Það gekk ýmislegt á hjá okkur Sjálfstæðismönnum á landsfundinum sem lauk í gær, sunnudag. Þannig hefur það verið á öllum landsfundum sem ég hef setið enda fjölmörg mál sem tekist er á um í nefndum. Ágreiningur er skiljanlega í mörgum málum í svo stórri stjórnmálahreyfingu.
En það er gaman á landsfundi. Það er ánægjulegt að takast á um málefni og ná niðurstöðu. Þegar maður lítur yfir hópinn þá sér maður líka að þarna situr þverskurður þjóðarinnar og undirstrikar kjörorð Sjálfstæðisflokksins, stétt með stétt.
Afstaða flokksins í Evrópumálunum sýnir okkur svipaða niðurstöðu og hjá þjóðinni sjálfri. Það er mikil andstaða við aðild að ESB. Ég tel sjálfur að þessi afstaða sé byggð á óþarfa hræðslu hjá þjóðinni og okkur Sjálfstæðismönnum þar með. Það er að mínu mati full ástæða til að fara í aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Ég er einn þeirra sem skrifa undir á vefsíðunni www.sammala.is
Okkar fyrrverandi formaður, Davíð Oddsson, hélt ansi yfirgripsmikla ræðu á landsfundinum. Ekki get ég verið sammála mörgu sem þar kom fram. Hann hélt hins vegar þessa ræðu en ekki landsfundarfulltrúar. Þess vegna finnst mér óþarfi að hnýta í landsfundarfulltrúa í umræðunni fyrir að hafa klappað fyrir Davíð í lokin, landsfundarfulltrúar eru kurteist fólk. Það var ekki klappað fyrir öllu, öðru nær. T.d. var kurr í salnum þegar hann hnýtti í Vilhjálm Egilsson og Endurreisnarnefndina. Ég skrifaði hluta af því sem er í Endurreisnarbókinni og sé ekki eftir pappírnum í bókina því það er Sjálfstæðisflokknum nauðsynlegt að fara í gegnum málin eftir langa valdatíð og mikil áföll þjóðarinnar á síðasta ári.
Það er þverskurður þjóðarinnar sem situr landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Harðduglegt fólk úr öllum greinum atvinnu- og þjóðlífsins. Fólk sem hefur mismunandi skoðanir en sameinast um niðurstöður landsfundar. Þar er sem fyrr frelsi einstaklingsins til athafna grunntónninn. Frelsi með ábyrgð.

Halldór Halldórsson
Er ekki sjálfstæðismaður en horfði og hlustaði á hluta af landsfundinum m.a. ræðu Davíðs.
Ekki skil ég allt fjaðrafokið út af henni.
Það er skiljanlegt að karlinn sé svekktur eftir
það sem á undan er gengið. Það þarf að taka sona ræðu.. með hliðsjón af þeirri staðreynd.
Þetta var nú engu líkt hvernig sumt fólk lét jafnvel þó svo að það væri á öndverðum meiði
við hann. Eg er líka vissum að á flestöllum
fundum og landsfundum jafnvel þingfundum, hafa verið fluttar vitlausari ræður.