Föstudagur 24.07.2009 - 15:21 - Rita ummæli

Fjármál sveitarfélaga

Eftir svar samgönguráðherra á Alþingi, og upplýsingar um að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga væri að grennslast fyrir um rekstur sveitarfélaganna, hefur verið nokkur umræða um stöðuna.

Á mbl.is mátti lesa fyrirsögn um að sveitarfélög væru komin á gjörgæslu. Það er of sterkt til orða tekið, reyndar alltof sterkt.

Þær upplýsingar í svari ráðherrans um rekstrarniðurstöðu A og B hluta hjá sveitarfélögunum hafa komið fram áður hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í svarinu var þetta skilmerkilega tekið saman og gott að glöggva sig á því. Það sem var alveg nýtt voru upplýsingar um að nokkur fjöldi sveitarfélaga væru búin að fá erindi frá Eftirlitsnefndinni.

Við sem stýrum sveitarfélögum höfum þó gert okkur grein fyrir því alveg frá hruni í október í fyrra að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga myndi hafa nóg að gera. Það er skylda nefndarinnar skv. sveitarstjórnarlögum að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum og hafa eftirlit með að fjárstjórn sé í samræmi við lögbundnar viðmiðanir o.s.frv.

Þannig er Eftirlitsnefndin nokkurs konar IMF sveitarfélaganna og hefur verið í fjölda ára. Þetta er mikilvægt eftirlit sem ég held að flestir ef ekki allir sveitarstjórnarmenn vilji að sé virkt og öflugt.

En það er ekki hægt að segja að sveitarfélög séu í gjörgæslu þó þetta ferli sé í gangi. Þau eru öll að vinna að sínum málum af mikilli ábyrgð við erfiðar aðstæður. Jafnvel aðstæður þar sem ríkið, hinn aðilinn í opinberri þjónustu gerir okkur lífið erfiðara hjá sveitarfélögunum. Ég hef t.d. bent á það í fjölmiðlum að með hækkun tryggingagjalds sem ríkisstjórnin ákvað, er búið að núlla út rekstrarhagræðingu sveitarfélaganna af þeim erfiðu aðgerðum sem farið var í gagnvart stjórnendum og millistjórnendum, þ.e. lækkun launa þeirra.

Tekin hafa verið dæmi af Bolungarvík sem sé með samning við Eftirlitsnefndina. Það er einmitt rétta hugtakið. Samningur. Bæjarstjórnin í Bolungarvík er að vinna að sínum rekstrarmálum með samningi við Eftirlitsnefndina þannig að Bolungarvík er ekki á gjörgæslu.

Vildi nefna þetta vegna þess að það er óþarfi að sverta ástand sem er frekar þungt fyrir. Við munum vinna okkur út úr þessu að lokum, það tekur bara tíma og krefst þess að við stöndum nú sem fyrr vörð um grunnþjónustuna. Það þýðir hins vegar ekki að hún taki ekki einhverjum breytingum. Það er óhjákvæmilegt vegna þess að stærsti hluti af rekstrarkostnaði sveitarfélaga er grunnþjónusta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur