Þriðjudagur 14.12.2010 - 22:42 - FB ummæli ()

Hvað gera hundarnir á Alþingi á morgun

Fjárlögin fyrir næsta ár verða væntanlega tekin fyrir á Alþingi á morgun. Það er lokaumferð og síðan verða þau að lögum og munu marka allt næsta ár og komandi ár. Þess vegna skiptir máli hver niðurstaðan verður. Spunameistarar valdsins settu upp leikrit sem fær hæstu einkunn. Álfheiður var látin setja fram geðveikan niðurskurð sem enginn ætlaði að framfylgja og hún átti hvort eð er að hætta. Guðbjartur átti að taka við af henni og hún bara dró sig í skjól. Síðan kemur nýr ráðherra eins og frelsandi engill og allir verða voða sáttir við niðurskurðinn, nema náttúrulega kettirnir í VG.

Ekki að undra að klækjarefirnir Jóhanna og Steingrímur séu létt pirruð. Það er í raun mjög skiljanlegt þegar þau hafa verið í læri árum saman undir handleiðslu Davíðs Oddsonar og loksins þegar þau ætla að brillera líka þá sýkjast fótgönguliðarnir af einhverju kattarfári.

Alvara málsins felst í því að of hraður og mikill niðuskurður gerir kreppuna dýpri og lengri. Kettirnir vilja forðast að slíkt gerist og forða velferðarkerfinu frá því að stórskaðast. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er slétt sama enda eru excel skjöl biblía þeirra. Jóhanna og Steingrímur sem alkunnir vinstri menn ættu að geta tekið undir sjónarmið kattanna. Vonandi verður það niðurstaðan.

Einhvern veginn óttast ég hið gagnstæða. Hugsanlegt er að AGS hafi bannað Steingrími að skera minna niður eða þá að vinstri maðurinn Steingrímur sé sáttur við niðurskurðinn. Ekki vil ég trúa því að hann vilji bara ráða. Eitt er víst að ef við fylgjum ráðleggingum AGS í einu og öllu mun okkur farnast eins og öllum þeim löndum sem sjóðurinn hefur stjórnað.

Það er hefð fyrir því að verkalýðshreyfingin mótmæli kröftuglega niðurskurði AGS um allan heim. Hún gerir ekkert slíkt á Íslandi og er að auki sátt við veru sjóðsins hér á landi.

Það er mjög sérkennilegt að þeir þingmenn sem berjast gegn niðurrifsstefnu AGS á Íslandi eigi við ofurefli að etja. Sennilega hefur AGS hvergi átt sér jafn marga dygga stuðningsmenn og á Íslandi.

Almenningur setur traust sitt á að kettirnir komi vitinu fyrir hundana á Alþingi, okkur öllum til heilla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.12.2010 - 22:53 - FB ummæli ()

Að vera þjóð á meðal þjóða…

Núna er svo komið fyrir okkur Vesturlandabúum að við getum fært okkur í nyt dýrkeypta reynslu fátækari þjóða heimsins í viðskiptum þeirra við alþjóðalánastofnanir. Hingað til höfum við talið vandamál fátæku landanna vera bundin við þau. Núna erum við í sömu súpunni og teljum að skuldirnar sem okkur er ætlað að greiða séu okkur óviðkomandi, eins og þeim hefur líka fundist. Margur stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem hugsaði hnattrænt áður og fannst skuldir þriðja heimsins mikið óréttlæti samþykkir núna skuldaklafa íslensku þjóðarinnar.

Það virðist vera einkenni á bankakreppum að menn vakni alltaf upp við vondan draum. Það er eins og alþjóðastofnanir geti ekki með nokkru móti spáð í spilin og gert ráðstafanir sem duga. Grikkir héldu sig í góðum málum en s.l. vor varð þeim ljóst að skuldir ríkisins væru orðnar óviðráðanlegar. Það er að verða regla núna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið vinni saman þegar leysa á skuldavanda ríkja í ESB. Innan ESB var sett á fót stofnun sem líkist AGS. Um er að ræða sjóð sem er hugsaður fyrir lönd ESB í fjárhagslegum vandræðum. Einnig hefur ESB tileinkað sér verklag AGS s.s. strangar kvaðir á löndin sem þiggja lánin. Það er í raun enginn munur á AGS og ESB í þessu sambandi nema Grikkir og Írar hafa kvartað yfir því að þeim finnist ESB vera heldur strangari ef eitthvað er.

Í Grikklandi voru þar að auki sett lög, í tengslum við neyðarpakka AGS/ESB, sem heimila fjármálaráðherra Grikklands einum, án aðkomu þingsins, að innleiða hvaða þá ráðstöfun/samninga sem hann gerir við ESB/AGS eða Seðlabanka Evrópu.

Skilyrði lánadrottna eru venjulega að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á skömmum tíma. Því fylgir mikill niðurskurður og skattahækkanir.  Þrátt fyrir tveggja stafa prósentutölur í niðurskurði á launum og úgjöldum hins opinbera hefur Grikkjum ekki miðað sem skildi. Markmiðum um fjárlagahalla og hagvöxt er ekki náð. Sérfræðingar segja að skilyrðin hafi öfug áhrif og dragi úr hagvexti og möguleikum Grikkja til að vinna sig út úr kreppunni. Ef áfram verði haldið á sömu braut á næsta ári mun Grikkland verða gjaldþrota von bráðar. Telja margir sérfræðingar að það eina sem geti bjargað Grikkjum er að komast sem allra fyrst út úr gjörgæslu AGS og ESB.

Írland er komið í klúbbinn og þar eru menn berorðir. Þar er augljóst að bankarnir lánuðu grimmt og á ábyrgðarlausan hátt. Núna þarf írskur almenningur að taka á sig gríðarlegar byrðar þeirra vegna. Megnið af fjármagninu sem fer til Írlands fer beint til bankanna því þeir hafa ekki fengið öll lánin sín endurgreidd sem þeir lánuðu svo létt fyrir kreppu. Írsku bankarnir fengu fé sitt frá stórum evrópskum bönkum og eru ráðstafanir AGS/ESB fyrst og fremst til að bjarga þeim frá því að fara á hausinn og verða ekki eins og fífl í augum umheimsins vegna heimskulegrar lánastarfsemi sinnar.

Það sem einkennir umræðuna er að mikið er tekist á um gagnsemi aðhaldsaðgerðanna. Sú umræða er einnig hér á landi. Þegar horft er yfir sviðið og reynsla þriðja heims landanna skoðuð auk þeirra Vesturlanda sem hafa reynt lyfseðilinn á eigin skinni er nokkuð ljóst að miklar og hraðar aðhaldsaðgerðir vinna gegn markmiðum sínum. Þessar aðgerðir eiga það sammerkt að geta einstaklinga og fyrirtækja til að sjá fyrir sér eða stofna til framkvæmda og viðskipta minnkar verulega. Af þeim sökum minnka möguleikar þjóða til að vinna sig út úr vandanum og gerir kreppur dýpri og dregur þær á langinn.

Hinn mannlegi harmleikur aðhaldsaðgerðanna er efni í bækur  en margsýnt hefur verið fram á aukningu á tíðni sjúkdóma og dauða af völdum þeirra. Tölur sýna að fátækustu löndin hafa oft á tíðum borgað meira af lánum til lánastofnana en þau hafa fengið í neyðaraðstoð frá Vesturveldunum. Þess vegna hefur fé minnkað í þeim löndum þrátt fyrir aðstoð og í raun hafa fjármunir farið frá gjafmildum Vesturlandabúum beint í vasa lánastofnana án þess að auka velsæld fátæku landanna. Pakistanar þurfa núna að endurgreiða sín lán þrátt fyrir flóðin og er sú upphæð mun meiri en sú neyðarhjálp sem þeim býðst. Samtímis krefst AGS að Pakistanar hætti að niðurgreiða rafmagn og hækki taxtana, auki álögur á eldsneyti og hækki söluskatt. Það er nokkuð augljóst að Pakistanar munu ekki hafa það hlýtt og notalegt í vetur.

Lánastofnanir og bankar hafa alls ekki viljað kannast við ábyrgð sína né taka á sig afleiðingarnar af útlánastarfsemi sinnni. Menn skulu greiða sína skuldir og lánadrottnar eru í versta falli saklaus fórnarlömb kreppunnar. Þess vegna á almenningur á blæða til að bæta bönkunum tjón sitt. Það voru lánadrottnar sem hættu að lána árið 2008 og sköpuðu þannig skort á peningum-„skortur á lánalínum“-og á þann hátt settu keðjuverkun af stað sem síðan varð að bankahruninu. Þess vegna liggur ábyrgðin hjá lánadrottnum og raunhagkerfið sem var við sína hefðbundnu framleiðslu á verðmætum árið 2008 kallar eftir þeirri ábyrgð í dag.

Það er sorglegt að það virðist ekki skipta máli hvers konar ríkisstjórnir eru við völd í viðkomandi löndum, hægri-vinstri eða miðjumoð, lánadrottnar virðast alltaf koma fram vilja sínum. AGS og sjóðurESB auk Evrópska Seðlabankans eru stofnanir sem almenningur hefur ekki bein áhrif á, við höfum litla möguleika til að fylgjast með hvað fer þar fram og hvernig ákvarðanir eru teknar. Þessar ólýðræðislegu stofnanir hafa í raun tekið völdin af þingum viðkomandi landa og innleitt ferli niðurskurðar á velferðarkerfi um Evrópu sem tók áratugi að byggja upp með mikilli baráttu verkalýðsfélaga. Það er því nokkuð ljóst að fjármagnsöflin ætla sér að notfæra sér kreppuna til að gera verkamann Evrópu „samkeppnishæfari“ við ódýrara vinnuafl í öðrum heimshlutum.

Margir aðilar sem fjalla um þessi mál á heimsvísu fylgjast með Íslandi í viðskiptum sínum við AGS og ESB. Rætt er um að ef Íslendingum tekst að standa upp í hárinu á þessum stofnunum og hafna aðhaldsaðgerðum og að neita að greiða allar bankaskuldir veki það von hjá öðrum þjóðum. Veki von um að réttlæti sé mögulegt. Veki von um að ábyrgðin sé þeirra sem valda skaðanum og að öllum áföllum sé ekki velt yfir á almenning.

Það er því augljóst að Íslendingar verða að hugsa hnattrænt þegar þeir rökræða um  kreppuna „okkar“ hér á landi og móti afstöðu sína eftir því. Mjög nauðsynlegt er að við séum þjóð á meðal þjóða og stöndum með fátækum og skuldsettum þjóðum sem berjast gegn ofurvaldi ólýðræðislegra alþjóðastofnana sem ætla sér að útmá velferðakerfið í þágu banka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.12.2010 - 12:36 - FB ummæli ()

Jóhanna í sögulegu ljósi

Jóhanna ráðleggur Lilju Mósesdóttur að ákveða sig hvort hún telji sig vera í liði með ríkisstjórninni eða ekki. Sennilega hefur forsætisráðherrann verið í fasta svefni þegar Lilja flutti ræðu sína um miðja nótt á Alþingi. Þar rökstuddi Lilja mjög vel hvers vegna hún telur fjárlagafrumvarpið ófullnægjandi og hreinlega skaðlegt í núverandi mynd. Þar sem Lilja er hagfræðingur og sérfræðingur í kreppuhagfræði er vert að leggja við hlustir.

Lilja nefnir að hagvöxtur Íslands sé mínus 3 prósent fyrir 2010 en var áætlaður núll og verði í mesta lagi 1% á næsta ári en gert er ráð fyrir 3 prósentum í plús í fjárlagafrumvarpinu. Því skeikar um heil 5 prósentustig á áætlunum fyrir þessi ár og það er ekki lítið þegar rætt er um hagvöxt. Lilja bendir á það augljósa að ekki verði nægjanlegt eldsneyti á tankinum og nauðlending út í móa líkleg niðurstaða. Sjálfsagt veit Jóhanna betur.

Hugmyndir manna um aukinn hagvöxt treysta mjög á aukna einkaneyslu almennings. Vöruskiptajöfnuður bendir til að minnst lítið sé flutt inn til landsins og ekki hittir maður nokkurn mann sem ekki er að spara. Aukinn niðurskurður hins opinbera mun valda fjölgun atvinnulausra og minnkandi innkaupum á vöru og þjónustu hjá einkaaðilum. Hvoru tveggja mun enn minnka einkaneysluna. Aukin skattheimta mun valda því sama. Af þessum sökum er fjárlaga frumvarpið í núverandi mynd skaðlegt og mun valda því að kreppan mun dýpka og dragast á langinn.

Margar rannsóknir sýna fram á að þessi stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem Jóhanna hefur gert að sinni hefur skelfilegar afleiðingar fyrir almenning.

Lilja leggur til auknar tekjur með skattlagningu séreignasparnaðar og auk annarra leiða sem mun gera niðurskurð næstu ára mun minni.

Lilja rökstuddi mál sitt vel en þrátt fyrir það er hún ekki að gera rétt að mati Jóhönnu. Eina sem Lilja fer fram á er að augljósir vankantar séu lagfærðir fyrir þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Eina sem Jóhanna fer fram á er að Lilja styðji ríkisstjórnina möglunarlaust. Lilja virðist hafa rétt fyrir sér, bæði sagan og kennisetningin styður hennar málflutning. Sú stutta saga sem núverandi ríkisstjórn hefur skapað virðist benda til þess að ríkisstjórnin hafi rangt fyrir sér í veigamiklum málum. Kennisetningar núverandi ríkisstjórnar virðast snúast um að koma okkur inn í ESB og fylgja stefnu AGS fram yfir gröf og dauða.

Hagstjórnarsaga Íslands er skelfileg og hefur stjórnast af sérhagsmunum, fljótfærni og mjög slökum árangri. Það væri mun skynsamlegra fyrir Jóhönnu að þiggja góð ráð hjá Lilju en að vera með derring, því Jóhanna er óneitanlega hluti af hagstjórnarsögu Íslands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.12.2010 - 21:50 - FB ummæli ()

Sandurinn og sagan

Jóhanna sagði í dag að nú hefði hún sett strik í sandinn. Nú yrðu allir að gera sér grein fyrir því að ekki yrði gert meira fyrir skuldug heimili. Þau úrræði sem fram væru komin yrði fólk að gera sér að góðu-case closed.

Strikin í sandinum eru svo mörg að þau eru farin að líkjast abstract málverki eftir Picasso.

Haustið 2008 voru margir sem sáu fyrir vandamál heimilanna en málflutningi þeirra var hafnað. Það stirk er horfið.

Margir lögðu til almenna aðstoð og því var lika hafnað en það strik er líka horfið.

Hingað til hefur verið rætt um kostnað en núna er rætt um leiðréttingu, það strik er líka horfið.

Fyrr var rætt um hvað það myndi kosta að hjálpa heimilunum en núna er rætt um hvað það myndi kosta að gera ekki neitt, enn eitt strikið horfið.

Áður var rætt um lánastofnanir sem ósjálfbjara hvítvoðunga en í dag eiga þær að skila svigrúmi sínu til baka til þjóðarinnar, það strik er núna útmáð.

Stóra strikið kom vorið 2010 þegar Jóhanna og Steingrímur lofuðu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum því að gera akkúrat ekkert meira fyrir skuldug heimili. Haustið 2010 þurrkuðu 10 þúsund manns það strik út í einu vetfangi.

Ef almenningur er ekki sáttur við nýjasta strikið hennar Jóhönnu í sandinn þá mun hann þurrka það út eins og þau fyrri.

Ástæðan er einföld, þjóðin er byggð á bjargi en strikin á sandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 30.11.2010 - 20:02 - FB ummæli ()

Ræða á Austurvelli í dag

Í dag komum við saman til að minnast þess að AGS hafði ætlað sér að fara af landi brott á þessum degi, þeas í dag 30 nóvember.

Því miður var veru sjóðsins hér á landi framlengd og er enn óvissa hvort um enn frekari framlenginu verður að ræða. Þess vegna er dagurinn í dag sorgardagur því ef sjóðurinn væri farinn væri gleðidagur.

Við vissum ekki mikið um sjóðinn þegar hann kom en núna hafa Íslendingar kynnt sér hann betur.

Sjóðurinn á sér fortíð, fortíð sem er óhuggnanleg. Þar sem sjóðurinn hefur ráðið för hefur hagur almennings versnað verulega á sama tíma og hagur banka og stórfyrirtækja hefur batnað. Sjóðurinn hefur skilið þjóðir eftir í miklum samdrætti og verulega skuldsettar. Rannsóknir sýna glögglega fram á að ráðstafanir sjóðsins gera kreppu viðkomandi þjóða verri, dýpri og kreppan dregst á langinn.

Attac samtökin á Íslandi standa að þessari sorgarstundu hér á Austurvelli og viljum við AGS af landi brott. Við teljum að AGS stjórni á Íslandi mun frekar en kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi. Við teljum það mjög ólýðræðislegt að stofnun sem við höfum ekki kosið yfir okkur, stofnun sem við höfum ekki afhent með formlegum hætti völdin, að þessi stofnun, AGS, ráði mestu á Íslandi í dag.

Það kemur skýrt fram í öllum viljayfirlýsingum sem íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir að þau munu aldrei aðhafast neitt nema að ráðfæra sig við sjóðinn áður og ekkert framkvæma gegn samþykki hans. Þar með erum við komin aftur til ársins 1874 þegar Alþingi var ráðgefandi þing en kóngurinn í Köben gat hafnað öllu sem honum hugnaðist ekki.

Kóngurinn í köben sá Ísland sem nýlendu og vildi hagnast sem mest á henni. Góðvinir kongsins fengu síðan einkaleyfi á því að mergsjúga íslenskan almenning.

Í dag er AGS kóngurinn og góðvinir AGS eru bankarnir og það á að mergsjúga okkur. Allur niðurskurðurinn og skattahækkanirnar eru tilkomnar vegna mistaka bankanna. Almenningur á Íslandi var við sína framleiðslu haustið 2008 og það eina sem breyttist var að nokkrir einkabankar fóru á hausinn. Hvað kemur það þjóðinni við?

Þegar nokkrir einkabankar fara á hausinn er málið svo grafalvarlegt að þjóðin verður að afhenda fullveldi sitt til stofnunar sem hefur það hlutverk að lágmarka skaða einkabankanna á kostnað okkar hinna. Það er ekki lítið. Það segir okkur að einkabankar hafa tæki og tól til þess að aftengja lýðræðið frá þjóðinni. Einkabankar geta því komið upp á milli þjóðar og þings og tekið völdin. Einkabankar eru þar með orðnir hluti af framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu án þess að hafa nokkurn tíman farið í framboð. Í því felst hið ólýðræðislega vald þeirra.

Hagnaður Landsbanka Íslands er 13 milljarðar nú þegar á þessu ári og Arion banka 9 milljarðar. Rúmir tveir milljarðar á mánuði.

Þegar 10.000 Íslendingar koma saman á Austurvelli og fara fram á lausn sinna mála þá bíður ríkisstjórn Íslands í andakt vikum saman eftir því hvað bönkunum hugnast að gera. Það er því ljóst að bankar og AGS eru þeir aðilar í landi okkar sem hafa þau völd sem skipta máli. Við hin getum engu breytt nema að bera það fyrst undir kónginn.

Til hvers kjósum við okkur þingmenn? Vorum við ekki að afhenda þingmönnum völdin frá okkur tímabundið. Vorum við ekki að afhenda þeim völdin með þeim takmörkunum sem Stjórnarskráin setur þeim. Vorum við ekki að kjósa okkur þingmenn vegna þess sem þeir sögðust ætla að gera fyrir okkur.

Eru það ekki svik að svíkja kosningaloforð, er það ekki brot á Stjórnarskránni að veita stofnun eins og AGS neitunarvald yfir Alþingi Íslendinga. Er það sjálfgefið að ekki þurfi að virða þjóðina eða hagsmuni hennar viðlits eftir kosningar. Þegar þjóðin fékk loksins þjóðaratkvæðagreiðslu fannst mörgum óþarfi að taka þátt í henni.

Álítur íslensk valdastétt að hún sé í áskrift hjá íslensku þjóðinni?

Býr íslensk valdastétt í bönkunum?

Við erum búin að endurtaka orð Jóns Forseta nokkrum sinnum það er; að vér mótmælum valdníðslu kóngsins, en hingað til ekki með miklum árangri,   en gleymum því ekki að valdið býr hjá þjóðinni.

Þess vegna verðum við sjálfsagt að endurtaka söguna enn einu sinni enn og reka kónginn, það er AGS og vini hans frá völdum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.11.2010 - 00:08 - FB ummæli ()

Fjárlögin okkar

Nú fer í hönd erfiður tími fyrir þingmenn okkar. Desember er mánuður þar sem mörgum lögum þarf að koma í gegnum þingið. Fjárlögin eru ein af þeim sem verður að klára fyrir áramót. Það er engin veisla utandyra eins og Árni Matt sagði hér um árið. Fjárlögin í ár einkennast af miklum niðurskurði og skattahækkunum. Það er verið að hámarka getu hins opinbera til að borga fyrir gjaldþrot einkabankanna. Vandamálið er líka að eftir því sem við skerum meira niður minnkar geta hagkerfisins til að framleiða. Því mun raunhagkerfið eiga stöðugt erfiðara með að greiða fyrir mistök bankanna.

Reyndar er veisla á sumum bæjum eins og kom fram í fréttum í vikunni. Hagnaður Landsbanka Íslands er 13 milljarðar fyrstu 9 mánuðina, rúmur milljarður á mánuði.

Það er eitthvað sem stemmir ekki?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.11.2010 - 22:43 - FB ummæli ()

Hverjir eru drullu-sokkar

Ég er farinn að trúa því að okkur Íslendingum sé ekki viðbjargandi.

Núna ætti flestum að vera ljós sú staðreynd að bankastarfsemi lagði efnahag Íslands í rúst haustið 2008. Þegar það gerðist vorum við að mjólka kýr, veiða fisk og bræða ál og gerum enn. Lettland, Grikkland og Írland eru lönd í mikilli kreppu eins og við. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið sinna viðkomandi löndum og eru sammála í aðgerðum sínum gagnvart vandamálinu. Í fyrrnefndum löndum er almenningur enn að störfum og framleiðslu. Þar eins og hér er bankakerfið orsök ógæfunnar.

Lyfseðillinn hljóðar upp á sömu meðul hjá öllum ríkjunum. Almenningur/ríkiskassinn á að taka á sig skuldir einkabankanna og til þess að það sé hægt þarf að minnka allan hugsanlegan kostnað s.s. laun, og hækka skatta. Öll geta ríkiskassa viðkomandi landa fer í þessa hít.

Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir eru til þingmenn og aðrir menn sem mæla sjóðnum og bandalaginu bót og aðferðum þeirra. Þetta gerist jafnvel hér á Íslandi. Þar sem niðurskurðurinn veldur enn meira atvinnuleysi og minnkaðri kaupgetu þá eykst kreppan enn frekar. Þar sem markmið sjóðasins/bandalagsins er að láta almenning borga fyrir bankana finnst þeim þetta í lagi. Auk þess ef fleiri ríki þurfa stór lán þá græða bankarnir enn meira.

Sennilega finnst viðkomandi mönnum vænt um bankana og að þeir verðskuldi góða meðferð. Einnig eiga þeir erfitt sem fylgja Evrópusambandinu að málum að hafna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar sem þessar tvær stofnanir eru sammála í sínum aðgerðum í löndum sem kljást við gjaldþrota banka.

Við Íslendingar kusum Steingrím og Jóhönnu á þing en ekki bankana, eða hvað?  Sem upplýst og vel menntuð þjóð þá ætti hún núna að koma þeim skilaboðum til kjörinna fulltrúa sinna að við viljum að bankarnir séu fyrir okkur en ekki öfugt.

Ef valdhafarnir vilja frekar þjóna bönkunum en okkur þá eru þau barasta drullu-sokkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.11.2010 - 00:06 - FB ummæli ()

Vg og ESB

Vinstri grænir tókust á um Evrópusambandið. Mjög skiljanlegt því ESB hefur venjulega klofið flokka, nema Samfylkinguna. Vg vilja gefa almenningi kost á því að kjósa um ESB aðild vegna þess að það er lýðræðislegt og ekki vilja þeir láta saka sig um ólýðræðisleg vinnubrögð gagnvart þjóðinni.  Það er mjög skiljanlegt að vinstri sinnaður flokkur sé á móti ESB. Ef tekið er tillit til hugsjóna um réttlæti fyrir allan heiminn þá er mjög sérkennilegt að vilja ganga í samband ríkra þjóða sem útiloka þá fátæku í heiminum. Það gæti vel gagnast okkur Íslendingum að ganga í ESB en sannir hugsjónamenn hugsa heilstætt og hnattrænt og hafna því slíku.

Evrópa og Bandaríki norður Ameríku stuðla að fátækt og hungri með því að taka viðskiptahagsmuni sína fram yfir heildina. Niðurgreiðslur í landbúnaði í ESB og BNA gerir fátækum löndum erfitt fyrir, tollamúrar og einkaleyfi hindra eðlilega þróun hjá fátækum löndum. Þetta og skuldir þeirra við okkur gefur okkur forskot sem við njótum daglega án mikils samviskubits. Um 22.000 börn deyja daglega, meðal annars vegna fyrrnefndra ástæðna.

Að Vg vilji gefa okkur kost á að virða fyrir okkur veisluborð nýlenduherranna er að sönnu lýðræðislegt. Að vilja sitja til borðs með þeim er afstaða gegn þeim sem eiga þess ekki kost og skaffa í raun meðlætið. Hvernig samrýmist það hnattrænum hugsjónum vinstri manna að vilja komast í klúbb þeirra þjóða sem varðveita ofgnótt sína á kostnað annarra?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.11.2010 - 23:13 - FB ummæli ()

Rússarnir koma….

Eftirfarandi er haft eftir Árna Þór þingmanni Vg á Vísi í kvöld;

„Baneitraðir armar kolkrabbans eru enn víða í samfélaginu. Látum þá ekki eitra meira og ná yfirhöndinni á ný. Við vitum hvaðan þeim er stjórnað,“ sagði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, í umræðum á flokksráðsfundi VG í kvöld. Fram kom í máli margra fundarmanna að brýnt væri að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Móðir mín kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn því hún var svo hrædd við Rússana. Þegar ég kom í menntaskóla áttaði ég mig á því að hún var vinstri manneskja.

Öllu er í dag til fórnandi til að stúta terroristum sem vesturveldin skilgreina sem múslima. Þegar krossfararnir komu til Jerúsalem um árið kynntust þeir manngæsku sem þeir áttu ekki að venjast.

Það er augljóst að valdhafar eru samir við sig í aðferðum sínum. Hversu mikið er hægt að réttlæta með endalausum hræðsluáróðri?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.11.2010 - 18:52 - FB ummæli ()

Mótmæli, læmingjar og samhengi hlutanna

Frá hruni haustið 2008 hafa mótmæli almennings hafist og hjaðnað svo. Hörður Torfa, Opinn Borgarfundur og fleiri mótmæli tengd búsáhaldarbyltingunni sálugu náðu sér á gott flug en hurfu svo. Valdhafar skiptu um ríkisstjórn og pöpillinn fór sæll heim.

Eftir það komu fram mótmæli gegn Icesave, Alþingi götunnar stóð fyrir fundum, mótmæli voru gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum s.l. sumar, Attac, Björk og fleiri hafa barist fyrir því að auðlindir séu í eigu landsmanna, BÓT hefur haldið fundi um fátækt og „tunnuterrostiar“ hafa núna síðast mótmælt úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar fyrir almenning í landinu. Þessi mótmæli hafa risið og hjaðnað því valdhafar hafa smokrað sér undan og alltaf gefið smá von um betri tíð. Fjölmiðlar hafa beitt sér, eða verið nýttir, á kerfisbundinn hátt, með umfjöllun sem læsir efa í sálir almennings um réttmæti þess að mótmæla kjörum sínum.

Mótmælin hafa borið vissan árangur og að minnsta kosti hafa mótmælendur gætt eldsins af kostgæfni.

Núverandi ríkisstjórn hefur núna afneitað þeirri vinstri pólitík, sem hún var kosin til að fylgja, eins og Pétur postuli meistara sínum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er velkominn en var áður óvættur, að greiða mistök Icesave bankamanna er þjóðhagslega nauðsynlegt, að ganga í ESB er sjálfsagt, aðgangur að auðlindum okkar hafnar í skúffum, kvótinn fjarlægist þjóðina, að fólk missi heimili sín er óheppilegt en er fjármagnsöflunum nauðsyn, fátækir og matarlausir samlandar er sorgleg staðreynd sem er sett í nefnd. Ásamt því að sigla þjóðarskútunni í botnlausar skuldir samfara mikilli skattheimtu og niðurskurði, allt til að greiða fyrir mistök fjármálakerfisins, hefur hingað til flokkast undir eitthvað annað en vinstri pólitík.

Ríkjandi „vinstri menn“ hafa afneitað stefnu sinni. Hlutskipti þeirra er að þjóna fjármagninu. Lánadrottnar landsins og landsmanna gera kröfur um endurgreiðslu lána án tillits til afleiðinganna. Núverandi vinstri stjórn sér ekkert athugavert við það að taka þátt í innheimtunni á forsendum lánadrottnanna. Hver er framtíð slíkra vinstri sinnaðra stjórnmálamanna? Núna vilja þau halda völdum en hvað svo? Er ekki um að ræða hóp læmingja sem mun síðan steypast fyrir björg?

Íslensk verkalýðshreyfing lónar í vari aðgerðaleysis.

Það sem er að gerast á Íslandi er samþjöppun auðs og útbreiðsla fátæktar. Hóparnir verða mjög misstórir, þeir ríku kannski 2% og hinir munu verða þá 98%.  Þetta er að gerast um alla Evrópu og Bandaríki Norður Ameríku. Í litla hópnum eru fyrst og fremst lánadrottnar. Fátækt hefur aukist á Íslandi og millistéttin er jafnt og þétt að flytjast yfir í fátæktarhópinn. Ef haft er í huga að við erum enn sem fyrr að veiða fisk, mjólka kýr og bræða ál er þetta ill skiljanlegt. Ætlum við að sætta okkur við að fjármálastarfsemi, lánastarfsemi, bankastarfsemi setji allt á annann endan og komist frá mistökum sínum með pálmann í höndunum?

Ætlum við að mæta á mótmæli þegar 98% okkar eru við fátækt eða orðin fátæk. Hvenær ætlum við að sjá samhengi hlutanna? Hefur þú lesandi góður kannað hvenær þú sjálfur nærð ekki endum saman í heimilsbókhaldinu?

Þeir sem mæta á mótmæli í dag eru ekki að mótmæla vinstri stefnu eða vinstri ríkisstjórn. Þeir eru að mótmæla aðför lánadrottna að skuldugum einstaklingum og fyrirtækjum. Þeir eru að mótmæla því að sameiginlegir sjóðir okkar séu notaðir til að greiða fyrir mistök bankanna. Þeir eru að mótmæla lánadrottnum og vinum þeirra. Þessi barátta á sér stað út um allan heim, Obama lofaði öllu fögru eins og Steingrímur en þeir þjóna bara Wall Street eftir kosningar. Lettland, Grikkland og núna Írland fá sömu meðferð lánadrottna í Evrópu með aðstoð Evrópusambandssins og Alþjóðagjaldeyrissjóðssins.

Samhengi hlutanna er ekki lengur mismunandi pólitík heldur afstaða okkar til fjármálakerfisins, er það til að þjóna okkur eða erum við þrælar þess. Hver er röksemdin fyrir því að nær allur heimurinn sé að greiða skuldir til lítils minnihluta heimsins? Allt eru þetta mannanna verk, núna þurfum við bara að setjast niður og hanna réttlátara kerfi, en til þess þurfum við að standa saman.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur