Þriðjudagur 06.04.2010 - 16:30 - 2 ummæli

Sjósports-, siglingamiðstöð

Þegar ég las um frekari hugmyndir um uppbyggingu á hinu góða skíðasvæði Akureyringa í Hlíðarfjalli datt mér i hug að deila með lesendum þeim hugmyndum sem eru í undirbúningi hér fyrir vestan varðandi siglingar.

Á Ísafirði er töluverð hefð fyrir vélknúnum skemmtibátum og skútum í eigu heimamanna. Notkun bátanna var blandaðri hér áður fyrr og verður kannski aftur ef strandveiðarnar festa sig í sessi sem nokkurs konar sjósport.

Áhugamenn um siglingar hér í bæ hafa lengi talað fyrir bættri aðstöðu fyrir þessa báta þannig að hér megi bjóða upp á enn betri aðstöðu fyrir bæði heimabáta og aðkomubáta. Þá er verið að tala um báta annars staðar af landinu og erlendis frá.

Rökstuðningurinn fyrir slíkri aðstöðu hjá okkur kemur eiginlega af sjálfu sér. Svæðið er algjört draumasvæði fyrir sjósport. Við erum með Ísafjarðardjúpið, firðina sunnan við okkur, Jökulfirðina og Hornstrandir. Og svo er Grænland innan seilingar fyrir stærri skútur og báta. Hér á Ísafirði er t.d. fyrirtæki sem siglir með ferðalanga á skútu til Grænlands frá Ísafirði.

Til að bæta aðstöðuna hafa verið settar út tvær bryggjur, önnur bara yfir sumarið, innan við Eyrina á Ísafirði. Þær eru semsagt Pollmegin eins og sagt er. Siglingamenn og bæjaryfirvöld sjá fyrir sér fleiri bryggjur, betri aðstöðu og svo aðstöðu í landi fyrir starfsemina, t.d. geymslu yfir vetrarmánuðina.

Hvernig tengist þetta uppbyggingu í Hlíðarfjalli? Jú á sínum tíma var ákveðið að Vetraríþróttamiðstöð Íslands ætti að vera á Akureyri. Fjármagn var ákveðið í málið á móti framlagi heimamanna og það hefur átt sér stað glæsileg uppbygging sem laðar að sér ferðamenn og skapar verðmæti.

Með sama hætti má skapa verðmæti og laða að sér ferðamenn, ekki síst erlendis frá, með því að ákveða að Siglingamiðstöð Íslands verði á Ísafirði og til þess verði ákvarðað fjármagn að sjálfsögðu á móti framlagi heimamanna.

Hér eru frábærar aðstæður til þess að framkvæma þessa hugmynd sem engan veginn er ný af nálinni. Hefðin er til staðar, náttúran býður upp á allt hið besta og hafnaraðstæður góðar og vilji til að gera þær enn betri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

 • Elias Guðmundsson

  Sæll Halldór

  Eitt sem ég skil ekki í þessari annars góðu hugmynd en það er af hverju þarf að fá opinbert fé í svona verkefni ef það er arðbært. Annað og mun stærra sjósport, sjóstöngin fyrir vestan er rekin án áhuga og stuðnings hins opinbera. Því ekki þessi hugmynd líka.

 • Halldór Halldórsson

  Komdu sæll Elías.

  Markmiðið er að verkefnið sé arðbært og aðkoma hins opinbera sé í formi aðstöðusköpunar.

  Það eru tækifæri í þessari stöðu, rétt eins og í sjóstönginni, skemmtiferðaskipum o.fl.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur