Fimmtudagur 23.04.2009 - 15:45 - 2 ummæli

Fyrning loforða

Mikið ætla ég að vona að vinstri flokkarnir fyrni kosningaloforðin sín um fyrningaleiðina. Margir í þeim hópi segjast reyndar ekki styðja fyrningarleið. Samfylkingarfólk hefur sagt mér að ekki hafi staðið til að ræða sjávarútvegsmálin á síðasta landsfundi. Tillagan sem samþykkt var hafi bara verið skrifuð niður á munnþurrku á fundinum.

Getur það verið? Er þetta ekki grín hjá þessu ágæta Samfylkingarfólki?

Eftir að við þrír bæjarstjórar skrifuðum grein og vöruðum við fyrningarleiðinni, því hún hefði slæm áhrif á sjávarbyggðirnar, höfum við fengið mikil viðbrögð. Ég er sérstaklega ánægður með viðbrögðin frá fólki sem starfar við sjávarútveginn. Þar kemur mjög ákveðið fram að fólki finnst löngu kominn tími til að leyfa þessum grunnatvinnuvegi þjóðarinnar að vera í friði.

Næg önnur verkefni blasa við og óþarfi að vasast í fyrirtækjum sem standa sig eins og sjávarútvegurinn gerir.

Þeir örfáu sem hafa tjáð sig á móti grein okkar þremenninganna falla í þá gryfju sem við sáum fyrir og nefnum í grein okkar. Það er að gera okkur upp annarleg sjónarmið og gefa í skyn að við séum að standa vörð um aðra hagsmuni en byggðanna okkar. Við tókum fram í greininni að enginn okkar ætti kvóta og hefði aldrei átt. Þetta gerðum við vegna þess að við þekkjum orðræðu þeirra sem hafa fyrningarleið að áhugamáli.

Þeir sem tala fyrir fyrningarleiðinni falla í þá gryfju að skoða bara þau tilvik þar sem rekstur hefur gengið illa en líta framhjá þeim sem njóta velgengni. Þeir eru sem betur fer miklu fleiri.

Tókuð þið eftir frétt í Morgunblaðinu í dag þar sem talað er við Jóhann hjá 3X Technology á Ísafirði? Þetta er fyrirtæki sem þróar og framleiðir vörur fyrir sjávarútveginn hér heima og erlendis. Fjallað var um tækjabúnað sem fyrirtækið mun kynna á vörusýningu erlendis í næstu viku.

Fulltrúi fyrirtækisins lýsti yfir áhyggjum sínum af hugmyndum um fyrningarleið. Hann sagði þetta verða til þess að fyrirtækin héldu að sér höndum í fjárfestingum.

Þetta heyrir maður alls staðar. Það er ekki undarlegt þó sjávarútvegsfyrirtækin haldi að sér höndum þegar enn einar kosningarnar er talað um að taka af þeim möguleikann á afkomu.

Ágætu frambjóðendur sem lofið fyrningarleið! Vinsamlega fyrnið loforð ykkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur