Fimmtudagur 28.04.2011 - 08:14 - 4 ummæli

Eitt land, tvö kerfi

Það er æ betur að koma í ljós að Ísland er að þróast í tvær áttir.  Hér eru tvö kerfi í gangi.  Í fyrra kerfinu eru þeir sem standa í útflutningi á vörum og þjónustu og fá sínar tekjur í gjaldeyri og geta tengt sín lífskjör við hagvöxt í öðrum löndum.  Tekjur og kaupmáttur þessa hóps er að aukast og framtíðin hér er tiltölulega björt.  Hinn hópurinn er fastur í gamla krónukerfinu þar sem lítill eða enginn hagvöxtur er sjáanlegur næstu árin.  Þetta eru opinberir starfsmenn og þeir sem  vinna í innlendri framleiðslu og þjónustu.  Þarna er líka hópur sem sannarlega vinnur í gjaldeyrisskapandi störfum en er flokkaður í krónukerfinu vegna aðilar að stéttarfélögum sem eru föst í innlenda hagkerfinu.

Í gjaldeyriskerfinu virðast erlendir atvinnurekendur standa sig best.  Þar ríkir stjórnunaragi og þeir hafa aðganga að fjármagni á kjörum sem íslenskir aðilar og íslenska ríkið getur aðeins látið sig dreyma um.  Þeir hafa því miklu meiri sveigjanleika til að gera vel við sitt starfsfólk.  Elkem samningurinn sýnir þetta vel.  Sá samningur getur varla gengið yfir allt hagkerfið nema að fjármagn verði fært frá gjaldeyris- yfir í krónukerfið.  Það verður ekki gert nema með aukinni skattheimtu og/eða gjaldtöku sem auðveldlega getur haft neikvæð áhrif á þann vaxtarbrodd sem er að finna í útflutningshagkerfinu.   Þetta vandamál verður því ekki auðveldlega leyst.  Mikil hætta er á að stjórnmálamenn sem hafa litla þekkingu eða reynslu af atvinnurekstri fari að krukka í kerfunum, sem mun bara gera illt verra.  Á móti má segja að illmögulegt sé að halda upp einhverju norrænu velferðarkerfi nema að veita meira fé til grunnstoða samfélagsins.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.  Óumflýjanlegar breytingar á grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði, verða ekki aðskildar þessu vandamáli, þær verða líklega þungamiðja þess.  Þetta verður auðskiljanlegra þegar staða Íslands er sett í alþjóðlegt samhengi í nútíð og framtíð.

Þótt Ísland sé að koma betur út úr kreppunni en jaðarlönd Evrópu erum við samt í afleitri stöðu til að takast á við þær efnahagslegu breytingar sem nú eiga sér stað í heiminum.  Næsta áratuginn má búast við að verulega dragi saman með Vesturlöndum og stærstu og öflugustu þróunarlöndum.  Næstum helmingur af þjóðarframleiðslu heimsins fer nú fram hjá þeim 6,000 milljón manns sem búa í þróunarhagkerfum sem mörg njóta hagvaxtar upp á 6-10% á ári og munu halda áfram að vaxa á tvöföldum til þreföldum hraða hins þróaða  heims.

Við erum nú komin á þann tímapunkt að milljónir manna í þróunarlöndum hafa öðlast vestrænan kaupmátt og sú þróun mun halda áfram á nýjum áratugi.  Þetta þýðir að eftirspurn eftir takmörkuðum auðlindum og hráefnum mun aðeins aukast. Þar með mun verð á olíu, aðföngum, mat, fatnaði og fjármagni hækka næstu árin til að jafna aukna eftirspurn að takmörkuðu framboði.  M.ö.o vestræn ríki þurfa að deila auðæfum heimsins með löndum í Asíu, Afríku og Suður Ameríku.  Baráttan í hinum þróaða heimi verður að halda í núverandi lífskjör.  Fáeinum ríkjum mun takast þetta og gott betur, það eru lönd eins og Svíþjóð og Þýskaland sem framleiða hátæknivöru og þjónustu nauðsynlega fyrir vöxt í  þróunarlöndum.  Flest þróuð lönd munu þó eiga í basli við að halda í lífskjörin og þau verst stöddu munu dragast aftur úr og þar mun launafólk þurfa að vinna lengur og lengur til að eiga fyrir sömu nauðsynjavörunum og halda í gamla kaupmáttinn.  Í þessum löndum má búast við gríðarlegri innri baráttu hagsmunahópa um hvar lífskjaraskerðingin eigi að falla.  Ísland er ekki vel í stakk búið fyrir þessa baráttu.

Raunveruleg kaupmáttaraukning handa öllum verður aðeins sótt í aukinn hagvöxt.  Vandamálið er að leikreglurnar hafa breyst og eru nú settar af stórum þróunarríkjum, þ.e.  Kína, Brasilíu og Rússlandi.  Verð á olíu, aðföngum, matvöru, fatnaði og fjármagni í framtíðinni verður ákveðið af hávaxtalöndum þar sem hagvöxtur er um eða yfir 6%.  Til að halda í við þessa þróun verða þróuð lönd að viðhalda hagvexti um 3% og yfir 4% ef kaupmáttur á að aukast að ráði.  Í hagkerfum með lægri en 2% vöxt verður engin kaupmáttaraukning nema með innbyrðis millifærslum, þar sem einn hópur vinnur en annar tapar.  Ísland í dag er í þessari stöðu.

En innbyrðis millifærslur eru engin langtímalausn, þær leysa tímabundinn vanda og geta verið nauðsynlegar en eru engan veginn nægjanlegar.  Aðeins stöðugur hagvöxtur yfir 4% mun skila okkur varanlegri og almennri kaupmáttaraukningu.  Spurningin er því hvernig getum við tryggt þennan hagvöxt.  Opinberir aðilar geta skapa rétt skilyrði og undirbúið jarðveginn, stéttarfélög geta hjálpa til og lífeyrissjóðir geta stutt við fjármögnun en á endanum þarf aðila sem koma með arðbærar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd.  Án rétta fólksins verður enginn hagvöxtur.  Opinberir aðilar og stofnanir reka ekki einkafyrirtæki sem skapa hátekjustörf.  Hverjir eru þeir aðilar sem eiga að koma hjólum atvinnulífsins af stað?  Býður Ísland upp á samkeppnishæft og stöðugt umhverfi fyrir atvinnusköpun?  Eru arðsemismöguleikar hér á landi í réttum takti við áhættu- og óvissuþætti íslensks umhverfis?

Hvað verður um íslenskt samfélag ef við festumst í vítahring 2% hagvaxtar næsta áratuginn?

PS.  Samkvæmt nýjum tölum frá AGS er Ísland í 16. sæti yfir landsframleiðslu per mann árið 2010, sem var $36,621 á jafngildiskaupmáttarkvarða (PPP).  Danmörk er í 17. sæti með $36,450.  Þrátt fyrir allt virðist gamla nýlendan halda sínu.  En þetta segir manni líka að fyrir hverja fjölskyldu sem á í erfiðleikum er fjölskylda sem hefur það bara fínt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Páll Þór Jónsson

  Frábær grein.
  Tvö til þrjú kerfi virðast vera „eðlilegt ástand“ í augum verjulegs Íslendings.
  Tvær krónur, önnur heitir verðtryggð, þykja sjálfsagðar. Tvö gengi, þ.e. aflands- og opinbert gengi á krónunni.
  Samkeppni og fákeppni eða jafnvel hrein einokun virðist henta Íslendingnum vel samanber landbúnaðarkerfið. Venjulegur Íslendingur nennir ekki að kynna sér ruglið en bullar bara.

 • Og þannig verður það um ókomin ár. Okkar eigin innbyrgðis ósætti og erjur munu sjá til þess. Og það er gott fyrir fjórflokkin.
  Kveðja að norðan.

 • Helgi Helgason

  Ég er nokkuð vissu um að lífstíllinn okkar bakki um einhver fimmtán til tuttugu ár,og vöruval minnki í líkingu við þessi ár.

 • Orri Ólafur Magnússon

  Umfjöllun thín med thví gleggsta sem birtst hefur um framtídarhorfur landsins á netinu undanfarid. Ég las í net-útgáfu vísis eda mbl. ekki alls fyrir löngu ad forstjórar einhvers thessara stóru íslensku útgerdarfyrirtaekja – LíÙ – afsprengi – hefdu thegid laun sín & „boni“ í evrum. Thetta eru sömu mennirnir sem berjast sem hatrammlegast gegn adild Íslands ad EU . Ennthá merkilegra en thessi stadreynd – evrur handa forstjórunum en krónur handa óthvegnum almúganum – fannst mér samt, ad bladamadurinn ( resp. bladakonan ) sá enga ástaedu til ad gera vid thetta athugasemd – einsog ekkert vaeri sjálfsagdara en thessi tvöfaldi standard ( ! ) Thetta minnir óneitanlega á Rússland í stjórnartíd Jeltzins ( Yeltsin ? ) Allur varningur sem forréttinda-stéttin hafdi rád á, var skrádur í USD eda € – ruslid í rúblum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur