjónarmið okkar ekki saman í raun?
    Ég er þér hjartanlega sammála um vanhæfi stjórnmálamannanna. En það er þjóðin sem kýs þá og það er þjóðin sjálf sem vill í raun engar breytingar. Þetta á bara að reddast enn eina ferðina með tilheyrandi gengisfellingum. Það er þjóðin sjálf sem vill ekki gangast við eigin ábyrgð. Menn eru tilbúnir til að afneita hvaða spillingu sem er svo framarlega að hægt sé að ljúga því að þeim að nokkrar krónur muni bætast í launaumslagið. Þjóðin sjálf vill láta ljúga að sér, sjálfum sér til friðþægingar.

    Eitt hrikalegasta stjórntæki stjórnmálamanna er íslenska krónan og systir hennar sú verðtryggða. Hún kostar okkur gríðarlega fjármuni.

    Ég hef reyndar ekki nokkra trú á að við getum tekið upp aðra mynt einhliða. Við höfum einfaldlega ekki efni á því. Ég skal reyndar fyrstur manna skipta um skoðun ef hægt er með rökum að sýna fram á annað.

    Því held ég að við verðum að ganga inn í ESB en munum hinsvegar ekki gera það, vegna þess að þjóðin hefur ekki þor eða víðsýni til að breytast. Greindarskortur gæti líka verið skýring.

    Þessvegna getum við beðið til eilífðar eftir hæfum stjórnmálamönnum hvað þá stjórnmenningu.

  • Andri Haraldsson

    Andri Geir-

    Það þarf ekki að skoða samsetningu landsframleiðslunnar mjög lengi til að sjá hvernig er í pottinn búið. Strax eftir hrun þá jókst innflutningur í krónutölum verulega (vegna gengisfellingar) en hann hefur dregist saman og minnkaði sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2010 (í samanburði við 2009). Væntanlega er þessi samdráttur viðbrögð fyrirtækja og einstaklinga við minni ráðstöfunartekjum.

    Á sama tíma þá hefur útflutningur aukist, svo að á sama tíma og landsframleiðsla hefur minnkað bæði 2009 og 2010, þá hefur hlutfall útflutnings í henni aukist.

    Með öðrum orðum þá hefur gengisfelling fært hærra hlutfall landsframleiðslu til útflutningsgreinanna. Sumt að þessu fær væntanlega í að lækka skuldir fyrirtækja í þessum greinum (sem bætir ekki kaupmátt innanlands) og eins er eitthvað af þessu útflutningsverðmæti áls og lyfja (þó ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það er talið í hagtölunum).

    Ef það er rétt að stór hluti landsframleiðslu á Íslandi sé það sem má kallast „pass through“ þeas. hráefni er flutt inn (til ál og lyfjaframleiðslu) og tiltölulega lítil verðmætasköpun verður þar ofaná, þá má sjá að samanburður við önnur lönd um þjóðartekjur per einstakling eru ekki sérlega gagnlegar. Fiskveiðar hafa einnig nauðsynleg aðföng í olíu og búnaði, en sem hlutfall af verðmætaaukningu eru aðföng fiskiðnaðarins sennilega lægri.

    Hvað þetta segir um gjaldmiðilinn er svo álitamál, megin vandamálið er hagstjórnin. Það er svo augljóslega rétt að hún er eitthvað veikari fyrir það að mistök í henni eru falin með gengisfellingum. En spurningin er hvort við hefðum efni á svo veikri hagstjórn án krónunnar, þar sem við gætum ekki falið mistökin lengur.

  • En hvað með hina augljósu skýringu að kannski eru hlutirnir ekki svo hrikalega slæmir hérna eftir allt saman? Það er hávær hluti sem lendi illa í skuldamálum, en það ætti eitthvað að lagast við þessa gengisdóma. Mér finnst eins og síðustu tölu Seðlabankans gefi til kynna að þetta sé frekar lítill hópur sem glími við að ná engan veginn endum saman.

  • Hvað er svona merkilegt við þessa útreikninga á kaupmætti ?

    Veit einhver hvað það er sem þessi íslenska þjóð á í raun og veru ?
    Ekki geta lífeyrissjóðir sagt sjóðsfélögum hvað þeir eiga í raun í eignum .
    Er okkur ekki sagt að um ICESAVE sé ekki hægt að segja neitt ?
    Hver á í raun fyrirtækin í þessu landi ?

    Eina sem við vitum, það er kafað mjög djúpt í vasa fólks til að reka opinbera kerfið !!!

  • Orri Ólafur Magnússon

    Thessar tölur AGS eru athyglisverdar og ekki ástaeda til ad draga thaer í efa. Ef verdmaetasköpun á mann á Íslandi er thetta mikil – > 36 thús. USD -, hlýtur ad vakna sú spurning, hvers vegna tekjur alls thorra Íslendinga eru svona miklu laegri en í sambaerilegum starfsgreinum í nágrannalöndum okkar. Mánadalaun kennara í Thýskalandi nema u. th. b. € 4.000,- , og thykir ekki nema sanngjarnt. Háskólaprófessor ca. 8.000 € ( tekjur Prof. Dr. med. eru reyndar margfalt haerri – thessar áttathúsund eru tekjur „profs“ í sagnfraedi & ödrum „ó-ardbaerum“ greinum ) og svona maetti lengi telja.
    Thad má thví draga thá ályktun af thessum AGS – tölum, ad afar fámennur hópur fleyti rjómann ofan af „tekju-könnunni“. Thví ver og midur leidir svona krassandi tekjumunur milli ríkja nú á dögum, thegar fólks-flutningar milli landa eru leikur einn, ófrávíkjanlega til thess ad faerasta og best menntada fólkid flytur sig um stad – til thess lands sem býdur uppá mannsaemandi lífskjör. Oftast eru thetta ungar fjölskyldur med börn sem ganga í skóla erlendis – thar med er fjölskyldan búin ad koma sér fyrir í erlenda kerfinu og á ekki afturkvaemt til Íslands. Sagan kennir okkur ad svona blódtaka hefnir sín med stödnun í margar kynslódir, sbr. flótta Hugenotta frá Frakklandi á skeidi Bourbonanna. Hugenottar thessir urdu Prússlandi mikil lyftistöng og áttu stóran thátt í uppgangi Prússlands til hernadar- og idnveldis á 19. öld.

  • Einar Guðjónsson

    Þetta geta ekki verið réttar stærðir. Tölfræðin fyrir Ísland hlýtur að vera fölsuð okkur í hag.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur