Mánudagur 30.11.2015 - 20:02 - FB ummæli ()

Vond veður ganga yfir

Ég hef hingað til talið það ekki ómaksins vert að ræða Vigdísi Hauksdóttur Alþingismann Framsóknarflokksins. Hún er dæmi um vont veður sem maður vonar að gangi yfir sem fyrst. Hennar hlutverk á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn er að halda Framsóknarflokknum í umræðunni og þar tekst henni vel upp. Innan Fjárlaganefndar Alþingis er hún málpípa Sjálfstæðisflokksins og tekur á sig skítkastið fyrir hann, svipað og Baldur og Konni forðum daga. Það var Konni sem sagði alla dónabrandarana.

Nei, það var eiginlega þetta tilsvar að forstjóri Landspítalans hafi beitt Vigdísi andlegu ofbeldi á fundi fjárlaganefndar sem gerði mér rúmrusk. Hann gerði það með væli og þrýstingi. Það stenst náttúrulega enga skoðun. Hann færði bara rök fyrir því að til að reka Landspítalann þyrfti meira fjármagn.

Annað sem vekur undrun er að hún tekur það fram að hún muni ekki erfa orð Páls. Er það reglan að erfa orð opinberra starfsmanna í garð Alþingismanna og Vigdís sýnir af sér einstaka góðvild með því að gera undantekningu núna, bara fyrir Pál.

Vigdís stillir sér upp sem fórnarlambi. Hún verður fyrir andlegu ofbeldi. Hún þarf að hlusta á botnlaust gímald. Hún þarf að hlusta á væl. Eins og hennar persónulega líðan komi fjármálum Landspítalans eitthvað við eða var það umferðahnútar. Þessi orðræða Vigdísar er fyrir neðan virðingu Alþingis. Samtímis er hún dæmi um vonda stjórnsýslu eins og Egill Helga bendir á. Henni virðist vera fyrirmunað að skilja að þeir sem treystu kosningaloforðum hennar eða þeir sem þurfa að upplifa verri þjónustu af hálfu Landspítalans vegna ákvarðana hennar eru hin raunverulegu fórnarlömb. Páll var að tala máli þeirra og hann fór fram á málefnaleg gagnrök, það var allt ofbeldið af hans hálfu.

Það er hefð fyrir því að það birti upp um síðir og í þeirri von lifum við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.11.2015 - 23:10 - FB ummæli ()

Börnin hennar Evu

Það er rætt og ritað um þjóðarskömm á Íslandi. Þeir sem eru fátækir á Íslandi hafa það verulega skítt, margar greinar á netinu vitna um það. Samtímis er það greint af opinberum aðilum og birt í fjölmiðlum að lítill hópur Íslendinga hefur það mjög gott. Í raun sópar hann auðnum til sín.

Hvað getur verið meira fréttaefni en að fólk eigi varla fyrir mat eða lyfjum. Geti ekki klætt börnin sín eða leyft þeim að taka þátt í tómstundum eða íþróttum. Samtímis og aðrir vita varla aura sinna tal. Er þetta ekki slíkt þjóðfélagsmein að allir ættu að vera sammála um að leysa það. Eru allir kannski jafn sammála um að leysa það ekki? Er það þannig að enginn vill missa spón úr aski sínum?

Frásagnir af einstaklingum sem sofa í bílnum sínum vegna vangetu velferðarkerfisins að sinna þeim vekur smá athygli en ekki byltingu sem væri nær lagi.

ASÍ, stærsti umboðsaðili verkafólks á Íslandi, gerir núna samning um að takmarka launahækkanir verkamanna við velvilja atvinnurekenda til launahækkana. Þar með er kastað fyrir róða þeirri grundvallarhugmynd að auka hlutdeild verkamanna í afrakstri framleiðslunnar. Verkamenn munu bara fá það sem þeim er skammtað samkvæmt SALEK samkomulaginu.

Hvað eiga þeir sem minnst mega sín í þjóðfélaginu okkar að gera þegar brjóstvörn þeirra ASÍ gengur í björg og leggst í rekkju með atvinnurekendum. Þegar stjórnvöld vilja ekki leysa samborgarana undan fátækt en vilja leysa ofurríka undan sköttum og gjöldum. Ef fjölmiðar á Íslandi væru í raun fjórða valdið myndu þeir útsetja stjórnvöld fyrir svo mikilli umræðu um fátækt að þeir sæju sér ekki annað fært en að útrýma henni.

Hagnaður bankanna þriggja sem ollu mikilli fátækt meðal landsmanna er núna 464 milljarðar frá hruni.

Er ekki hægt að sameinast um löggleiðingu lágmarkslauna og skattfrelsis þeirra?

Það má kannski ekki tala um þetta eins og börnin hennar Evu. Stjórnmálasamtökin sem ég tilheyri, Dögun hafa haft þetta sem eitt af sínum aðalmálum frá upphafi en öll stjórnmálasamtök landsins verða að taka á þessu saman. Það er í raun ekki hægt að bera höfuðið hátt í þessu samfélagi meðan til eru einstaklingar sem ganga um svangir. Því verður að linna!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.11.2015 - 21:13 - FB ummæli ()

Að saurga minningu JFK

Að líkja John F. Kennedy við Framsóknarflokkinn er klám, af verstu sort. Sigmundur viðrist hafa gert það á landsfundi flokksins. JFK fór gegn sérhagsmunaöflunum í BNA. Hann vildi trappa niður kalda stríðið, hann vildi ekki fara inn í Víetnam. Hann vildi að hið opnbera framleiddi peninga án skuldsettningar, þ.e. Quantitative easing fyrir fólkið. Hann stóð upp gegn sterkustu sérhagsmunaöflunum sem fundust þá og finnast enn í heiminum. Hann er síðasti forseti BNA sem stóð gegn þeim og því síðasti forsetinn sem var raunverulegur forseti BNA. Aðrir hafa bara verið strengjabrúður valdsins.

SDG er strengjabrúða valdsins á Íslandi annars væru öryrkjar, fatlaðair, ellilífeyrisþegar eða láglaunafólk ekki að kvarta í dag. Auk þess væri hann núna búinn að afnema verðtrygginguna af neytendalánum.

Framsóknarflokkurinn hefur á sínum snærum sennilega bestu PR gaura á landinu. Þetta útspil og um leið saurgunin á minningu JFK er bara gerð til að ná athygli, komast inní umræðuna, stjórna orðræðunni.

Framsóknarflokkurinn gerði þetta í aðdraganda Sveitstjórnarkosninganna með útspili sínu um Múslima og moskuna. Ekkert er heilagt bara að ná athygli og fá atkvæði.

Þessi hugsun að fórna öllum prinsippum til að ná athygli, að fá umræðu er í raun skelfileg.

Það er augljóslega meiri reisn yfir JFK en SDG.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.11.2015 - 17:07 - FB ummæli ()

Frammistaða einkarekinnar heilsugæslu í Svíþjóð

Oddný G. Harðardóttir segir frá því í bloggi sínu að núna sé að hefjast einkavæðing á heilsugæslunni  á höfðuborgarsvæðinu. Talsmenn þess telja einkarekið kerfi betra og benda m.a. á reynslu Svía. Ríkisendurskoðun Svía tók út kerfið og skilaði skýrslu fyrir ári síðan. Niðurstöðurnar eru einkarekstrinum ekki hagstæðar.

Það gengur betur að ná sambandi við heilsugæsluna í dag en áður en ekki eru tengsl við einkavæðinguna því þessi breyting var komin áður. Heilsugæslustöðvum hefur fjölgað en aðallega í þéttbýli þar sem betur stæðir, betur menntaðir íbúar búa og hafa oftast einfaldari vandamál. Á þessum stöðvum eru oftar færri sjúklingar á lækni og því auðveldara að manna stöðvarnar með fastráðnum læknum og þjónustan því vinsælli.

Aftur á móti hefur heilsugæslustöðvum fækkað á svæðum þar sem íbúarnir eru veikari fyrir, þörfin meiri og lengra á heilsugæslustöð. Í Svíþjóð var lögum breytt á þann veg að það er nánast hægt að opna heilsugæslu hvar sem er án tillits til þarfa þ.e. markaðurinn stýrir en ekki nauðsyn eða siðfræðin.

Komum lítið veikra hefur fjölgað en komum veikari sjúklinga hefur fækkað. Enn á ný eru markaðsöflin að verki því greitt er fyrir komur og því er hagstæðara að afgreiða marga létta sjúklinga. Í raun telur maður að þetta ætti ekki að geta gerst en þetta sýnir úttektin.

Þessi úttekt og fleiri rannsóknir hafa sýnt það að einkarekin heilsugæsla er hvorki ódýrari né með meiri framleiðni.

Að markaðsvæða heilsugæsluna kom af stað togstreitu. Ríkisendurskoðun Svía bendir sérstaklega á að siðfræðileg rök fyrir forgangsröðun fara halloka fyrir kröfum markaðarins. Segja beinlínis að erfiðara sé að fylgja siðfræðilegum grundvelli laga um heilbrigðismál.

Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar Svía er lesin fær maður á tilfinninguna að betur hefði verið heima setið en að fara í þessa einkavæðingarferð. Núna þarf að betrumbæta gallana sem kostar sjálfsagt sitt.

Meirihluti Íslendinga og Svía vilja hafa heilsugæsluna hjá hinu opinbera. Fátt bendir til að einkarekið sé betra þegar það er rannsakað. Þess vegna er nauðsynlegt að standa gegn tilgangslausum breytingum í stað þess að byggja upp núverandi heilsugæslu með myndarskap. Við í Dögun stjórnamálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði höfum markað okkur skýra stefnu og erum á móti hagnaðardrifnum rekstri innan heilbrigðiskerfisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.11.2015 - 19:53 - FB ummæli ()

Að taka sér réttinn til að drepa

Það er erfitt að einbeita sér því fjöldamorðin í París taka hugann. Hugsunin hvernig ættingjunum líður veldur sársauka. Fyrir nokkrum dögun drápu ISIS menn 43 manneskjur og særðu 200 í Beirut með sjálfmorðssprengjum. Í Nígeríu drápu Boko Harem 117 manns í mosku. Í Kenía voru 147 námsmenn drepnir í háskóla, það var í apríl 2015. Anders Breivik drap 77 manns 2011 í Noregi. Svona mætti lengi telja. Morðingjarnir telja allir að þeir séu í fullum rétti að myrða saklaust fólk. Ég á rétt á…

Maðurinn er í eðli sínu friðsöm skepna. Flestir vilja skapa sér heimili og ala upp börnin sín í friði við allt og alla. Flestir vilja að við séum frjáls til athafna og skoðana svo lengi sem við sköðum ekki náungann. Maðurinn hefur engan sérstakan áhuga á því að stunda styrjaldarekstur. Flestir eru uppteknari af því hvort uppskeran verði góð um haustið eða hvort börnunum gangi vel í skólanum. Sennilega hefðu fáar styrjaldir hafist ef almenningi hefði gefist kostur á að kjósa um það í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef Assad Sýrlandsforseti hefði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2011 í stað þess að senda herinn á mótmælendur væri margt öðruvísi. Hann telur sig hafa rétt á að myrða saklaust fólk.

Græðgin og valdafíkn eru ókostir sem heltekur stundum manninn eins og Assad. Eða þá fjölskylduna sem stjórnar með harðri hendi í Saudi Arabíu og notar trúnna sér til framdráttar. Hálshöggva mann annan hvern dag. Þjálfar og fjármagnar ISIS með samþykki vesturveldanna. Við(Vesturlandabúar) verðum að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort við eigum einhvern þátt i þessum harmleik í París. Fjöldamorðin í París eru svo stór atburður að við getum ekki leyft okkur einfaldar skýringar. Hver er orsökin og hvernig upprætum við hana.

Afskipti Vesturveldanna í miðausturlöndum hafa haft skaðleg áhrif. Innrásir í Afganistan, Írak og Líbíu. Sífelldar dróna árásir víðsvegar um heiminn og hernaðarleg íhlutun í mörgum löndum heimsins. Þetta skapar gróðarstíu fyrir hatur. Mið-austurlönd og Afríka eru ein af ríkustu svæðum heimsins, full af auðlindum en mörg þeirra eru máluð sem þjóðir sem lifa ekki af án þróunaraðstoðar. Ef Afríka hefði getað skattlagt með 30% skatti öll skattaundaskot vestrænna stórfyrirtækja í skattaparadísir s.l. 10 ár væri Afríka skuldlaus heimsálfa. Það fara mun meiri fjármunir frá Afríku til vesturlanda á ári en öfugt. Afríka er mun ríkari en vesturlöndin og ætti því að vera senda okkur aðstoð. Ef Afríka væri látin afskiptalaus af okkur væri enginn að deyja úr hungri eða þorsta þar.

Ungur maður sem sér og skilur að þjóð hans gæti lifað góðu lífi ef hún væri ekki arðrænd af vesturlöndum. Sami ungi maður skynjar það eru alltaf einhverjar styrjaldi í löndum sem eru ríkar af auðlindum. Sami ungi maður skynjar það að umræða um trú hans og þjóð er nánast alltaf neikvæð í stærstu miðlum heimsins. Sami ungi maður verður föðurlaus því dróni sprengdi pabba hans í tætlur og heimilið þeirra. Þessi sami ungi maður upplifir að harðstjóri stjórnar landi hans með aðstoð vesturlanda. Þessi sami ungi maður verður eins og ómótaður leir í höndum heilaþvottadeildar ISIS manna. Hann fer til Parísar sannfærður um rétt sinn, til að drepa. Hann trúir því að það sé rétt. Það er hans eina von um breytingu.

Bandaríski hermaðurinn sem stjórnaði drónanum sem sprengdi pabba hans í tætlur er sömu trúar og ungi maðurinn, þ.e. að hann hafði rétt til að drepa. Það er auk þess hans von um breytingu. Samt trúa þeir ekki á sama guð.

Það fæðist enginn sem hryðjuverkamaður eða hermaður, þeir eru búnir til.

Hver er ábyrgð okkar, þessi við eða Vesturlönd. Samkvæmt lýðræðisskipulagi Vesturlanda eru almennir kjósendur valdið. Þeir reyndar afhenda það kjörnum fulltrúum tímabundið en við erum engu að síður valdið. Ef við erum ósátt verðum við að breyta en á meðn við höfum ekki gert það erum við ábyrg fyrir núverandi ástandi.

Þrátt fyrir að stolin velsæld okkur sé þægileg þá eiga kúgaðir meðbræður okkar rétt á því að við reynum að skilja samhengi hlutanna og breyta þessum heimi. Í raun eigum við bara einn rétt, að valda ekki öðru fólki ónæði.

 

Athyglisvert myndband sem tengist efninu:

https://www.facebook.com/ayo.turton/videos/10153727297304324/

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.11.2015 - 21:16 - FB ummæli ()

Stjórnmálaályktun-stjórnarskráin og fleira

Landsfundur Dögunar var haldinn núna um helgina, þ.e. 6. og 7. nóvember 2015. Fundurinn gekk vel og var  eftirfarandi stjórnmálaályktun samþykkt. Ég læt hana hér á bloggið ef einhver skyldi finna þar eitthvað við sitt hæfi. Reyndar birti Mogginn yfirlýsinguna einn fjölmiðla, spurningin hvort þeim fannst hún góð eða voru bara að fullnægja skyldum sínum sem blaðamenn. Dæmi hver fyrir sig.

Stjórnmálaályktun landsfundar Dögunar 2015.

Dögun stjórnmálasamtök samþykktu á landsfundi sínum kjarnastefnu samtakanna sem stefnir að sanngjarnara og réttlátara fjármála-, velferðar-  og húsnæðiskerfis

Fundurinn samþykkti einnig ályktun um stjórnarskrármál, uppgjör föllnu bankanna og húsnæðismál.

Stjórnarskráin

Ljóst virðist að nýja stjórnarskráin kemst aldrei í gegnum spillt Alþingi. Dögun hvetur til að hafin verði söfnun undirskrifta meðal kosningabærra Íslendinga. Þegar meirihluti hefur undirritað samþykki sitt er ný sjórnarskrá samþykkt af þjóðinni og núverandi í raun úr gildi fallin.

Húsnæðismál

Dögun fordæmir seinagang ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum og í raun hefur ekkert gerst annað en að arðsemisfjárfestum hefur verið gert kleift að herja á húsnæðismarkaðinn og með því hækkað fasteigna- og leiguverð á íbúðarhúsnæði.

Ríkissjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks lofaði breytingum á húsnæðiskerfi landsmanna og mótun framtíðarstefnu í húsnæðismálum sem gerði öllum kleift að búa við húsnæðisöryggi.  Framangreind áform hafa ekki gengið eftir.

Dögun stórnmálasamtök hvetur til þess að hafin verði stórfelld uppbygging á óhagnaðardrifnum leigumarkaði í húsnæðissamvinnufélögum sem er forsenda þess að skapa jafnvægi og aðhald á húsnæðismarkaði.

Fallnir bankar

Dögun fordæmir þá leynd og óskýrleika sem hefur einkennt vinnubrögð í kringum uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna sem hrundu til grunna árið 2008 og bitnaði harkalega á þorra almennings.

Það er ljóst að sú leið sem ríkisstjórnin kynnir nú er ekki í neinu samræmi við digurbarkalegar yfirlýsingar forsætisráðherra Sigmundar Davíðs í aðdraganda síðustu alþingiskosninga um hvernig skuli tekið á hrægammasjóðum.  Ekki er ljóst hvort það uppgjör sem ríkisstjórnin hefur kynnt muni  á ný bitna á almenningi. Verst er þó að ríkisstjórnin stefnir á að endurreisa nánast óbreytt fjármálakerfi og var fyrir hrun með tilheyrandi einkavinavæðingu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.11.2015 - 00:36 - FB ummæli ()

Opið bréf til Bjarna Ben

Sæll Bjarni, samkvæmt Kjarnanum í dag telur þú að Íbúðarlánasjóður sé Samfélagsbanki og því víti til varnaðar hugmyndum manna um að stofna Samfélagsbanka úr Íslands- og Landsbanka. Íbúðalánasjóður er ekki samfélagsbanki. ÍLS hefur bara íbúðarlán á sinni könnu en banki gerir margt annað. Eru t.d. innlánsreikningar fyrir almenning í ÍLS? Hvernig stóð þá á því að ríkisrekinn íbúðalánasjóður lenti í ógöngum? Mikið til vegna ákvarðana manna í ríkisstjórn Davíðs og Halldórs og tengdra aðila á sínum tíma. Afnám bindiskyldunnar 2003, einkavæðing bankanna og lánlausir verktakar, allt á vakt XD og XB, settu Íbúðalánasjóð í uppnám sem sjóðurinn réð ekki við. Orðræðunni var breytt, að græða varð eftirsóknarverður eiginleiki og mantra. Íbúðalánasjóður sem hafði önnur markmið kunni ekki fótum sínum forráð. Einkabankarnir komu inn á íbúðarlánamarkaðinn og undirbuðu Íbúðarlánasjóð og lántakendur greiddu upp lán sín hjá Íbúðarlánasjóði. ÍLS gat ekki greitt upp sín eigin lán vegna skorts á uppgreiðsluákvæði. Þar með hafði ÍLS talsvert af peningum(án hirðis). Þess vegna lánaði ILS einkabönkunum(af öllum) Eftir glæsilegt gjadþrot þeirra varð það tap ÍLS. Margir verktakar urðu einnig gjaldþrota og ÍLS tapaði þar einnig.

Mistök ÍLS var að treysta einkaaðilum.

Samfélagsbanki er allt annað Bjarni.  Gott væri að stofna samfélagsbanka að fordæmi North Dakota ríkisins í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá banki var stofnaður 1919 í kjölfar efnahagserfiðleika og uppskerubrests sem einkabankarinr höfðu bara eitt svar við; að innheimta veðin fyrir skuldunum, þeir kunnu ekki neitt annað. Afleiðingin var samfélagsleg katastrófa. Hvað skiptir það einkabanka máli, hluthafarnir fengu sitt. Það er einmitt það sem við höfum upplifað undanfarin ár á Íslandi, almenningi var og er kastað út af heimilum sínum í skiptum fyrir gróða hluthafa

Samfélagsbankinn í Norður Dakóta starfar eftir lögum sem hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi. Bankinn fjárfestir í raunverulegri verðmætasköpun en ekki spákaupmennsku. Ríkið getur alltaf fengið ódýr lán hjá bankanum sínum. Þar að auki kunna einkabankarnir í N-Dakóta þessu vel því þeir starfa í skjóli stóra bankans sem veitir þeim rekstraröryggi ef sveiflur verða. Reyndar lenti banki Norður Dakóta ekki vandræðum vegna bankakreppurnnar 2008 því þeir höfðu ekki keypt neina ”gúmmítékka” sem hinir bankarnir gerðu. Það samrýmdist einfaldlega ekki fjárfestingastefnu samfélagsbanka að taka þátt í spilavíti  einkabankanna.

Einkabankar sinna hluthöfum en samfélagsbankar sinna almenningi, á því er í raun eðlismunur.

Kæri Bjarni, það er okkur í Dögun ljúft og skylt að útskýra fyrir þér hugmynd okkar um samfélagsbanka nánar. Þú ert því hjartanlega velkominn á Landsfundar Dögunar um helgina á Grensásvegi 16a í Reykjavík til að kynna þér þessi mál.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.11.2015 - 21:28 - FB ummæli ()

Landsfundur Dögunar 2015, mjög beisik

Núna um helgina verður Landsfundur Dögunar, þ.e. 6. og 7. nóvember. Hér um árið var ég á fundi í Valhöll vegna þess að Guðlaugur Þór ræddi um sýn sína á heibrigðiskerfið. Mér fannst fundarsókn ekki stórkostleg því ég átti von á miklu meira frá XD(minn fyrsti og síðasti fundur í Valhöll). Sjálfstæðismönnum fannst fundarsóknin mjög góð og þá gerði ég mér grein fyrir því að póitísk þátttaka er ekki mikil hjá landanum.

Það eru margar ástæður fyrir lélegri þátttöku í pólitísku starfi en ég tel þá mikilvægustu vera þá að almenningur hefur engin raunveruleg völd á milli kosninga. Almenningur er ekki vitlaus, til hvers að æsa sig ef ekkert gerist. Auk þess er enginn eðlismunur á fjór(fimm) flokknum, þeir eru allir jafn auðsveipir sérhagsmunaaðilunum og hefur það haft neikvæð áhrif og uppgjöf hjá mörgum.

Svo ætla ég að reyna að smala fólki á pólitískan fund og það Landsfund.

Hvað ætli skapi Dögun sérstöðu? Við höfum aldrei svikið kosningaloforð enda höfum við aldrei komist í valdastöðu til að gera það…Það sem einkennir stefnumál Dögunar er að við munum vinna að almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum. Það gerir okkur óvinsæl hjá valdstéttinni.

Við ætlum að útrýma fátækt á Íslandi, lögleiða lágmarksframfærsluviðmið, auka völd almennings verulega milli kosninga, koma böndum á fjármálavaldið, stofna samfélagsbanka, gera spillingu mjög erfitt uppdráttar á Íslandi, rústa valdi kvótaauðvaldsins, gera ”þak yfir höfuðið” að mannréttindamáli og til þess að gulltryggja það að elítan þoli okkur ekki ætlum við að kryfja lífeyrissjóðina og stofna eitt lífeyrissjóðskerfi fyrir alla Íslendinga.

Tel að allir þeir sem eru ekki ofurríkir eða ekki ríkir eigi því erindi á Landsfund Dögunar. Allir þessir ”típísku” Íslendingar sem eru að berjast við núllið í bankabókinni sinni og hinir sem hafa ekki séð núllið lengi eiga fullt erindi á landsfund Dögunar. Við erum með stefnuna sem mun skila almenningi betra lífi.

Vertu breytingin sem þú vilt sjá og taktu þátt!

Sundruð föllum við en sameinuð sigrum við, getur ekki verið meira beisik.

 

——————————————————————————-

Kjarnastefna

Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti,
sanngirni og lýðræði leggja til eftir farandi áhersluatriði ;

Fjármálakerfið:

Afnema verður völd fjármálakerfisins yfir lífi almennings með eftirfarandi ráðstöfunum:

  • Afnám verðtryggingar á neytendalánum.
  • Aðskilnaður viðskipta og fjárfestingabankastarfsem.i
  • Vextir í landinu verði hóflegir Setja þak á vexti.
  • Hið opinbera stofni virkan samfélagsbanka .
  • Bankaleynd verði afnumin í samræmi við lög um persónuvernd.

Lágmarksframfærsluviðmið og lífeyrismál:

Lögfesta þarf lágmarksframfærsluviðmið til að tryggja framfærslu allra, launamanna sem og lífeyrisþega ( öryrkjar, eldri borgarar ).  Nauðsynlegar ráðstafanir eru:

  • Eitt sameinað lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.
  • Lágmarkslaun verði aldrei lægri en lágmarksframfærsluviðmið.
  • Almannatryggingar tryggi öllum lágmarksframfærslu.
  • Persónuafsláttur hækki og tryggi skattleysi lágmarkstekna.

Húsnæðismál:

  • Húsnæðisöryggi er mannréttindi.
  • Húsaleigumarkaður skal uppbyggður að norrænni, þýskri eða austurrískri
  • Auka þarf valkosti á húsnæðismarkaði og tryggja langtíma leigurétt.
  • skapa þarf rými fyrir óhagnaðardrifin húsnæðssamvinnufélög.
  • Dögun er alfarið á móti því að fjármálafyrirtækin (lífeyristsjóðir, bankar og Íbúðalánasjóður) stofni og reki fasteignafélög inn á leigumarkaði sem arðsemisfjárfestar.

Lýðræðið – ný stjórnarskrá:

Dögun vill nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Samanber þann ríka vilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20.október 2012.  Með lögum skal tryggja eftirfarandi rétt almennings:

  • Auðlindarákvæði þar sem þjóðinni er tryggður eignarrétturinn á auðlindum Íslands.
  • Bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur óski 10% kjósenda þess.
  • Íbúar kjördæma eða sveitarfélaga geti átt frumkvæði að bindandi atkvæðagreiðslu um sameiginleg hagsmunamál svæðisins óski 10% kjósenda þess.
  • Að ný stjórnarskrá tryggi almenningi aðgang að öllum upplýsingum sem opinberir aðilar safna í samræmi við persónuverndarlög.

Skipan auðlindamála:

  • Orkufyrirtæki verði almennt í eigu ríkis og /eða sveitarfélaga.
  • Nýting allra náttúruauðlinda skal vera sjálfbær.
  • Tryggja þjóðinni arð af auðlindum sínum.

Stjórn fiskveiða :

  • Stokka upp stjórn fiskveiða frá grunni.
  • Jafnræði ríki meðal landsmanna við nýtingu á sameiginlegum fiskveiðiauðlindum.
  • Allur ferskur fiskur verði seldur á fiskmörkuðum og auðlindagjald reiknað af því fiskverði.
  • Aðskilja skal veiðar og fiskvinnslu fjárhagslega.
  • Handfæraveiðar verði gefnar frjálsar.

Siðvæðing stjórnsýslu og fjármálakerfis:

  • Bæta þarf siðferði og auka gagnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og fjármálakerfi.
  • Lög verði yfirfarin með því markmiði að fyrirbyggja spillingu.
  • Komið verði í veg fyrir óeðlileg völd sérhagsmunaaðila .
  • Skilið verði á milli stjórnmála og viðskiptalífs.

Evrópusambandið:

Við viljum að þjóðarvilji ráði för í ESB málinu. Við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni.

 

———————————————————————————-

Dagskrá landsfundar Dögunar 6-7 nóvember 2015

Staður:   Grensásvegur 16a Reykjavík

Föstudagur 6. nóvember

16:30 Mæting

17:00 Setning landsfundar og kosning fundarstjóra og ritara.

  • Skýrsla framkvæmdaráðs
  • Ársreikningar ársins 2014
  • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  • Afgreiðsla reikninga
  • Kynning á fundargögnum

Matarhlé

  • Umræður um kjarnastefnu

Laugardagur 7. nóvember

10:00-12:30 Málefnavinna

  • Lagabreytingar
  • Stefnuskjöl
  • Stjórnmálaályktun
  • Aðrar ályktunartillögur

Hlé

Fundur hefst aftur kl. 13:30: Málefnavinna framhald

kl 15:00 : Atkvæðagreiðsla og kosningar:

  • Lög
  • Kjarnastefna
  • Formanns og varaformannskjör
  • Framkvæmdaráð
  • Úskurðarnefnd
  • Stjórnmálaályktun

 

Skemmtun

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.11.2015 - 22:34 - FB ummæli ()

Að gera bankakerfið ”meinlausara”

Það virðist sem mörgum sé brátt í brók að einkavæða bankana að nýju og sérstaklega ef Íslandsbanki fellur í hlut ríkisins. Samtök atvinnulífsins hvetja eindregið til þess að hlutir ríkisins verði einkavæddir sem fyrst. Mörgum finnst mjög sennilegt að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn muni hlýða kallinu.

Frosti Sigurjónsson þingmaður hefur mælt fyrir því að hið opinbera stofni samfélagsbanka úr Íslands- og Landsbankanum. Við í Dögun höfum líka talað fyrir þessari hugmynd. Aftur á móti eru margir sem sjá þessari hugmynd allt til foráttu. Telja að ríkisbanki skapi einokun, spillingu og að ríkis”kommisörar” stjórni öllu. Síðan er samansemmerki milli þessara fullyrðinga og lélegrar bankastarfsemi. Dulið í textanum er að einkareknir bankar séu betur reknir.

Eftir því sem ég kemst næst eru engin tilfelli í sögunni um að hið opinbera hafi framleitt of mikið(bóla) eða of lítið(kreppa) af peningum. Þetta á við þegar hið opinbera hefur haft fulla stjórn á peningamyndun.

Ef við reynum að meta árangur einkabanka við stjórnun á peningamyndun þá er hollt að rifja upp helstu ártöl þegar kreppur hafa dunið á heiminum eða hluta hans:

1720, 1772, 1792, 1796, 1813, 1819, 1825, 1837, 1847, 1857, 1866, 1873, 1884, 1890, 1893, 1896, 1901, 1907, 1910, 1929, 1973, 1980, 1983, 1987, 1989, 1990, 1992, 1994, 1997, 1998, 2001, 2007

Það sem er augljóst að til þess að ríkisrekinn banki standi sig ver en einkabankarnir í sögulegu ljósi, þá verður ríkisbankinn að leggja verulega mikið á sig til að standa sig ver.

Það er gott að menn hafi þetta í huga þegar þeir íhuga innihald orða Frosta þegar hann segir eftirfarandi: „Þess í stað horfir Frosti til þess að nýta eignarhald ríkisins til að endurskipuleggja bankakerfið til að gera það „meinlausara“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.10.2015 - 19:52 - FB ummæli ()

Okkar er valið og valdið

Það datt lítil sprengja inní samfélagið okkar í dag. Hrægammasjóðirnir sem eiga Íslandsbanka vilja selja hann til íslenska ríkisins. Samkvæmt bloggurum þá komast þeir vel frá stöðuleikaskattinum með þessu. Aðrir bloggarar telja þetta upphafið að nýrri útsölu til vildarvina í boði XD og XB-gamalt vín á nýjum belgjum. Ef skynsemin fær að ráða þá skapast hér möguleikar til hagræðingar og verðmætasköpunar fyrir Ísland.

Með sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka skapast mikil hagræðing. Þar með væri hægt að stofna einn stóran og öflugan ríkisbanka sem rekinn væri sem samfélagsbanki. Afleiðingarnar af gjaldþroti einkabankanna haustið 2008 eru svo hrikalegar að ríkisbanki, hversu mikið hann myndi reyna það myndi aldrei ná því að standa sig jafn illa og einkabankarnir. Þar með væri almenningi amk tryggð betri lífskjör með ríkisbanka. Bara það er þó nokkuð.

Best er að stofna samfélagsbanka að fordæmi North Dakota ríkisins í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá banki var stofnaður 1919 í kjölfar efnahagserfiðleika og uppskerubrests sem einkabankarinr höfðu bara eitt svar við; að innheimta veðin fyrir skuldunum, þeir kunnu ekki neitt annað. Afleiðingin var samfélagsleg katastrófa. Hvað skiptir það einkabanka máli, hluthafarnir fengu sitt. Það er einmitt það sem við höfum upplifað undanfarin ár á Íslandi, almenningi var kastað út af heimilum sínum í skiptum fyrir gróða hluthafa.

Samfélagsbankinn í Norður Dakóta starfar eftir lögum sem hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það er munur á samfélagsbanka og ríkisbanka. Hagnaður samfélagsbankans fer til ríkisins og þar með lækka skattar eða þá að það gerir Norður Dakóta kleift að ráðast í frekari framkvæmdir. Bankinn fjárfestir í raunverulegri verðmætasköpun en ekki spákaupmennsku. Ríkið getur alltaf fengið ódýr lán hjá bankanum sínum. Þar að auki kunna einkabankarnir í N-Dakóta þessu vel því þeir starfa í skjóli stóra bankans sem veitir þeim rekstraröryggi ef sveiflur verða. Reyndar lenti banki Norður Dakóta ekki vandræðum vegna bankakreppurnnar 2008 því þeir höfðu ekki keypt neina ”gúmmítékka” sem hinir bankarnir gerðu. Það samrýmdist einfaldlega ekki fjárfestingastefnu samfélagsbanka að taka þátt í spilavíti  einkabankanna.

Einkabankar sinna hluthöfum en samfélagsbankar sinna almenningi, á því er í raun eðlismunur. Með góðri lagasetningu er hægt að láta sameinaðan Íslands- og Landsbanka mala gull í ríkiskassann sem samfélagsbanka. Þeim sem er einstaklega illa við almannahag mæla með einkavæðingu en við hin stefnum að samfélagsvæðingu bankareksturs, eins og við í Dögun gerum?

Okkar er valdið og valið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur