Fimmtudagur 07.03.2013 - 18:19 - 3 ummæli

Skiptir stærðin máli?

Það er a.m.k. sagt að fyrirsagnir skipti máli. Ég er gestur Skota á árlegri ráðstefnu Cosla sem eru sveitarfélagasamtök skoskra. Hér hefur margt vakið athygli mína, ekki síst ákveðnar staðreyndir um stærðir.

Mitt hlutverk er að tala um þá staðreynd að í núgildandi stjórnarskrá fjallar ein grein um hlutverk íslenskra sveitarfélaga. Þetta þykir Skotum vera til fyrirmyndar og vildu fræðast betur um það. Sveitarstjórnarstigið í Bretlandi er að þeirra mati mun veikara en í flestum löndum Evrópu, hvað þá þegar miðað er við Norðurlöndin. Vangaveltur þeirra snúa bæði að kerfinu eins og það er innan Bretlands en ekki síður vegna komandi þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári um mögulegt sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.

Þó Skotland sé ekki fjölmennt miðað við flestar Evrópuþjóðir búa þar þó rúmlega fimm milljónir manna. Það sem vakti athygli mína að þar er meðalstærð sveitarfélaga með þeim allra mestu í Evrópu. Meðalstærð sveitarfélaga í Skotlandi, sem eru samtals 32, er 162.000 íbúar og næst kemur Wales með 132.000 íbúa. Danmörk er með 53.000 íbúa að meðaltali.

Þrátt fyrir þetta háa meðaltal eru vangaveltur um að fækka úr 32 sveitarfélögum niður í 15 í Skotlandi. A.m.k. er umræða um það en mér heyrist skosku sveitarstjórnarfólki ekki lítast vel á það.

En á Íslandi erum við með 74 sveitarfélög þar sem meðalstærðin er 4.300 íbúar og 2.700 íbúar ef við tökum Reykjavík frá. Það er í raun ótrúlegt hvað íslensk sveitarfélög veita mikla þjónustu þegar maður ber þau saman við sveitarfélög í flestum öðrum löndum. En myndu þau veita betri þjónustu við frekari sameiningu? Það er stóra spurningin og íslenskt sveitarstjórnarfólk er ekki sammála um svarið. Þess vegna er það mjög gild spurning hvort stærðin skipti máli?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (3)

  • Stærðin skiptir máli hvað kostnað snertir. Eftir að t.d. skólamálin fóru yfir til sveitarfélaganna stórjókst kostnaðurinn þar sem öll þessi sveitarfélög þurftu að byggja upp þanni innviði og sérfræðingateymi sem þarf til að reka sérhæfða þjónustu eins og grunnskóla.

    Ísland ætti í raun að vera bara eitt sveitarfélag eða að menn taki nokkur skref til baka og láta ríkið um stærri og flóknari verkefni og sveitarfélgögin sjái um þau verkefni þar sem stærðarhagkvæmnin skiptir minna máli.

  • Ef Keflavík, Akureyri og Ísafjörður yrðu sameinuð í eitt sveitarfélag, þá yrði til eitt það stærsta á landinu. En myndu slík sameining færa íbúunum eitthvað annað en nýtt nafn? Sameiningar eru tilgagnslitlar þegar fjarlægðin á milli staða er of löng. Þannig er t.d. fjarlægðar séð skynsamara fyrir Patreksfirðinga og aðra á Sunnanverðum Vestfjörðum að sameinast Stykkishólmi því hann er mun nær þeim heldur en Ísafjörður í akstri stærstan hluta ársins. Sameiningar þurfa að meika sense fyrir íbúanna en ekki til þess að uppfylla einhverja dálka í excel skjali um x marga íbúa í hverju sveitarfélagi hjá einhverju ráðaneyti í Reykjavík.

  • Kristinn Hermannsson

    Þetta virkar í Skotlandi af því þar eru sveitarfélögin kjördæmaskipt og þannig ertu að kjósa fulltrúa innan þíns kjarna tli að stija í bæjarstjórninni. Þetta gerir líka óháðum fulltrúum auðveldara með að komast að. Fólk sem hefur kannski ekki mikinn tæknilegan kjörþokka eða öfluga kosningavél, en er þekkt af félagsstörfum í sinu nærsamfélaginu. Þar sem tengdaforeldrar mínir búa í Lanark (u.þ.b. 12.000 manna bær í 320.000 manna sveitarfélagi) eru t.d. 3 sveitarstjórnarmenn af 67 alls. Fyrsti bæjarfulltrúinn er óháður kandídat, kall á eftirlaunum sem háði sína kosningabaráttu með því að bera út ljósritaða einblöðunga. Mætti gjarnan taka staðbundna tengingu af þessu tagi með formlegum hætti í íslenska sveitarstjórnarstiginu.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur