Þennan leiðara skrifaði ég í nýjasta hefti Sveitarstjórnarmála sem komu út rétt fyrir jólin:
Heildarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga var undirritað þann 24. nóvember sl. Sú þjónusta sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra færist því til sveitarfélaganna frá og með 1. janúar 2011.
Yfirfærsla á þjónustu við fatlaða frá ríkinu til sveitarfélaganna hefur verið á dagskrá sveitarstjórnarfólks um langt árabil og því er gleðiefni að hún sé loksins að verða að veruleika. Með flutningnum fer fram viðamesta endurskipulagning á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá því að rekstur grunnskólanna var fluttur yfir til sveitarfélaganna árið 1996.
Yfirfærslan er ferli sem hefst á nýju ári og tekur við af vönduðu ferli sem unnið hefur verið frá því í mars 2007 en þá hóf verkefnisstjórn störf sín. Sveitarstjórnarmenn hafa lært mikið af yfirtöku grunnskólans á sínum tíma. Þegar litið er á þann flutning í heild sinni er óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til. Hins vegar er ljóst að sveitarfélögum var ekki gefinn nægilegur kostur á að aðlaga þá starfsemi innan lagaramma heldur eru lög og reglugerðir mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélögin varðandi rekstur grunnskólans og voru frá fyrsta degi. Það er mikilvægt að hið háa Alþingi og ríkisstjórn séu þess minnug að sveitarfélögum stýra fulltrúar sem íbúarnir velja og þeim er vel treystandi til þess að gera vel í þjónustu við íbúana. Ekki þarf að negla allt niður í lagaramma sem erfitt getur reynst að starfa innan. Stundum getur kerfið snúist meira um sjálft sig en þá sem skipta öllu máli, þ.e.a.s. þá sem þjónustunnar eiga að njóta.
Meðal þess sem komið er í reynslubankann er að semja um endurmat á forsendum eftir að ákveðinn tími er liðinn. Það atriði er tryggt við yfirfærsluna nú því árið 2014 mun fara fram heildarmat á faglegum og fjárhagslegum þáttum yfirfærslunnar. Það er að mínum dómi eitthvert mikilvægasta atriði samkomulagsins.
Markmiðið með yfirfærslunni er að eitt stjórnsýslustig beri faglega og fjárhagslega ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu. Í öðru lagi er yfirfærslunni ætlað að styrkja sveitarstjórnarstigið og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Síðast en ekki síst er markmiðið að bæta þjónustu við fatlaða og auka möguleikana á að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum.
Við Íslendingar erum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra en honum er ætlað að tryggja fötluðum sama aðgang að samfélaginu og öðrum. Markmið samningsins eru að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir mannlegri reisn þeirra. Sveitarfélögunum gefst nú kærkomið tækifæri til þess að bæta aðgengi og þjónustu við fatlað fólk í nærumhverfi sínu. Því má segja að yfirfærsla málaflokksins sé mikilvægt skref í réttindamálum fatlaðra.
Starfumhverfi starfsmanna sveitarfélaga er fjölbreytilegt og mun auðgast enn frekar um áramótin því við yfirfærslu málaflokksins fá um 1.400 ríkisstarfsmenn nýjan vinnuveitanda hjá viðkomandi sveitarfélögum. Þeir verða dýrmæt viðbót við þann öfluga starfsmannahóp sem nú þegar sinnir velferðarþjónustu sveitarfélaga og býð ég þá hjartanlega velkomna í hópinn.
Tíminn mun leiða í ljós hversu vel tekst til við þessa viðamiklu yfirfærslu. Ljóst er að verkefnið er krefjandi fyrir sveitarfélögin í landinu, væntingar eru mjög miklar en ég heyri samt á fólki að það gerir sér grein fyrir því að yfirfærslan tekur tíma og ekki er hægt að gera allt í einu. Það bendir þó allt til þess að sveitarfélögin, sem flest hver starfa saman á þjónustusvæðum, muni standa sig vel í þessu nýja hlutverki.
Ég óska íbúum, kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga um land allt velfarnaðar, árs og friðar.
Halldór Halldórsson
formaður
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.