Miðvikudagur 31.03.2010 - 12:23 - Rita ummæli

Skýrsla um sveitarstjórnarstigið á Íslandi

Á þingi sveitarstjórnarhluta Evrópuráðsins sem haldinn var um miðjan mars (Council of Local and Regional Authorities) var skýrsla um sveitarstjórnarstigið á Íslandi kynnt.

Eitt af verkefnum sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins er að gefa ráðherranefnd ráðsins reglulegar skýrslur um stöðu sveitarstjórnarstigsins í aðildarríkjum, sérstaklega með tilliti til Evrópusáttmálans um sjálfstjórn sveitarfélaga sem Ísland hefur verið aðili að síðan 1991.

Ísland hefur verið aðili að Evrópuráðinu síðan 1950 og nú eru 47 Evrópuríki í ráðinu.

Stjórnskipunarnefnd þingsins ákvað í fyrra að láta fara fram úttekt á íslenska sveitarstjórnarstiginu þar sem Ísland er eitt fárra landa sem aldrei hefur verið tekið út með þessum hætti og með hliðsjón af þeirri stöðu sem landið er í vegna efnahagshrunsins.

Esther Maurer, borgarfulltrúi í Zürich, var fengin til að vera flutningsmaður málsins. Hún sótti Ísland heim í júní sl., ásamt ritara nefndarinnar, Stéphanie Poirel, og Prófessor Francesco Merloni, sem er forseti óháðrar sérfræðinganefndar um Evrópusáttmálann. Þau hittu fulltrúa sveitarfélaga, ráðherra sveitarstjórnarmála, samgöngunefnd Alþingis og forseta stjórnmálafræðideildar HÍ.

Skýrsla þeirra var kynnt  17.-19. mars sl.  í Evrópuráðinu í Strasbourg.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að löggjöf og framkvæmd sé í meginatriðum í samræmi við Evrópusáttmálann og að íslensk sveitarfélög séu að bregðast með markvissum hætti við þeim úrlausnarefnum sem kreppan hefur skapað.

Í skýrslunni er m.a.s. tekið fram að viðbrögðin geti verið til  fyrirmyndar fyrir önnur lönd.

Þótt skýrslan sé í meginatriðum jákvæð er mælt með því að ráðherranefnd Evrópuráðsins beini nokkrum ábendingum til íslenskra stjórnvalda. Ábendingarnar snúast flestar um að þörf sé á að útfæra tiltekin lagaákvæði í sveitarstjórnarlögum á skýrari og nákvæmari hátt. Nánar þá lúta þær að því að:

Tryggja betur lagagrundvöll nálægðarreglunnar þannig að það liggi skýrar fyrir hvaða verkefnum sveitarfélög eigi að sinna eða eftir hvaða sjónarmiðum eigi að fara við verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og hvernig meta eigi að nálægðarreglan sé virt.

  1. skoða hvort veita eigi Reykjavík sem höfuðborg sérstaka lagastöðu og viðurkenna að borgin gegni sérstökum verkefnum sem höfuðborg og beri af því kostnað umfram önnur sveitarfélög. Í skýringum er einnig fjallað um að ástæða geti verið til að skoða mismunandi flokka sveitarfélaga eftir stærð, m.a. með tilliti til verkefna, ef sameiningar skili ekki nægilega stórum sveitarfélagaeiningum.
  2. innleiða Evrópusáttmálann um sjálfstjórn sveitarfélaga með beinum hætti með sérstökum lögum.
  3. skýra betur í lögum við hvaða aðstæður ráðherra sveitarstjórnarmála getur beitt eftirlitsvaldi sínu og málsmeðferð við þær kringumstæður. Reyndar er tekið fram í skýringum að Ísland standi öðrum löndum framar hvað varðar sjálfstæði sveitarfélaga að því leyti að lög kveði ekki á um almennt og reglubundið eftirlit með athöfnum þeirra.
  4. skýra betur við hvaða aðstæður ríkisvaldinu er skylt að hafa samráð við sveitarfélög, hvenær því er skylt að fara eftir umsögn sveitarfélaga og hvernig málsmeðferð skuli háttað. Þrátt fyrir þetta er tekið fram að ákvæði íslensku sveitarstjórnarlaganna um samráðsskyldur ríkisins séu ekki aðeins í samræmi við Evrópusáttmálann heldur sé ástæða til að benda á þau sem fyrirmynd.
  5. hækka lágmarksíbúafjölda fyrir lögþvingaðar sameiningar og setja viðmið sem stuðla að því að við sameiningar verði til sveitarfélög sem séu landfræðilega og fjárhagslega starfhæfar einingar, um leið og þess sé gætt eins og kostur er að virða vitund íbúanna um sitt sveitarfélag.
  6. setja á laggirnar stuðningssjóð fyrir sveitarfélög, sem hafa orðið verst fyrir barðinu á efnahagshruninu, svo þau geti haldið áfram að veita nauðsynlega félagslega þjónustu.
  7. veita sveitarfélögum sérstaka lagaheimild til að skjóta ákvörðunum ríkisvaldsins til dómstóla sem þau telja fela í sér brot á sjálfsstjórnarrétti þeirra skv. Evrópusáttmálanum.

Skýrslan fékk ekki mikla umræðu á þinginu í Strasbourg. Noregur og Ísland ræddu hana og svo auðvitað skýrsluhöfundur.

Umræður á þinginu í Strasbourg fara að mestu í málefni fyrrum austantjaldslandanna. Það var á þeim að heyra (í spjalli utan þingsins) varðandi sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga á Íslandi og stöðu þeirra að ekki væri um nein vandamál að ræða. Ísland væri öðrum löndum góð fyrirmynd á sveitarstjórnarstiginu og eftirsóknarvert að komast í þá stöðu sem Ísland væri í með sitt sveitarstjórnarstig.

Skýrslan er áhugaverð lesning, þar er margt jákvætt en margar góðar ábendingar líka. Hjá okkur er ýmislegt í góðu lagi en við erum ekki svo blind að átta okkur ekki á því að margt má líka betur fara. Að því er líka unnið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur