Sunnudagur 20.02.2011 - 15:41 - Rita ummæli

Vandmeðfarið vald en rétt ákvörðun að mínu mati

Eins og oft áður er upphrópunarumræðan á Íslandi tilviljunarkennd. Afstaða til hlutanna fer hjá mjög mörgum eftir því með hvaða knattspyrnuliði – nei stjórnmálaflokki ætlaði ég að segja – þeir halda. Núna segja fjölmargir vinstri menn, ekki allir, að forsetinn eigi ekki að komast upp með að synja Icesave lögunum staðfestingar. Sama fólkið fagnaði ógurlega fyrir nokkrum árum þegar hann synjaði því að staðfesta fjölmiðlalögin. Svona er nú umræðan merkileg hjá sumum og afstaðan til hlutanna fastmótuð – eða hitt þó heldur. Það er hreinlega ótrúlegt að fylgjast með ákveðnum þingmönnum, sérstaklega í Samfylkingunni í þessu máli og mörgum fleirum. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, það er óþarfi, en ég á eftir að skrifa meira um þetta næstu misserin og þá í samhengi við fleiri mál.

Um synjunarvald forseta Íslands hef ég skrifað áður, síðast 17. febrúar þar sem ég taldi að hann ætti að leyfa þjóðinni að kjósa um þennan Icesave samning.

Miðað við hversu umdeilt þetta mál er og að þjóðin hafnaði hinum samingnum með nánast 100% atkvæða þá tel ég forsetann gera rétt í því að vísa málinu aftur til þjóðarinnar. Í atkvæðagreiðslunni getur þjóðin sjálf lagt mat á samninginn og samþykkt hann eða hafnað honum. Niðurstaðan verður þá þjóðarinnar og það er liður í því að vinna okkur upp úr þeirri hugarfarslegu kreppu sem ríkir jafnt og hin fjármálalega og í raun ekki síður.

En svo þarf að taka á þessu með synjunarvald yfirleitt. Við búum við fulltrúalýðræði og verðum að skilgreina betur hvernig eigi að setja mál í þjóðaratkvæði. Núverandi forseti hefur skrifað nýjan kafla í sögu forsetaembættisins. Því fögnuðu vinstri menn þegar hann gerði það í fyrsta skipti – en ekki lengur. Það er hluti af því að vera ósamkvæmur sjálfum sér. En það þarf að vera annað kerfi á þessu en að einstaklingur, jafnvel þó hann sé forseti lýðveldisins, geti eða þurfi að taka þessar ákvarðanir. Það verður að hvíla á fleirum en einum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur