Miðvikudagur 04.01.2012 - 20:21 - 2 ummæli

Til vinnu

Í upphafi árs vil ég óska þess að árið 2012 verði okkur gæfuríkt og uppbyggilegt. Það er jafnframt ósk mín að umræðan í samfélaginu verði áfram gagnrýnin, helst gagnrýnni en verið hefur, en laus við skítkast og upphlaup sem alltof algengt er. Leggjum áherslu á málefnin.

Ég læt nýjasta leiðara minn í Sveitarstjórnarmál hér inn á vefinn. Hann fjallar um atvinnu, atvinnuleysi, félagslega öryggisnetið og mikilvægi þess að nýta tækifærin sem við höfum en erum ekki að nýta nægjanlega vel.

Leiðari desember 2011

Hlynnum arði í jurtagarði,
yndi best er það,
hress í hlýjum klæðum
hrósum landsins gæðum,
hollt er heima hvað.

Svo orti Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli í Ísafirði við Djúp fyrir meira en 60 árum síðan. Hún orti ófá ljóðin sem sum hver fljúga enn eftir að nágranni hennar Sigvaldi Kaldalóns ljáði þeim vængi með lögum sínum.

Þetta orti Halla í tilefni af erfiðum tímum, fjárskorti, vöruskorti og fátækt sem var víða mikil á þeim tíma. Þó langt sé síðan eiga þessi orð einstaklega vel við í dag og ávallt. Við erum nefnilega rík af landsins gæðum og eigum að vera stolt af því og nýta okkur það þó þjóðin hafi orðið fyrir áfalli og sé enn að vinna sig út úr því.

Við getum gert enn betur úr okkar landsins gæðum og megum ekki verða of kreddufull varðandi nýtingu sjálfbærra náttúruauðlinda okkar. Tækifærin eru þrátt fyrir allt mjög mikil í þessu landi. Það er einstakt í okkar tilfelli að okkar gæði getum við nýtt að svo miklu leyti með sjálfbærum hætti, framleitt orku, nýtt fiskistofna og skapað innlend verðmæti í ríkari mæli en við gerum í dag. En um leið og þetta er sagt skulum við hafa hugfast að í því tilliti erum við ekki eyland. Við þurfum markað fyrir okkar vöru, ferðalanga frá öðrum löndum, viðskiptavini af öllum toga. Þess vegna eru okkar hagsmunir ekki síður en nágranna okkar í öðrum löndum að vel gangi hjá þeim.

Frekari verðmætasköpun er okkur svo mikilvæg vegna þess að enn vantar of marga vinnu og enn erum við að sjá þörfina fyrir félagslega aðstoð aukast. Sveitarfélög hafa lagt sig fram við að halda félagslega netinu, öryggiskerfinu okkar, þéttriðnu þrátt fyrir efnahagsleg áföll. Liður í því er samkomulag um átak fyrir atvinnulausa á næsta ári. Samkomulagið kemur í veg fyrir hugmyndir ríkisvaldsins um að fella fólk af atvinnuleysisskrá í 3 mánuði árið 2012. Samband íslenskra sveitarfélaga barðist gegn þeim hugmyndum enda þarf atvinnulaust fólk atvinnuúrræði en ekki neyðaraðstoðina sem fólgin er í fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Við þurfum að koma fólki út á atvinnumarkaðinn. Átakið ,,Til vinnu” er aðferð til þess en hún er tímabundin og við verður að taka sjálfbært atvinnulíf sem bætir við sig starfsfólki vegna aukinnar verðmætasköpunar. Til að það geti orðið verðum við að nota þau tækifæri sem Ísland býr yfir íbúum þess til heilla.

Ég sendi sveitarstjórnarfólki, fjölskyldum þess og landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökkum fyrir gott samstarf á árinu 2011.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • aagnarsson

    Halldór, komdu með stuðning við frelsi til handfæraveiða,
    sem leysir vanda gjaldþrota þjóðar.
    Ýsa 40.000 t. karfi 50.000 t. þorskur 170.000 t. ufsi 50.000 t.
    síld 45.000 t. Halldór þetta eru ekki sjálfbærar veiðar,
    það vantar mörghundruþúsund tonn upp á það.

  • Jón Jónsson

    Við erum gull af mönnum, betri flokk er ekki hægt að Hanna hér.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur