Sunnudagur 02.01.2011 - 21:03 - 1 ummæli

Karp eða umræða?

Ætli skoðanaskipti á Íslandi séu með öðrum hætti en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við? Eða í öðrum löndum yfirleitt? Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að oft finnst manni umræðan í vefheimum vera ómálefnaleg og beinlínis vond. A.m.k. á þetta við um ýmsar athugasemdir sem koma við fréttir og bloggfærslur. Ég fyrir mitt leyti les þetta helst ekki. Er þetta kannski svona alls staðar? Erum við jafn málefnaleg og nágrannar okkar í öðrum löndum eða erum við þjóðflokkur sem getur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut og tökum allt persónulega?

Svo velti ég fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það er sem tekur þátt í opinberri umræðu. Er það hálft prósent eða eitt prósent? Mér segir svo hugur að það sé mikill minnihluti sem tekur þátt því stundum sér maður bloggara rífast við sjálfa sig eða því sem næst.

Þessar vangaveltur komu upp í hugann þegar ég velti fyrir mér pólitískri umræðu sem framundan er árið 2011. Mér leiðist karp og skítkast en ég vil gjarnan að sem flestir setji fram uppbyggilega gagnrýni og sem flestar uppbyggilegar hugmyndir. Ég skrifa t.d. af og til um sjávarútvegsmál og mínar skoðanir á þeim. Það sem ég set þar fram eru mínar skoðanir á þeim málaflokki en þeir sem setja athugasemdir sínar undir þær greinar mínar falla ansi oft í þá gryfju að merkja mig þar með einhverjum hagsmunum eða hagsmunahópum. Það er byggt á misskilningi þeirra sjálfra en er kannski hugsað til að afvegaleiða umræðuna og gera mín rök og skoðanir ómerkilegri en annarra. Ég spyr mig a.m.k. þeirrar spurningar.

Mig langar sem sagt til að sjá uppbyggilegri umræða árið 2011. Sem mesta gagnrýni en hún á að vera uppbyggilega og til gagns ekki til að ,,taka niður“ einhverja einstaklinga hvort sem maður er sammála þeim eða ekki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Hlynur Þór Magnússon

    Þekki lítið til umræðna á erlendum vefmiðlum. Sjálfur skrifa ég iðulega athugasemdir hér og þar, geri það undir mínu rétta nafni og reyni jafnan að verða mér ekki til skammar með stóryrðum og illkvittni eða annarri heimsku af því tagi.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur