Mánudagur 06.02.2012 - 11:18 - Rita ummæli

Dagur leikskólans 6. febrúar

Leikskólar um allt land halda upp á Dag leikskólans í dag, 6. febrúar og bjóða aðstandendum leikskólabarna, sveitarstjórnarfólki og öðrum áhugasömum um leikskólastarfið að sækja þá heim.

Ísland er eina landið sem hefur veitt leikskólastiginu þann sess í skólakerfinu að skilgreina hann í lögum sem fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Á undanförnum áratugum hefur staða  leikskólans í samfélaginu styrkst jafnt og þétt.  Lög og námskrár um leikskóla hafa verið skrifaðar til að tryggja leikskólabörnum sem best náms- og uppeldisskilyrði, menntun starfsfólks færð á háskólastig og faglegar kröfur til starfs leikskóla hafa aukist.  Gerð er mikil krafa til leikskóla og er ekki annað að sjá en að stjórnendur og starfsfólk þeirra standi vel undir þeim kröfum enda er starfsstéttin metnaðarfull.

Dvalartími barna á leikskóla er misjafnlega langur.  Skólaskýrsla Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011 sýnir að undanfarin þrettán ár hefur dagleg viðvera barna á leikskóla lengst mjög mikið og stöðugt fleiri börn dvelja í 7-8 klukkustundir eða meira á leikskóla á degi hverjum. Þannig dvöldu 43% leikskólabarna í 7-8 klukkustundir eða lengur árið 1998 en 89% árið 2010.  Þá er aukning í ásókn í þjónustu leikskóla, en árið 1998 sóttu 69% barna á aldrinum 1-5 ára leikskóla en það hlutfall er komið upp í 82% árið 2010. 
Aldurssamsetning leikskólabarna hefur breyst þannig að fleiri börn tveggja ára og yngri dvelja nú á leikskólum en áður.
Mikill meirihluti barna ver daglega meiri tíma með starfsfólki leikskóla en með foreldrum eða öðrum uppalendum.  

Ábyrgð leikskólanna er því mikil og áríðandi að þar starfi gott og vel menntað starfsfólk. Það er því afar gleðilegt að sjá hversu ánægðir foreldrar eru með starfsemi leikskólanna í landinu samkvæmt viðhorfskönnunum. Þar kemur fram að 90-95% foreldra lýsa yfir ánægju sinni með þjónustuna. Sveitarfélögin geta verið stolt af slíkri niðurstöðu. Alltaf má þó gera betur og mikilvægt er að sveitarfélögin og aðrir rekstraraðilar leikskóla hugi vel að umhverfi barnanna og öryggi þeirra í því vinnuumhverfi sem þeim er búið. 

Samband íslenskra sveitarfélaga tekur nú þátt í stefnumótunarvinnu til að finna leiðir til þess að efla leikskólana, m.a. með því að auka áhuga á leikskólakennaranámi og jafna hlutfall karla og kvenna sem starfa á leikskólum. Það er áhyggjuefni að nýnemum í leikskólakennaranámi hefur fækkað um 40% frá árinu 2007 og er m.a. þörf á að kanna hvort lög sem samþykkt voru árið 2008 um lengingu kennaranáms hafi aukið á þetta vandamál. Í aðdraganda þeirra lagasetningar taldi sambandið ástæðu til þess að opna í ríkara mæli fyrir raunfærnimat við inntöku í leikskólakennaranámið og auka einnig möguleika ófaglærðs starfsfólks með langa og góða starfsreynslu til þess að sækja sér styttri, hagnýta menntun sem gæfi tiltekin starfsréttindi. Það er enn óbreytt skoðun undirritaðs að þessa tillögu sambandsins hefði átt að nýta betur.

Full ástæða er samt til þess að vekja athygli framhaldsskólanema og atvinnuleitenda á því að leikskólakennaramenntun er nám sem veitir lögvarin starfsréttindi og atvinnumöguleikar eru mjög góðir að námi loknu. Sérstaklega vil ég hvetja unga karlmenn til þess að íhuga þennan valkost þegar þeir velja sér háskólanám. Reynslan sýnir að ungir karlar sem koma til starfa í leikskóla meðfram námi í framhaldsskóla eru líklegir til þess að sækja sér leikskólakennaramenntun eftir jákvæða upplifun af leikskólastarfinu. Sveitarfélögin ættu því að kynna leikskólastarfið betur fyrir bæði piltum og stúlkum, hvetja leikskólastjóra til þess að ráða karlmenn til starfa og bjóða upp á kynningu í grunn- og framhaldsskólum, t.a.m. í tengslum við starfsfræðslu og starfskynningar í efstu bekkjum grunnskóla.

Að lokum vil ég hvetja alla sem koma að málefnum leikskólans, hvort sem það eru stjórnendur, starfsfólk eða foreldrar og sveitarstjórnarfólk, til að vera dugleg að heimsækja leikskólana sína í tilefni dagsins. Undirritaður og Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara ætla að heimsækja Leikskólann Hof í Reykjavík í tilefni dagsins.

Halldór Halldórsson
formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur