Fimmtudagur 28.05.2009 - 13:44 - Rita ummæli

Háskólasetur Vestfjarða

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað 2005 sem sjálfseignarstofnun eftir að nefnd á vegum menntamálaráðherra skilaði af sér tillögum um slíka stofnun. Mikil vinna hafði verið lögð í undirbúning og margir lagt hönd á plóg árin á undan við að þróa slíka starfsemi og leggja þannig grunn að framtíðinni. Duglegir nemar í fjarnámi og tilkoma Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða lagði grunninn ásamt mjög góðu samstarfi við aðra háskóla og þá sérstaklega Háskólann á Akureyri.

Á morgun, 29. maí, er aðalfundur Háskólaseturs Vestfjarða. Þetta er ung stofnun sem miklar væntingar eru gerðar til. Og stofnunin undir styrkri stjórn Peters Weiss hefur staðið undir miklu af þessum væntingum.

Auðvitað eru óskir um að gera meira, stíga stærri skref, stofna sjálfstæðan háskóla o.s.frv. En Háskólasetrið hefur reynt að gera sem mest án þess að reisa sér hurðarás um öxl.

Núna eru um 150 fjarnemar í háskólanámi, búsettir á Vestfjörðum. Háskólasetrið veitir þjónustu, aðstöðu o.fl. Þessir nemar eru í fjölbreyttu námi við ýmsa háskóla.

Frumgreinanám er kennt við Háskólasetur Vestfjarða. Það nám gefur möguleika á að fara í háskólanám og er þannig nokkurs konar ígildi stúdentsprófs en þykir henta fólki sem vill fara í nám að nýju. Í þessu námi eru heimamenn á Vestfjörðum en einnig fjarnemar á höfuðborgarsvæðinu sem sækja sitt nám til Háskólans í Reykjavík en fá kennsluna frá Ísafirði á fyrstu önn.

Þá eru 10 nemar í mastersnámi í Haf- og strandsvæðastjórnun og er það kennt staðbundið á Ísafirði. Námið er allt á ensku undir heitinu Coastal and Marine Management. Flestir nemarnir koma erlendis frá.

Á morgun höfum við í stjórn Háskólaseturs Vestfjarða boðið þingmönnum okkar kjördæmis til fundar við stjórnina áður en aðalfundurinn verður haldinn. Við viljum gera grein fyrir stöðunni og óska eftir stuðningi við að þróa okkar litlu stofnun áfram við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Starfsemi Háskólasetursins byggir upp og þróar. Á því þurfum við alltaf að halda en alveg sérstaklega núna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur