Föstudagur 13.05.2016 - 11:25 - Rita ummæli

Atvinnulífið hornreka í borginni

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum oft rætt um skort á skilningi á þörfum atvinnulífsins.  Þétting byggðar er oft eðlileg borgarþróun en um leið er þrengt að atvinnustarfsemi í borginni. Nýverið bókuðum við um þetta í umhverfis- og skipulagsráði og á dögunum barst bréf til borgarstjóra frá Félagi atvinnurekenda þar sem lýst er áhyggjum vegna þess að fyrirtæki sem þurfa að víkja úr grónum atvinnuhverfum (eins og í Vogahverfinu) fái engin svör varðandi nýja aðstöðu.

Vegna þessa lögðum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrirspurn/bókun í borgarráði 12. maí. Fyrirspurnin endar á beiðni um yfirlit yfir fáanlegar atvinnulóðir í borginni:

,,Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði 20. apríl sl. um að borgaryfirvöld hafi sýnt framtíðaratvinnusvæðum borgarinnar skeytingarleysi.

Félag atvinnurekenda hefur nýverið sent bréf til borgarstjóra þar sem lýst er áhyggjum yfir því að fyrirtæki sem þurfa að víkja úr grónum atvinnuhverfum fá engin svör varðandi nýja aðstöðu. Þau fáu svæði sem nefnd eru sem valmöguleikar fyrir plássfreka starfsemi fyrirtækja eru fá, lítil og úti í jöðrum borgarinnar. Stefnan um þéttingu byggðar er skynsamleg en hefur af hálfu borgaryfirvalda fyrst og fremst verið sett fram á forsendum þarfarinnar fyrir þróun íbúðabyggðar. Þarfir og hagsmunir atvinnulífsins hafa ekki verið í forgrunni, þótt það ætti að vera augljóst að borg þrífst ekki án öflugs atvinnulífs. Gera verður ráð fyrir þörfum þess í borgarskipulaginu ekki síður en þörfum borgarbúa fyrir íbúðarhúsnæði og gera verður ráð fyrir því, meðal annars vegna hagkvæmra samgangna, að atvinnustarfsemi sé ekki bara ýtt út á jaðra borgarinnar.

Áformuð er mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis í mörgum hverfum sem hafa hingað til hýst ýmsa atvinnustarfsemi. Reykjavíkurborg hefur ekki boðið upp á neina heildstæða kynningu gagnvart þeim sem verður bolað burt af svæðum sínum í nánustu framtíð. Það veldur óöryggi á meðal þeirra sem halda úti þeirri atvinnustarfsemi sem borgin ætti alla jafna að passa upp á að verði áfram í borginni.

Fyrirspurnum fyrirtækja um möguleika á öðrum lóðum hefur verið svarað illa eða ekki af hálfu borgarinnar sem verður að teljast ótæk vinnubrögð sem gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér, með því að fyrirtækin í borginni hrekist í önnur sveitarfélög.

Óskað er eftir yfirliti yfir atvinnulóðir í borginni.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur