Þriðjudagur 04.01.2011 - 22:52 - 2 ummæli

Ekki eru stóru orðin spöruð.

Staðsetning og mengun.
Það hefur ýmislegt verið sagt og skrifað um sorpbrennslustöðina Funa í gegnum árin. Trúlega eru flestir sammála því að stöðin var reist á óheppilegum stað á sínum tíma innst í hinum lognkyrra Skutulsfirði. Þegar sú ákvörðun var tekin voru þáverandi bæjarfulltrúar vissir um að stöðin mengaði ekki og gæti þess vegna verið inni í bænum á milli húsa eins og sorpbrennslustöðvar eru víða erlendis. Þá hafði það áhrif að fólk vildi nýta orku frá stöðinni til hitunar húsa. Þessi ákvarðanataka er reyndar fyrir mína tíð sem íbúa í Ísafjarðarbæ en ég hef lesið fundargerðir og blaðagreinar frá þessum tíma.

Brennsla áfram eða urðun?
Það hefur legið fyrir að Funa yrði að endurnýja eða hætta yrði brennslu og fara aðrar leiðir. Á síðasta kjörtímabili var ákvarðanataka undirbúin með skipan sorpnefndar sem lagði til að Funi yrði endurnýjaður. Þáverandi meirihluti var ekki sannfærður um þessa leið og vildi frekar bera saman kosti með útboði á frekari flokkun, endurvinnslu og urðun. Þáverandi minnihluti var ekki sáttur við þessa leið og lagði til að Funi yrði endurnýjaður og ekkert beðið með það. Undirritaður sagði ítrekað í tengslum við þá umræðu að útboð yrði að ráða endanlegri niðurstöðu en ég setti fyrirvara við endurbyggingu Funa því ég hefði ekki trú á því að hægt væri að endurbyggja Funa þannig að við losnuðum við þá mengun og sjónmengun sem væri okkur þyrnir í augum. Þessi ummæli má heyra á fleiri en einni upptöku af bæjarstjórnarfundum.

Núverandi bæjarstjórn hefur svo komist að þeirri niðurstöðu eftir útboð að flokkun og endurvinnsla verði aukin og það sem eftir verður fari til urðunar.

Upplýsingar um mælingar.
Áhyggjur af mengun hafa verið til staðar og margoft fjallað um hana og mælingar í fjölmiðlum og í fundargerðum umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Í flestum tilvikum hefur verið fjallað um þá sjónmengun sem fylgt hefur Funa þegar reykur fyllir fjörðinn við ákveðin veðurfarsskilyrði og áhyggjum lýst af því að um hættulega mengun væri að ræða. Sérfræðingar útskýrðu að um einhvers konar ljósbrot væri að ræða og vísuðu svo til mælinga sem í langflestum tilvikum voru innan leyfilegra marka skv. starfsleyfi Funa. Þetta má lesa um í fjölmiðlum því fréttir um Funa hafa í gegnum árin verið mjög algengar og oft hægt að vitna í þessar upplýsingar á vef Funa.

Díoxín var ekki mælt vegna þess að starfsleyfi Funa og fleiri brennslustöðva á landinu gerir ekki ráð fyrir slíkum mælingum.

Díoxínmæling.
Mæling á díoxíni og lágmark þess efnis er ekki í starfsleyfi Funa. Ísland fékk undanþágu frá slíkum reglum og var Funi meðal þeirra sem þurfti ekki að uppfylla skilyrði varðandi díoxín.

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa þetta: ,, Umhverfisstofnun tók saman skýrslu árið 2010 um útstreymi þrávirkra lífrænna efna þar sem m.a. kemur fram að dregið hefur úr heildarlosun díoxíns á Íslandi um 66% frá 1990 til ársins 2008 og um 82% í sorpbrennslu og úrgangsmeðhöndlun.“

Skoðið bls. 22 sem sýnir að mesta díoxínmengunin er á Suðvesturlandi.

Á vef Umhverfisstofnunar má líka sjá þetta:

Díoxínmæling Díxoínmæling 2007 (ng/m3) Metin árslosun 2008 miðað við viðmiðunarstaðla (g I-TEQ)
Vestmannaeyjar 8,4 0,338
Skutulsfjörður 2,1 0,087
Kirkjubæjarklaustur 9,5 0,020
Svínafell 0,020

Þarna má sjá að langminnst af díoxíni af þessum stöðvum kemur frá Funa. Þá kemur líka í ljós að metin árslosun er mun minni frá Funa en í Vestmannaeyjum. Taka ber skýrt fram að allar þessar stöðvar eru undanþegnar díoxínmælingum skv. starfsleyfum þeirra.

Nú hefur komið í að díoxín hefur mælst í mjólk á bænum Engidal sem er rétt hjá Funa. Ekki er lengur tekið við mjólk frá bænum og málið er í rannsókn. Fram kom hjá forstjóra Umhverfisstofnunar í Kastljósi Sjónvarpsins 4. janúar að niðurstaða rannsókna kæmi ekki í ljós fyrr en eftir mánuð. Málið er því í höndum sérfræðinga sem munu rannsaka hversu mikið tjón getur hafa hlotist af mengun frá Funa. Þetta er alvarlegt mál sem ber að nálgast faglega og án upphrópana þar til heildarmyndin er ljós.

Stóru orðin
Þegar það kemur í ljós að díoxín hefur mælst í mjólk í Engidal er brugðist við á ýmsum stöðum.

Bæjarstjórn ákveður að loka Funa strax en ekki þremur vikum síðar eins og áætlað var.

Umhverfisráðherra kallar eftir upplýsingum frá Umhverfisstofnun og tekin er ákvörðun um að gefa tveggja ára aðlögun að díoxínkröfum hjá þeim stöðvum sem eru undanþegnar. Funi er ein þeirra stöðva sem má vera í rekstri tvö ár í viðbót skv. þessari ákvörðun en það skiptir ekki máli þar sem stöðin hefur verið stöðvuð.

Þingmaður Norðvesturkjördæmis Ólína Þorvarðardóttir óskar eftir fundi um málið í umhverfisnefnd Alþingis.

Þessi viðbrögð eru að mínu mati til mikillar fyrirmyndar. Farið er yfir málið frá öllum hliðum.

En þessu til viðbótar skrifar þingmaðurinn Ólína greinar um mengunarhneykslið og lætur það ekki nægja heldur gefur í skyn að Ísafjarðarbær hafi tekið rekstur Funa og fjárhagslega hagsmuni fram yfir hag og heilsu íbúanna. Hún bætir við umhyggju fyrir rekstraraðila Funa en það eru ummæli sem maður skilur ekki alveg því rekstraraðili Funa er Ísafjarðarbær.

Ég skil þessi ummæli í greinum og viðtölum þannig að hún sé að fullyrða að þáverandi bæjarstjórn og bæjarstjóri hafi látið fjárhagslegar forsendur ráða ferð en ekki hagsmuni íbúanna, þarna tekur þingmaðurinn mjög sterkt til orða um kjörna fulltrúa og embættismenn Ísafjarðarbæjar. Því til viðbótar fullyrðir hún um heilsufarsvandamál sem gæti skapað ótta hjá fólki án þess að málið hafi verið rannsakað að fullu.

Þessi viðbrögð eru ekki til fyrirmyndar, þetta eru upphrópanir sem geta ekki þjónað neinum tilgangi öðrum en þeim að hræða fólk. Það er ábyrgast á þessu stigi að stilla öllum fullyrðingum í hóf.

Nú þegar eru miklar upplýsingar til um málið, t.d. samanburður við aðrar brennslustöðvar eins og í töflunni í þessari grein og í frétt á mbl.is í dag, 4. janúar.

Hvað ætlar þingmaðurinn að segja við íbúa í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri? Stöðin á Kirkjubæjarklaustri er í íþróttahúsinu og hitar upp sundlaugina. Hún mælist með 9,5 en Funi 2,1. Hvað ætlar þingmaðurinn að segja um sveitarstjórnir þessara byggðarlaga og eftirlitsaðila?

Verður það 4,5 sinnum meira en hún hefur þegar látið flakka um bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og eftirlitsaðila?

Kastljós 4. janúar.
Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar sat fyrir svörum ásamt Daníel Jakobssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Hún sagði frá fundi með sóttvarnarlækni og Matvælastofnun, þar hafi komið fram að engin merki séu um að heilsa fólks á svæðinu sé í hættu. Ég skildi hana þannig að þar með væri ekki verið að útiloka að eitthvað geti hafa gerst heldur að það sé ólíklegt.

Hún sagði líka frá því að fólk andar ekki díoxíni að sér heldur borðar það, t.d. í feitum fiski. Það kom líka fram að díoxín er alls staðar í umhverfinu. Og hún sagði að Umhverfisstofnun legði áherslu á ábyrga umræðu um þessi málefni.

Það er ekki vanþörf á að taka undir þessi orð.

Halldór Halldórsson
fv. bæjarstjóri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • Sæll. Halldór.
    Þakka pistilinn og skíringu á málinu.
    Ég setti þetta inn á Ólínu og Páll Ásgeir í dag.

    Umhverfismál á Íslandi snúist um örfáa hektara og hvort setja eigi virkjanir niður á þessum hekturum. Þeir einstaklingar og þau félagasamtök sem hafa leitt þessa umræðu hafa gert það af slíkum krafti að nær öll umræða um umhverfismál hafa snúist um virkjunarmál Álver og restin síðan um hvalveiðar.

    Blýhögl eftir skotveiðimenn sem bönnuð eru víða í hinum siðmenntað heim, akstur utan vega ,vantar kort en ekki búið að bú til, annað hefur ekki verið upp á teningnum, er ekki í umræðunni, umhverfismál hafa verið notuð í pólitískri umræðu um þessa þætti meðan aðrir umhverfisþættir hafa legið í þagnargildi og ekki þótt auka vinsældir og tilgang um pólitíska vinsæld. Umhverfisráðuneyti hefur ekki staði sig í mörg ár beint athyglinni á aðra þætti virkjunarmá hvalveiða og álver og það sem ofan greinir

    Funi á Ísafirði hafi um árabil mengað umhverfi sitt með eitruðum díoxíngufum sem eru tuttugu falt hærra en meðalgildi um hollustu þætti kveða um sem nú er að koma fram , er ekkert nýtt í http://bb.is/. sjást fjöldi greina um umhverfisþætti Funa mörg ár aftur í tíma en á meðan er sofið í Umhverfisráðuneytinu.

  • Kristinn M Jónsson

    Já já; Halldór ekki bæjarstjóri á flótta og í aukinni sjálfsblekkingu og vörn, ekki leggjast samt svo lágt að flyja staðreyndir og niðurlægja fólkið fyrir vestan meira en þú hefur gert.

    Læt fylgja með smá klausu úr frétt RUV frá s.l. sumri sem þú getur rýnt í þegar þú kastar mæðinni.

    Frétt RUV s.l. sumar
    Mælingar sýna að í reyknum eru fjölmörg efni langt yfir viðmiðunarmörkum. Þar ber hæst sink sem mælist rúmlega tuttugu og fjórum sinnum meira en starfsleyfi heimilar, díoxín er sextán sinnum meira og þungmálmar eru fimmfalt meiri en starfsleyfi segir til um. Blár reykur er yfir byggðinni á lognkyrrum dögum.

    Bæði umhverfisstofnun ríkissins og heilbrigðiðeftirlit vestfjarða er algjörlega vanhæft,yfirmönnum ber að segja af sér tafarlaust, það ættir þú að gera líka.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur