Miðvikudagur 26.02.2014 - 23:14 - Rita ummæli

Húsnæði er of dýrt

Margt ungt fólk er orðið þreytt á að leigja með mörgum öðrum og þráir að komast í eigið húsnæði hvort sem það er í leigu eða til eignar. Fasteignaverð og þar með leiguverð hefur hækkað mikið í Reykjavík undanfarin misseri. Orsökin er skortur á húsnæði sem orsakast af lóðaskorti í borginni.

Það eru til lausnir
Við sem bjóðum okkur fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík erum með metnaðarfullar hugmyndir til að takast á við þetta vandamál. Við vitum að markaðurinn er snöggur að koma með lausnir ef borgin passar upp á að skapa rétta umhverfið með því að vera með tilbúnar lóðir. Á morgun (27. febrúar) verða t.d. tvær kynningar einkaaðila um hvernig reisa megi ódýrar smáíbúðir. Á sama tíma hefur meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins tekið allt kjörtímabilið í að skoða hinar og þessar lausnir með hinum og þessum án þess að nokkur afurð hafi litið dagsins ljós. Og þau eru frekar upptekin af því að borgin sjálf þurfi að byggja og reka leiguhúsnæði. Borgin er ekkert sérlega góð í þeim bransa og á frekar að reyna að standa sig í lóðamálum og lóðaverði. Það má benda á að þrátt fyrir mikla trú meirihlutans á borgarrekstur á leiguhúsnæði hefur samt ekki verið passað upp á að standa við markmið um fjölgun um 100 íbúðir á ári hjá Félagsbústöðum á þessu kjörtímabili.

Ódýrari húsnæðislausnir, einstaklingurinn í öndvegi
Næstu misserin verður töluvert um skóflustungur og tilkynningar um þessa eða hina framkvæmdina. Slíkir atburðir fylgja oftast kosningum jafn örugglega og aðventan jólum. Flestar íbúðir sem eru í byggingu eða eru að fara í byggingu og meirihlutinn í borginni talar mikið um þessa dagana eru frekar dýrar. Það vantar ennþá ódýrari lausnirnar. Þær ætlum við að koma með hjá Sjálfstæðisflokknum. Við ætlum að lækka lóðaverð og ná niður byggingarkostnaði og beita okkur fyrir því að hagkvæmt verði að koma með lausnir sem ungt fólk í húsnæðisleit þarf á að halda.

Tími til að breyta
Það er kannski allt í lagi að leigja með öðrum í smá tíma en til lengdar verður það þreytandi. Við setjum að venju einstaklinginn í öndvegi og ætlum að breyta þessu ástandi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur