Mánudagur 30.03.2009 - 20:38 - 1 ummæli

Þverskurður

Það gekk ýmislegt á hjá okkur Sjálfstæðismönnum á landsfundinum sem lauk í gær, sunnudag. Þannig hefur það verið á öllum landsfundum sem ég hef setið enda fjölmörg mál sem tekist er á um í nefndum. Ágreiningur er skiljanlega í mörgum málum í svo stórri stjórnmálahreyfingu.

En það er gaman á landsfundi. Það er ánægjulegt að takast á um málefni og ná niðurstöðu. Þegar maður lítur yfir hópinn þá sér maður líka að þarna situr þverskurður þjóðarinnar og undirstrikar kjörorð Sjálfstæðisflokksins, stétt með stétt.

Afstaða flokksins í Evrópumálunum sýnir okkur svipaða niðurstöðu og hjá þjóðinni sjálfri. Það er mikil andstaða við aðild að ESB. Ég tel sjálfur að þessi afstaða sé byggð á óþarfa hræðslu hjá þjóðinni og okkur Sjálfstæðismönnum þar með. Það er að mínu mati full ástæða til að fara í aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Ég er einn þeirra sem skrifa undir á vefsíðunni www.sammala.is

Okkar fyrrverandi formaður, Davíð Oddsson, hélt ansi yfirgripsmikla ræðu á landsfundinum. Ekki get ég verið sammála mörgu sem þar kom fram. Hann hélt hins vegar þessa ræðu en ekki landsfundarfulltrúar. Þess vegna finnst mér óþarfi að hnýta í landsfundarfulltrúa í umræðunni fyrir að hafa klappað fyrir Davíð í lokin, landsfundarfulltrúar eru kurteist fólk. Það var ekki klappað fyrir öllu, öðru nær. T.d. var kurr í salnum þegar hann hnýtti í Vilhjálm Egilsson og Endurreisnarnefndina. Ég skrifaði hluta af því sem er í Endurreisnarbókinni og sé ekki eftir pappírnum í bókina því það er Sjálfstæðisflokknum nauðsynlegt að fara í gegnum málin eftir langa valdatíð og mikil áföll þjóðarinnar á síðasta ári.

Það er þverskurður þjóðarinnar sem situr landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Harðduglegt fólk úr öllum greinum atvinnu- og þjóðlífsins. Fólk sem hefur mismunandi skoðanir en sameinast um niðurstöður landsfundar. Þar er sem fyrr frelsi einstaklingsins til athafna grunntónninn. Frelsi með ábyrgð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

«
»

Ummæli (1)

  • Er ekki sjálfstæðismaður en horfði og hlustaði á hluta af landsfundinum m.a. ræðu Davíðs.
    Ekki skil ég allt fjaðrafokið út af henni.
    Það er skiljanlegt að karlinn sé svekktur eftir
    það sem á undan er gengið. Það þarf að taka sona ræðu.. með hliðsjón af þeirri staðreynd.
    Þetta var nú engu líkt hvernig sumt fólk lét jafnvel þó svo að það væri á öndverðum meiði
    við hann. Eg er líka vissum að á flestöllum
    fundum og landsfundum jafnvel þingfundum, hafa verið fluttar vitlausari ræður.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur